Lögreglurannsókn hjá búfjáreigendum
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegur forseti. Ef hv. þm. Pálmi Jónsson er fyrir fram ákveðinn í því að allt sem ég segi um þetta mál sé rugl er e.t.v. ekki ástæða til þess sérstaklega að eiga orðastað við hann eða svara því sem fram kom heldur í hans máli. Það má einu gilda þó það sé látið ógert. Ég hefði þó talið að hv. þm. hefði verið hollt ráð í þessum efnum að vera lítið eitt rólegri þegar hann flutti sitt mál og kynna sér aðstæðurnar betur. Ég held t.d. að það þurfi ekki langrar skoðunar við að hér er fráleitt um nokkurs konar eignakönnun að ræða, enda ekki um það að ræða að búpeningur verði vigtaður og metinn til fjár, enda verður heldur ekki með þessar upplýsingar farið með þeim hætti að þær gæfu tilefni til að kallast eignakönnun. Þaðan af síður er þetta mál sem kemur skattamálum við, enda hefur engra upplýsinga verið óskað úr þeirri átt og þessi aðgerð alls ekki gerð undir þeim formerkjum. Hún er fyrst og fremst gerð til að afla nákvæmra og óvefengjanlegra upplýsinga um hluti sem eru notaðir í margvíslegum samanburði og til ýmiss konar stjórnunaraðgerða eins og kunnugt er.
    Því miður, eins og ég segi, hafa verið fluttar rangar og villandi upplýsingar af þessari talningu og hygg ég að ef það hefði ekki gerst í upphafinu hefðu menn ekki misskilið þetta með þeim hætti sem því miður hefur sums staðar gerst og ber að harma það. Það eru ekki sérstök tilefni til að taka það sem vantraust eða áfellisdóm yfir heilli stétt þó að fulltrúar frá dómmálaráðuneyti aðstoði við einhverja framkvæmd af þessu tagi, fráleitt er, enda væri í sjálfu sér ekki við það að sakast þó að einhvers konar eftirlitsaðgerð af þessu tagi væri framkvæmd. Ekki er það talið sérstakt vantraust á sjómannastéttina þó að Landhelgisgæslan fylgist með reglubundnum hætti með því að menn noti rétt veiðarfæri, veiði ekki of smáan fisk o.s.frv. Ekki er það talið sérstakt vantraust á ökumenn þó löggæslumenn fylgist með því með reglubundnum hætti að ekki sé eitthvað um það að menn aki ölvaðir o.s.frv. o.s.frv. Nefna má ótalmörg dæmi um að haldið er uppi ýmiss konar eftirliti. Og þó að slíkt væri hér á ferðinni væri það ekki sérstakt tilefni til vantrausts á bændur. En hér er um annars konar aðgerð að ræða eins og ég hef þegar gert grein fyrir og óþarfi að rugla því saman.
    Varðandi það sem hv. þm. Egill Jónsson spurði um, þá tek ég undir það með honum að ástæða er til að hafa áhyggjur nokkrar af þeim harðindum sem nú ganga yfir. Í landbrn. er verið að skoða hvað sé unnt að gera til að búa sig undir það sem e.t.v. er að vænta í sumar. Það er m.a. í athugun að setja upp fleiri graskögglaverksmiðjur en áður hafði verið áformað til þess að unnt sé þar að framleiða fóður og safna birgðum. E.t.v. er hægt að grípa til ráðstafana sem auðvelda grænfóðurrækt í sumar eða gera kleift að ráðast í hana í stærri stíl ef með þarf en viðgengist hefur að undanförnu. Fleira mætti nefna sem er þó annað mál og kannski ekki ástæða til að taka tíma í hér.

    En að lokum, herra forseti: Ég hef kosið að standa ekki í orðaskaki við þá menn sem hafa af einhverjum ástæðum viljað blása upp úlfúð í kringum þessa svonefndu búfjártalningu, þennan vorásetning og sérstöku talningu. Ég mun hins vegar gera grein fyrir þegar henni er lokið með ítarlegri hætti helstu rökum sem fyrir henni liggja og því jafnframt hvaða tilgangi er ætlað að ná með því að fá þessar upplýsingar og hafa þær undir höndum og geta notað þær við ýmiss konar stjórn og framkvæmd í landbúnaðarmálunum.