Ferill 443. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 443 . mál.


Ed.

803. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 67/1971, með síðari breytingum.

Flm.: Karvel Pálmason, Guðrún Agnarsdóttir, Egill Jónsson, Jón Helgason,


Margrét Frímannsdóttir, Guðmundur Ágústsson, Eyjólfur Konráð Jónsson,


Jóhann Einvarðsson, Karl Steinar Guðnason, Skúli Alexandersson, Júlíus Sólnes,


Danfríður Skarphéðinsdóttir.



1. gr.

    Aftan við 34. gr. laganna bætist svohljóðandi málsgrein:
    Verði maður fyrir varanlegu heilsutjóni, sem nemur a.m.k. 10% örorku samkvæmt læknisfræðilegu mati, vegna læknisaðgerðar eða vegna mistaka starfsfólks, sem starfar samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, skal Tryggingastofnun ríkisins bæta það tjón á sama hátt og vinnuslys. Landlæknir og tryggingayfirlæknir skulu sameiginlega meta hvort um bótaskylt tilfelli er að ræða og ákveða örorkustigið. Leggja má úrskurð þeirra fyrir tryggingaráð samkvæmt ákvæði 7. gr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta til laga um breytingu á almannatryggingalögum er flutt til þess að bæta að hluta úr brýnni þörf.
    Alkunna er að einstaklingar geta orðið fyrir heilsutjóni af aðgerðum lækna, ýmist vegna bótaskyldra mistaka eða vegna þess að aðgerð hefur ekki heppnast nógu vel þótt eigi sé um að ræða bótaskylt atvik, eða vegna mistaka heilbrigðisstétta. Slíkt tjón hafa einstaklingar yfirleitt orðið að bera sjálfir óbætt hingað til.
    Í svari heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn frá fyrsta flutningsmanni þessa frumvarps á Alþingi 8. des. 1988 kemur fram að í ráðuneyti hans liggja drög að tillögum um tryggingasjóð sjúklinga en auðséð er að það mál nær ekki fram að ganga á þessu þingi enda um mjög viðamikið mál að ræða.
    Með frumvarpinu, sem hér er flutt, er farin sú millileið að ætlast er til að Tryggingastofnun ríkisins greiði á sama hátt og hún bætir vinnuslys það tjón sem verður af læknisaðgerðum eða mistökum við læknisaðgerðir. Hér er ekki um að ræða bætur samkvæmt almennu skaðabótareglunni, sem geta orðið mjög háar, heldur bætur eins og Tryggingastofnun ríkisins greiðir nú fyrir vinnuslys. Ekkert er því til fyrirstöðu að sjúklingur geti höfðað bótamál á hendur þeim sem ábyrgð bera á læknisaðgerð og fengið hærri bætur ef það mál vinnst. Fjárhæð sú, sem Tryggingastofnun mundi hafa greitt, kæmi þá til frádráttar og gæti Tryggingastofnun ríkisins endurkrafið hana. Ákvæði þessu er ætlað að standa þangað til viðameira frumvarp um tryggingasjóð sjúklinga verður tekið upp í almannatryggingalögin.
    Landlækni og tryggingayfirlækni er sameiginlega falið að meta hvort um bótaskylt tilfelli er að ræða og eins að ákveða örorkustigið. Hvort tveggja má teljast eðlilegt þegar litið er til þess að úrskurð þeirra má leggja fyrir tryggingaráð skv. 7. gr. eins og hún verður ef samþykkt verður stjórnarfrumvarp sem nú liggur fyrir Alþingi þar að lútandi.