Þinglausnir, efnahagsráðstafanir o.fl.
Þriðjudaginn 02. maí 1989

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Eins og margoft hefur komið fram í umræðum, einkum um þingsköp og utan dagskrár á Alþingi að undanförnu, hyggst hæstv. ríkisstjórn, sem stjórnar þinghaldinu ásamt yfirstjórn þingsins, þingforsetum, hafa þinglausnir í lok þessarar viku. Ekkert hefur komið fram enn sem bendir til þess að hæstv. ríkisstjórn hyggist halda þinghaldinu áfram. Nú þykir ýmsum hv. þm. kominn tími til þess að svör fáist um það hvenær hæstv. ríkisstjórn og hvenær hæstv. forsetar hyggjast ljúka þingi í vor. Annars vegar rekur það á eftir svari að heyrst hefur að hæstv. forsrh. hyggist fara til erlends ríki í opinbera heimsókn á næstunni og hlýtur maður þá að spyrja hvort þingi verði frestað á meðan þannig að hægt verði að ræða mikilvæg mál þegar hæstv. forsrh. kemur aftur úr sinni heimsókn. Hitt er að á sunnudaginn sl. skrifaði hæstv. forsrh. bréf, annars vegar til Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna og hins vegar til Alþýðusambands Íslands, þar sem fram koma fjöldi atriða sem snerta löggjafarstarfið og fjárveitingavaldið og gefið er í skyn í þessum bréfum báðum að hæstv. ríkisstjórn muni beita sér fyrir breytingum á lögum og fyrir auknu fjármagni til ýmissa verkefna. Er því fyllsta ástæða til að spyrja hæstv. forsrh. að því hvort þessi mál verði lögð fyrir yfirstandandi þing eins og helst er að sjá af texta þeirra bréfa sem ég hef áður nefnt. Þessi bréf eru skrifuð í tilefni kjarasamnings á milli Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna, en sá kjarasamningur er í megindráttum svipaður þeim sem gerður var af hæstv. ríkisstjórn við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, þ.e. við ríkisstarfsmenn innan þeirra samtaka.
    Mig langar, virðulegur forseti, til þess að varpa nokkrum fyrirspurnum til hæstv. forsrh. varðandi þetta mál og biðja hann um að svara því hvort viðkomandi mál komi til umræðu á yfirstandandi þingi. Í bréfi hæstv. forsrh. til Vinnuveitendasambandsins og Vinnumálasambands samvinnufélaganna kemur fram m.a. að ríkisstjórnin hefur ákveðið að greiðslur verðbóta á freðfisk úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins verði lækkaðar á næstu mánuðum þannig að þær falli niður um næstu áramót. Það er fyllsta ástæða til að spyrja að því hve miklir fjármunir eru hér í húfi, hvort leitað verði samþykkis Alþingis eins og lög gera ráð fyrir ef um meiri fjármuni er að ræða en þá sem Alþingi hefur þegar ákveðið að leggja til verðjöfnunarsjóðsins og hvort sama gildi um þessa fjárhæð og hinar 800 millj. sem þegar hafa farið í Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, að ekki sé gert ráð fyrir því að sjóðurinn endurgreiði þessa fjármuni. Þetta eru allt atriði sem varða löggjafarstarfsemina og fjárveitingavaldið.
    Þá er ástæða til að spyrja hæstv. forsrh. að því, þegar í texta stendur að ríkisstjórnin muni grípa til ráðstafana sem bæti frystiiðnaðinum niðurfellingu verðbótanna með einum eða öðrum hætti, verði ekki

breyting til batnaðar á ytri skilyrðum greinarinnar á næstunni, hvað þetta orðalag þýði: ,,með einum eða öðrum hætti``. Þýðir þetta að það eigi að setja meira fjármagn, sem Alþingi þyrfti þá að fjalla um, í verðjöfnunarsjóðinn eða til greinarinnar í einhverju formi eða er hér verið að segja það í heldur óskýru máli að grípa eigi til gengisbreytinga eða gengissigs? Það er fyllsta ástæða, sérstaklega vegna umræðna sem farið hafa fram um þessi mál að undanförnu, að hæstv. forsrh. svari þessari fyrirspurn.
    Þá segir í lok þessarar fyrstu greinar í bréfi til Vinnuveitendasambandsins að sama gildi um niðurfellingu sérstakrar endurgreiðslu söluskatts. Spyr ég þá hvort megi skilja þennan síðasta málslið með þeim hætti að mæta eigi óhagræðinu og verri afkomu með gengissigi, það sé það sem átt sé við með orðunum ,,með einum eða öðrum hætti``.
    Loks er í þessari grein yfirlýsing frá ríkisstjórninni þar sem hún segist beita sér fyrir því að samkeppnisstaða útflutningsgreinanna verði viðunandi á samningstímanum. Til þess að þessi texti sé skýr langar mig að spyrja hæstv. forsrh.: Hvað þýðir hugtakið ,,viðunandi``? Þýðir hugtakið ,,viðunandi`` að hann sætti sig ekki við hallarekstur í útflutningsgreinunum? Fyrirspurnin er væntanlega skýr. Þýðir ,,viðunandi`` það að hæstv. ríkisstjórn sætti sig ekki við hallarekstur í þessum greinum?
    Í öðrum kafla í þessu bréfi er fjallað um lántökuskatt. Þar segir að skattur á erlendar lántökur verði felldur niður frá og með 1. júlí nk. Nú er það svo að í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár er gert ráð fyrir tekjum af lántökuskatti. Mun ákvörðun ríkisstjórnarinnar verða lögð fram í þingmáli sem hv. Alþingi á síðan að taka afstöðu til? Ekki verður annað séð en hér sé um svo miklar breytingar að ræða á fjárlögum yfirstandandi árs og jafnvel á heimild í lögum að ekki verði hjá því komist að Alþingi fái að fjalla um þetta atriði.
    Í þriðja kaflanum, um vörugjald, segir m.a., með leyfi forseti: ,,Stefnt verði að því að sem fyrst verði fellt niður vörugjald af öllum vörum sem framleiddar eru hér á landi í mikilli samkeppni við innflutning, en ekki síðar en 1. september nk. verði fellt niður vörugjald af framleiðsluvörum húsgagna-,
trjávöru- og málmiðnaðar og af aðföngum til þeirra.`` Hér er um að ræða mál sem hefur verið til umræðu á Alþingi í vetur. Ég minni á yfirlýsingar hæstv. ríkisstjórnar frá því 5. febrúar sl. þegar fram kom að hæstv. ríkisstjórn hygðist koma til móts við sjónarmið annars vegar stjórnarandstöðunnar og hins vegar þeirra sem starfa í iðnaðinum um breytingar á vörugjaldi. Full ástæða er til að spyrja: Kemur fram þingmál um þetta atriði fyrir þinglausnir þannig að Alþingi geti fjallað um þetta lagaatriði sem jafnframt er auðvitað partur af fjárveitingavaldi þingsins?
    Í fjórða lagi er fjallað um jöfnunargjald. Þar er sagt að jöfnunargjald af innfluttum vörum verði hækkað tímabundið úr 3% í 5% eða þar til virðisaukaskattur verður tekinn upp, en það er ráðgert að hann verði tekinn upp um næstu áramót. Ég spyr:

Hefur hæstv. ríkisstjórn heimild til að hækka þetta jöfnunargjald án þess að fram komi á þinginu frv. þess efnis og ætlar hæstv. ríkisstjórn að leggja þetta atriði fram í formi þingmáls á næstunni þannig að yfirstandandi þing geti tekið afstöðu til málsins?
    Í fimmta lagi segir í þessari yfirlýsingu hæstv. ríkisstjórnar að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir að skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði verði lækkaður úr 2,2% í 1,5%. Hér er enn á ný komið til móts við sjónarmið stjórnarandstöðunnar, a.m.k. Sjálfstfl., sem eindregið varaði við þessum skatti, þessum eignarskatti. Nú hefur hæstv. ríkisstjórn séð að sér og það er út af fyrir sig gott þegar það gerist. En mín spurning er sú: Kemur fram frv. um þetta efni og hvenær kemur það frv. fram?
    Í sjötta lagi er fjallað um stimpilgjöld. Þar er textinn nokkuð óákveðinn, en þar segir að ríkisstjórnin muni fyrir næstu áramót beita sér fyrir athugun á ákvæðum laga um stimpilgjöld. Nú er það svo að fyrir þinginu liggur frv. um stimpilgjöld á hlutabréfum sem einn af þingmönnum hæstv. ríkisstjórnar, hv. 10. þm. Reykv. Guðmundur G. Þórarinsson, hefur flutt. Ég spyr forsrh.: Er hann tilbúinn sem fyrsta þátt í þessari aðgerð að lýsa yfir stuðningi við frv. hv. þm. Framsfl. Guðmundar G. Þórarinssonar, en í því frv. er gert ráð fyrir að stimpilgjöld af hlutabréfum verði lækkuð úr 2% niður í *y1/2*y?
    Í sjöunda lagi er gert ráð fyrir að skattlagning fyrirtækja verði endurskoðuð með tilliti til samkeppnisstöðu þeirra gagnvart erlendum keppinautum. Það er full ástæða til að spyrja hæstv. forsrh. að því hvort hér sé um að ræða endurskoðunarstarf sem þegar sé hafið, hvort vænta megi að frv. komi fram um þetta efni eða hvernig staðið verði að þessari endurskoðun og hvort haft verði samband við alla þingflokka um það mál.
    Þá kemur fram jafnframt í síðari hluta þessarar greinar að ríkisstjórnin muni við heildarendurskoðun eignarskattsálagningar taka til athugunar álagningu eignarskatts á atvinnufyrirtæki. Mig langar til að spyrja: Stendur þessi endurskoðun yfir? Hve langt er það starf komið? Hvenær má búast við því að drög að frumvörpum eða frumvörp sjái dagsins ljós? Verður það á yfirstandandi þingi?
    Í lokin á þessu bréfi lofar ríkisstjórnin síðan að beita sér fyrir því að tryggð verði fjármögnun á uppsöfnuðum vaxta- og geymslukostnaði vegna birgða sauðfjárafurða af framleiðslu ársins 1988. Hvernig hyggst hæstv. ríkisstjórn gera þetta? Hvar hyggst hæstv. ríkisstjórn taka fjármunina? Mun hæstv. ríkisstjórn leggja þetta mál í formi þingmáls fyrir yfirstandandi Alþingi því hér er um verulega aukningu á fjárútgjöldum ríkisins að ræða?
    Þetta snýr að bréfi hæstv. ríkisstjórnar frá 30. apríl til Vinnuveitendasambandsins annars vegar og Vinnumálasambandsins hins vegar og snertir að sjálfsögðu þingstörfin það sem eftir lifir þessa þings.
    Sný ég mér þá að bréfi hæstv. forsrh. til Alþýðusambandsins og langar fyrst til þess að spyrja um atriði nr. 2 í því bréfi, um atvinnuleysistryggingar,

en þar segir: ,,Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að á yfirstandandi þingi verði lögum um atvinnuleysistryggingar breytt þannig að heimilt verði að lengja bótatímabil atvinnuleysistrygginga úr 180 dögum í 260 daga.`` Liggur frv. fyrir þessu þingi? Verður slíkt frv. lagt fram ef á þarf að halda? Og hvenær kemur það frv. fram?
    Í þriðja kaflanum í þessu bréfi er minnst á verðlagsmál. Þar segir m.a., með leyfi forseta: ,,Verðstöðvun verður sett á opinbera þjónustu þannig að verðlagning hennar miðist við forsendur fjárlaga fyrir árið 1989 og ríkisstjórnin mun beita sér fyrir aðhaldi og verðákvörðunum einokunarfyrirtækja`` o.s.frv. Hvað þýðir þessi texti? Er hér um að ræða nýja ákvörðun, breytta ákvörðun frá fyrri ákvörðunum hæstv. ríkisstjórnar frá því í febrúar og jafnvel frá því í haust? Miðast þessi ákvörðun við það að gefin verði út ný yfirlýsing og nær þessi yfirlýsing til sveitarfélaganna sem reka fyrirtæki eins og t.d. hitaveitur, en í skilmálum ýmissa lána hæstv. ríkisstjórnar til hitaveitnanna í landinu eru lánin veitt með þeim skilyrðum að hitaveiturnar hækki verð á heita vatninu í takt við verðlagsbreytingar og jafnvel meira til þess að endar nái saman? Á þessi yfirlýsing við um sveitarfélögin og öll þau fyrirtæki sem kalla má opinber, önnur en hrein ríkisfyrirtæki?
    Þá segir í þessari grein að ríkisstjórnin muni verja 500--600 millj. kr. til aukinna niðurgreiðslna á verði landbúnaðarvara frá 1. apríl til ársloka þannig að þær verði óbreyttar í krónutölu út árið. Síðan bætist við: ,,eða grípa til annarra jafngildra aðgerða til lækkunar á verði nauðsynjavöru.`` Þetta þarf að skýra því hér er um að ræða verulegt fjárhagsmál sem snertir fjárlög íslenska ríkisins sem Alþingi Íslendinga afgreiddi fyrir síðustu áramót. Hvernig hyggst ríkisstjórnin standa að þessu? Kemur þetta fram í búningi þingmáls inn á yfirstandandi þing og þýðir þessi texti að landbúnaðarafurðir þær sem niðurgreiddar eru verði á óbreyttu verði út árið? Skilja má textann á þá leið.
    Enn fremur segir í þriðja kafla að hæstv. ríkisstjórn muni beita sér fyrir sérstakri lækkun á verði dilkakjöts. Verður það gert með nýju fjármagni úr ríkissjóði og hyggst hæstv. ríkisstjórn leggja það mál fyrir hv. Alþingi fyrir þinglausnir?
    Í fjórða kaflanum í bréfi hæstv. ríkisstjórnar til Alþýðusambandsins segir m.a.: ,,Ríkisstjórnin mun hafa samráð við samtök launafólks um undirbúning og framkvæmd virðisaukaskattsins sem tekinn verður upp um næstu áramót, m.a. um hugsanleg tvö þrep í skattinum.``
    Virðulegur forseti. Það er full ástæða til þess að endurtaka síðustu orðin ,,m.a. um hugsanleg tvö þrep í skattinum.`` Hér er gefið í skyn að hæstv. ríkisstjórn geti hugsað sér í samvinnu við Alþýðusamband Íslands að hafa tvöfaldan virðisaukaskatt um næstu áramót sem þýðir væntanlega það, og það snertir hæstv. fyrrum fjmrh. Jón Baldvin Hannibalsson: Er það hugsanlegt að hæstv. ríkisstjórn sé horfin frá því ráði að hafa virðisaukaskattinn í einu þrepi? Getur verið að það mál sem varð til þess að stjórnarslit urðu

á sl. hausti, þegar rýtingurinn komst ekki á milli þeirra félaga, hæstv. forsrh. núv. og hæstv. núv. utanrrh., getur verið að þetta stóra mál, þetta mál sem drap síðustu ríkisstjórn sé núna komið á samningsuppboð og nú sé það ætlun hæstv. ríkisstjórnar að hverfa frá þessu grundvallaratriði í þeirra augum og koma til móts við sjónarmið Sjálfstfl. og annarra flokka um að hafa þetta stig tvöfalt og þá hugsanlega lækka matarskattinn?
    Þessi yfirlýsing er þess eðlis að það verður að krefja hæstv. forsrh. og jafnvel fleiri hæstv. ráðherra, t.d. hæstv. utanrrh., svars í þessum efnum.
    Í fimmta lagi er fjallað um vaxtamál og þar segir m.a., virðulegi forseti, ,,að þjónustugjöldum banka og sparisjóða verði veitt aðhald``. Spurningin er: Hvernig aðhald? Er von á nýjum lögum til þess að veita hæstv. ríkisstjórn heimild til þessa aðhalds?
    Í sjötta lagi er fjallað um húsnæðismál. Spurningin er einföld: Eru fjármunirnir til í ríkissjóði eða húsnæðissjóðunum til að hefja framkvæmdir við a.m.k. 200 nýjar íbúðir í félagslega íbúðarkerfinu? Ef þessir fjármunir eru ekki til hvernig verður þeirra aflað og mun það mál koma inn á yfirstandandi þingi?
    Í níunda lagi: Í þessu bréfi hæstv. ríkisstjórnar er fjallað um réttarstöðu starfsmanna við gjaldþrot. Þar segir m.a. að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir því á yfirstandandi þingi að lög verði samþykkt sem tryggi launafólki þeirra fyrirtækja sem verða gjaldþrota rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta á meðan það bíður eftir endanlegu uppgjöri. Kemur fram nýtt frv. um þetta efni eða ætlar ríkisstjórnin að lýsa yfir stuðningi við þmfrv. sem liggur í nefnd, en í nefndinni hafa komið fram viðhorf þingmanna um það að sitt sýnist hverjum um þetta atriði?
    Þá segir jafnframt í þessum kafla að ríkisstjórnin vinni nú að mótun almennra reglna um veitingu atvinnuleyfa til að girða fyrir misnotkun, t.d. stofnun gervifyrirtækja. Verður þetta gert með lögum og verður lagafrv. lagt fyrir á yfirstandandi Alþingi?
    Í tíunda lagi, og það er síðasta atriði sem ég tel að ástæða sé til að fjalla um í þessari þingskapaumræðu, segir að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir því að áfram verði haldið uppbyggingu starfsmenntunar og stefnt að því að koma á samræmdu starfsmenntunarkerfi á vegum félmrn. Ekki alls fyrir löngu, eða í febrúar, lýsti hæstv. ríkisstjórn því yfir að ákveðnar fjárupphæðir ættu að ganga til slíks starfs hjá fagráðuneytunum, iðnrn. og þá einkum sjútvrn. Hér er um stefnubreytingu að ræða. Kemur sú stefnubreyting til með að vera í formi lagafrv. sem kemur fram á yfirstandandi þingi og stendur öll hæstv. ríkisstjórn að því að færa þessa starfsmenntun frá fagráðuneytum og menntmrn. yfir til félmrn.? Sé svo þá er fyllsta ástæða til þess að umræður fari fram um það efni á yfirstandandi þingi.
    Virðulegi forseti. Ég hef einkum og sér í lagi fjallað um þau atriði sem snúa að Alþingi Íslendinga, annars vegar vegna nauðsynjar á því að fram komi lagafrv. á yfirstandandi þingi og hins vegar vegna þess að hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að fikta í

fjárlögum íslenska ríkisins og lánsfjárlögum og slíkt verður ekki þolað að það verði gert á meðan þing situr án þess að það verði lagt fyrir hv. Alþingi.