Náttúruvernd
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Hér er um að ræða einfalt mál sem gerir ráð fyrir því að í náttúruverndarlögunum verði skotið inn ákvæðum um landverði til þess að unnt verði að setja reglugerð um starfssvið þeirra, skyldur og meginverkefni.
    Landverðir hafa unnið á vegum Náttúruverndarráðs í u.þ.b. 15 ár. Hlutverk þeirra hefur stöðugt verið að vaxa eftir því sem ferðamannastraumur til landsins hefur aukist og þeirri þróun, stórfelldri fjölgun ferðamanna til landsins, hefur Náttúruverndarráð mætt með ráðningu landvarða á ýmsa helstu ferðamannastaði. Þeir starfa nú á vegum Náttúruverndarráðs á mörgum svæðum, þjóðgörðunum í Skaftafelli og Jökulsárgljúfrum, við Mývatn, í Herðubreiðarlindum, Öskju, Landmannalaugum, Hvannalindum, Dyrhólaey, á Hveravöllum og á Hornströndum. Á sumum landsvæðum hafa landverðir fast aðsetur yfir sumartímann en á öðrum ekki, t.d. á Hornströndum. Landverðir hafa verið sérstaklega þjálfaðir af Náttúruverndarráði, en á vegum ráðsins hafa verið haldin viðamikil námskeið fyrir verðandi landverði sem lokið hefur verið með prófi.
    Náttúruverndarráð og Landvarðafélag Íslands hafa á undanförnum árum lagt á það ríka áherslu að kveðið verði á um starfsmenntun og starfssvið landvarða í reglugerð. Í núgildandi lögum um náttúruvernd er hins vegar ekki kveðið á um störf landvarða. Í frv. sem hér er lagt fram er gerð tillaga um svipaða skipun varðandi landverði og nú gildir um leiðsögumenn, sbr. lög nr. 60/1976, um skipulag ferðamála. Verður ekki séð að nein rök séu fyrir því að gerðar séu minni kröfur til starfshæfis og menntunar landvarða en gerðar eru til leiðsögumanna í þeim efnum, þótt kröfur til landvarða verði að hluta til aðrar eðli málsins samkvæmt.
    Ég vænti þess, herra forseti, að frv. fái skjóta meðferð á yfirstandandi þingi og verði að lögum í vor þannig að unnt verði hið allra fyrsta að setja þær reglugerðir sem Náttúruverndarráð leggur áherslu á og Landvarðafélagið í þessum efnum. Það skiptir miklu máli að hér sé örugglega á málum haldið. Landverðir gegna þýðingarmiklum störfum við að vernda og leiðbeina fólki um dýrmætustu náttúruperlur þessa lands.
    Ég vænti þess að frv. mæti skilningi á hv. Alþingi og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.