Ferill 34. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 34 . mál.


Sþ.

34. Tillaga til þingsályktunar



um athugun á lagalegu réttmæti byggingar ráðgerðs ráðhúss í Reykjavíkurtjörn og fleira.

Flm.: Stefán Valgeirsson.



    Alþingi ályktar að kanna skuli sem ítarlegast öll lagaleg atriði sem tengjast ráðgerðri byggingu ráðhúss Reykjavíkurborgar í Reykjavíkurtjörn með tilliti til eignarréttar og grenndarréttar húseigna Alþingis við norðurenda Tjarnarinnar. Skal forsetum Alþingis falið að fá þrjá trausta lögfræðinga til að kanna lagaleg atriði málsins og gefa sérálit og einnig að fá könnun og sérálit þriggja manna sérfróðra um skipulags- og byggingarmál á málum sem tengjast ráðhúsbyggingunni. Jafnframt skal leitað til borgarstjórnar Reykjavíkur og hún beðin um að leggja fram sem ítarlegust gögn um lagalegar, skipulagslegar og aðrar forsendur sem ráðgerð ráðhúsbygging er reist á. Skal stefnt að því að hraða öflun þessara gagna og álita og leggja þau fram í greinargerð um málið á því Alþingi sem nú situr.
    Alþingi ályktar einnig að beina þeim tilmælum til borgarstjórnar Reykjavíkur að stöðvaðar verði án tafar framkvæmdir í Reykjavíkurtjörn og þær verði ekki hafnar aftur fyrr en ótvírætt liggur fyrir að framkvæmdirnar brjóti ekki gegn lögum eða löglegum og réttmætum hagsmunum Alþingis og Alþingi hafi gefist tækifæri til að álykta þar um. Dugi tilmæli Alþingis ekki til að stöðva framkvæmdir borgarstjórnar Reykjavíkurborgar í Reykjavíkurtjörn til bráðabirgða skal forsetum Alþingis falið að láta vinna að því fyrir dómstólum að stöðva framkvæmdirnar þar til ótvírætt liggur fyrir að framkvæmdirnar séu lögmætar.

Greinargerð.


    Borgarstjórn Reykjavíkur hefur, eins og kunnugt er, hafið á þessu ári umfangsmiklar framkvæmdir í norðvesturhluta Reykjavíkurtjarnar og ráðgerir að byggja þar ráðhús Reykjavíkur í elsta hluta borgarinnar, í næsta nágrenni við Alþingishúsið og nánast alveg við aðrar byggingar Alþingis.
    Alþingi sjálft og raunar þjóðin öll á hér mikilla hagsmuna að gæta. Ekki aðeins beinna hagsmuna af því að allur réttur Alþingis, svo og annarra, sé virtur í þessu máli, heldur verður Alþingi einnig sem löggjafarvald og stofnun, sem fylgist með að lög séu ekki brotin, að fylgja því sérstaklega eftir að lög og réttur Alþingis sé virtur. Bregðist það er hætt við að áhrif laga sem stjórnunartækis skerðist með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
    Margar ástæður eru til að ætla að ekki hafi verið fylgt lögum í hvívetna né tekið tillit til réttar manna og stofnana við byggingu ráðgerðs ráðhúss. Fyrst er þó bent á að sá aðilinn, sem helst og best á að fylgjast með því að lögum og reglum sé fylgt við byggingarframkvæmdir í Reykjavík, er borgarstjórn Reykjavíkur, embættismenn og aðrir starfsmenn sem starfa á vegum borgarinnar. Hér liggur því fyrir að sá aðili sem drifið hefur framkvæmdir áfram af miklum krafti á skömmum tíma á jafnframt lögum samkvæmt að vera helsti eftirlitsaðili með því að lögum og öðrum reglum sé fylgt við framkvæmdirnar. Eðlilega þarf að huga vel að málum þar sem sami aðili hefur með höndum framkvæmdir og eftirlit.
    Á síðasta þingi varð flutningsmaður þessarar tillögu ekki var við það að nokkur gögn frá borgarstjórn um ráðgerða ráðhúsbyggingu eða mál því tengd væru lögð fram á Alþingi. Í byrjun júní birti flutningsmaður því opið bréf í Morgunblaðinu til forseta Alþingis og spurðist fyrir um nokkur atriði, lagaleg sem önnur, er tengjast ráðhúsbyggingunni.
    Af orðsendingu forseta Alþingis, sem birtist í Morgunblaðinu 14. júní 1988, má ráða að ekki hafi farið fram könnun á vegum Alþingis á lagalegum atriðum tengdum ráðhúsbyggingunni og önnur atriði virðast aðeins hafa verið athuguð lítillega. Það eina sem var upplýst kom fram í stuttu áliti tveggja arkitekta. Annar arkitektinn er húsameistari ríkisins, Garðar Halldórsson. Á hann sæti í skipulagsstjórn ríkisins og hefur þar tekið þátt í afgreiðslu mála sem tengjast ráðhúsbyggingunni. Hinn arkitektinn er Sigurður Einarsson, sá er fékk fyrstu verðlaun í samkeppni um nýbyggingu Alþingis. Önnur gögn eða svör um ráðhúsmálið hefur flutningsmaður ekki fengið frá Alþingi.
    Þingsályktunartillagan miðar að því að könnuð verði ítarlega m.a. öll lagaleg og skipulagsleg atriði sem tengjast ráðgerðri byggingu ráðhússins. Þau gögn verði lögð fyrir Alþingi og Alþingi sjálft fái tækifæri til að móta afstöðu sína til málsins og gera ráðstafanir ef það telur tilefni til. Einnig að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða meðan kannanir fara fram.
    Þingsályktunartillagan er flutt vegna þess að flutningsmaður telur óviðunandi að ekki liggi fyrir ótvíræð og traust gögn um lögmæti og réttmæti framkvæmda við byggingar Alþingis sem það hefur síðustu áratugi reynt að afla í því skyni að byggja við Alþingishúsið. Þetta er brýnt eigi Alþingi að starfa áfram á sama stað, einnig telur flutningsmaður óhjákvæmilegt að Alþingi sýni þessu máli þann sóma að álykta um það.
    Flutningsmaður vill að lokum bæta því við, þótt það sé ekki höfuðatriði málsins hver hans skoðun er, að ýmis atriði benda til þess að ekki hafi verið réttilega og löglega að málum staðið í sambandi við samþykkt Kvosarskipulags og ráðgerða byggingu ráðhúss; margt er óljóst sem lög kveða á um og tengist þessu. Nýja Kvosarskipulagið gerir t.d. ráð fyrir að byggingar í Kvosinni í Reykjavík geti hækkað nokkuð, eða í um fimm til sex hæða byggingar. Þetta skipulag hefur verið samþykkt, með ágreiningi að vísu, í borgarstjórn Reykjavíkur og skipulagsstjórn ríkisins, en hlotið staðfestingu félagsmálaráðuneytisins. Ekki er kunnugt um að eigendum fasteigna á Kvosarsvæðinu hafi verið tilkynnt skriflega um hið ráðgerða skipulag, mat á eignum hafi farið fram eða félag hafi verið stofnað um framkvæmdirnar eins og kveðið er á um í VI. kafla skipulagslaga, nr. 19/1964. Ef þessi framkvæmd er talin lögleg og forsvaranleg, hver er þá staða opinberra bygginga í og næst við Kvosina? Á þessu svæði eru fjölmargar opinberar byggingar og þar af nokkrar gamlar byggingar, svo sem Alþingishúsið sjálft, Dómkirkjan, pósthúsið, menntaskólahúsið og Stjórnarráðshúsið. Hver verður svipur og staða þessara bygginga ef hús í nágrenni þeirra hækka svo að almennt verður um fimm til sex hæða byggingar að ræða? Og hver verður staða þessara bygginga ef haldið verður áfram á sömu braut og þegar er mörkuð og síðar samþykkt enn eitt skipulag fyrir Kvosina með sama hætti og síðast var gert og byggingar almennt hækkaðar í átta til tíu hæðir?
    Einnig vekur athygli að ráðgert ráðhús var fært inn á skipulagstillöguuppdrátt haustið 1987, eftir að skipulagsstillagan hafði verið kynnt almenningi og samþykkt í borgarstjórn Reykjavíkur.
    Þá liggur fyrir að framkvæmdir voru hafnar í Reykjavíkurtjörn áður en byggingarleyfi var veitt. Voru þær byggðar á meintu „graftarleyfi“ sem félagsmálaráðuneytið felldi síðan úr gildi.
    Mikill ágreiningur hefur alla tíð verið um byggingu ráðhússins og hafa íbúar við Tjarnargötu helst haft sig í frammi. Ekki liggur ljóst fyrir hver niðurstaða félagsmálaráðuneytisins er í málinu, en af blaðafregnum má ætla að fullkomin óvissa sé um hver eigi þann hluta Tjarnarinnar þar sem ráðgerð ráðhúsbygging á að rísa. Athuga þarf hver hlutur Alþingis er þar.
    Vegna mikils hraða á framkvæmdum við ráðgert ráðhús er óskað sérstaklega eftir að þingsályktunartillaga þessi fái skjóta afgreiðslu á Alþingi.


Fylgiskjal I.

Opið bréf til forseta Alþingis


Þorvalds Garðars Kristjánssonar, forseta sameinaðs Alþingis,


Karls Steinars Guðnasonar, forseta efri deildar,


og Jóns Kristjánssonar, forseta neðri deildar.



Ágætu forsetar.
    Ekki hefur farið fram hjá þeim sem átt hafa leið niður að Reykjavíkurtjörn að undanförnu að Reykjavíkurborg hefur fyllt upp verulegan hluta norðvesturhorns Tjarnarinnar vegna ráðgerðrar byggingar ráðhúss þar. Hafa margir undrast hve stórt athafnasvæðið er. Af þessu tilefni og með vísun til umræðna á Alþingi á sl. hausti leita ég til ykkar, forsetar Alþingis, til að afla upplýsinga um hvernig þessar framkvæmdir horfa við Alþingi.
    Alþingi hefur ástæðu til að fylgjast vel með framkvæmdum sem eiga sér stað í nágrenni þess og netlögum. Skal fyrst benda á að við norður- og norðvesturenda Reykjavíkurtjarnar eru starfsstöðvar Alþingis í nokkrum húsum auk Alþingishússins sjálfs. Rætt hefur verið um byggingu nýs húss fyrir Alþingi á lóðum í næsta nágrenni við ráðgert ráðhús og Alþingi á eða hefur yfir að ráða öllum húsum og lóðum sem takmarkast af Vonarstræti, Tjarnargötu, Kirkjustræti og Templarasundi, ef undan er skilið Oddfellow-húsið. Auk þess á Alþingi í fleiri nálægum húsum.
    Með vísun til framanritaðs vil ég spyrja, ágætu forsetar, hvaða gögn hafa borgaryfirvöld í Reykjavík afhent Alþingi vegna ráðgerðrar ráðhúsbyggingar? Hvaða óskir, kröfur eða áskilnaði hefur Alþingi sett fram gagnvart ráðamönnum Reykjavíkurborgar vegna ráðhúsbyggingarinnar eða Kvosarskipulags að öðru leyti? Hvað hefur Alþingi gert til að kanna þessi mál og kynna þau alþingismönnum og þjóðinni? Mál Alþingis eru mál þjóðarinnar allrar.
    Við byggingu ráðhúss í norðvesturhorni Reykjavíkurtjarnar kemur margt til álita, svo sem lífríki Tjarnarinnar og söguleg atriði. Reykjavíkurtjörn er tjörn fyrsta landnámsmanns Íslendinga. Umferðin að og frá þessu svæði er í ólestri í dag. Hvernig verður það leyst með tilliti til ráðhúsbyggingarinnar? Hvernig verða bílastæðavandamál leyst? Verður ráðhúsbyggingin til að torvelda eða jafnvel hindra að framtíðarstaður fyrir Alþingi verði á þessu svæði?
    Um þessi atriði og önnur sem máli eru talin skipta er nauðsynlegt að fá upplýsingar sem Alþingi hefur. En sérstaklega er óskað upplýsinga um öll lagaleg atriði sem tengjast byggingu ráðhúss í Tjörninni. Hver á Reykjavíkurtjörn? Er mögulegt að Tjörnin sé eign þeirra sem eiga lóðir að Tjörninni, þar á meðal Alþingis? Er mögulegt að rask eða breyting á botni Reykjavíkurtjarnar sé óheimil samkvæmt vatnalögum nema samþykki allra eigenda að Tjarnarbakkalandi og netlögum komi til? Hvaða gildi hafa skipulagslög, nr. 19 frá 1964, á Tjarnarsvæðinu í Reykjavík? Hér kann að þykja hvatvíslega spurt en ástæðan er sú að illa virðist fylgt VI. kafla laganna um framkvæmd skipulags eldra hverfis, gr. 23, 24 og 25. Þar er gert ráð fyrir sérstökum skriflegum tilkynningum til eigenda húsa á svæði sem skipuleggja á að nýju. Einnig kynningum og fundum og að viðkomandi sveitarfélag hafi forgöngu um stofnun félags um endurbyggingu eldra hverfis ef ráðist er í nýja skipulagningu þess, eignarnám í vissum tilvikum og fleira.
    Hver er grenndarréttur húsa í Kvosinni í Reykjavík, en þar standa hús Alþingis? Nýlega samþykkt og staðfest Kvosarskipulag virðist gera ráð fyrir verulegri hækkun húsa, þ.e. í fimm til sex hæðir. Þetta hefur gerst gagnvart eignum Alþingis og fjölmörgum öðrum opinberum húsum í og við Kvosina án þess að húseigendur væru spurðir sérstaklega, eftir því sem ég veit best. Hvað um framhaldið? Verður ef til vill leyft að hækka hús enn frekar í seinni skipulagsreglum án þess að húseigendur verði spurðir? Mín skoðun er sú að Alþingi sé ekki aðeins rétt og skylt að fylgjast vel með því sem er að gerast í nágrenni Alþingishússins og gæta þess að ekki sé brotið gegn rétti sem tengist því. Einnig komi þar til sómi og áhrif Alþingis. Er hætt við að mönnum þyki Alþingi fylgjast illa með málum og vera hirðulaust ef stórfelldar og mögulegar ólögmætar framkvæmdir eiga sér stað í bakgarði Alþingis án þess að forráðamenn þess bregði við.
    Undirritaður er aldursforseti Alþingis og sem slíkur legg ég ríka áherslu á að virðingar og lagalegs réttar Alþingis sé gætt í hvívetna. Þar sem Alþingi situr nú ekki að störfum er óskað eftir að svör ykkar, ágætu forsetar, verði birt opinberlega.

Stefán Valgeirsson


alþingismaður.



Fylgiskjal II.


Orðsending frá forsetum Alþingis.


(Birtist í Morgunblaðinu 14. júní 1988.)



    Að gefnu tilefni vilja forsetar Alþingis taka eftirfarandi fram:
    Samkvæmt reglum um grenndarrétt gaf byggingarfulltrúi Reykjavíkurborgar Alþingi kost á, sem eiganda húsanna Vonarstrætis 12 og Tjarnargötu 5a og lóðanna nr. 10 (hluti) og 10b við Vonarstræti, að tjá sig um framkvæmd ráðhúsbyggingar á lóðinni Tjarnargötu 11.
    Byggingarfulltrúa var sent svofellt bréf, dags. 24. mars 1988:

    Alþingi hefur borist bréf yðar, dags. 25. febrúar sl., þar sem því er gefinn kostur á að tjá sig um fyrirhugað ráðhús á lóðinni nr. 11 við Tjarnargötu.
    Af þessu tilefni skal eftirfarandi tekið fram:
    Alþingishúsið er nú of lítið fyrir Alþingi. Úr þessu er nú bætt með því að koma starfsemi þingsins fyrir í sex húsum, auk Alþingishússins. Eru hús þessi bæði ófullnægjandi og óhentug. Jafnframt er búið við þrengsli í sjálfu Alþingishúsinu.
    Gert er ráð fyrir að núverandi Alþingishús verði notað til frambúðar. En til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að byggja hús í nálægð Alþingishússins fyrir þá starfsemi sem rúmast ekki þar. Þeim húsum er ætlaður staður á landspildunni sem Alþingi hefur til umráða, annars vegar milli Kirkjustrætis og Vonarstrætis og hins vegar milli Templarasunds og Tjarnargötu.
    Alþingi leggur áherslu á að tekið verði fullt tillit til þarfa þess við ráðstöfun byggingalóða í næsta nágrenni Alþingishússins.
    Framangreint bréf yðar hefir verið fengið Garðari Halldórssyni, húsameistara ríkisins, til umsagnar, en embætti hans hefur umsjón með húseignum Alþingis, og Sigurði Einarssyni arkitekt, sem hlaut 1. verðlaun í samkeppni um nýbyggingu Alþingis. Umsagnir þessara manna eru yður hér með sendar.

Þorvaldur Garðar Kristjánsson,

Karl Steinar Guðnason,

Jón Kristjánsson,


forseti sameinaðs Alþingis.

forseti efri deildar.

forseti neðri deildar.




Umsögn.



    Varðar: Grenndarkynningu vegna fyrirhugaðrar byggingar ráðhúss Reykjavíkurborgar við Vonarstræti.
    Samkvæmt sérstakri ósk forseta sameinaðs Alþingis, Þorvalds Garðars Kristjánssonar, hefur undirritaður tekið saman eftirfarandi álit á þeim þáttum er varða hagsmuni Alþingis.
    Með staðfestingu aðalskipulags Reykjavíkur frá 1967 er stigið það skref að ákveða staðsetningu ráðhúss við norðurenda Tjarnarinnar í Reykjavík, þ.e. sunnan Vonarstrætis. Í því deiliskipulagi af miðborg Reykjavíkur, sem staðfest var af félagsmálaráðherra nú nýverið, er hin nákvæma staðsetning ráðhúss endanlega ákveðin. Á grundvelli þeirrar staðsetningar, þ.e. við norðvesturhorn Tjarnarinnar, var haldin samkeppni meðal arkitekta um lausn á ráðhúsi. Nú hefur verið ákveðið að byggja eftir þeirri tillögu sem hlaut fyrstu verðlaun og er leitað álits Alþingis á þeim fyrirhuguðu framkvæmdum.
    Að sjálfsögðu hefði verið æskilegt fyrir Alþingi, sem á nánast allar lóðir milli Vonarstrætis og Kirkjustrætis, að engin bygging hefði risið milli lóða Alþingis og Tjarnarinnar. Þá hefðu byggingar Alþingis í reynd staðið áfram á Tjarnarbakkanum, svo sem Alþingishúsið gerði, þegar það var reist.
    Síðan fyrrnefnt aðalskipulag var staðfest hefur mátt búast við byggingu ráðhúss á þessu svæði, þótt sú ákvörðun hafi í gegnum árin átt misjafnlega miklu fylgi að fagna. Sé horfst í augu við þá staðreynd að ráðhús gæti risið við Tjörnina, sem í reynd var gert í samkeppni Alþingis um nýbyggingu fyrir starfsemi Alþingis á árinu 1986, þá ætti Alþingi eftir atvikum að geta vel unað við fyrirliggjandi tillögu að ráðhúsi.
    Reykjavíkurborg hefur við gerð deiliskipulags að miðborginni lagt þá tillögu, er fékk fyrstu verðlaun í samkeppni Alþingis, til grundvallar við skipulag á lóðum Alþingis. Það þýðir að í hinu nýja deiliskipulagi er bæði gert ráð fyrir nýbyggingu fyrir Alþingi svo og nýbyggingu ráðhúss á svæðinu. Slík uppbygging tveggja veigamikilla stjórnsýslustofnana í miðbænum mun að sjálfsögðu draga að verulega umferð. Í deiliskipulagi miðborgarinnar er horfst í augu við það og ráðstafanir gerðar til þess að mæta því umferðarálagi.
    Samkvæmt deiliskipulagi miðborgarinnar verður ekki annað séð en meginhagsmunum Alþingis sé til skila haldið, þótt formleg afgreiðsla á byggingarmöguleikum Alþingis sé enn eftir. Ekkert bendir til þess að hugmyndir Alþingis geti ekki fallið að öðru leyti innan ramma deiliskipulagsins.
    Niðurstaða:
    Ekki verður því annað séð en að hagsmunir Alþingis á lóðum þess á reitnum milli Vonarstrætis, Tjarnargötu, Kirkjustrætis og Templarasunds séu tryggðir og bygging ráðhúss á nágrannalóð sunnan Vonarstrætis hafi engin veruleg áhrif á hugmyndir Alþingis um nýtingu sinna lóða. Núverandi tillaga að ráðhúsi er öllu hagstæðari fyrir hagsmuni Alþingis en vænta mátti eftir staðfestingu aðalskipulags Reykjavíkur frá 1967. Undirritaður telur því ekki að Alþingi hafi sérstaka ástæðu til þess nú að gera athugasemd við byggingu nýs ráðhúss við norðurenda Tjarnarinnar í Reykjavík.

Reykjavík, 23. mars 1988.


Garðar Halldórsson.



Umsögn vegna grenndarkynningar á ráðhúsi Reykjavíkur.



    Ráðhúsið og umhverfi þess eru í samræmi við skipulag Alþingisreitsins og í gegnum hann eru eðlileg göngutengsl á milli ráðhússins og miðbæjarins.
    Hvað varðar fyrirhugaða nýbyggingu Alþingis er mjög jákvætt það rými og sú litla tjörn sem ráðhúsið myndar á horni Vonarstrætis og Tjarnargötu. Hönnun nýbyggingar Alþingis hefur miðast við að nýta sér það umhverfi sem þetta skapar og er nú fyrirhugað að Tjarnargötuálma nýbyggingarinnar opnist út að þessu „vatnstorgi“ með inngangi.
    Athuga þarf nánar götulínu á horni Vonarstrætis og Tjarnargötu, sem á afstöðumynd ráðhússins er sýnd ganga inn fyrir lóðarmörk Tjarnargötu 5b.

Sigurður Einarsson.