Ferill 109. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 109 . mál.


Nd.

112. Frumvarp til laga



um helgidagafrið.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988.)



I. KAFLI

Tilgangur laganna.

1. gr.

    Um helgidagafrið er mælt í lögum þessum í því skyni að vernda guðsþjónustu og almannafrið á helgidögum þjóðkirkjunnar svo sem nánar er greint í lögunum.

II. KAFLI

Um helgidaga þjóðkirkjunnar og helgidagafrið.

2. gr.

    Helgidagar þjóðkirkjunnar eru þeir sem nú skal greina og er helgidagafriður samkvæmt lögunum markaður með eftirfarandi tímasetningum:
1.     Sunnudagar, annar dagur jóla, nýársdagur, skírdagur, annar dagur páska, uppstigningardagur og annar dagur hvítasunnu frá kl. 10–15.
2.     Jóladagur, föstudagurinn langi, páskadagur og hvítasunnudagur frá upphafi dags til loka hans.
3.     Aðfangadagur jóla frá kl. 18.

III. KAFLI

Athafnir sem andstæðar eru helgidagafriði.

3. gr.

    Óheimilt er að trufla guðsþjónustu eða aðra kirkjuathöfn með hávaða eða öðru því sem andstætt er helgi hennar.

4. gr.

    Meðan helgidagafriður ríkir samkvæmt framansögðu er eftirfarandi starfsemi óheimil:
1.     Opinbert skemmtanahald eða sýningar. Til skemmtana í þessu sambandi teljast einkum:
. a.     Dansskemmtanir, fjölleikahús, revíusýningar og aðrar skemmtisýningar.
. b.     Leiksýningar, ballettsýningar, kvikmyndasýningar, söngskemmtanir og hljómleikar, dans- og leikfimisýningar.
2.     Markaðir, vörusýningar, verslunarstarfsemi og viðskipti.
3.     Skemmtanir þar sem happdrætti eða bingó eða svipuð spil eru höfð um hönd.
4.     Skemmtanir á opinberum veitingastöðum eða á öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að.

5. gr.

    Eftirfarandi starfsemi er undanþegin banni því er greinir í 4. gr.:
1.     Lyfjabúðir og bensínsölur. Enn fremur brauð- og mjólkurbúðir, blómasölur og söluskálar á öðrum dögum en þeim sem frá er greint í 2. tölul. 2. gr.
2.     Listsýningar og sýningar, sem varða vísindi eða er ætlað að gegna almennu upplýsingarhlutverki, má halda eða veita aðgang að á þeim tímum þegar helgidagafriður á að ríkja skv. 1. og 2. tölul. 2. gr., en þó ekki fyrr en kl. 15 á þeim dögum er greindir eru í 2. tölul. Listasöfn og bókasöfn má hafa opin á þeim tímum og dögum sem hér var greint.
3.     Samkomur sem hafa listrænt gildi og samrýmast í eðli sínu helgidagafriði eru heimilar eftir kl. 15, einnig á þeim helgidögum sem greinir í 2. tölul. 2. gr.
4.     Söngmót, hljómlistarmót og hljómleikar eru heimil eftir kl. 15 á hvítasunnudegi.

6. gr.

    Íþróttakeppni og íþróttamót eru heimil á dögum þeim er greinir í 1. tölul. 2. gr. ef slíkt er nauðsynlegt vegna tilhögunar móta. Hinu sama gegnir um páskadag og hvítasunnudag eftir kl. 15.
    Ákvæði 1. mgr. eiga ekki við um keppni vélknúinna farartækja, þar á meðal loftfara, veðreiðakeppni og íþróttakeppni eða íþróttamót atvinnumanna.

IV. KAFLI

Ýmis ákvæði.

7. gr.

    Lögreglustjóri getur, þegar sérstakar ástæður mæla með því, leyft að halda skemmtanir, samkomur og sýningar eða stofna til svipaðrar starfsemi, sem
greinir í 4. gr., á þeim tíma sem helgidagafriður á að ríkja. Skjóta má ákvörðun lögreglustjóra til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.

8. gr.

    Dóms- og kirkjumálaráðuneytið getur kveðið nánar á um hver starfsemi sé óheimil samkvæmt lögunum, svo og sett nánari reglur um framkvæmd laganna.
    Dóms- og kirkjumálaráðuneytið skal gera sérstakar ráðstafanir til að kynna almenningi efni þessara laga.

9. gr.

    Brot gegn lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim varða sektum.

10. gr.

    Lög þessi taka þegar gildi.
    Frá gildistöku laganna falla úr gildi lög um almannafrið á helgidögum þjóðkirkjunnar, nr. 45 15. júní 1926, sbr. 5. gr. laga nr. 75 13. maí 1982.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Kirkjulaganefnd undirbjó á árinu 1984 frumvarp til laga um almannafrið á helgidögum þjóðkirkjunnar, en í nefndinni áttu sæti séra Pétur Sigurgeirsson biskup, formaður, dr. Ármann Snævarr hæstaréttardómari og Baldur Möller ráðuneytisstjóri. Ármann Snævarr samdi greinargerð með frumvarpinu. Var frumvarpið ásamt greinargerð lagt fyrir kirkjuráð og síðan fyrir kirkjuþing 1985 og 1986. Í fyrra skiptið samþykkti kirkjuþing frumvarpið með nokkrum breytingum. Í síðara skiptið afgreiddi kirkjuþing frumvarpið svo að felldar voru úr því 4.–7. gr. er samsvara 4.–7. gr. þessa frumvarps þar sem nánari ákvæði eru sett um þá starfsemi sem óheimil er á helgidögum almennt eða á nokkrum þeirra sérstaklega og einnig ákvæði um heimild lögreglustjóra til að veita undanþágur frá lögunum. Samkvæmt því skyldi frumvarpið aðeins fjalla um það hverjir vera skyldu helgidagar þjóðkirkjunnar og um friðunartíma einstakra helgidaga og svo skyldi vera þar almennt ákvæði er legði bann við því að trufla guðsþjónustu eða kirkjuathöfn, sbr. 3. gr. þessa frumvarps. Gert var ráð fyrir að málum þeim, sem ákvæði þau í frumvarpinu viku að er niður voru felld, yrði skipað með reglugerð.
    Af hálfu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins hefur frumvarpið, eins og það kom frá kirkjuþingi, sætt rækilegri athugun. Þau ákvæði í frumvarpi kirkjulaganefndar, sem kirkjuþing felldi niður, varða ekki síst löggæslu og
lagaframkvæmd. Þótt kirkjuþing 1986 hafi talið heppilegra að fjalla um þessa þætti í reglugerð en í lögunum sjálfum lýsir afgreiðslan út af fyrir sig ekki andstöðu við efnisákvæði þau í frumvarpinu sem hér er um að ræða, sbr. og afgreiðslu kirkjuþings 1985.
    Grundvallarspurningin er hér sú hvort ráðlegra sé að skipa ákvæðum um nánari afmörkun á þeirri starfsemi, sem ætlunin er að sporna við á helgidögum, með reglugerð eða með lögum. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið telur síðari leiðina heppilegri af eftirfarandi ástæðum:
a.     Helgidagalöggjöf varðar mjög almenning á landi hér. Ákvæði laga eru að jafnaði betur kunn en ákvæði reglugerða. Ólíkt er greiðara fyrir almenning og raunar einnig þá sem fylgjast eiga með framkvæmd þessara réttarreglna að kynna sér lög í lagasafni en að leita uppi reglugerð. Öll meginatriði slíkra reglna ættu að vera í lögunum sjálfum.
b.     Þá er eðlilegt að löggjafinn kveði á um þau atriði sem greinir í þeim ákvæðum er hér um ræðir, þ.e. 4.–7. gr. þessa frumvarps. Þar reynir á atriði sem varða mjög almenning og þá sem standa fyrir margs konar félags- og atvinnustarfsemi. Grundvöllur reglugerðarákvæða, sem væntanlega er þörf á, sbr. 8. gr. frumvarps þessa, verður enn fremur traustari ef löggjafinn hefur fjallað um þessi efni og markað meginstefnu í þeim.
    Frumvarp það, sem hér er flutt, er að efni til í samræmi við þau grundvallarsjónarmið sem hér var lýst. Nánar skal þess getið að 1.–3. gr. frumvarpsins eru í megindráttum í samræmi við afgreiðslu kirkjuþings 1986 á frumvarpi því er kirkjulaganefnd samdi. Ákvæði 4.–10. gr. frumvarpsins eru að sínu leyti í megindráttum byggð á frumvarpi kirkjulaganefndar, en þó nokkru styttri um einstaka atriði og er hliðsjón höfð af afgreiðslu kirkjuþings 1985 sem taldi að ákvæði þessi ættu að vera í frumvarpinu sjálfu. Ákvæði 2. gr. frumvarpsins um helgidaga og afmörkun á helgi þeirra er í samræmi við afgreiðslu kirkjuþings, þó svo að gert er ráð fyrir að helgi skírdags verði hin sama og sunnudaga, sbr. 1. tölul. 2. gr., og sleppt er ákvæðinu um að bann liggi við skemmtanahaldi laugardaga fyrir páska og hvítasunnu frá kl. 21.
    Greinargerð sú, sem hér fer á eftir, er að mestu byggð á athugasemdum þeim er fylgdu frumvarpi kirkjulaganefndar til kirkjuþings, en þó löguð að þeim breytingum sem felast í frumvarpi þessu.

I.


    Löggjöf um helgidaga og helgidagahald á langa sögu að baki á landi hér. Að efni til hefur sú löggjöf verið næsta mismunandi og grundvallarsjónarmiðin að
baki hennar hafa verið sundurleit. Sú löggjöf hefur lengstum verið af trúarlegum toga spunnin. Viðhorf í kaþólskum sið voru önnur en eftir siðskipti að því er varðar messudag og vernd helgidaga. Píetisminn svonefndi hafði að sínu leyti mikil áhrif á þá löggjöf á 18. öldinni og á hinn veginn ýmsar frjálslyndar trúarstefnur síðar meir. Á síðustu áratugum tengjast ýmis vinnuverndarsjónarmið þessu máli, þ.e. viðleitni til að tryggja vinnandi fólki frídaga. Við könnun á efni helgidagalöggjafar grípa einnig löggæslusjónarmið inn í matið og leiða til þess að haga verði löggjöfinni svo að unnt sé að framfylgja henni. Í þessu efni leitar vitaskuld á afstaða almennings til helgidaga og helgidagahalds og sú almenna afstaða að ekki eigi að hefta frjálsræði manna til athafna og starfsemi, nema í berhögg gangi við brýna þjóðfélagshagsmuni. Benda má sérstaklega á að hér á landi hefur verið fjallað allmikið um sölustarfsemi í helgidagalöggjöf. Víða annars staðar fellur það svið utan helgidagalöggjafar og um það er fjallað til hlítar í löggjöf um lokunartíma sölubúða. Ekki er kunnugt um neina félagsfræðilega rannsókn, sem marktæk sé, um afstöðu almennings til helgidaga og helgidagalöggjafar hér á landi og væri þó full þörf á slíkri rannsókn.

II.


    Ákvæðin um helgidaga og helgidagahald voru upprunalega í kristinna laga þætti, sbr. síðar Kristinrétt Árna biskups Þorlákssonar, 31.–37. kap. Sú löggjöf var víðtækari en helgidagalöggjöf síðari alda. Voru m.a. ákvæði um að meir segðist á brotum sem unnin væru á helgum dögum en endranær. Við siðskipti urðu aldahvörf og er talið að 26 messudagar hafi verið afnumdir með kirkjuskipan Kristjáns III. frá 1537, er var lögfest hér 1541 og 1551, en raunar bætti það lagaboð við helgidögum, þótt í litlum mæli væri, og breytti auk þess ákvæðum um helgidagahald öðrum þræði. Í Alþingissamþykkt 1552 var fjallað um helgibrot, kirkjugrið og helgidagahald og er m.a. getið þar tveggja helgidaga sem kirkjuskipanin vék ekki að sérstaklega, þ.e. skírdegi og föstudeginum langa. Síðari lagaboð, m.a. kirkjuskipan Kristjáns IV. frá 1607, lögfest hér 1629, áréttuðu ákvæði fyrri kirkjuskipanar (frá 1537). Helgisiðabókin frá 1685 var ekki lögleidd hér á landi þótt eftir henni væri farið í ýmsum greinum. Ákvæði dönsku og norsku laga frá 1683 og 1687 um helgidaga og helgidagahald, og að svo miklu leyti sem því var til að dreifa, voru ekki lögleidd hér á landi. Tilskipunin um tilhlýðilegt helgihald sabbatsins og annarra helgra daga frá 29. maí 1744 á rót að rekja til píetismans og voru þar ströng ákvæði um helgihald og m.a. um kirkjusókn. Tilskipun 26. október 1770 stafar frá tímum
Struensee og ber vott um frjálslyndi þeirra tíma. Þá voru nokkrir helgidagar afnumdir, en eftir sem áður gilti tilskipun 29. maí 1744 að verulegu leyti. Helgidagalöggjöf Dana var breytt mjög í frjálsræðisátt með nýjum lögum frá 1845. Alþingi bárust, er það var endurreist, bænaskrár um breytingar á helgidagalöggjöf. Með tilskipun frá 1855 var komið á nýskipan að því er varðaði helgihaldið og var sú löggjöf mjög reist á dönsku helgidagalögunum frá 1845. Var þessi skipan ólíkt frjálslegri en hin fyrri skipan og þótti sumum of langt gengið sérstaklega með að draga úr friðun sunnudaga. Þessu atriði var breytt með opnu bréfi 28. september 1860.
    Þegar leið á 19. öldina voru flutt frumvörp á Alþingi er vörðuðu þetta mál, m.a. 1893, um afnám helgidaga, skírdags, uppstigningardags, annars dags í páskum og hvítasunnu og kóngsbænadags. Frumvarp þetta náði aðeins fram að ganga að því er varðar afnám kóngsbænadags, sbr. lög nr. 37/1893. Þá voru sett sérstök lög um fermingu og affermingu skipa, nr. 19/1897, en heildarlög um helgidaga, sem sett voru í Danmörku 1876, voru hvorki lögfest hér á landi né lög sniðin eftir þeim. Hins vegar voru lögtekin ný lög um helgidaga og helgidagahald árið 1901, sbr. lög nr. 47 sama ár. Var þar kveðið rækilega á um helgidagahald, en helgidagar látnir haldast. Í meðferð málsins á Alþingi kom glögglega fram að greina bæri í milli helgidagalöggjafar og vinnuverndarlöggjafar. Fáum árum seinna (árið 1919) var flutt frumvarp á Alþingi sem var gagngert af vinnuverndarrótum runnið og mælti fyrir um það að helgidagar yrðu raunverulega að hvíldardögum fyrir verkamenn.
    Núgildandi lög um þetta efni eru nr. 45/1926. Þau fólu m.a. í sér þá breytingu að takmarka skyldi vinnu við fermingu og affermingu skipa á helgidögum og í öðru lagi var leyft að hafa fleiri verslanir opnar á helgidögum en áður og einnig þjónustustofnanir. Skírdegi var ekki gert hærra undir höfði en sunnudögum og almennar skemmtanir voru bannaðar eftir kl. 18 kvöldið fyrir stórhátíðar. Þessi lög hafa gilt í rösklega sex áratugi, óbreytt að kalla, en eina breytingin varðar refsiviðurlög í 8. gr. sem breytt var með lögum nr. 75/1982 er fjalla m.a. um sektarmörk nokkurra laga.

III.


    Við samningu frumvarps kirkjulaganefndar viðaði hún að sér löggjöf um þetta efni frá allmörgum löndum í Evrópu. Helsta fyrirmynd frumvarpsins eru norsku helgidagalögin, en einnig hefur verið höfð hliðsjón af öðrum erlendum lögum, m.a. dönsku lögunum, sem ganga skemur í friðun helgidaga en frumvarp þetta.
    Skal nú fyrst geta nokkurra almennra sjónarmiða sem leita á við samningu frumvarps um þetta efni, en síðar verða settar fram athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

1. Nokkur almenn sjónarmið, stefnumörkun.
    Oft er því haldið fram að helgidagalöggjöf sé „slælega framfylgt“ eins og tekið er til orða. Könnun málsins veitir vísbendingu um að lögreglustjórum sé hér ærinn vandi á höndum. Bent er m.a. á það af hálfu þeirra sem framkvæmdin hvílir á að friðaðir séu dagar sem lítil helgi virðist hvíla á í hugum almennings, sbr. t.d. uppstigningardagur og skírdagur og laugardagur fyrir páska og hvítasunnu (eftir kl. 18). Þá er vísað til þess að athafnir séu óheimilar sem lítil ástæða sé til að amast við, svo sem blómasala á skírdegi eða uppstigningardegi, svo að dæmi séu nefnd. Þeir sem kunnugir eru framkvæmd laganna benda einnig á að framkvæmdin sé talsvert mismunandi eftir lögsagnarumdæmum, jafnvel þeim sem liggja hlið við hlið, þar á meðal um undanþágur sem lögreglustjórar veita. Bent er á sérstök álitamál út af íþróttamótum, listahátíðum og kvikmyndasýningum í tengslum við þær. Í sumum umdæmum hefur það vandamál leitað á hvernig líta eigi á mannfundi sem til er stofnað á messutíma. Þurfa þeir út af fyrir sig ekki að trufla guðsþjónustu sem slíka, en slík tilhögun getur þó verið til ama fyrir þá sem að kirkjuathöfn standa, án þess þó að því sé haldið fram að það sé tilgangur helgidagalöggjafar að vernda kirkjuna gegn samkeppni annarra samtaka eða félaga.
    Eitt af vandamálum við samningu frumvarps um helgidaga og helgidagahald er sú spurning hvort sú löggjöf eigi að taka til atvinnustarfsemi eins og verslunar. Mætti hugsa sér að svar við slíkri spurningu yrði neikvætt og það ylti þá alveg á löggjöf um opnunartíma sölubúða og annarra þjónustustofnana hvernig þessu máli væri skipað. Svo virðist gert t.d. í norskri löggjöf. Hér á landi hefur hin leiðin verið farin, enda getur verslunarstarfsemi raskað mjög þeirri helgi sem eðlilegt má telja að hvíli á helgidögum.
    Vert er að taka fram að inn í helgidagalöggjöf og hvernig hún verði úr garð gerð grípa ýmis sjónarmið sem ekki varða kirkjupólitík. Ef fækka ætti t.d. helgidögum mætti búast við að launþegasamtökin risu öndverð gegn því bæði frá vinnuverndarsjónarmiði og af kjaraástæðum. Að sínu leyti mætti vænta viðbragða frá samtökum verslunar- og skrifstofumanna ef breyta ætti reglum um lokunartíma sölubúða o.fl. stofnana með ákvæðum helgidagalöggjafar. Hér kemur einnig til, svo sem
fyrr greinir, tillit til löggæslu. Ugglaust er örðugt að fylgja eftir helgidagalöggjöf sem ekki er í samræmi við viðhorf almennings til þessara mála og er það þó engan veginn auðkannað. Þá skiptir það miklu fyrir löggæslu að sem gleggst viðmiðun sé gefin í lögunum sjálfum um hverjar athafnir það séu sem lögin óheimila. Vart verður hjá því komist að heimila lögreglustjórum að veita undanþágur frá banni laga sem þessara, en þá er mikilvægt að reyna að samræma eftir föngum framkvæmd slíkra mála í mismunandi lögsagnarumdæmum.

2. Ætti að fækka helgidögum?
    Umræður síðustu ára hafa einkum hnigið að afnámi skírdags og uppstigningardags og svo friðunar laugardags fyrir páska og hvítasunnu (eftir kl. 18).
    Í frumvarpi þessu er hvorki lagt til að skírdagur né uppstigningardagur séu numdir úr tölu helgidaga. Er ekki sýnilegt að allur almenningur óski slíkrar breytingar og sú breyting mundi örugglega sæta mikilli andspyrnu af hálfu kirkjunnar manna.
    Spurning um afnám friðunar laugardaga fyrir páska og hvítasunnu horfir öðruvísi við. Danir hafa afnumið þá friðun og Norðmenn einskorða hana við tímabilið eftir kl. 21. Í frumvarpi þessu er fylgt danska fordæminu og lagt til að dregið verði úr friðuninni sem nú gildir. Reynslan hefur leitt í ljós að framkvæmd þessara ákvæða er mjög örðug og ákvæðin alloft ekki virt. Samkvæmt frumvarpinu yrðu t.d. kvikmyndasýningar heimilar laugardag fyrir páska og hvítasunnu allt til kl. 12 á miðnætti.

3. Við hverjum athöfnum eða starfsemi er réttmætt að sporna á friðuðum dögum?
    Frá lagatæknilegu sjónarmiði koma hér einkum tveir kostir til greina. Annars vegar að greina sem rækilegast í lögunum sjálfum við hverri starfsemi sé spornað. Hinn kosturinn er að greina þetta aðeins með almennu orðalagi og láta annað velta ýmist á reglugerðarákvæðum eða mótast af lagaframkvæmd. Dönsku lögin fylgja síðari stefnunni, en hin norsku (og gildandi lög hér á landi) hinni fyrri. Í frumvarpinu er miðað við þá stefnu sem síðast var greind og norsku lögin lögð mjög til grundvallar. Stefnt er að því að sem auðveldast verði fyrir almenning og svo löggæsluaðila að átta sig á bannákvæðunum, einkum með því að sérgreina þær athafnir og þá starfsemi sem bann er lagt við, sbr. 4. gr., og svo að sínu leyti frávik frá því, sbr. 5. og 6. gr.
    Í 3. gr. frumvarpsins er almennt ákvæði um athafnir og starfsemi sem raskar helgi guðsþjónustunnar og kirkjuathafna sem slíkra. Í 4. gr. er hins
vegar sérgreint ákvæði sem kveður allnáið á um athafnir og starfsemi sem andstæðar eru helgidagafriði. Ætti slíkt ákvæði að hafa verulegt leiðsögugildi fyrir þá sem við lögin eiga að búa. Frávik frá banni 4. gr. er svo lögmælt bæði í 5. gr. og 6. gr. þar sem m.a. er tekið tillit til viðskiptaþarfa og virt þörfin á að hafa menningarlega og listræna viðburði á helgum dögum, svo sem listsýningar, samkomur um listræn efni o.fl., sbr. 5. gr., og svo er komið til móts við óskir og þarfir íþróttamanna með ákvæði 6. gr. Um verslunarstarfsemi er dregið úr banni að vissu marki og reynt að sníða ákvæði að breyttum þörfum, viðhorfum og viðskiptaháttum.
    Ekki er vikið sérstaklega að skólastarfsemi í frumvarpinu, enda er það mál allt í tiltölulega föstum skorðum. Þá eru hér ekki sérákvæði um útvarps- og sjónvarpsstarfsemi á helgum dögum og eru engar skorður reistar við henni í frumvarpinu. Vænta má þess að stjórnvöld og aðrir forráðamenn þeirra mála taki tillit til helgidaga í efnisvali sínu þá daga.

4. Yfirlit yfir friðunartíma helgidaga samkvæmt frumvarpinu.
a.     Helgidagar alfriðaðir allan sólarhringinn:
.     Jóladagur, föstudagurinn langi, páskadagur og hvítasunnudagur, sbr. 2. tölul. 2. gr.
b.     Friðun frá kl. 10 til 15:
.     Sunnudagar, nýársdagur, skírdagur, annar dagur páska, uppstigningardagur, annar dagur hvítasunnu og annar dagur jóla, sbr. 1. tölul. 2. gr.
c.     Friðun frá kl. 18:
.     Aðfangadagur jóla, sbr. 3. tölul. 2. gr.
d.     Frávik frá friðunartímum eru í 5. og 6. gr.
e.     Aukin friðun getur leitt af ákvæði 3. gr.

5. Efni frumvarpsins miðað við gildandi lög nr. 45/1926.
a.     Helgidagar eru hinir sömu samkvæmt frumvarpinu og samkvæmt lögum nr. 45/1926, en þeir eru greindir í frumvarpinu andstætt því sem nú er.
b.     Frumvarpið gerir ráð fyrir að felld verði niður friðun laugardaga fyrir páska og hvítasunnu eftir kl. 18.
c.     Friðun sunnudaga og annarra helgidaga, er greinir í 1. tölul. 2. gr., er kl. 10–15 samkvæmt frumvarpinu, en kl. 11–15 nú.
d.     Ákvæðin um starfsemi þá, sem bönnuð er á helgidögum, eru sérgreindari í frumvarpinu en samkvæmt lögum nr. 45/1926 og lagt er til að ýmis frávik verði lögfest í samræmi við reynslu manna af þeim lögum.
e.     Vakin er athygli á að ekki eru tekin upp í frumvarpinu ákvæði er svari til sérákvæða 1. gr. laga nr. 45/1926, eigi heldur ákvæði 5. gr. þeirra laga um sveitarstjórnarfundi o.fl. og 6. gr. um almenna fundi. Að því er varðar síðastgreinda fundi má þó benda á ákvæði 3. gr. frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er lagt til að sérstakt ákvæði verði um tilgang laganna og er það nýmæli. Getur það haft almennt gildi um viðhorf löggjafans til þessara mála auk þess sem það ákvæði getur komið að gagni almennt við lögskýringu á einstökum ákvæðum.

Um 2. gr.


    Í gildandi lögum er ekki ákvæði um það hverjir dagar séu helgidagar þjóðkirkjunnar og er það ágalli. Úr þessu er bætt með þessu ákvæði frumvarpsins.
    Svo sem fyrr er greint er ekki lagt til að breyting verði gerð á því hverjir dagar séu helgidagar, en hins vegar felast vissar breytingar á friðunartíma í frumvarpsgreininni.
1.     Friðunartími sunnudaga, nýársdags, skírdags, annars dags páska, hvítasunnu og jóla, svo og uppstigningardags er samkvæmt frumvarpinu kl. 10 til 15, en er samkvæmt gildandi lögum kl. 11 til 15. Stafar þetta af því að messutími hefur nokkuð breyst og eru messur kl. 10 nú tíðkaðar að vissu marki.
2.     Ákvæði 2. og 3. tölul. eru í samræmi við lög og venjur.
3.     Ákvæði 2. mgr. 7. gr. laga nr. 45/1926 um bann við skemmtunum laugardaga fyrir páska og hvítasunnu er ekki í frumvarpinu af ástæðum sem áður eru greindar.

Um 3. gr.


    Ákvæði þetta, er leggur bann við að trufla guðsþjónustu eða aðrar kirkjuathafnir, er svipaðs efnis og 3. mgr. 122. gr. almennra hegningarlaga, en virðist þó eiga hér einnig heima. Það er til viðbótar 2. gr. að því leyti að guðsþjónusta eða önnur kirkjuathöfn nýtur verndar þótt hún fari fram utan hins markaða friðunartíma skv. 2. gr. Þá er ákvæðið að sínu leyti viðbót við t.d. 4. gr. þar eð ekki skiptir máli hvers konar starfsemi eða háttsemi um
er að ræða ef hún truflar guðsþjónustuhald o.fl. Oftast mundi háttsemin fara fram í grennd við kirkju, en ekki þarf það þó að vera.

Um 4. gr.


    Í þessu ákvæði eru settar fram hinar almennu reglur um starfsemi sem óheimiluð er meðan helgidagafriður ríkir skv. 2. gr. Frá banni 4. gr. eru undantekningar, sbr. 5. gr., er varða listsýningar o.fl., samkomur og mót sem hafa listrænt gildi og 6. gr., er varðar íþróttamót. Þá er lögreglustjóra heimilað í 7. gr. að veita undanþágur frá banni þegar sérstakar ástæður mæla með því.
    Í 1. tölul. er vikið að opinberum skemmtunum og sýningum þar sem fram fer dans, fjölleikasýningar, revíusýningar og aðrar svipaðar sýningar, sbr. a-lið 1. tölul., eða leiksýningar, ballettsýningar, kvikmyndasýningar, söngskemmtanir og hljómleikar, dans- og leikfimisýningar, sbr. b-lið 1. tölul. Til viðbótar því eru svo ákvæði 3. og 4. tölul. um skemmtanabann, en skemmtun þarf ekki að vera opinber að því er varðar 3. tölul.
    Vafi getur leikið á því hvernig skýra eigi hugtakið opinber skemmtun eða sýning skv. 4. gr. Í 4. gr. er ekki skýr greining á þessu. Hér er miðað við að skemmtun, sýning o.fl. sé opinber ef aðgangur að henni er frjáls fyrir almenning eða óákveðinn hóp manna eða fyrir félagsmenn og boðsgesti þeirra þegar félag, samtök manna eða stofnun gengst fyrir samkomu, sýningu eða fundi eða öðru því er hænir að mannsöfnuð. Skiptir ekki máli í því sambandi hvort aðgangseyrir er krafinn eða ekki og gegnir einu hver fundar-, sýningar- eða samkomustaður er eða hvort hann er utan húss eða innan. Þetta hugtak hlýtur að mótast af lagaframkvæmd, en rétt væri að afmarka það nánar í stjórnvaldsreglum, sbr. 8. gr.
    Í 2. tölul. eru ákvæði um markaði, vörusýningar, verslunarstarfsemi og viðskipti. Auk verslana falla undir þetta ákvæði bankar og sparisjóðir, verðbréfaviðskipti, fasteignasölur o.fl. Sérákvæði er víkur frá þessu banni er svo í 1. tölul 5. gr. Lög er varða opnunartíma sölubúða gætu mælt fyrir um aðra hætti í þessu sambandi.
    Í 3. tölul. er vikið að skemmtunum þar sem happdrætti eða bingó eða svipuð spil eru höfð um hönd. Þykir rétt að hafa sérákvæði um það efni. Hér getur verið um einkasamkvæmi að ræða, þ.e. ekki þarf skemmtun að vera opinber.
    Í 4. tölul. eru skemmtanir á opinberum veitingastöðum o.fl. bannaðar. Hér er þó ekki talað um opnun slíkra veitingastaða og ekki um áfengisveitingar, sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 335/1983. Hótelstarfsemi, sem slík, fellur heldur ekki undir þennan tölulið.

Um 5. gr.


    Greinin felur í sér nánari afmörkun á þeirri starfsemi, sem 4. gr. spornar almennt við. Með ákvæði 1. tölul. er viss sölustarfsemi þegin undan banni 4. gr. á öðrum helgidögum en þeim er greinir í 2. tölul. 2. gr., sbr. hér til athugunar 2. gr. laga nr. 45/1926. Með ákvæðum 2.–4. tölul. er lagt til að listsýningar, sýningar er varða vísindi o.fl., svo og samkomur um listræn efni og hljómleikar verði leyfilegir einnig á þeim dögum er greinir í 2. tölul. 2. gr., en þó ekki fyrr en eftir kl. 15. Um listasöfn og bókasöfn gegnir hinu sama. Gert er ráð fyrir að í stjórnvaldsreglum, sbr. 8. gr., verði nánari ákvæði um þessi efni.

    Um 1. tölul.
    Þótt verslun hafi á boðstólum aðrar vörur en brauð og mjólk fellur hún undir töluliðinn ef brauð og mjólk (mjólkurafurðir) eru aðalsöluvara. Ísbúðir falla undir þetta ákvæði með sama fyrirvara. Framangreind athugasemd á einnig við um blómaverslanir. Með söluskála („sjoppu“) er hér átt við smáverslanir er hafa á boðstólnum fyrst og fremst sælgæti, gosdrykki, tóbaksvörur, hreinlætisvörur og sumpart brauð og mjólkurafurðir auk blaða og tímarita. Almennar matvöruverslanir falla utan marka þessa töluliðar. Blaðasala fellur undir ákvæðið þótt ekki sé sérstaklega að því vikið í frumvarpinu. Ekki eru sérstakar tímatakmarkanir greindar í frumvarpinu á þeim helgidögum þegar verslun er leyfileg, en þær leiða af réttarreglum um opnunartíma sölubúða. Gæta verður hér ákvæða 3. gr. frumvarpsins við beitingu þessa töluliðar.

    Um 2. tölul.
    Sýningar með listrænu efni er hafa sérstöðu, enda er æskilegt að almenningur eigi kost á ýmiss konar listrænum sýningum o.fl. á helgidögum. Sýningar um vísindaleg efni og varðandi almennar upplýsingar hafa einnig nokkra sérstöðu og þetta er ljóst um listasöfn og bókasöfn.
    Með listsýningum er hér átt við sýningar á myndlist, teikningum, grafík, höggmyndum, listvefnaði, mynstrum, textíl, keramík, ljósmyndum og listræna gjörninga o.fl.
    Með sýningu, er varðar vísindi, er átt við sýningar á vísindatækjum, vísindalegum vinnubrögðum og nýjungum og vísindaárangri almennt, handritasýningu og sýningu vísindarita. Þá gæti einnig fallið hér undir sýning á húsnæði sem ætlað væri til vísindastarfsemi.
    Sýningar sem ætlað er að gegna upplýsingahlutverki geta t.d. varðað nýjungar í mannvirkjum eða mannvirkjagerð (byggingartækni) eða upplýsingar um félagslega þjónustu, skólastarfsemi, bókasafnsþjónustu, byggingarþjónustu eða kynningu á skipulagshugmyndum og fyrirætlunum sveitarfélags er því tengjast.
    Ekki má almennt fara fram sölustarfsemi eða skemmtanahald í tengslum við sýningar þær er greinir í 2. tölul. Við listsýningar o.fl. mætti þó selja upplýsingarit, sýningaskrár, ljósmyndir (kort) af listaverkum sem þar eru, svo mætti og hafa með höndum t.d. veitingasölu á listasafni eða í húsnæði þar sem listsýning er haldin. Bóksala fellur ekki undir ákvæði þessa töluliðar. Listasöfn, sem vikið er að í 2. tölul., geta verið hvort heldur opinber söfn eða söfn sem rekin eru af einstaklingum eða félögum.

    Um 3. tölul.
    Með samkomum þeim, sem töluliðurinn víkur að, er átt við samkomur um listræn efni, þar á meðal á vegum listahátíða, sbr. og bókmennta- og listkynningar ella.

    Um 4. tölul.
    Í ákvæðinu felst engin takmörkun á því hvers konar hljómlist verði leikin á tónleikum er ákvæðið tekur til.

Um 6. gr.


    Alltítt er að íþróttamót séu haldin á helgidögum, þar á meðal á stórhátíðum eða óskað sé að þau verði þá haldin. Þykir eðlilegt að koma til móts við óskir og þarfir íþróttamanna og íþróttafélaga með sérákvæði 6. gr. Samkvæmt því er lagt til að heimilt verði að halda slík mót á helgidögum er greinir í 1. tölul. 2. gr. ef slíkt er nauðsynlegt vegna tilhögunar móts, þó að aðgættri 3. gr. (um truflun guðsþjónustu eða annarrar kirkjuathafnar). Hinu sama gegnir um páskadag og hvítasunnudag eftir kl. 15 (hins vegar ekki jóladag og ekki föstudaginn langa). Þarf því ekki á að halda leyfi lögreglustjóra til þeirrar starfsemi, sem 6. gr. tekur til, innan þeirra takmarka sem lýst var.
    Mót hestamanna falla ekki undir bannákvæði 4. gr., en keppni í hestamennsku, veðreiðar og annað þvíumlíkt á undir 6. gr.
    Samkvæmt 2. mgr. á ákvæðið ekki við um keppni vélknúinna farartækja o.fl. og ekki heimilar það keppni atvinnuíþróttamanna á þeim tímum sem hér er um að ræða.

Um 7. gr.


    Ákvæðið varðar leyfi er lögreglustjóri getur veitt til að halda skemmtanir, sýningar o.fl. sem óheimilar eru samkvæmt frumvarpinu. Verða slík leyfi nú sjaldgæfari en áður var, sbr. athugasemdir hér að framan, og er mikilvægt að reyna að samræma framkvæmd laganna að þessu leyti, þar á meðal með stjórnvaldsreglum, sbr. 8. gr. Lögreglustjóra ber ávallt að aðgæta ákvæði 3. gr. við leyfisveitingu. Skjóta má ákvörðun lögreglustjóra til dóms- og kirkjumálaráðuneytis hvort sem hún er jákvæð eða neikvæð (til samþykktar eða synjunar).

Um 8. gr.


    Hér eru fyrirmæli um setningu stjórnvaldsreglna. Má einkum vænta þess að fyllri ákvæði verði sett um þá starfsemi sem lögin kunna að sporna við og svo um undanþágur skv. 7. gr. Eðlilegt væri að leita umsagnar biskups áður en reglugerð yrði sett og einnig er æskilegt að leita umsagnar stjórnar sýslumannafélagsins og annarra aðila eftir atvikum.
    Í 2. mgr. er dóms- og kirkjumálaráðuneyti boðið að gera sérstakar ráðstafanir til að kynna almenningi efni laganna. Er það mikilvægt því að reynslan hefur leitt í ljós að oft haga menn sér andstætt ákvæðum slíkrar löggjafar meir vegna vanþekkingar á henni en vilja til að virða að vettugi.

Um 9. gr.


    Hér er kveðið á um refsiviðurlög í samræmi við markaða stefnu um slík viðurlög í sérrefsilöggjöf, sbr. lög nr. 75/1982 og nr. 10/1983. Ekki eru hér lögmælt önnur viðurlög við brotum á lögunum, svo sem svipting atvinnuréttinda.

Um 10. gr.


    Hér eru gildistökuákvæði og ákvæði um brottfallin lög og þarfnast ákvæðið ekki sérstakrar umsagnar.