Ferill 458. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 458 . mál.


Sþ.

818. Tillaga til þingsályktunar



um forkönnun Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins á alþjóðlegum varaflugvelli á Íslandi.

Flm.: Geir H. Haarde, Halldór Blöndal, Ingi Björn Albertsson,


Guðmundur H. Garðarsson, Hreggviður Jónsson, Pálmi Jónsson,


Kristinn Pétursson, Einar Kr. Guðfinnsson, Eggert Haukdal.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að heimila Mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins að gera forkönnun á mögulegri staðsetningu og gerð alþjóðlegs varaflugvallar á Íslandi.

Greinargerð.


    Hinn 20. febrúar sl. urðu langar umræður utan dagskrár í sameinuðu Alþingi um hugsanlegan alþjóðlegan varaflugvöll á Íslandi sem reistur yrði á vegum Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins.
    Áður hafði utanríkisráðherra skýrt opinberlega frá bréfi Manfreds Wörner, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, er honum barst 10. febrúar varðandi þetta mannvirki. Í bréfinu kemur m.a. fram að „flugvöllurinn yrði mannaður og starfræktur af óbreyttum borgurum og ekki talinn herflugvöllur nema á stríðstímum“.
    Fyrir liggur að ekkert verður aðhafst í máli þessu, hvorki af hálfu íslenskra stjórnvalda né Atlantshafsbandalagsins, fyrr en að lokinni forkönnun, „feasibility study“, Mannvirkjasjóðsins, en sjóðurinn hefur samþykkt fjárveitingu til slíkrar könnunar á mögulegri staðsetningu og gerð varaflugvallar. Sambærileg könnun á mögulegri staðsetningu á Grænlandi mun þegar hafin. Endanleg ákvörðun um byggingu vallarins er að sjálfsögðu ekki á dagskrá fyrr en að fengnum niðurstöðum úr slíkri forkönnun.
    Ákvörðun um að heimila umrædda forkönnun er formlega á valdi utanríkisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Ráðherra hefur hins vegar ekki gefið ákveðin svör um það hvort hann hyggist heimila þessa könnun.
    Flutningsmenn telja því rétt með tilliti til aðstæðna og vegna andstöðu við málið innan ríkisstjórnarinnar að vilji Alþingis komi þegar fram í máli þessu. Þessari þingsályktunartillögu er ætlað að veita utanríkisráðherra ótvírætt umboð Alþingis til að heimila umrædda forkönnun og ganga til þeirra samninga sem henni kunna að vera samfara þannig að tryggt sé að ekki verði óeðlilegar tafir á því að könnunin geti farið fram.