Ferill 5. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 5 . mál.


Sþ.

5. Tillaga til þingsályktunar



um jafnréttisráðgjafa.

Flm.: Hjörleifur Guttormsson, Kristín Einarsdóttir, Árni Gunnarsson,


Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Valgerður Sverrisdóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að ráða á vegum félagsmálaráðuneytisins þrjá jafnréttisráðgjafa til þriggja ára sem hafi það verkefni að vinna að leiðréttingu á stöðu kvenna í stofnunum og fyrirtækjum um land allt í samvinnu við starfsmenn og stjórnendur.
    Laun ráðgjafanna og annar kostnaður vegna starfa þeirra greiðist úr ríkissjóði.

Greinargerð.


    Tillögu þessari um ráðningu jafnréttisráðgjafa er ætlað að vera liður í átaki til að fylgja eftir ákvæðum laga nr. 65/1985, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
    Þrátt fyrir lagaákvæði um jöfnuð kvenna og karla eru konur verr settar en karlar á flestum sviðum þjóðlífsins og mikið skortir á markviss viðbrögð stjórnvalda til úrbóta. Nægir að minna á að konur eru í miklum meiri hluta í láglaunastörfum og meðallaun þeirra hafa farið lækkandi undanfarin ár í samanburði við laun karla. Fáar konur eru í áhrifastöðum í atvinnulífinu og hlutur þeirra er langtum minni en karla í stjórnmálalífi og í stjórnum, nefndum og ráðum á vegum ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka. Staða kvenna annars staðar á Norðurlöndum er mun skárri en hér að þessu leyti og kemur þar vafalaust margt til, ekki síst betri félagslegar aðstæður og þróað velferðarkerfi.
    Talsverð reynsla er fengin af starfi jafnréttisráðgjafa á Norðurlöndum utan Íslands. Í Svíþjóð hafa slíkir ráðgjafar verið starfandi í 18 ár við vinnumálaskrifstofur lénanna og voru þeir um 100 talsins þegar flest var. Nú hefur ný skipan verið innleidd í Svíþjóð þar sem jafnrétti á að ganga sem rauður þráður í gegnum allt starf þeirra sem vinna að atvinnumálum. Í Danmörku hafa jafnréttisráðgjafar verið starfandi í tengslum við ömtin frá því 1981 og hefur þeim nýlega verið fjölgað um helming og eru nú alls 28. Sérstök deild í vinnumálaráðuneytinu danska sér um stjórn og samræmingu á starfi ráðgjafanna. Í Noregi voru ráðnir svonefndir kvennaráðgjafar á vegum fimm fylkja árið 1975. Nú starfa þar jafnréttisráðgjafar í hverju fylki, m.a. við að bæta atvinnustöðu kvenna og auðvelda þeim að stofna eigin fyrirtæki. Í Finnlandi er fyrirhugað að taka upp jafnréttisráðgjöf í hverju hinna 12 vinnumálaumdæma.
    Fyrir utan störf á vegum Jafnréttisráðs hérlendis til að rétta hlut kvenna er rétt að geta um þátttöku Íslands í verkefni Norrænu ráðherranefndarinnar um fjölbreyttari atvinnuþátttöku kvenna undir nafninu „Brjótum múrana“ eða „Bryt“. Þetta er fjögurra ára verkefni sem lýkur um áramótin 1989–1990. Starfsmaður þess hér á landi er Valgerður H. Bjarnadóttir á Akureyri. Undir merkjum „Bryt“ hefur fengist mikilsverð reynsla og sambönd tekist við hliðstæða starfsemi annars staðar á Norðurlöndum. Væri æskilegt að tengja þessa reynslu starfi þeirra jafnréttisráðgjafa sem hér er fjallað um þótt viðfangsefni þeirra séu af flutningsmönnum hugsuð í mun víðara samhengi.
    Í tillögunni er gengið út frá að ráðnir verði þrír jafnréttisráðgjafar til þriggja ára á vegum félagsmálaráðuneytisins sem m.a. á að tryggja tengsl þeirra við Jafnréttisráð og við aðgerðir sem stjórnvöld stefna að til þess að ná fram jafnri stöðu kynjanna. Ekki er í tillögunni kveðið á um einstök verkefni ráðgjafanna né heldur um verkaskiptingu. Varðandi hið síðarnefnda er bent á að æskilegt geti verið að þeir sinni verkefnum svæðisbundið, einn t.d. á höfuðborgarsvæðinu og tveir á landsbyggðinni. Þótt ekki sé í tillögunni kveðið sérstaklega á um búsetu ráðgjafanna á þessu reynslutímabili er nauðsynlegt að þeir séu í sem nánustum tengslum við það umhverfi sem þeim er ætlað að starfa í. Félagsmálaráðuneytinu er hins vegar ætlað að tryggja sem besta samvinnu þeirra.
    Meðal fyrirhugaðra verkefna jafnréttisráðgjafanna til að ná fram leiðréttingu á stöðu kvenna í stofnunum og fyrirtækjum má nefna:
—    Söfnun upplýsinga um hindranir í vegi jafnréttis og aukinna áhrifa kvenna á vinnumarkaði.
—    Aðstoð við starfsmenn og stjórnendur fyrirtækja og stofnana við að móta og fylgja eftir áætlunum um jafnréttisaðgerðir.
—    Upplýsinga- og skipulagsstörf þar sem m.a. verði miðlað reynslu milli fyrirtækja og stofnana um aðgerðir í jafnréttismálum svo og vitneskju erlendis frá.
—    Stuðningur við mótun og framkvæmd sérstakra verkefna á vegum stofnana og fyrirtækja sem miða að því að bæta stöðu kvenna.
—    Fræðslu- og útgáfustarfsemi um jafnréttismál og vinnumarkaðinn.
—    Samvinna og tengsl við starfsmannafélög, verkalýðsfélög, atvinnurekendur, ráðuneyti og ríkisstofnanir svo og sveitarfélög um aðgerðir til að bæta stöðu kvenna.
—    Hvatning til stærri fyrirtækja og stofnana um að koma upp jafnréttisráðgjöf á eigin vegum.
    Gert er ráð fyrir að á umræddu þriggja ára tímabili beri ríkissjóður kostnað af starfi ráðgjafanna. Ef litið er til reynslu af kostnaði við störf iðnráðgjafa í landshlutunum undanfarin ár má reikna með að heildarkostnaður vegna eins jafnréttisráðgjafa nemi 3–3,5 milljónum króna á ári (verðlag 1988), eða um 10 milljónir króna samtals vegna þriggja ráðgjafa.
    Eðlilegt má telja að félagsmálaráðherra leiti umsagnar Jafnréttisráðs um umsækjendur um stöður jafnréttisráðgjafa áður en í þær er ráðið og konur hafi forgang sem ráðgjafar á þessu sviði.
    Rétt er að meta árangur af starfi jafnréttisráðgjafanna að fenginni tveggja ára reynslu og móta að því búnu stefnu um áframhaldandi tilhögun slíkrar ráðgjafarstarfsemi.
    Tillaga þessi var flutt á síðasta þingi en ekki afgreidd úr nefnd. Félagsmálanefnd barst umsögn frá Jafnréttisráði og er hún birt sem fylgiskjal hér á eftir.



Fylgiskjal.


Umsögn Jafnrét tisráðs um tillögu til þingsályktunar


um jafnréttisráðgjafa, 356. mál.


(9. maí 1988.)



    Jafnréttisráð fjallaði á fundi sínum þann 3. maí sl. um tillögu til þingsályktunar um jafnréttisráðgjafa, 356. mál. Jafnréttisráð telur framkomna
þingsályktunartillögu mjög mikilvæga og tekur heils hugar undir bæði þingsályktunartillöguna og greinargerð tillögunnar.
    Jafnréttisráð vill enn fremur benda á að nú er að hefjast vinna við gerð framkvæmdaáætlana á sviði jafnréttismála hjá ráðuneytum og þeim ríkisstofnunum sem hafa tuttugu starfsmenn eða fleiri í vinnu. Ætlunin er að þessar áætlanir séu til fjögurra ára og taki gildi um næstu áramót.
    Jafnréttisráð mun nú á næstunni kynna hugmynd að gerð sérstakra framkvæmdaáætlana fyrir fulltrúum stærstu sveitarfélaganna og er það von ráðsins að sveitarfélögin muni vinna slíkar áætlanir einnig. Jafnréttisráð hefur í kynningu á þessum áætlunum lagt áherslu á að starfsmenn Jafnréttisráðs muni leiðbeina og aðstoða við gerð og framkvæmd áætlananna. Jafnréttisráð gerir sér hins vegar fyllilega grein fyrir því að vegna fámennis á skrifstofu ráðsins verður þetta mjög erfitt verk. Sérstakir jafnréttisráðgjafar eru því að mati Jafnréttisráðs mjög mikilvægir.
    Jafnréttisráð vill einnig benda á mikilvægi þess að sú reynsla, sem fengist hefur af samnorræna verkefninu „Brjótum múrana“, verði nýtt til áframhaldandi verka á þessu sviði en því verkefni lýkur í lok ársins 1989. Jafnréttisráð telur að ráðning sérstakra jafnréttisráðgjafa sé eðlilegt framhald af því starfi sem unnið hefur verið á Akureyri á síðustu árum.