Ferill 505. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 505 . mál.


Sþ.

1259. Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Friðriks Sophussonar um ráðstefnu um varnir gegn mengun hafsins við Ísland.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvað líður undirbúningi stjórnvalda fyrir ráðstefnu um varnir gegn mengun hafsins við Ísland á grundvelli þingsályktunar sem samþykkt var á Alþingi 18. mars 1987.

    Þingsályktunin var send forsætisráðuneytinu með bréfi dags. 10. apríl 1987. Til sérstakra undirbúningsaðgerða hefur samt sem áður ekki komið enn, hvorki af hálfu fyrrverandi né núverandi ríkisstjórnar. Málið hefur þó alloft verið rætt.
    Óskað hefur verið umsagnar Siglingamálastofnunar ríkisins um ályktunina. Umsögnin, sem dagsett er 18. maí 1989, er svohljóðandi:
    „Að mati Siglingamálastofnunar ríkisins væri bæði eðlilegt og sjálfsagt með hliðsjón af vaxandi mengun sjávarins og hagsmuna Íslands varðandi verndun hafsins að íslensk stjórnvöld hefðu frumkvæði að því að halda hér ráðstefnu sem fjallaði um varnir gegn mengun sjávar í Norðaustur-Atlantshafi. Markmið slíkrar ráðstefnu ætti að vera fyrst og fremst að afla gagna til stefnumótunar og tillöguflutnings á alþjóðavettvangi um auknar varnir gegn mengun hafsins. Til þess að auka líkur á því að það markmið náist þarf ráðstefnan að vera alþjóðleg og skírskota fyrst og fremst til faglegrar umfjöllunar um helstu þætti mengunarvandans eins og hann blasir við. Þess vegna telur stofnunin að það mundi takmarka þátttöku og áhuga á ráðstefnu af þessu tagi ef hún fjallaði eingöngu um geislavirk efni því staðreynd er að það eru fjölmörg önnur vandamál sem við blasa og sum ef til vill enn alvarlegri, eins og t.d. mengun af völdum lífrænna þrávirkra klórsambanda, svo sem PCB, DDT og DIOXIN, þó ekki sé á neinn hátt dregið úr hættunni sem fylgir losun geislavirkra efna í sjó.
    Að mati Siglingamálastofnunar koma til greina tvenns konar ráðstefnur. Annars vegar ályktunarhæf ráðstefna þar sem saman kæmu t.d. ráðherrar,
vísindamenn og embættismenn allra þeirra þjóða sem eiga hagsmuna að gæta á Norðaustur-Atlantshafi þar sem áhersla yrði lögð á að móta sameiginlega stefnu gagnvart alþjóðlegu starfi. Hins vegar væri um að ræða hreina faglega ráðstefnu vísindamanna þar sem leitast yrði við að varpa ljósi á ástand mála á þessu hafsvæði. Auk þess mætti leggja sérstaka áherslu á umfjöllun um áhrif mengunarefna á lífríki hafsins, en slík umfjöllun á fjölsóttri ráðstefnu gæti orðið til þess að renna stoðum undir nauðsyn þess að tekin verði upp öflug sönnunarbyrði vegna losunar efna í hafið. Slíkt hlýtur að teljast verulegt kappsmál fiskveiðiþjóðanna við Norður-Atlantshaf því enn eru mörg ríki, þar á meðal stór iðnríki, þeirrar skoðunar að nota skuli hafið til förgunar úrgangs eins lengi og ekki er sýnt fram á að það valdi mengun sjávar.
    Fyrri leiðin hefur m.a. þá ókosti að um er að ræða mörg ríki með ólík sjónarmið á mengunarvandanum og erfitt væri að ábyrgjast fyrir fram afgerandi ályktanir frá ráðstefnunni nema undirbúningur og fyrirliggjandi gögn væru þeim mun afdráttarlausari um nauðsyn aðgerða. Ef hins vegar tækist að ná afgerandi samstöðu um aðgerðir á slíkri ráðstefnu gæti framhaldið leitt f sér hraðari viðbrögð á alþjóðavettvangi. Ljóst er að kanna þyrfti vilja viðkomandi ríkja áður en ákveðið yrði að boða til slíkrar ráðstefnu. Seinni leiðin er hins vegar ekki eins áhættusöm hvað árangur varðar og krefðist ekki eins mikils undirbúnings af Íslands hálfu.
    Æskilegt væri að miða tímasetningu ráðstefnunnar nokkuð við það sem er að gerast á þessu sviði í næsta nágrenni okkar. Þannig má geta þess að nú er vitað um eftirfarandi alþjóðlega fundi og ráðstefnur um mengunarvarnir sjávar á næstu missirum.
1.     Alþjóðleg ráðstefna þingmanna í Kaupmannahöfn 16.–18. október 1989 um varnir gegn mengun sjávar. (Norðurlandaráð.)
2.     Endurskoðun norrænnar áætlunar um varnir gegn mengun sjávar — Norðurlandaþing á Íslandi í mars 1990.
3.     Norðursjávarráðstefnan um verndun Norðursjávar gegn mengun. Í Hollandi í mars 1990.
4.     Ársfundir Óslóar- og Parísarsamninganna í Reykjavík 11.–23. júní 1990.
5.     Alþjóðlegur fundur að frumkvæði Norðmanna til að fylgja eftir Brundtlandskýrslunni, líklega að hausti 1990.
6.     Fyrsti ráðherrafundur Óslóar- og Parísarnefndanna um varnir gegn mengun sjávar í júní 1992.
    Ætla má að lágmarksundirbúningur fyrir alþjóðlega ráðstefnu um mengun sjávar þar sem eingöngu yrði fagleg umfjöllun sé um 12 mánuðir frá því að ákvörðun væri tekin um að halda hana hér. Með vísun til þess og hins að mikið er að gerast á þessum vettvangi hér á landi eða í næsta nágrenni okkar seinni hluta þessa árs og fyrri hluta árs 1940 sýnist ekki skynsamlegt að stefna að því nú að halda slíka ráðstefnu fyrr en í fyrsta lagi seinni hluta árs 1990 eða fyrri hluta árs 1991. Undirbúningur að ályktunarhæfri ráðstefnu tæki eflaust mun lengri tíma og jafnvel álitamál hvort fagleg ráðstefna þyrfti ekki einmitt að koma til áður en boðað yrði til slíkrar ráðstefnu.“
    Núverandi forsætisráðherra hefur í ríkisstjórn rætt um að haldin verði hér á landi alþjóðleg ráðstefna um verndun hafsins, helst á næsta ári.