Ferill 515. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 515 . mál.


Ed.

1255. Frumvarp til laga



um breytingu á vaxtalögum, nr. 25 27. mars 1987.

Flm.: Eiður Guðnason, Jóhann Einvarðsson, Margrét Frímannsdóttir,


Valgerður Sverrisdóttir.



1. gr.

    5. gr. laganna orðast svo:
    Þegar samið er um vexti af peningakröfu, en hundraðshluti þeirra ekki tiltekinn, skulu vextir frá því að til skuldar er stofnað vera á hverjum tíma jafnháir vegnu meðaltali ársávöxtunar á nýjum almennum útlánum hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum.

2. gr.

    7. gr. laganna orðast svo:
    Kröfur um skaðabætur skulu bera vexti frá og með þeim degi er hið bótaskylda atvik átti sér stað og vera á hverjum tíma jafnháir vegnu meðaltali vaxta af almennum óbundnum sparisjóðsreikningum hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum. Sé skaðabótakrafa miðuð við verðlag síðar en hið bótaskylda atvik varð ber krafan þó vexti frá þeim tíma.

3. gr.

    Við 1. mgr. 8. gr. bætist eftirfarandi málsliður: Verðbréfafyrirtæki skulu einnig tilkynna Seðlabankanum um breytingar á ávöxtunarkröfum sem gerðar eru fyrir verðbréfasjóði í þeirra umsjá og eignarleigufyrirtækjum skal skylt að upplýsa bankann um almennar breytingar á eignarleigukjörum sem þau bjóða.

4. gr.

    1. mgr. 9. gr. laganna orðast svo:
    Hafi gjalddagi verið fyrir fram ákveðinn skulu dráttarvextir reiknast af peningakröfu frá og með gjalddaga, ef eigi er greitt á gjalddaga, fram að greiðsludegi.
    Við 9. gr. bætist ný málsgrein er verður 2. mgr. og röð annarra málsgreina breytist til samræmis við það. Málsgreinin orðast svo:
    Dráttarvextir skulu ætíð reiknast sem dagvextir nema á annan veg sé sérstaklega mælt í lögum.

5. gr.

    Við 14. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 2. mgr. og orðast svo:
    Sé mál hins vegar höfðað til heimtu peningakröfu sem gjaldféll eftir gildistöku laga þessara og dráttarvaxta er krafist skv. 10. gr. má dæma dráttarvexti frá gjalddaga kröfunnar skv. 9. gr. fram að greiðsludegi enda þótt vaxtahæð sé ekki tilgreind í stefnu.

6. gr.

    Á eftir III. kafla laganna kemur nýr kafli, IV. kafli: Vaxtakjör opinberra fjárfestingarlánasjóða, með þremur nýjum greinum svohljóðandi:
    a. (17. gr.)
    Ákvæði þessa kafla gilda um lánskjör opinberra fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna sem starfa samkvæmt sérstökum lögum.
    b. (18. gr.)
    Fjárfestingarlánasjóðir atvinnuveganna endurlána það fé sem þeir fá til ráðstöfunar með sambærilegum lánskjörum og þeir sæta sjálfir að viðbættum hæfilegum vaxtamun og að teknu tilliti til annarra tekna sjóðanna. Jafnframt skulu þeir gæta þess að gengistryggðar, verðtryggðar og óverðtryggðar eignir og skuldbindingar standist í meginatriðum á.
    Viðskiptaráðherra lætur fara fram árlega og oftar, ef þurfa þykir, athugun á lánskjörum fjárfestingarlánasjóða, sbr. ákvæði 1. mgr., og skal þá bera þau saman við samsetningu þess fjármagns sem sjóðirnir hafa yfir að ráða og þau lánskjör sem almennt gilda á lánamarkaði á sambærilegum lánveitingum.
    c. (19. gr.)
    Viðskiptaráðherra er heimilt að undangenginni athugun skv. 2. mgr. 18. gr. og að fengnum tillögum Seðlabanka Íslands að setja meginreglur um lánskjör þeirra fjárfestingarlánasjóða sem ákvæði þessa kafla ná til. Stjórnir þeirra sjóða, sem hlut eiga að máli, skulu síðan gera tillögur til Seðlabanka Íslands um lánskjör þeirra innan ramma slíkra meginreglna.
    Seðlabanki Íslands staðfestir ákvörðun stjórnar fjárfestingarlánasjóðs um lánskjör enda leiði undanfarandi athugun í ljós að hún samræmist meginreglu skv. 1. mgr.

7. gr.

    Á eftir 1. mgr. 17. gr. laganna komi ný málsgrein sem orðist svo:
    Hafi Seðlabanki Íslands hlutast til um vexti útlána hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum á grundvelli 9. gr. laga nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands, með
síðari breytingum, skulu gildandi vaxtamörk útlána þau sömu og Seðlabankinn ákveður.

8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er efnislega samhljóða stjórnarfrumvarpi sem flutt var fyrr á þessu þingi, 239. máli, að öðru leyti en því að 7. gr. þess frumvarps er breytt og fyrri málsgrein hennar felld brott. Um hana var ágreiningur, m.a. milli deilda þingsins.
    Um frekari skýringar á frumvarpinu vísast til athugasemda við stjórnarfrumvarpið og nefndarálita og umræðna um það.