Ferill 168. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 168 . mál.


Sþ.

181. Tillaga til þingsályktunar



um niðurfellingu vegabréfsáritana vegna Frakklandsferða Íslendinga.

Flm.: Ragnhildur Helgadóttir, Kjartan Jóhannsson, Guðmundur G. Þórarinsson,


Ragnar Arnalds, Kristín Halldórsdóttir, Hreggviður Jónsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir því við frönsku ríkisstjórnina að hún felli niður skyldu Íslendinga til að fá vegabréfsáritun vegna Frakklandsferða.

Greinargerð.


    Tillaga þessi er flutt af sendinefnd Alþingis á þingi Evrópuráðsins ásamt varamönnum og er í samræmi við eindreginn vilja þings Evrópuráðsins um að lönd innan þess njóti sams konar undanþágu frá vegabréfsáritun í Frakklandi eins og gildir um ríkin tólf í Evrópubandalaginu, auk Sviss og Liechtenstein.
    Forseti þings Evrópuráðsins, Louis Jung, hefur reynt að fá ríkisstjórn Frakklands til að aflétta áritunarskyldunni og með því framfylgt ályktunum ráðsins. Til að árangur náist er mikilvægt að vilji ríkisstjórna þeirra landa, sem í hlut eiga, komi einnig fram með formlegum hætti.
    Franska ríkisstjórnin tók árið 1986 ákvörðun um skyldu til vegabréfsáritunar og var það öryggisráðstöfun vegna hættu á hryðjuverkum. Undanþága er veitt fyrir fjórtán framangreind ríki en tillaga þessi er nú flutt til að stuðla að því að afnumin verði mismunun gagnvart öðrum ríkjum Evrópuráðsins. Sams konar tillögur eru einnig fluttar um þessar mundir á þjóðþingum þeirra landa sem eins stendur á um og Ísland að þessu leyti.