Könnun á afbrotaferli fanga
Mánudaginn 13. mars 1989

     Flm. (Guðmundur Ágústsson):
    Virðulegi forseti. Á þskj. 199 legg ég ásamt Óla Þ. Guðbjartssyni, Albert Guðmundssyni, Aðalheiði Bjarnfreðsdóttur og Hreggviði Jónssyni fram till. til þál. um könnun á afbrotaferli fanga.
    Till. þessi er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að láta gera könnun á afbrotaferli fanga í íslenskum fangelsum þar sem einkum væri leitast við að grafast fyrir um ástæður afbrotanna.
    Könnun þessi taki einnig til aðbúnaðar og starfsaðstöðu í íslenskum fangelsum og reynt verði að varpa ljósi á áhrif fangelsisvistar á hlutaðeigandi aðila.``
    Í greinargerð segir svo:
    ,,Með könnun þessari á afbrotum, föngum og fangelsum og áhrifum fangelsunar á hlutaðeigendur er tilgangur flutningsmanna að skýra betur en nú liggur fyrir ýmis mikilvæg atriði fangelsismála hér á landi. Ef könnun þessi yrði gerð gæti hún veitt mjög mikilvægar upplýsingar sem aftur gætu orðið grundvöllur að nýrri stefnu í viðbrögðum við afbrotum hér á landi.
    Hver einstaklingur, sem tapast á afbrotabraut, er dýrmætur, ekki síst svo fámennri þjóð sem Íslendingar eru, og því er til mikils að vinna að framkvæmd refsivistar verði ekki afbrotamönnum til enn meiri óheilla heldur betrunar og uppbyggingar að nýju.``
    Eins og fram kemur í till. er hún í tveim hlutum og beinist annars vegar að könnum á föngum sem slíkum, afbrotaferli þeirra og ástæðum fyrir brotum og hins vegar að því að kanna þær fangelsisstofnanir sem vista þessa menn.
    Svo að vitað sé hefur engin könnun af þessu tagi farið fram. Hins vegar hafa margar kannanir farið fram um viðurlög við ákveðnum brotum og þá oftast hvort þyngja eigi viðurlög við þeim brotum. Því miður hefur oft gleymst sá aðili sem framdi brotið, og öll áhersla verið lögð á brotið sem slíkt og fórnarlambið. Fólk hefur staðnæmst við það að fordæma gerandann. Menn gleyma því allt of oft að sá sem brotið hefur af sér sleppur út eftir ákveðinn tíma og hefur oftar en ekki sömu tilhneigingar og þegar hann fór inn í refsivistarstofnunina. Ef ekki kemur til aðstoð í fangelsum er til lítils unnið með því að dæma menn til fangelsisvistar. Aðalatriðið í þessari umræðu, um afbrot og refsingar, hlýtur að vera það að koma í veg fyrir brot. Fyrsta skrefið í þá átt er að sjá til þess að þeir sem þegar hafa framið slíkan verknað geri það ekki aftur.
    Í þessu sambandi má benda á athugun sem fram fór árið 1985. Sýndi sú athugun að rúmlega 60% fanga lenda oftar en einu sinni innan múranna, þ.e. þeim tekst ekki að fóta sig í tilverunni utan þeirra. Annað sem einnig er eftirtektarvert í þessari athugun er að af þessum 60% kemur meiri hlutinn oftar en þrisvar sinnum inn í fangelsi. Ef stemma á stigu við afbrotum er ljóst af þessari könnun eða athugun að beina verður meiri athygli að föngunum en gert hefur verið, kanna bakgrunn þeirra og athuga hvort bæta

megi fangelsi landsins, þannig að líkindi séu fyrir því að menn hljóti einhverja betrun eftir vist þar. Forsenda fyrir því að hægt sé að taka á málum fanga er vitneskja um ástæður fyrir afbrotum þeirra og hverjar eru og hverjar hafi verið félagslegar aðstæður þeirra. Án þeirrar þekkingar verður ekki litið á fangelsi sem betrunarstað heldur einungis sem geymslustað. Uppbygging félagslegrar þjónustu innan fangelsanna er einnig nauðsynleg sé ætlunin að menn lagist eftir að hafa setið inni á stofnunum sem þessum. Könnun á orsökum afbrota nýtist ekki aðeins til að fá upplýsingar um þá menn sem sitja inni í fangelsum, heldur má einnig nýta hana í fyrirbyggjandi starfi. Á hvaða þætti þjóðfélags ætti helst að líta til að koma í veg fyrir afbrot? Hverjir eru það sem fremja afbrot? Frá hvers konar heimilum koma þeir og í hvaða stöðum eru þeir í þjóðfélaginu?
    Eins og ég gat um beinist till. einnig að því að kanna aðbúnað og starfsaðstöðu í fangelsum. Allir þeir sem kynnt hafa sér þessi mál vita að aðbúnaður er slæmur og aðstaðan til ýmissa starfa er mjög bágborin. Það er einkennilegt í því mikla velferðarríki sem við búum við að ekki skuli búið betur að þessum ólánssömu mönnum.
    Hér á landi eru starfandi þrjú fangelsi, Hegningarhúsið við Skólavörðustíg, Vinnuhælið á Kvíabryggju og Vinnuhælið á Litla-Hrauni. Öll eiga þessi fangelsi það sammerkt að vera byggð sem annað en fangelsi, vera gömul og þröng. Það má nefna hér að í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg eru 22 rúm en þar eru einungis sjö herbergi og oft þarf að vista þrjá til fjóra í hverju herbergi. Á Litla-Hrauni eru herbergi þannig að þetta eru frekar skápar heldur en vistarverur sem fólk á að búa í.
    Ég vona, verði þessi till. samþykkt, að við fáum svo ekki verði um villst vitneskju um þetta, bæði hvaða ástæður liggja að baki brotum, hvaða aðstæður þessir menn hafa búið við og einnig að gerð verði heildarúttekt á fangelsum eða vinnuhælum hér á landi og það geti nýst okkur til frekari uppbyggingar í viðurlagakerfinu. Ég vil sem sagt leyfa mér að vona að þessi þáltill. verði samþykkt svo gera megi eitthvað raunhæft í fangelsismálum.
    Að lokum legg ég það til að málinu verði vísað til síðari umr. og allshn.