Ferill 29. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 29 . mál.


Nd.

29. Frumvarp til laga



um hvalveiðibann.

Flm.: Hreggviður Jónsson, Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir.



    

1. gr.

    Hvalveiðar, þar með taldar vísindaveiðar, í fiskveiðilögsögu Íslands eru óheimilar til ársins 1993.

2. gr.

    Brot á lögum þessum varða sektum eða varðhaldi, enda liggi ekki við þyngri refsingar samkvæmt öðrum lögum.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Þann 2. febrúar 1983 var samþykkt eftirfarandi þingsályktun á Alþingi:
    „Alþingi ályktar að samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins um takmörkun hvalveiða, sem kunngerð var með bréfi til ríkisstjórnarinnar dags. 2. sept. 1982, verði ekki mótmælt af Íslands hálfu.“
    Með þessari þingsályktun var ótvírætt ákveðið að fara eftir samþykktum Alþjóðahvalveiðiráðsins, en um leið var í nefndaráliti um tillöguna innleiddur sá tvískinnungur sem hinar svokölluðu vísindaveiðar eru byggðar á. Ekki verður hér frekar rætt um það sem liðið er, því verður ekki breytt.
    Það fer ekki á milli mála að málflutningur náttúruverndarsamtaka víða um heim hefur áhrif, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Sú „mannlega“ ímynd, sem dregin er upp af hvölum í fjölmörgum sjónvarpsþáttum og þá ekki hvað síst í barnatímum, gerir hvalveiðar afar ógeðfelldar í hugum hundruða milljóna manna. Áhrif frjálsra náttúruverndarsamtaka eru víða sterk; það sést best á því að nokkur erlend fyrirtæki hafa hætt kaupum á íslenskum fiskafurðum af þessum sökum. Með setningu þessara laga felst ekki viðurkenning á réttmæti málflutnings náttúruverndarmanna. Hér er hins vegar horfst í augu við blákaldar staðreyndir og minni hagsmunir lagðir til hliðar fyrir meiri. Hvalveiðibann til fjögurra ára gefur okkur tóm til að skoða þessi mál vandlega. Eftir þann tíma má aflétta þessu banni eða framlengja eftir því hvað við teljum best fyrir hagsmuni okkar þá.