Kjaradeila BHMR og ríkisins
Föstudaginn 12. maí 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Ég skal leitast við að svara þeim spurningum sem hv. fyrirspyrjandi beindi til mín eins og ég get með tiltölulega litlum fyrirvara.
    Fyrsta spurningin var um það hvort ég teldi ekki ástæðu fyrir ríkisvaldið að ganga aftur til viðræðna, formlegra eða óformlegra. Ég tel fulla ástæðu og reyndar skyldu ríkisvaldsins til þess að leita allra leiða til að leysa þessa mjög alvarlegu deilu. Ég tel hins vegar eins og nú er háttað málum að þá sé skynsamlegra að leita eftir óformlegum viðræðum og það er gert. Þær eru í gangi, m.a. urðu þær til að tefja komu mína á fundinn hér áðan. Ég tel hins vegar að það kunni að vera mjög varasamt að ganga til formlegra viðræðna nema þær hafi áður verið þannig undirbúnar að nokkur vissa sé fyrir því að þær muni leiða til lykta á þessari deilu. Ég vil fullvissa hv. fyrirspyrjanda og aðra sem hlýða á mál mitt að ríkisstjórnin mun í dag og næstu daga gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að leiða þessa deilu til lykta.
    Undir öðrum lið sem hv. fyrirspyrjandi afhenti mér hér áðan, spyr hv. þm. hvort ég sé sömu skoðunar eins og fram kemur í bréfi því sem ég ritaði sem forsrh. fyrir nokkrum árum um svipaða deilu. Ég er það. Ég tel afar æskilegt að leita leiða til þess að háskólamenntaðir starfsmenn ríkisins hafi svipuð laun og þeir sem starfa á hinum almenna markaði. Það er engin breyting í mínu viðhorfi að þessu leyti. Ég get hins vegar ekki sagt annað en það og viðurkennt það að eftir að ég hef farið yfir þær athuganir sem hafa verið gerðar í þessu sambandi þá sýnist mér að þarna kunni að vera fleiri erfiðleikar í vegi en ég gerði mér grein fyrir áður. Ég sé t.d. að hugmyndir eru um það að miða laun háskólamenntaðra manna fyrst og fremst við laun tæknifræðinga á hinum almenna markaði. Laun tæknifræðinga eru miklum breytingum háðar, a.m.k. hefur það sýnt sig á síðustu árum þegar mikill uppgangur hefur verið á ákveðnum sviðum, við skulum segja hjá tölvufyrirtækjum eða hugbúnaðarfyrirtækjum, þar hefur gjarnan verið um afar miklar yfirborganir að ræða. Það kann því að vera nokkuð miklum erfiðleikum háð hvaða viðmiðun á að hafa í þessu sambandi. Það breytir því ekki að ég tel rétt að leita slíkra leiða.
    Einnig hefur komið fram glöggt, bæði í því bréfi sem ég ritaði og nefndi áðan og einnig þeim athugunum sem hafa verið gerðar, að þarna kemur líka til álita hlutur eins og ábyrgð, lífeyrissjóður og fleira, öryggi í starfi. Þetta er því ýmsum vandkvæðum bundið og ég teldi að mörgu leyti betra ef unnt væri að komast að niðurstöðu um hvers virði menntunin er, og hún er mikils virði, og menn gætu fallist á það að háskólamenntun gæfi vissa hækkun í launum sem væri þá jafnvel óháð hvað borgað er annars staðar. Þetta teldi ég vera afar mikilvægt og hef reyndar hvað eftir annað látið það koma fram í viðræðum sem ég hef átt við háskólamenntaða menn. En það breytir ekki því að í þessari deilu er leitað leiða til viðmiðunar við þá sem eru utan ríkisgeirans

og því verður haldið áfram.
    Nú tel ég rétt að leggja áherslu á langtímasamninga við BHMR. Ég tel langtímasamninga skynsamlega en þeir geta ekki innihaldið verðtryggingu launa að mínu mati, við eigum að hverfa frá því, og ég hef lagt áherslu á það, og eigum að hverfa frá því á öllum sviðum, líka í sambandi við fjármagnsmarkaðinn og því eru langtímasamningar erfiðir í þeirri verðbólgu sem við stríðum enn þá við. Í þessari deilu er þó verið að leita leiða til að semja til lengri tíma og væri það afar æskilegt ef þannig má skapa öryggi, t.d. í skólum landsins.
    Síðan er spurt hver hafi orðið launaþróun meðal háskólamenntaðra manna hjá ríkinu frá nóvember 1987 til nóvember 1988 miðað við alla launþega í landinu og t.d. skrifstofufólk á almennum markaði. Því miður hefur mér ekki gefist kostur á þessum mínútum til að afla mér þessara upplýsinga en vek athygli á því að hér fyrir Alþingi liggur svar frá mér við fsp. Þorv. Garðars Kristjánssonar þar sem þessi samanburður er gerður eins ítarlega og unnt er. Þetta svar er unnið af Þjóðhagsstofnun og byggt á athugun Þjóðhagsstofnunar og Hagstofu Íslands m.a. Þó kemur fram í þessu svari að glöggar upplýsingar liggja ekki fyrir fyrir allra síðustu ár. Gleggstu og ítarlegustu upplýsingarnar eru frá 1984 sem er vitanlega of langt um liðið. Og án þess að ég fari að lesa þessa skýrslu þá vek ég athygli á því að hérna eru ýmsar upplýsingar sem getur verið fróðlegt að lesa og eru niðurstöður af skýrslum sem t.d. bæði Hagstofan og Þjóðhagsstofnun gerðu á sínum tíma. Hér segir t.d., með leyfi forseta, úr skýrslu sem dr. Pétur H. Blöndal tryggingafræðingur gerði, en þar segir hann í kafla um helstu niðurstöður í áliti nefndarinnar: ,,Tiltölulega fáir starfshópar háskólamanna í ríkisþjónustu eiga sér beinar hliðstæður á almennum markaði.`` Og hér segir um þá niðurstöðu sem er frá 1984: ,,Á grundvelli þessa álits gerði meiri hluti nefndarinnar ráð fyrir að betri lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna jafngiltu 9% álagi á dagvinnulaun ríkisstarfsmanna.`` --- Ég ætla ekki að lesa meira upp úr þessu en vek athygli hv. þm. á þessu svari eins langt og það nær.
    Síðan spyr hv. þm. hvort þessi deila kunni að mínu mati að auka tilhneigingu til stofnunar einkastofa af ýmsu tagi og sömuleiðis hvort það geti orðið
kostnaðarsamara fyrir ríkið. Ég óttast það að svona deilur geti leitt til þess að stofnaðar verði víða einkastofur. Ég tel að það komi til greina á vissum afmörkuðum sviðum. Hins vegar legg ég mikla áherslu á að það verði ekki til þess að það dragi úr þeim jöfnuði og því réttlæti sem opinber starfsemi á ýmsum sviðum tryggir öllum þegnum þessa lands eins langt og það er hægt, m.a. í heilbrigðisgeiranum og menntakerfinu svo ég nefni þar dæmi. Ég tel að það komi ekki til greina þó að ég sé þar með ekki að hafa á móti einstökum einkaskólum t.d., en þarna hefur ríkið miklar skyldur sem ekki má fórna í velferðarþjóðfélagi.
    Svo spyr hv. þm. hvort ég óttist atgervisflótta úr hópi háskólamenntaðra manna í störfum hjá ríkinu. Ég

óttast fyrst og fremst atgervisflótta úr landi ef hann gæti orðið vegna mismunandi kjara hér og þeirra sem erlendis eru. Það er nú svo með mjög mikinn fjölda af þeim háskólamenntuðu mönnum sem starfa hjá ríkinu að þeir eiga ekki í mörg önnur hús að venda hér heima þó að það sé afar breytilegt. Ég tek hins vegar undir það sem hv. þm. sagði um nauðsyn þess að byggja hér á þekkingu og vil undirstrika það mjög. Þetta þjóðfélag verður að byggja á öllum sviðum á vaxandi þekkingu og þess vegna megum við ekki fórna þeirri þekkingu sem til er í landinu eða draga úr þeirri þekkingarsköpun sem á sér stað í landinu. Ég held að allir geti verið sammála um það að nútímaþjóðfélag byggir í sínum framförum og vexti fyrst og fremst á aukinni þekkingu á öllum sviðum.
    Síðan spyr hv. þm. að hvaða leyti ríkisvaldið sé samábyrgt í kjaradeilu sem þessari og því bótaskylt. Ég hygg að þetta sé afar erfið spurning að svara. Ég tel að á vissum sviðum geti ríkið orðið bótaskylt, t.d. ef stofnun á vegum ríkisins hindrar aðila í starfi sínu þannig að verulegt tjón stafi af og t.d. kæmi síðan í ljós að það hafi verið gert á vafasömum lagagrundvelli. Það er engin launung að um þetta eru núna skiptar skoðanir í sambandi við fóður, bæði til fiskeldis og búpenings annars og reyndar hafa ýmsir lögfræðingar látið í té skýrslur og niðurstöður þar sem þeir telja að stöðvun á innflutningi slíks fóðurs styðjist ekki við lög. Þetta er mjög alvarlegt mál og gæti leitt til gífurlegrar bótaskyldu hjá ríkinu ef stórfellt tjón hlýst af. Það er von mín að þessi þáttur leysist án þess að til slíks komi og ég held að það sé vilji á báða bóga til að gera það. Hins vegar að sjálfsögðu, ef um er að ræða tjón á heilsu o.s.frv. þá verður það aldrei bætt í raun með fjárhagsbótum og er vitanlega miklu flóknara mál en svo að ég treysti mér til að fara inn á það hér. Svona deilur valda ætíð miklum óþægindum og röskun og það hefur ætíð verið reynt að draga fjöður yfir það í lokin og gera sem minnst úr því og vonandi verða hér ekki slík tjón að það reynist ekki hægt.
    Síðan spurði hv. þm. mig í fjarveru sjútvrh. um úrvinnslu skjala vegna hvalveiða. Ég út af fyrir sig veit lítið meira um það en aðrir hér inni en ég held að það liggi alveg í hlutarins eðli að ef ekki tekst að vinna úr þessum gögnum fyrir fund Alþjóðahvalveiðiráðsins þá leggjum við ekki fram niðurstöður af mjög mikilvægu starfi nú upp á síðkastið og við komum þá til þess fundar ekki undirbúnir. En þessi og næsti fundur eru e.t.v. einhverjir mikilvægustu fundirnir í þeirri viðleitni okkar að fá skilning fyrir þeirri hvalveiðistefnu sem við höfum hér mótað og hæfilegri nýtingu hvalastofnsins svo að sjálfsögðu er það mjög alvarlegt mál. Mér skilst að eins og nú er komið sé afar vafasamt að unnt verði að vinna svo úr þessum gögnum að fullkomlega viðunandi sé.
    Ég skal ekki lengja þetta. Það eru hér ýmsir aðrir ráðherrar sem eru spurðir og svara þá að sjálfsögðu fyrir sig. Ég vil bara að lokum leggja á það mjög mikla áherslu að ríkisstjórnin mun gera allt sem í

hennar valdi stendur til að fá lausn á þessari deilu. Ef það tekst ekki um þessa helgi, þá þori ég engu að spá um framhaldið og reyndar vildi ég gjarnan segja að það verður að takast um þessa helgi. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að hæstv. fjmrh. hafi gengið þar mjög langt fram að leita lausna á þessari deilu og það olli að sjálfsögðu miklum vonbrigðum að þær tillögur sem hann gerði náðu ekki samþykki.
    Ég tek undir það með hv. þm. að fyrir, eins og hv. þm. sagði, sjöttu auðugustu þjóð heims --- sem ég skal nú ekki segja hvort er á nógu góðum rökum reist þó það sé þannig mælt, það fer nú eftir gengi og fjölmörgum öðrum hlutum --- þá eru launakjör í landinu ekki há. Þau eru lág. Hitt verða menn svo að hafa í huga að þessi ríkidómur byggist ekki síst á því að við vinnum afar mikið, langan vinnudag og heildartekjur fjölskyldunnar hér á landi eru að því er mér er tjáð af samanburði mjög sambærilegar við það sem er víða í löndum með svipaða þjóðarframleiðslu svo það verður að gæta sín dálítið á því að taka ekki svona samanburð án nánari athugunar.
    Ég vil einnig taka undir það sem fólst í orðum hv. þm. að launakjör víða í atvinnulífinu eru lág og það er einmitt það sem við erum að stríða við m.a. í þeirri deilu sem hér er um að ræða. Það er búið að semja við þá sem lægstu launin hafa og spurningin er sú: Hve langt getur ríkisvaldið gengið án þess í raun að ganga á bak orða sinna í slíkum samningum? Ég tel að það verði að finnast lausn á þessari deilu sem rúmast innan þess heildarramma sem 80% þeirra sem hér þiggja laun hafa um samið. Það þýðir ekki að það sé ekki hægt
að viðurkenna einhverja nauðsynlega leiðréttingu þegar til lengri tíma er litið og ég endurtek það sem ég sagði áðan að ég tel að mat á háskólamenntun sé ekki rétt eins og nú stendur í þessu þjóðfélagi.