Ferill 218. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 218 . mál.


Nd.

392. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, með síðari breytingum.

Flm.: Albert Guðmundsson.



1. gr.

    Við 83. gr. laganna, sbr. 16. gr. l. nr. 97/1988, bætist ný málsgrein svohljóðandi:
    Eignarskattur ellilífeyrisþega af íbúðarhúsnæði, sem þeir sjálfir nýta, reiknast þannig: Af fyrstu 2.500.000 kr. af eignarskattsstofni greiðist enginn skattur. Af þeim hluta eignarskattsstofns, sem umfram er, greiðist 0,95%.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu eignarskatts á árinu 1989 á eignir í lok ársins 1988.

Greinargerð.


    Margir ellilífeyrisþegar óska að búa áfram í íbúðum sínum eða einbýlishúsum sem þeir hafa á langri starfsæfi byggt upp.
    Nýsett lög um viðbótareignarskattsálag þyngja skattbyrði þessa fólks mjög og í mörgum tilfellum langt umfram greiðslugetu þess. Nú á fólk að greiða 1,2% af hreinni eign umfram 2,5 millj. kr. og að auki 1,5% af hreinni eign umfram 7 millj. kr., auk svo sérstaks eignarskattsauka til þjóðarbókhlöðu (0,25%) og fasteignagjalda til sveitarsjóða. Með þessu frumvarpi er lagt til að auknar skattaálögur á ellilífeyrisþega verði teknar aftur og það fólk greiði nú sama eignarskatt og það gerði áður af því húsnæði sem það notar sjálft til íbúðar, þ.e. 0,95% af hreinni eign umfram 2,5 millj. kr.
    Margt af þessu fólki hefur litlar eða engar tekjur umfram eftirlaun eða ellilífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins og má ekki við auknum skattaálögum, svo sem þeim eignarskatti sem því er ætlað að greiða samkvæmt lögum þeim sem samþykkt voru í byrjun jólahelgarinnar síðustu.
    Ef svo fer sem horfir samkvæmt nýju eignarskattslögunum má gera ráð fyrir að fjöldi ellilífeyrisþega neyðist til að leysa upp heimili sín og selja íbúðir eða einbýlishús sín. Stóraukið framboð á slíku húsnæði mundi þýða verðfall á eignum þessa fólks og gera þeim, sem peningaráð hafa, kleift að komast yfir fasteignir á ódýran máta. Líklega mun uppboðum fjölga á eignum ellilífeyrisþega í greiðsluþroti.
    Frumvarp þetta er flutt til að forða fjölda fólks frá greiðsluþroti og eignamissi á framangreindan hátt, enda er í flestum tilfellum um að ræða aldrað fólk sem greitt hefur að fullu til þjóðfélagsins skatta á langri ævi og á annað og betra skilið en að vera hrakið á götuna eftir starfslok. Því má heldur ekki gleyma að það er þjóðarhagur að því að aldraðir búi svo lengi sem kraftar og heilsa leyfir í eigin húsnæði.
    Oft má mæla menningarstig þjóða, sem og einstakra byggðarlaga, á því hvernig aðbúnaði aldraðra og sjúkra er hagað.