Almannatryggingar
Þriðjudaginn 16. maí 1989

     Jón Sæmundur Sigurjónsson:
    Virðulegi forseti. Heilbr.- og trn. fjallaði um þetta mál að ósk eins nefndarmanna og kom nefndin aftur saman til að fjalla um frv. milli 2. og 3. umr. Nefndin fékk á sinn fund Hauk Þórðarson, formann Læknafélags Íslands, og Gest Jónsson, formann Lögmannafélags Íslands.
    Nefndin mælir enn sem fyrr með samþykkt frv. en hefur ákveðið að leggja til frekari breytingar á frv. Tillögur nefndarinnar eru fluttar á sérstöku þingskjali.
    Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir og Jón Kristjánsson voru fjarverandi við lokaafgreiðslu málsins.
    Undir nál. skrifa Guðrún Helgadóttir, Geir H. Haarde, Sólveig Pétursdóttir, Finnur Ingólfsson og Jón Sæmundur Sigurjónsson.
    Fyrsta brtt. sem nefndin leggur til er við 2. gr. en samkvæmt henni hljóðar 7. gr. laganna þannig:
    ,,Rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta, leggur tryggingaráð úrskurð á málið.
    Komi ágreiningur fyrir tryggingaráð til úrskurðar og úrlausn hans er að einhverju leyti eða öllu háð læknisfræðilegu, lögfræðilegu eða félagsfræðilegu mati er tryggingaráði hverju sinni heimilt að kveðja sér til ráðuneytis einn til þrjá menn sem hafa sérþekkingu á hlutaðeigandi sviði.``
    Þá leggur nefndin til að 3. gr. frv. falli brott, en hún kveður á um stjórn sjúkrasamlaga. Svo vill til að ákvæði 37. og 38. gr. almannatryggingalaga eiga að falla brott samkvæmt frv. til laga um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, en það eru einmitt þær greinar almannatryggingalaga sem fjalla um stjórnir sjúkrasamlaga. Vegna breyttrar tilhögunar á fyrirkomulagi sjúkratrygginga finnst nefndinni rétt að ákvæði um stjórnir sjúkrasamlaga sem ekki er gert ráð fyrir í verkaskiptingarfrv. falli brott.
    Þá er gerð lítils háttar breyting við 6. gr. til að skerpa á orðalaginu. Þar sem sagt var ,,semja við sérfræðinga um`` komi: greiða sérfræðingum fyrir, en það varðar tilvísunarskylduna, en ekki er meiningin að greiða sérfræðingum fyrir læknisverk samkvæmt tilvísun frá heimilislæknum, heldur að tilvísunarskyldan falli brott.