Skógrækt
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Ég kveð mér einungis hljóðs til þess að þakka þá málefnalegu umræðu sem hér hefur orðið og sömuleiðis ábendingar sem hér hafa verið settar fram og margar hverjar eru allrar athygli verðar. Það er að sjálfsögðu svo að frv. er ekki nýtt af nálinni og áður hafa verið umræður um ýmislegt sem þar kemur fram. Þar er vandratað einstigi víða á ferðinni milli ólíkra sjónarmiða og ólíkra hagsmuna, svo sem eins og þeirra sem fyrst og fremst vilja beita sér fyrir friðun lands og hinna sem hafa lifibrauð sitt af því að nytja það, m.a. til búskapar. Það er vel þekkt saga innan landbúnaðarins um samskipti skógræktarmanna og bænda sem ástæðulaust er að orðlengja um hér. En ég vil leyfa mér að fullyrða að frv. beri þess merki að þau sjónarmið hafa nálgast og miklar sættir tekist með þeim aðilum sem áður deildu hart og ekki alltaf mjög málefnalega um mismunandi sjónarmið í þessum efnum.
    Um skemmtilegar umræður sem hér urðu um orðskýringar, snjóalög og fleira spara ég mér að hafa mörg orð. Það, eins og annað sem hér var rætt, kemur að sjálfsögðu til skoðunar í hv. landbn. sem ég vona að geti gefið sér sem mestan tíma til að skoða málið og afgreiða til deildarinnar að nýju. Vissulega hefði frv. gjarnan mátt koma fyrr fram en til þess lágu ýmsar ástæður, m.a. þær að eins og gengur við stjórnarskipti tekur það sinn tíma að koma málum á hreyfingu á nýjan leik. Síðan varð það að ráði að bíða eftir umfjöllun búnaðarþings um frv. og það hefur einnig tekið nokkurn tíma að samræma sjónarmið þeirra sem ábyrgir standa að framlagningu frv. Þetta hefur nú allt tekist og það er einlæg ósk mín, eins og ég hef áður tekið fram, að það takist að afgreiða frv. og gera það að lögum á þessu þingi.