Ferill 75. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 75 . mál.


Nd.

77. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um útflutningsleyfi o.fl., nr. 4 11. janúar 1988.

Flm.: Hreggviður Jónsson, Ingi Björn Albertsson, Óli Þ. Guðbjartsson.



1. gr.

    1. gr. laganna orðast svo:
    Útflutningur hvers konar er frjáls og óháður útflutningsleyfum.
    Útflytjendur eru þó skyldir að veita utanríkisráðuneytinu þær upplýsingar, sem óskað er, um magn og tegund vara eða vinnu sem seld er til útlanda.
    Utanríkisráðuneytinu er heimilt að viðurkenna og hafa samvinnu við félög í einstökum atvinnugreinum sem hafa með gæðaflokkun á einstökum vöruflokkum að gera og getur löggilt slík félög.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er flutt til að draga úr miðstýringu ríkisins. Frjáls útflutningur er forsenda efnahagsframfara og þegar til lengdar lætur skilar hann meiri og betri tekjum í þjóðarbúið en nú er. Það að binda útflutning á vörum leyfisveitingum frá utanríkisráðuneytinu er tímaskekkja og leifar gömlu selstöðuverslunarinnar. Þótt verðfall geti orðið á erlendum mörkuðum vegna offramboðs á stundum er ekki rétt að taka þá ábyrgð og áhættu frá útflytjendum sem ávallt fylgir frjálsum markaðslögmálum. Þegar útflytjendur hafa áttað sig á hvaða lögmál gilda á mörkuðum erlendis munu þeir halda vel á þeim málum. Útflytjendur geta hins vegar sjálfir haft samráð eða félagsskap á milli sín óháð stjórnvöldum. Nú eru allt aðrar forsendur fyrir verslun en fyrst eftir að við fengum hana í okkar hendur. Fjöldi vel menntaðra manna á sviði viðskipta og markaðssetningar er nú í landinu og reynslumiklir kaupsýslumenn sem aðallega eru í innflutningi en gætu vel tekið mun virkari þátt í gjaldeyrisöflun þjóðarinnar en hingað til.
    Nauðsynlegt er samt sem áður að halda uppi gæðaeftirliti og má í því sambandi t.d. efla starfsemi eins og Ríkismat sjávarafurða. Gæðaflokkun og gæðamerking á útfluttum vörum mun skila góðum árangri og má í því tilliti taka Japana sér til fyrirmyndar og gæðamerkingu ýmissa frjálsra neytendasamtaka.