Ferill 173. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 173 . mál.


Sþ.

188. Tillaga til þingsályktunar



um staðfestingu tveggja Norðurlandasamninga um viðurkenningu starfsréttinda kennara.

(Lögð fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd eftirtalda Norðurlandasamninga sem undirritaðir voru í Reykjavík 29. september 1986:
1.    Samning um sameiginlegan vinnumarkað kennara í bóklegum greinum, list- og verkmennta- og íþróttakennara og sérkennara í grunnskólum.
2.    Samning um sameiginlegan vinnumarkað kennara í bóklegum greinum, list- og verkmennta- og íþróttakennara í framhaldsskólum.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Hinn 6. mars 1982 var undirritaður Norðurlandasamningur um sameiginlegan norrænan vinnumarkað. Hann var staðfestur fyrir Íslands hönd 22. júní 1982 og tók gildi 1. ágúst 1983. Hinn 3. mars 1982 var undirritað samkomulag um sameiginlegan norrænan vinnumarkað fyrir almenna kennara (bekkjarkennara). Hann var fullgiltur fyrir Íslands hönd 22. júní 1982 og tók gildi 29. maí 1984.
    Þeir samningar sem fjallað er um í þingsályktunartillögu þessari eru framhald af samkomulaginu um bekkjarkennara en hann var gerður á grundvelli ályktunar Norðurlandaráðsins nr. 19/1979. Samningarnir voru undirritaðir í Reykjavík 29. september 1986. Þeir eru birtir sem fylgiskjöl með þingsályktunartillögu þessari.
    Samningarnir eru í sama formi og samkomulagið frá 3. mars 1982 og efnisþættir samninganna í meginatriðum hinir sömu. Í þeim er fjallað um greinakennaramenntun í grunnskólum og framhaldsskólum sem sé eigi skemmra en fjögurra ára nám og opinberlega viðurkennd sem slík í einhverju aðildarlandanna og veiti réttindi til starfa sem kennari í almennum bóklegum greinum.
    Þá er í samningunum talað um nám sem sé eigi skemmra en þriggja ára og opinberlega viðurkennt í einhverju aðildarlandanna sem kennaramenntun fyrir
grunnskóla eða framhaldsskóla og veiti réttindi til starfa sem kennari í almennum list- og verkmenntagreinum eða íþróttum. Í grunnskólasamningnum er einnig sérákvæði um sérkennaramenntun.
    Í 2. gr. beggja samninganna er ákvæði sem lýtur að almennum list- og verkmenntagreinum eða íþróttum og er hægt að úrskurða um réttindi ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.
    Í samningunum er kveðið á um gagnkvæman starfsrétt norrænna kennara innan Norðurlandanna að uppfylltum menntunarskilyrðum í viðkomandi kennslugrein og að því tilskildu að markmið menntunar hlutaðeigandi kennara samrýmist í meginatriðum gildandi ákvæðum og fyrirmælum í hlutaðeigandi landi.
    Í 3. gr. samninganna segir að kennarar skuli hafa fullnægjandi kunnáttu í því tungumáli sem kennt er á í skólanum.
    Samningar þessir eru gerðir í fullvissu þess að kostur á frjálsum skiptum grunnskóla- og framhaldsskólakennara milli Norðurlanda geti orðið til hagsbóta fyrir þróun skólastarfs í hlutaðeigandi löndum. Með þingsályktunartillögu þessari fer ríkisstjórnin því þess á leit að Alþingi heimili staðfestingu þeirra.



Fylgiskjal I.


SAMNINGUR


milli


Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um sameiginlegan vinnumarkað


kennara í bóklegum greinum, list- og verkmennta- og íþróttakennara


og sérkennara í grunnskólum.



    Ríkisstjórnir Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar,
–    sem áður hafa gert með sér samkomulag um sameiginlegan norrænan vinnumarkað sem undirritað var 6. mars 1982,
–    sem áður hafa gert með sér samkomulag um sameiginlegan norrænan vinnumarkað fyrir almenna kennara (bekkjarkennara) í grunnskólum sem undirritað var 3. mars 1982,
–    sem telja að kostur á frjálsum skiptum grunnskólakennara milli Norðurlanda geti orðið til hagsbóta fyrir þróun skólastarfs í þessum löndum,
hafa orðið sammála um eftirfarandi:

1. grein


    Hver sá sem lokið hefur námi, eigi skemmra en fjögurra ára, sem í einhverju aðildarlandanna er opinberlega viðurkennt sem greinakennaramenntun fyrir grunnskóla og veitir réttindi til starfa sem kennari í efri bekkjum grunnskóla (7.–9./10. bekk) í almennum bóklegum greinum, hefur, að fullnægðum þeim skilyrðum sem í samningnum greinir, réttindi til starfa sem greinakennari í sérhverju hinna aðildarlandanna og skal heimilt að starfa sem slíkur, að því tilskildu að menntun í kennslugreinum samrýmist í meginatriðum gildandi ákvæðum og fyrirmælum í hlutaðeigandi landi.
    Hver sá sem lokið hefur námi, eigi skemmra en þriggja ára, sem í einhverju aðildarlandanna er opinberlega viðurkennt sem kennaramenntun fyrir grunnskóla og veitir réttindi til starfa sem kennari í almennum list- og verkmenntagreinum eða íþróttum (t.d. heimilisfræðum, íþróttum, tónmennt, handíðum, myndmennt), hefur, að fullnægðum þeim skilyrðum sem í samningnum greinir, réttindi til starfa sem kennari í þeim greinum í sérhverju aðildarlandanna og skal heimilt að starfa sem slíkur, að því tilskildu að menntun í kennslugreinum samrýmist í meginatriðum gildandi ákvæðum og fyrirmælum í hlutaðeigandi landi.
    Hver sá sem lokið hefur námi sem í einhverju aðildarlandanna er opinberlega viðurkennt sem kennaramenntun fyrir grunnskóla samkvæmt gildandi samningi og sérke nnaramenntun sem veitir réttindi til kennslu á hlutaðeigandi stigum grunnskóla hefur, að fullnægðum þeim skilyrðum sem í samningnum greinir, réttindi til starfa sem sérkennari í sérhverju hinna aðildarlandanna og skal heimilt að starfa sem slíkur, að því tilskildu að markmið sérkennaramenntunar hans samrýmist í meginatriðum gildandi ákvæðum og fyrirmælum í hlutaðeigandi landi.

2. grein


    Sá sem lokið hefur styttra kennaranámi í almennum list- og verkmenntagreinum eða íþróttum en kveðið er á um hér að framan getur hlotið úrskurð um kennsluréttindi í viðtökulandi ef sérstakar ástæður þykja til. Um mál sem ákvæði þessarar greinar taka til skal fjallað svo sem tíðkast um undanþágur.

3. grein


    Kennari í einu aðildarlandanna sem ráðinn er að grunnskóla í öðru aðildarlandi skal hafa fullnægjandi kunnáttu í því tungumáli sem kennt er á í skólanum.

4. grein


    Kennari sem hlotið hefur réttindaviðurkenningu samkvæmt þessum samningi skal að meginreglu eiga rétt á að sækja um og fá starf sem kennari í öðru aðildarlandi, enda þótt umsækjandi sé ekki ríkisborgari í því landi.
    Kennarastarf í einu aðildarlandanna skal í öðru aðildarlandi, þar sem starfinu er haldið áfram, lagt að jöfnu við samsvarandi starf innt af hendi í síðarnefndu landi.

5. grein


    Kennari í einu aðildarlandanna sem fengið hefur starf í öðru aðildarlandi skal að meginreglu standa jafnt kennurum í síðarnefndu landi að því er varðar rétt til launa og eftirlauna svo og önnur réttindi er starfinu fylgja.

6. grein


    Sérhvert aðildarlandanna skal eftir undirritun þessa samnings — eftir því sem unnt er — hlutast til um breytingar á gildandi innlendum reglum í samræmi við meginreglur þær sem lýst er í 1.–5. grein.

7. grein


    Aðalstjórnvöldum skólamála í aðildarlöndunum ber að fylgjast með þróun vinnumarkaðar kennara í hlutaðeigandi löndum og tilkynna Norrænu vinnumarkaðsnefndinni ef sérstakra aðgerða er þörf.
    Aðalstjórnvöldum skólamála ber að skiptast stöðugt á upplýsingum um atriði sem máli skipta til að meta þróunina á vinnumarkaði kennara í aðildarlöndunum.

8. grein


    Samningurinn öðlast gildi þrjátíu dögum eftir þann dag er allir samningsaðilar hafa tilkynnt íslenska utanríkisráðuneytinu að hann hafi verið samþykktur.
    Íslenska utanríkisráðuneytið tilkynnir öðrum samningsaðilum um móttöku þessara tilkynninga og gildistöku samningsins.

9. grein


    Samningsaðili getur sagt samningnum upp með skriflegri tilkynningu til íslenska utanríkisráðuneytisins sem tilkynnir þá öðrum samningsaðilum um að slík tilkynning hafi borist og um efni hennar.
    Uppsögnin tekur aðeins til þess samningsaðila sem að uppsögninni stendur og tekur gildi sex mánuðum eftir að íslenska utanríkisráðuneytinu barst tilkynning um uppsögnina.

10. grein


    Frumrit samnings þessa skal varðveitt í íslenska utanríkisráðuneytinu sem sendir öðrum samningsaðilum staðfest afrit af því.

    Þessu til staðfestu hafa fulltrúar, sem til þess höfðu fullt umboð, undirritað samning þennan.

    Gjört í Reykjavík hinn 29. september 1986 í einu eintaki á dönsku, finnsku, íslensku, norsku og sænsku, og skulu allir textar jafngildir.



Fylgiskjal II.


SAMNINGUR


milli


Danmerkur, Finnlands, Í slands, Noregs og Svíþjóðar um sameiginlegan vinnumarkað


kennara í bóklegum greinum, list- og verkmennta- og íþróttakennara


í framhaldsskólum.



    Ríkisstjórnir Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar,
–    sem áður hafa gert með sér samkomulag um sameiginlegan norrænan vinnumarkað sem undirritað var 6. mars 1982,
–    sem áður hafa gert með sér samkomulag um sameiginlegan norrænan vinnumarkað fyrir almenna kennara (bekkjarkennara) í grunnskólum sem undirritað var 3. mars 1982,
–    sem telja að kostur á frjálsum skiptum framhaldsskólakennara milli Norðurlanda geti orðið til hagsbóta fyrir þróun skólastarfs í þessum löndum,
hafa orðið sammála um eftirfarandi:

1. grein


    Hver sá sem lokið hefur námi eigi skemmra en fjögurra ára, sem í einhverju aðildarlandanna er opinberlega viðurkennt sem greinakennaramenntun fyrir framhaldsskóla og veitir réttindi til starfa sem kennari í almennum bóklegum greinum á því skólastigi hefur, að fullnægðum þeim skilyrðum sem í samningnum greinir, réttindi til starfa sem greinakennari í sérhverju hinna aðildarlandanna og skal heimilt að starfa sem slíkur, að því tilskildu að menntun í kennslugreinum samrýmist í meginatriðum gildandi ákvæðum og fyrirmælum í hlutaðeigandi landi.
    Hver sá sem lokið hefur námi, eigi skemmra en þriggja ára, sem í einhverju aðildarlandanna er opinberlega viðurkennt sem kennaramenntun fyrir framhaldsskóla og veitir réttindi til starfa sem kennari á því skólastigi í almennum list- og verkmenntagreinum eða íþróttum, (t.d. íþróttum, tónmennt, handíðum, myndmennt, vefjarfræði) hefur, að fullnægðum þeim skilyrðum sem í samningnum greinir, réttindi til starfa sem kennari í þeim greinum í sérhverju aðildarlandanna og skal heimilt að starfa sem slíkur, að því tilskildu að menntun í kennslugreinum samrýmist í meginatriðum gildandi ákvæðum og fyrirmælum í hlutaðeigandi landi.
    Í Danmörku er verkmenntun í höndum skóla sem eru einkastofnanir og sjálfstæðar um ráðningu kennara.

2. grein


    Sá sem lokið hefur styttra kennaranámi í almennum list- og verkmenntagreinum eða íþróttum en kveðið er á um hér að framan getur hlotið úrskurð um kennsluréttindi í viðtökulandi ef sérstakar ástæður þykja til. Um mál sem ákvæði þessarar greinar taka til skal fjallað svo sem tíðkast um undanþágur.

3. grein


    Kennari í einu aðildarlandanna sem ráðinn er að framhaldsskóla í öðru aðildarlandi skal hafa fullnægjandi kunnáttu í því tungumáli sem kennt er á í skólanum.

4. grein


    Kennari sem hlotið hefur réttindaviðurkenningu samkvæmt þessum samningi skal að meginreglu eiga rétt á að sækja um og fá starf sem kennari í öðru aðildarlandi, enda þótt umsækjandi sé ekki ríkisborgari í því landi.
    Kennarastarf í einu aðildarlandanna skal í öðru aðildarlandi, þar sem starfinu er haldið áfram, lagt að jöfnu við samsvarandi starf innt af hendi í síðarnefndu landi.

5. grein


    Kennari í einu aðildarlandanna sem fengið hefur starf í öðru aðildarlandi skal að meginreglu standa jafnt kennurum í síðarnefndu landi að því er varðar rétt til launa og eftirlauna svo og önnur réttindi er starfinu fylgja.

6. grein


    Sérhvert aðildarlandanna skal eftir undirritun þessa samnings — eftir því sem unnt er — hlutast til um breytingar á gildandi innlendum reglum í samræmi við meginreglur þær sem lýst er í 1.–5. grein.

7. grein


    Aðalstjórnvöldum skólamála í aðildarlöndunum ber að fylgjast með þróun vinnumarkaðar kennara í hlutaðeigandi löndum og tilkynna norrænu vinnumarkaðsnefndinni ef sérstakra aðgerða er þörf.
    Aðalstjórnvöldum skólamála ber að skiptast stöðugt á upplýsingum um atriði sem máli skipta til að meta þróunina á vinnumarkaði kennara í aðildarlöndunum.

8. grein


    Samningurinn öðlast gildi þrjátíu dögum eftir þann dag er allir samningsaðilar hafa tilkynnt íslenska utanríkisráðuneytinu að hann hafi verið samþykktur.
    Íslenska utanríkisráðuneytið tilkynnir öðrum samningsaðilum um móttöku þessara tilkynninga og gildistöku samningsins.

9. grein


    Samningsaðili getur sagt samningnum upp með skriflegri tilkynningu til íslenska utanríkisráðuneytisins sem tilkynnir þá öðrum samningsaðilum um að slík tilkynning hafi borist og um efni hennar.
    Uppsögn tekur aðeins til þess samningsaðila sem að uppsögninni stendur og tekur gildi sex mánuðum eftir að íslenska utanríkisráðuneytinu barst tilkynning um uppsögnina.

10. grein


    Frumrit samnings þessa skal varðveitt í íslenska utanríkisráðuneytinu sem sendir öðrum samningsaðilum staðfest afrit af því.

    Þessu til staðfestu hafa fulltrúar, sem til þess höfðu umboð, undirritað samning þennan.

    Gjört í Reykjavík hinn 29. september 1986 í einu eintaki á dönsku, finnsku, íslensku, norsku og sænsku, og skulu allir textar jafngildir.
Neðanmálsgrein: 1
    Í Finnlandi: amneslarare.
Neðanmálsgrein: 2
        Sjá „Samkomulag milli Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um samræmingu eftirlaunaréttinda samkvæmt reglum um eftirlaun ríkisstarfsmanna“ frá 18. desember 1973.
Neðanmálsgrein: 3
    Sjá „Samkomulag milli Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um samræmingu eftirlaunaréttinda samkvæmt reglum um eftirlaun ríkisstarfsmanna“ frá 18. desember 1973.