Réttur til fiskveiða í landhelgi Íslands
Miðvikudaginn 17. maí 1989

     Frsm. minni hl. sjútvn. (Guðni Ágústsson):
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður mikið. En hæstv. sjútvrh. minntist á það áðan í sínu máli hvort ekki hefði verið rétt að vísa þessu frv. til utanrmn. Svo vill til að á síðustu dögum hafa haft samband við mig menn sem eiga sæti í utanrmn. og hafa einmitt orðað það sama og telja að flestum þeim málum sem hafa verið flutt í þinginu og snerta utanríkisviðskipti og samskipti Íslands við aðrar þjóðir hafi verið vísað til utanrmn. Nú vil ég spyrja hæstv. forseta hvort hann geti kannað hvort hefð sé fyrir því að málum sem þessum sé jafnan vísað til umfjöllunar í utanrmn. ( Forseti: Forseti vill svara því til að það hefur ekki verið mikið um mál af því tagi sem hér er til umræðu sem reynt hefur á að vísa til utanrmn. Það segir forseti eftir minni en ekki að gerðri neinni athugun á því. Hins vegar er hér um að ræða mál af þeim toga sem að jafnaði hafa verið rædd og tekin fyrir í utanrmn. og þá af hæstv. utanrrh. eða hæstv. sjútvrh. ef þau hefur borið við.) Ég þakka forseta. Mér sýnist að það geti einmitt verið þannig að það væri mjög eðlilegt að fjalla um þetta mál í utanrmn.
    Hér hafa menn flutt allgóðar ræður. Ég þarf ekki að fara mjög mikið ofan í þær en hafði á minn hátt gaman af þeim mörgum. Menn hafa hér reynt að setja upp litla manninn og barið sér á brjóst og talið að hér væru menn sem vildu níðast á nágrönnum sínum og vinum. Ég vil taka það fram að ég stend með Færeyingum og Grænlendingum og vil eiga við þá góð samskipti. Ég tel að okkur Íslendingum hafi heppnast það að eiga við þá góð samskipti. Ég styð góð samskipti við þessar þjóðir og tel að ég sé hér í engu að mæla með því að menn níðist á þeim heldur beri okkur að eiga við þá góð samskipti. Það höfum við gert og það eigum við að gera. En við verðum að gera það með réttum hætti.
    Hv. 1. þm. Vestf. sagði að engin rök hefðu komið fram í máli umsagnaraðilanna sem allir lögðust gegn þessu máli. Þetta er rangt. Þeir vitnuðu flestir til þess atriðis, sem hér hefur verið nefnt, að það ætti eftir að semja um sameiginlega fiskstofna. Þeir nefna það í umsögnum sínum. Enda fannst mér eins og hjartað slægi nú ekki oft með í málflutningi hv. þm. sem oft tekst vel upp. Það var ekki fyrr en hann kom að smjörlíkinu sem ég þekkti hann í þessum málflutningi. Þá var hann samur og jafn og líkur sjálfum sér og færðist í hann þróttur.
    Hann lét t.d. að því liggja að menn hefðu reynt að slá málinu þannig upp að þetta væri eins og menn þyrftu að spyrja í hvert einasta skipti. Þetta er rangur málflutningur. Menn þurfa ekki að biðja um löndunarrétt í hvert einasta skipti. Það er veitt til margra mánaða í senn. Og hér hefur verið samþykkt, eins og ég hef minnst á, þál. um samning þjóða á milli um gagnkvæmar löndunarheimildir þannig að það er alveg skýrt.
    Það er enginn vafi að lögin frá 1922 eru einhver helgustu lög þessarar þjóðar og ég er ekki talsmaður þess að raska þeim lögum mikið án þess að um það sé fjallað bæði af utanrmn. og síðan af Alþingi aftur.

Ég er því þeirrar skoðunar, hæstv. forseti, eftir bæði það sem þú hefur sagt hér og það sem mjög þingreyndir menn hafa við mig sagt, að það sé rökrétt að skoða rækilega hvort ekki væri eðlilegt að vísa þessu máli til utanrmn.
    Ég ætla ekki að þreyta þingmenn með því að lesa hér upp umsagnir þeirra virtu aðila sem um málið fjölluðu, en þær geta þeir að sjálfsögðu nálgast hjá sjávarútvegsnefndarmönnum. Ég teldi mjög eðlilegt að þeir gerðu það áður en þeir tækju afstöðu í þessu máli.