Þinglausnir, efnahagsráðstafanir o.fl.
Þriðjudaginn 02. maí 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Ég vil í upphafi míns máls fullvissa hv. þm. um að að sjálfsögðu verður leitað þeirra heimilda sem nauðsynlegt er á Alþingi. Ég vil einnig upplýsa að á þeim fundum sem ég hef átt með forseta sameinaðs þings og forsetum Alþingis almennt og formönnum þingflokka hef ég hvað eftir annað lýst þeirri skoðun minni að ég teldi afar ólíklegt að unnt væri að ljúka þingi fyrir 6. maí. Mér hafa sýnst vera svo mörg mál óafgreidd og það er engin ástæða til þess að vera að hraða þingstörfum svo.
    En ég skal þá fara yfir þá liði sem hv. þm. hefur nefnt. Það er í fyrsta lagi liður sem við höfum nefnt ,,samkeppnisstaða útflutningsgreina``. Talið er að nægilegt fjármagn verði eftir í verðjöfnunarsjóði, frystideild, í lok maí til að halda áfram óbreyttum greiðslum a.m.k. í mánuð í viðbót. Hins vegar hafa komið fram óskir um að rétt kunni að vera að draga úr þessum greiðslum strax í júní og halda þeim þá nokkuð lengur áfram. Það hafa einnig komið fram óskir um það frá fiskvinnslunni að bætt yrði við þessar greiðslur og ef það verður niðurstaðan verður að leita heimilda Alþingis fyrir því. Hins vegar hefur það ætíð verið ætlun ríkisstjórnarinnar að þessar greiðslur féllu niður á þessu ári og um það er fullt samkomulag. Sömuleiðis hefur það verið skoðun ríkisstjórnarinnar að verðhækkanir muni verða í Evrópu og það beri að draga úr þessum greiðslum í takt við þær verðhækkanir. Um það virðist núna vera nokkuð meiri óvissa. Þetta mál verður því skoðað með frystiiðnaðinum og fiskvinnslunni og metið á hverju stigi. Á þessu stigi get ég ekki svarað þessu nánar. En ef það verður ráðstafað þarna meira fjármagni verður að leita samþykkis Alþingis fyrir því og það sama gildir um niðurfellingu á sérstakri endurgreiðslu söluskatts.
    Ég get þess í þessu sambandi að af þeim samningum sem nú hafa verið gerðir telur Seðlabankinn að raungengi muni hækka frá fyrsta ársfjórðungi þessa árs um 2,8%. Það er ekki meira. Sömuleiðis telur Seðlabankinn að raungengi á grundvelli verðvísitölu muni hækka um tæplega 7% frá upphafi þessa árs, en af þeirri hækkun er töluvert mikið þegar komið fram þannig að hækkun frá 2. ársfjórðungi muni verða rúm 4%. Í sambandi við þessa kjarasamninga var ekki síst um þetta rætt þó að fiskvinnslan legði áherslu á að vissar greinar hennar standi erfiðlega um þessar mundir. Mat hefur verið gert á afkomu fiskvinnslu nú, lauslegt mat vil ég taka fram, eftir fyrstu þrjá mánuði sem sýnir stórum betri afkomu víða um landið. Þessi mál eru nú til ítarlegrar athugunar og verður samráð haft við fiskvinnsluna um það.
    Þegar hér er talað um að bæta á einn eða annan máta hygg ég að öllum muni vera ljóst að í 20% verðbólgu verður ekki gengi haldið föstu. Það hlýtur að síga eitthvað. Það verður hins vegar gert þannig að það verði í takt við aðrar breytingar sem verða í þessum greinum og með það að markmiði að teknu tilliti til annarra breytinga eins og verðhækkana

erlendis, hagræðingar í greininni, þeirra ráðstafana sem verið er að gera í gegnum hlutafjársjóðinn, Atvinnutryggingarsjóðinn og fleira þannig að stefni í hallalausan rekstur útflutningsatvinnugreinanna.
    Ég vek einnig athygli á því að í ýmsu því sem hér kemur á eftir er stefnt að hagsbótum fyrir greinarnar með lækkun á ýmsum sköttum. Allt verður þetta tekið inn í það mat og það mat er þegar í gangi og liggur væntanlega fljótlega fyrir.
    En ég legg á það ríka áherslu að það er ekki talið að af þeirri ástæðu sem hér um getur, þessum kjarasamningum, væri neitt tilefni til gengisfellingar af einhverri stærri gráðu. Það verður hins vegar metið þegar líður á hvaða gengissig kunni að vera nauðsynlegt í samráði við Seðlabanka Íslands.
    Um lántökuskattinn verður lagt fram lagafrv. og er tilbúið, kemur væntanlega fram í dag eða á morgun, og um vörugjaldið verður lagt fram frv. til laga og kemur fram í dag eða á morgun sömuleiðis. Um jöfnunargjaldið er það að segja að frv. til laga verður lagt fram í dag eða á morgun. Frv. til laga verður lagt fram í dag eða á morgun um skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði.
    Stimpilgjöldin verða tekin til heildarathugunar. Þau hafa hækkað mjög mikið í heildarkrónutölu, ekki síst með þeirri framkvæmd sem er á stimpilgjöldum, að það er stöðugt verið að endurnýja lánin. Þó ég hafi fullan skilning á því frv. sem hér liggur fyrir frá Guðmundi G. Þórarinssyni tel ég að það eigi að taka inn í þessa heildarendurskoðun. Henni verður alls ekki lokið á meðan þetta þing situr, en gera má ráð fyrir því að frv. verði flutt sem taki gildi í lok þessa árs. Um það vil ég hins vegar ekki fullyrða mikið því þessi athugun er ekki hafin.
    Um skattlagningu fyrirtækja. Þetta er að sumu leyti hafið. T.d. hefur iðnrh. hafið athugun á samkeppnisstöðu íslenskra iðnfyrirtækja og þar koma skattamálin inn í og er fulltrúi fjmrh. þátttakandi í því.
    Um eignarskattsálagningu er það að segja að hér er fyrst og fremst um staðfestingu á því að ræða að í þeirri heildarendurskoðun á skattlagningu eigna og samræmingu á þeirri skattlagningu yfir allar eignir, hvort sem þær eru fasteignir eða fjármunir, verður skattlagning eigna atvinnufyrirtækja tekin með. Það hafði ekki komið nægilega ljóst fram og það er hér staðfest sem
var reyndar ætíð ætlun ríkisstjórnarinnar.
    Um vaxta- og geymslugjaldið er það að segja að það var fært til þess horfs 1986 minnir mig að greiða vaxta- og geymslukostnaðinn sem áður hafði verið greiddur mánaðarlega eftir á. Það hefur síðan verið greitt mánuði eftir að selst hefur af birgðum. Þetta hefur valdið afar miklum erfiðleikum með fjármögnun. Það hefur ekki tekist að fá viðskiptabanka til að fjármagna þennan kostnað sláturleyfishafa. Hér er um það að ræða að flytja þetta annaðhvort til baka til fyrra horfs eða að tryggja fjármögnunina, að ríkisstjórnin gangi þá á viðskiptabankana um að fjármögnun fáist tryggð svo þetta verði ekki

íþyngjandi fyrir sláturleyfishafana greiðslulega. Hér er ekki um viðbótarútgjöld fyrir ríkissjóð að ræða. Hér er um greiðsludæmi að ræða og fyrst og fremst innan ársins þannig að birgðir sem eru mestar núna greiðist jafnóðum en ekki í lok ársins eða flytjist yfir næstu áramót.
    Ég man ekki hvort hv. þm. spurði um 2. mgr., en hér er um eilífðarmál að ræða frá því 1986, búið að standa í því á hverju einasta ári að reyna að fá bankana til að standa við það samkomulag sem þá var gert ef ég má orða það svo.
    Um bréfið til Alþýðusambands Íslands er eftirfarandi að segja:
    Fyrsta liðinn held ég að hann hafi ekki mikið minnst á. Það er nú þegar reyndar í lögum að ákveðin nefnd skuli fjalla um atvinnumál. Hún hefur ekki starfað mikið. Hér lögðu fulltrúar Alþýðusambands Íslands alveg sérstaka áherslu á að þetta yrði ný nefnd, kannski dálítið öðruvísi skipuð, og vísa til þeirrar óvissu sem er nú í atvinnumálum, fyrst og fremst þó að þarna sé talað um atvinnuuppbyggingu á landinu til lengri tíma eða langtímastefnu. En fyrst og fremst vísar það til óvissunnar sem er nú á ýmsum sviðum sem ég vil taka fram að ríkisstjórnin hefur haft í huga við ýmis þau mál sem fallist hefur verið á eins og t.d. lántökuskattinn. Hann er orðinn óþarfur sem skattur til að draga úr fjárfestingu því að það er svo mikill samdráttur í þjóðfélaginu og því talið rétt að fella hann niður, sömuleiðis að lækka skatta á skrifstofu- og verslunarhúsnæði vegna þess samdráttar sem er og erfiðleika sem eru á þeim sviðum. Það er rétt að geta þess um leið að ríkisstjórnin hefur verið undanfarna viku með athugun á vörugjaldinu sem hefur verið erfitt í framkvæmd. Allt eru þetta liðir sem ríkisstjórnin hafði áður verið með í athugun.
    Um atvinnuleysistryggingar verður flutt frv. Það kemur örugglega í þessari viku. Hér er aðeins um heimild að ræða ef aðilar vinnumarkaðarins koma sér saman um að lengja bætur í 260 daga, en þá heimild vantar núna í lög.
    Í kaflanum um verðlagsmál er ekki um nein ný útgjöld að ræða sem áður hafa ekki verið umrædd. Í samningum við BSRB eru ákvæði um að halda aftur af verðlagshækkunum og standa sem næst við þá verðlagsspá sem liggur fyrir í þjóðhagsáætlun sem er reyndar verið að endurskoða núna. Í því sambandi var þegar talið óhjákvæmilegt að halda áfram þeirri krónutöluniðurgreiðslu sem ákveðin var sérstaklega við myndun ríkisstjórnarinnar. Það er sú upphæð sem þarna er um að ræða og að sjálfsögðu þarf heimild Alþingis til þess að svo geti orðið.
    Um hækkun á landbúnaðarafurðum ... (Gripið fram í.) Ja, það er til umræðu núna hvort ekki þurfi að afla hennar á þessu þingi. En ég tek það fram að þetta tryggir ekki óbreytt landbúnaðarvöruverð því að þarna er aðeins um sömu krónutölu að ræða og ýmsar breytingar aðrar koma til framkvæmda.
    Síðasti málsliðurinn, dilkakjötið, er stórkostlegt vandamál sem menn standa frammi fyrir núna með mjög minnkandi neyslu. Ákveðið hefur verið að taka

upp viðræður við framleiðendur um hvernig megi draga úr þessum vanda og þá með sameiginlegu átaki væntanlega um lækkun á dilkakjöti.
    Um fjórða liðinn er það að segja að það kom fram sá gleðilegi áhugi hjá samtökum launafólks að vinna með ríkisstjórninni að því að koma í veg fyrir skattsvikin og því er tekið fegins hendi.
    Um annan málslið er það að segja að það hafa lengi verið kröfur um að koma í veg fyrir tvísköttun á þeim 4% sem launþegar greiða sjálfir í lífeyrissjóði, þ.e. þeir greiða skatt af tekjunum og síðan aftur þegar þeir fá þessar greiðslur. Hér er lofað að skoða þessi mál og með tilliti til tvísköttunar þó að niðurstaðan liggi ekki fyrir.
    Um síðasta liðinn þar sem talað er m.a. um hugsanleg tvö þrep í skattinum er þetta að segja: Það er nú starfandi nefnd með fulltrúum allra þingflokka og hefur reyndar komið fram vilji hjá langflestum þingflokkum að hafa tvö þrep og það er svo sannarlega í umræðunni núna. En þess ber að gæta að það er skoðun ríkisstjórnarinnar að þetta verði gert á töluvert annan máta en þegar rætt var um lægra þrep fyrir matvæli á lokadögum síðustu ríkisstjórnar. Hér verði þess gætt að afla tekna á móti með tveimur þrepum. Það yrði þá annað þrep sem yrði eitthvað hærra. Þess er einnig að geta í þessu sambandi að órætt er enn þá, ef af tveimur þrepum verður, hvaða vöruflokkar féllu þar undir. Í þrengstu merkingu hefur verið rætt um mjólkurvörur, kjötvörur, fisk og grænmeti. Síðan hafa sumir rætt um kornvörur og aðrir rætt um enn þá meira til viðbótar svo þarna er mikil vinna eftir sem nauðsynlegt er að hraða. Ef þessi verður niðurstaðan kemur það fyrir þingið á haustmánuðum. En það er líka rétt að geta
þess í þessu sambandi að ríkisstjórnin hefur talið nauðsynlegt að líta til þess sem telja má líklega niðurstöðu hjá Evrópubandalaginu þar sem þessi mál eru hér til meðferðar og talið æskilegt að samræma reglur hér því sem þar verður. Þar eru einna efst á baugi tvö þrep. Að vísu skal ég taka fram að Danir hafa lagst mjög hart gegn því og málið er alls ekki leyst. Hér er því eingöngu lofað að fulltrúar launþega fái að vera með í þessari umræðu, fái að láta sín sjónarmið koma fram.
    Í vaxtamálum er ekki þörf á neinni nýrri lagaheimild. Í því frv. til breytinga á lögum um Seðlabanka Íslands sem hér var samþykkt segir í lok 9. gr.: ,,Að teknu tilliti til annarra tekna bankanna.`` Ríkisstjórnin telur ekki að það þurfi neinar nýjar heimildir í þessu sambandi og hefur reyndar þegar rætt við Seðlabankann um að tekið verði tillit til annarra tekna bankanna.
    Um húsnæðismálin er það að segja að það er til nokkurt fjármagn í Byggingarsjóði verkamanna, 100 millj. kr. a.m.k., sem út af fyrir sig er nægilegt til að setja þessar íbúðir af stað. Um það þarf síðan að ræða við Húsnæðisstofnun hvort með hugsanlega meiri peningum frá lífeyrissjóðunum verði gert eitthvað til viðbótar. En það er nægilegt fjármagn til að hefja þessar framkvæmdir. Það sjá allir að ,,að hefja`` getur

verið nokkuð teygjanlegt, en ríkisstjórnin telur að á árinu 1989 sé mjög æskilegt að auka við þessar íbúðabyggingar. Það hafa verið afar miklar sveiflur í félagslegum íbúðum. Á sl. ári voru unnar 800 slíkar íbúðir. Eitthvað var arfur frá árinu 1987. Á árinu 1990 verður tvímælalaust bætt við þessar íbúðir. En vegna atvinnuástandsins nú telur ríkisstjórnin mjög æskilegt að hefja framkvæmdir við fleiri félagslegar íbúðir en áður var um rætt.
    Ég held að hv. þm. hafi ekki spurt um seinni málsgr.
    Um fyrri málsgr. næsta liðs, um lífeyrismálin, er það að segja að hér er um framlengingu á ákvæðum laga að ræða, um eftirlaun til aldraðra, sem þarf ekki að koma fyrir þetta þing. ( FrS: Um þetta var ekki spurt.) Nei, ekki var spurt, en þetta verður lagafrv. flutt á haustþingi. Ekki var heldur spurt um 8. lið.
    Réttarstaða starfsmanna við gjaldþrot o.fl. Nú liggur fyrir þinginu lagafrv. sem ákveðið var að ræða við þingmenn sem sitja í félmn. um og vita hvort það gæti leyst þetta vandamál. Þær viðræður eru væntanlega að hefjast núna. Það verður fyrst og fremst athugað hvort byggja má á því frv. sem þarna liggur fyrir.
    Hv. þm. minntist á seinni málsgr. Það er ekki gert ráð fyrir því að breyting á lögum þurfi á þessu stigi heldur eru ýmis framkvæmdaatriði þarna í mjög ítarlegri athugun bæði hjá fjmrn. og dómsmrn. t.d. og hygg ég einnig viðskrn. Því miður hefur sá möguleiki að stofna nýtt hlutafélag sem yfirtekur allt annað en skuldir breiðst mjög út og er mikið áhyggjuefni. Skilin eru eftir hundruð milljóna jafnvel í ógreiddum söluskatti og staðgreiðslu. Þess er vænst að það megi taka á þessu án nýrra laga. A.m.k. verður ekki frv. til laga lagt fyrir þetta þing.
    Starfsmenntun. Ég tek undir það með hv. þm. að það er umhugsunarefni að hér er það talið á vegum félmrn. eins. Um þetta var rætt í ríkisstjórninni í morgun og fullur skilningur á að þetta á ekki að verða til þess að breyta fyrri ákvörðunum nema samkomulag verði um annað innan ríkisstjórnar og við þingmenn. En menntmrn. mun taka þátt í þessari stefnumörkun.
    Ég vona að ég hafi svarað spurningum hv. þm. Ef ekki minnir hann mig á það sem ég kann að hafa látið niður falla.