Ferill 501. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 501 . mál.


Sþ.

1130. Skýrsla



um málefni Sigló hf. og fleira, samkvæmt beiðni Þorsteins Pálssonar o.fl., tekin saman af Ríkisendurskoðun að ósk

    Með bréfi dags. 6. þ.m. er Ríkisendurskoðun send beiðni um skýrslu um sölu Siglósíldar o.fl., sbr. þskj. 1066. Þá barst Ríkisendurskoðun afrit af bréfi, dags. 8. þ.m., frá fjármálaráðherra til forseta sameinaðs Alþingis þar sem óskað er eftir viðbótarupplýsingum um málefni Sigló hf. og fleira.
    Ríkisendurskoðun hefur tekið saman meðfylgjandi skýrslu um málið og telur að í henni séu svör við þeim atriðum sem óskað var eftir að fram kæmu og máli skipta, að frátöldum seinni lið í bréfi fjármálaráðherra. Öflun þeirra upplýsinga, sem þar er óskað eftir, tekur lengri tíma.

Halldór V. Sigurðsson.


Sig. Þórðarson.



INNGANGUR


    Með bréfi forseta sameinaðs Alþingis, dags. 6. maí 1989, var óskað eftir að Ríkisendurskoðun ynni skýrslu um málefni Sigló hf. og fleira samkvæmt þskj. 1066 frá 5. maí 1989. Þá barst Ríkisendurskoðun afrit af bréfi, dags. 8. maí 1989, til forseta sameinaðs Alþingis frá fjármálaráðherra, Ólafi Ragnari Grímssyni, þar sem óskað var eftir viðbótarupplýsingum í skýrslu um málefni Sigló hf. og fleira.
    Í skýrslu þessari eru svör Ríkisendurskoðunar við þeim fyrirspurnum sem óskað er eftir á þskj. 1066 frá 5. maí 1989, ásamt viðbótarupplýsingum sem stofnunin telur ástæðu til að vekja athygli á. Beiðni fjármálaráðherra um frekari upplýsingar um málefni Sigló hf. er svarað í skýrslu þessari. Hins vegar mun það taka stofnunina nokkurn tíma að afla upplýsinga er varða sölu fyrirtækja í eigu ríkissjóðs og eignarhluta ríkissjóðs í fyrirtækjum frá og með árinu 1974. Ríkisendurskoðun mun afla þeirra upplýsinga og birta í sérstakri skýrslu síðar.

HEIMILDIR TIL SÖLU SIGLÓSÍLDAR


    Þann 17. desember 1983 var undirritaður kaupsamningur milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og Sigló hf. hins vegar um sölu allra fasteigna og lóðarréttinda Lagmetisiðjunnar Siglósíldar, Siglufirði, ásamt tilheyrandi tækjum og áhöldum sem fyrirtækið átti. Kaupsamningurinn var undirritaður af þáverandi iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra með fyrirvara um samþykki ríkisstjórnar og Alþingis.
    Frumvarp til laga um heimild fyrir ríkisstjórnina til að selja Lagmetisiðju ríkisins í Siglufirði var lagt fram á Alþingi, 106. löggjafarþingi, 1983. Í athugasemdum með frumvarpinu er gerð ítarleg grein fyrir aðdragandanum á sölu fyrirtækisins og kaupsamningi, sjá fylgiskjal I. Alþingi samþykkti með lögum nr. 26/1984 heimild til að selja Lagmetisiðju ríkisins í Siglufirði.
    Helstu atriði kaupsamningsins eru:
1.     Umsamið kaupverð alls hins selda er 18 milljónir króna.
2.     Kaupverð greiðist með útgáfu skuldabréfs til 10 ára. Bréfið er verðtryggt miðað við lánskjaravísitölu með fyrsta veðrétti í eignum verksmiðjunnar, afborgunarlaust tvö fyrstu árin.
3.     Stofnendur ábyrgjast persónulega hluta af láninu. Ábyrgðin nær til vaxtagreiðslna árin 1984 og 1985, svo og afborgana, verðbóta og vaxta sem falla á árunum 1986 og 1987.
4.     Kaupendur skuldbinda sig til að halda núverandi starfrækslu Siglósíldar áfram á Siglufirði auk þess sem þeir binda tilgang hins nýja félags í stofnsamningi við að efla og styrkja atvinnulífið á Siglufirði.
5.     Eignir eru seldar í því ástandi sem þær voru á söludegi og kaupandi hefur gert sér fullkomna grein fyrir. Sérstaklega er tekið fram að ástandi fasteigna er ábótavant og að þær þarfnist lagfæringar. Vélasamstæða til gaffalbitaframleiðslu er úr sér gengin og viðhaldi á öðrum tækjum verksmiðjunnar hefur verið ábótavant.

SÖLUVERÐ OG ÁSTAND EIGNA


    Ríkisendurskoðun hefur kannað með hvaða hætti staðið var að mati hinna seldu eigna við sölu. Þar var fyrst og fremst stuðst við bókfært verð varanlegra rekstrarfjármuna í árslok 1983, ásamt mati sem áður hafði verið framkvæmt. Bókfært verð eignanna nam tæpum 14 milljónum króna. Því til
viðbótar var peningalegt mat lagt á aðstöðu og viðskiptavild fyrirtækisins. Ekki var framkvæmd sérstakt mat á eignum fyrirtækisins við sölu. Eins og fram kemur í kaupsamningi er ljóst að ástandi hins selda var áfátt og að það þarfnaðist endurbóta. Í apríl 1983 skilaði nefnd, sem iðnaðarráðherra hafði skipað á árinu 1982, tillögum til iðnaðarráðuneytisins um endurskipulagningu á rekstri Lagmetisiðjunnar Siglósíldar. Nefndin gerði sérstaka úttekt á ástandi fasteigna og véla og taldi að verja þyrfti til nauðsynlegra endurbóta eigi lægri fjárhæð en 4,4 milljónum króna á verðlagi nóvembermánaðar 1982 sem svarar til um 8,3 milljóna króna á söludegi.
    Þegar frumvarp til laga um heimild til að selja Lagmetisiðju ríkisins á Siglufirði var til umfjöllunar í neðri deild Alþingis óskaði iðnaðarnefnd deildarinnar umsagnar Ríkisendurskoðunar m.a. um kaupverð, en í greinargerð stofnunarinnar segir m.a. um ástand eignanna:
    „Ríkisendurskoðun er fullkunnugt um að verksmiðjuhúsi fyrirtækisins var illa við haldið og í lélegu ástandi. Undantekning er nýleg lítil viðbygging (stálgrindahús). Vélakostur var gamall og úr sér genginn. Að stofni til voru vélar frá þeim tíma er SR rak Niðursuðuverksmiðju ríkisins. Meginundantekning er rækjuvélalína sem keypt var og sett upp á árunum 1982 og 1983.“
    Það var og er mat Ríkisendurskoðunar með hliðsjón af framanrituðu að söluverð hafi verið viðunandi.
    Söluverð fyrirtækisins framreiknað til marsverðlags 1989 er um 50 milljónir króna. Sigló hf. yfirtók engar af skuldum Lagmetisiðjunnar. Hins vegar yfirtók ríkissjóður langtímalán Siglósíldar að fjárhæð 19.871 þús. kr., en á móti voru ríkissjóði afhentar skammtímakröfur að fjárhæð um 1.300 þús. kr. Þannig eru framreiknuð langtímalán, sem ríkissjóður yfirtók, að frádregnum skammtímakröfum, nánast sama fjárhæð og framreiknað söluverð fyrirtækisins.

FRAMLAG RÍKISSJÓÐS TIL SIGLÓSÍLDAR


    Framlag ríkissjóðs til fyrirtækisins síðastliðin tíu ár fyrir sölu, framreiknað miðað við lánskjaravísitölu í marsmánuði 1989, nam alls 134,6 milljónum króna.

Framlag ríkissjóðs til Siglósíldar.


(Fjárhæðir í þús. kr.)




— Tafla 1 í Gutenberg. —




    Að meðaltali svaraði ársframlag ríkissjóðs til fyrirtækisins á nefndu árabili til 12.236 þús. kr. miðað við verðlag í mars 1989, eða samtals 61.180 þús. kr. á fimm ára tímabili, eða til loka ársins 1988. Í þessu sambandi má benda á að rekstrarafkoma hins nýja fyrirtækis frá árinu 1984 til 1988 sýnir að rekstrartap nemur á verðlagi mars 1989 tæpum 200 milljónum króna. En framlögum ríkissjóðs var fyrst og fremst varið til að mæta rekstrartapi Siglósíldar.

KAUPVERÐ OG SKILMÁLAR


    Í júlímánuði 1984 er gefið út af hálfu Sigló hf. skuldabréf fyrir andvirði kaupverðs að fjárhæð 18 milljónir króna., sem er framreiknað miðað við mars 1989 50,5 milljónir króna. Höfuðstóll lánsins endurgreiðist á árabilinu 1986 til og með 1993 með jöfnum afborgunum 1125 þús. kr. í hvert sinn með gjalddögum 1. maí og 1. nóvember ár hvert, í fyrsta sinn 1. maí 1986. Vextir af skuldinni frá 1. janúar 1984 skyldu vera þeir vextir sem teknir væru af 10 ára lánskjaravísitölulánum á hverjum tíma samkvæmt ákvörðunum Seðlabanka Íslands. Vextir greiðist á sex mánaða fresti eftir á, fyrst 1. nóvember 1984.
    Þann 21. nóvember 1984 gaf Sigló hf. út skuldabréf til ríkissjóðs að fjárhæð 848 þús. kr. til greiðslu gjaldfallinna vaxta af skuldabréfinu 1. janúar til 1. nóvember 1984.
    Í október 1985 gerði þáverandi fjármálaráðherra nýtt samkomulag við Sigló hf. sem fól í sér eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi að öllum kröfum ríkissjóðs á Sigló hf. skyldi breytt í 15 ára lán sem yrði afborgunarlaust fyrstu fimm árin.
    Í öðru lagi að ríkissjóður heimili nýjar lántökur fyrirtækisins að fjárhæð allt að 600 þúsund bandaríkjadölum sem hafi veðheimild á undan skuldabréfum ríkissjóðs til viðbótar þeim heimildum sem fram koma í sjálfu skuldabréfinu um veðleyfi.
    Samkomulag þetta gerði ráð fyrir að öllum vanskilum Sigló hf. vegna upphaflegra skuldabréfa yrði breytt í langtímalán, en fyrirtækið hafði ekki
staðið við ákvæði um greiðslu vaxta frá upphafi að öðru leyti en með útgáfu skuldabréfs eins og getið er um hér að framan. Höfuðstóll hins nýja skuldabréfs nam 30.773 þús. kr., þar af vegna vanskila 2761 þús. kr.
    Í febrúarmánuði 1986 gefur Sigló hf. út nýtt skuldabréf að fjárhæð 30.773 þús. kr. sem lofað er að endurgreiða að fullu á árunum 1991 til og með 2001, með jöfnum afborgunum 1539 þús. kr. í hvert sinn með gjalddögum 1. maí og 1. nóvember ár hvert, í fyrsta sinn 1. nóvember 1991. Ársvextir af skuldinni frá 1. nóvember 1986 skulu vera þeir vextir sem teknir eru af 15 ára lánskjaravísitölulánum á hverjum tíma samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands. Vextir skulu greiddir á sex mánaða fresti eftir á, í fyrsta sinn 1. nóvember 1986.
    Samkvæmt upplýsingum frá ríkisféhirði eru gjaldfallnir ógreiddir vextir í apríllok 1989 8716 þús. kr. og því til viðbótar 3115 þús. kr. vegna dráttarvaxta eða samtals 11.831 þús. kr. Sigló hf. hefur aðeins innt af hendi tvær greiðslur í tengslum við kaup á eignum Siglósíldar í árslok 1983 að fjárhæð samtals 1233 þús. kr. Fyrri greiðslan fór fram í desember 1987, 600 þús. kr., og seinni greiðslan í febrúar 1989, 633 þús. kr. Heildarkröfur ríkissjóðs ásamt vöxtum og dráttarvöxtum miðað við verðlag í apríl 1989 nema alls 70.742 þús. kr..
    Ríkisendurskoðun telur að þeir greiðsluskilmálar, sem Sigló hf. hefur notið hjá ríkissjóði, þ.e. að fyrsta afborgun skuldabréfs er átta árum frá kaupsamningi, fyrsta vaxtagreiðsla er þremur árum eftir kaupsamning og lánstími 18 ár, megi teljast afar sérstæðir í viðskiptum sem þessum og eigi sér vart hliðstæðu hjá ríkissjóði.

ÁBYRGÐ OG KVAÐIR KAUP A


    Í tengslum við kaup Sigló hf. á eignum Siglósíldar gengust kaupendur undir nokkur atriði í kaupsamningi og í stofnsamningi Sigló hf., en þau voru:
    Í fyrsta lagi að hlutafé hins nýja félags verði 2 milljónir króna. Helmingur hlutafjár greiðist strax við stofnun, en eftirstöðvar hlutafjár greiðist fyrir 1. apríl 1984.
    Í öðru lagi ábyrgðust hluthafar 4250 þús. kr. í samræmi við eignaraðild sem sjálfskuldarábyrgðarmenn með áritun sinni á kaupsamning. Ábyrgðir þessar voru veittar vegna þess að kaupverð var lánað að fullu. Gert var ráð fyrir að kaupandi beindi kröftum sínum af alefli á næstu tveimur árum til uppbyggingar fyrirtækisins.
    Í þriðja lagi lofuðu kaupendur að starfrækja rækjuvinnslu og
síldarniðurlagningu áfram í hinum keyptu eignum. Kaupanda var ljós sá megintilgangur seljanda með sölunni að tryggja atvinnuástandið á Siglufirði sem allra best og lofar að vinna í þeim anda. Þá er kaupanda einnig ljóst að forsendur samningsins eru að í skuldabréfið verði tekið heimildarákvæði þess efnis að gjaldfella megi skuldina að fullu fari svo að starfsemi lagmetisiðjunnar Siglósíldar verði flutt frá Siglufirði.
    Í fjórða lagi hyggjast kaupendur fjárfesta í fyrirtækinu fyrir allt að 12 milljónum króna á fyrri helmingi ársins 1984.
    Ríkisendurskoðun hefur kannað hvernig til hefur tekist um framangreind atriði og eru niðurstöður eftirfarandi:
    Upphaflegt hlutafé var greitt á árinu 1984. Á árinu 1984 var hlutafé aukið í 5,7 milljónir króna en stofnsamningur gerði ráð fyrir tveggja milljóna króna hlutafé.
    Þar sem ekki var krafist útborgunar við sölu og að skuldabréfið var afborgunarlaust fyrstu tvö árin féllust stofnendur Sigló hf. á að ábyrgjast persónulega hluta af láninu. Ábyrgðin náði til vaxtagreiðslna árin 1984 og 1985, svo og afborgana, verðbóta og vaxta sem féllu 1986 og 1987, auk allra dráttarvaxta og innheimtukostnaðar sem af vanskilum kynni að leiða. Seljandinn hefur fulla heimild til að innheimta ábyrgðina beint án þess að gjaldfella veðskuldina. Ábyrgð sjálfskuldaraðila nam samtals 4250 þús. kr. miðað við lánskjaravísitölu 836, sem er ígildi 11.926 þús. kr. miðað við lánskjaravísitölu í mars 1989, eða næstum sama fjárhæð og nú er í vanskilum. Ekkert kemur fram um ábyrgðaryfirlýsingu eigenda Sigló hf. í skuldabréfunum, en með útgáfu fyrra skuldabréfs var fyrrnefnd ábyrgðaryfirlýsing eigenda Sigló hf. gefin út. Ekki verður séð að með útgáfu síðari skuldabréfs hafi ábyrgðarmál eigenda Sigló hf. verið til umræðu sérstaklega. Telja verður að ábyrgðin sé eftir sem áður í fullu gildi.
    Varðandi áframhaldandi starfsrækslu Siglósíldar verður sú breyting að á árinu 1987 er framleiðslulína til gaffalbitaframleiðslu seld frá fyrirtækinu og frá Siglufirði. Þessi framleiðsluþáttur var orðinn veigaminni í rekstri Sigló hf. en var hjá Siglósíld fyrr á árum. Engu síður verður þessi sala til þess að draga úr fjölbreytni atvinnulífs á Siglufirði og því þannig séð andstæð ákvæðum í kaupsamningi.
    Á árunum 1984 og 1985 fjárfesti Sigló hf. fyrir tæpar 51 milljónir króna sem greinist þannig:


              1984     1985
    Verksmiðjuhúsnæði ..............         15.057    605
    Vélar og tæki ..................         15.808    6.171
              ——     ——
         30.865    6.776

    Flutningatæki ..................         1.738    162
    Skip ...........................         7.160    4.254
              ——     ——
             39.763    11.192

    Sigló hf. hefur frá upphafi fjárfest verulega umfram það sem áformað var við kaupsamning. Skip, sem keypt var á árinu 1984, var selt aftur ári síðar.

NIÐURFELLING OPINBERRA GJALDA TÍMANS OG NÚTÍMANS HF.


    Með bréfi fjármálaráðuneytisins, dags. 12. desember 1988, til tollstjórans í Reykjavík samþykkir ráðuneytið beiðni fyrirtækjanna Tímans og Nútímans hf. að fella niður reiknaða dráttarvexti að fjárhæð 6406 þús. kr. af launaskattsskuldum fyrirtækjanna á árabilinu 1982 til 1986 gegn því að fyrirtækin greiði höfuðstól skuldanna að fjárhæð 2635 þús. kr. Skuldir þessar eru tilkomnar vegna eftirtalinna ára:


— TAFLA 2 Í GUTENBERG —






    Þá ritaði fjármálaráðuneytið þann 12. desember 1988 bréf til Gjaldheimtunnar í Reykjavík þar sem ráðuneytið samþykkti beiðni Nútímans hf. um niðurfellingu reiknaðra dráttarvaxta að fjárhæð 2146 þús. kr. vegna skulda fyrirtækisins á opinberum gjöldum að fjárhæð 2040 þús. kr. frá árabilinu 1985 til 1987 gegn því að höfuðstóll skuldarinnar yrði greiddur.
    Skuldir þessar urðu til á eftirtöldum árum:


— TAFLA 3 Í GUTENBERG —




    Auk þessa var felldur niður innheimtukostnaður, 15.154 kr.
    Fjármálaráðuneytið samþykkti að fella niður reiknaða dráttarvexti og innheimtukostnað samkvæmt tveimur fyrrnefndum bréfum, alls 8565 þús. kr., gegn greiðslu höfuðstóls að fjárhæð 4675 þús. kr. sem greiddur var samkvæmt samkomulagi 20. desember 1988. Tíminn skuldar ríkissjóði enn þá launaskatt að fjárhæð 141.828 kr.

SKULDBREYTING OPINBERRA GJALDA SVARTS Á HVÍTU HF.


    Með bréfi fjármálaráðuneytisins, dags. 13. desember 1988, til tollstjórans í Reykjavík samþykkti ráðuneytið að söluskattsskuld Svarts á hvítu hf. á árabilinu 1987 til 1988, ásamt vöxtum og viðurlögum, að fjárhæð 23.311 þús. kr. greiddist með skuldabréfi útgefnu af Íslenska gagnagrunninum hf. Því til viðbótar var greitt með skuldabréfinu launaskattsskuld fyrirtækisins frá árinu 1985, samtals að fjárhæð 311 þús. kr.
    Skuldir Svarts á hvítu eru tilkomnar á eftirtöldum árum:


— TAFLA 4 Í GUTENBERG —




    Skuldabréfið, sem útgefið er af Íslenska gagnagrunninum hf., að fjárhæð 24 milljónir króna, er til 8 ára, vextir miðist við meðaltal vaxta verðtryggðra útlána á hverjum tíma samkvæmt auglýsingu Seðlabanka Íslands. Fyrsta afborgun lánsins og vaxtagreiðslur verða 15. nóvember 1989. Skuldabréfið er með veði í
svonefndum Íslandsgrunni og Lagagrunni sem metnir eru að stofnverði á 25 milljónir króna. Hér er um að ræða upplýsingabanka og hugbúnaðarkerfi sem fyrirhugað er að selja afnot af.
    Ekki verður af hálfu Ríkisendurskoðunar lagt mat á verðmæti þessara tveggja gagnagrunna nú. Hins vegar er ljóst að þrátt fyrir nokkurn stofnkostnað má ætla að enn þurfi að leggja fram vinnu til öflunar upplýsinga í gagnabanka áður en til verulegrar tekjumyndunar kemur.



Fylgiskjal I.


— REPRÓ GUTENBERG —









Fylgiskjal II.


— REPRÓ Í GUTENBERG —







Fylgiskjal III.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 501 . mál.


Sþ.

1066. Beiðni um skýrslu



um málefni Sigló hf. og fleira.

    Með vísan til 30. gr. laga um þingsköp og 2. málsl. fyrri mgr. 3. gr. laga nr. 12/1986, um ríkisendurskoðun, óskum við undirritaðir þingmenn eftir skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu Siglósíldar í tilefni af ummælum fjármálaráðherra í dag í umræðum um fyrirspurn um Sigló hf. í sameinuðu þingi.
    Sérstaklega er óskað eftir að eftirfarandi komi fram:
1.     Söluverð og ástand eigna við sölu.
2.     Framlag ríkisins til fyrirtækisins í tíu ár fyrir sölu, á verðlagi 1989, sundurliðað fyrir hvert ár, og enn fremur hvað það hefði kostað ríkissjóð ef þessi framlög hefðu verið óbreytt til ársloka 1988, á verðlagi hvers árs.
3.     Upplýsingar um skuldbreytingar til fyrirtækisins 1986 og til samanburðar upplýsingar um skuldbreytingar eða niðurfellingu skulda til tveggja fyrirtækja vegna skattskulda, þ.e. Nútímans og Svarts á hvítu.
    Nauðsynlegt er að skýrslan liggi fyrir strax í byrjun næstu viku enda lofaði forseti sameinaðs þings við fyrrgreinda umræðu að umræða um þessa skýrslu færi fram í næstu viku og tók fjármálaráðherra undir það.
    Óskað er að skýrslan verði tekin til umræðu á fundi sameinaðs Alþingis þegar henni hefur verið útbýtt til þingmanna.

Alþingi, 5. maí 1989.



Þorsteinn Pálsson.

Friðrik Sophusson.

Ólafur G. Einarsson.



Pálmi Jónsson.

Guðmundur H. Garðarsson.

Halldór Blöndal.



Kristinn Pétursson.

Sólveig Pétursdóttir.

Egill Jónsson.



Birgir Ísl. Gunnarsson.

Salome Þorkelsdóttir.




    Til forseta sameinaðs Alþingis, Alþingi.



Fylgiskjal IV.


Bréf fjármálaráðherra til forseta sameinaðs Alþingis, Guðrúnar Helgadóttur.


(8. maí 1989.)



    Með vísun til fyrirspurnar um málefni Sigló hf., umræðna um þá fyrirspurn á Alþingi og yfirlýsingar fjármálaráðherra í þeim umræðum er hér með óskað að eftirtöldum atriðum verði bætt við skýrslu um málefni Sigló hf. og fleira:
1.     Söluverð eigna Lagmetisiðjunnar Siglósíldar verði fært til verðlags 1989. Þá verði skuldir þær, sem Sigló hf. tók yfir við kaupin, færðar til sama verðlags. Enn fremur að staða skuldabréfs ríkissjóðs verði reiknuð til verðlags í maí 1989 að meðtöldum vöxtum og vanskilavöxtum.
2.     Gerð verði grein fyrir sölu fyrirtækja í eigu ríkissjóðs eða eignarhluta ríkissjóðs í fyrirtækjum frá og með árinu 1974, að því er tekur til söluverðs, tilhögunar greiðslna og yfirtöku skulda. Jafnframt að fjárhæðir verði færðar til verðlags 1989. Þá óskast upplýst hvort fordæmi séu í samningum ríkisins fyrir jafnlöngum greiðslufresti og Sigló hf. hefur fengið, sérstaklega ef um vanskil hefur verið að ræða, og þá jafnhagstæðum skilmálum.
    Þess er óskað að forseti sameinaðs Alþingis komi þessari beiðni á framfæri við Ríkisendurskoðun.

Ólafur Ragnar Grímsson.




Afrit: Ríkisendurskoðun.