Ferill 344. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 344 . mál.


Ed.

1268. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 86/1988, sbr. lög nr. 109/1988.

Frá 2. minni hl. félagsmálanefndar.



    Nefndin hefur fengið mjög skamman tíma til að fara yfir þetta viðamikla mál. Málsmeðferð hefur því verið nokkuð yfirborðskennd og mörgum spurningum er ósvarað. Ekki gafst nægur tími til að fara yfir málið með þeim fulltrúum viðkomandi stofnana sem komu á fund nefndarinnar. Enn fremur gafst ekki tækifæri til að fá á fund nefndarinnar marga þá aðila sem hafa hagsmuna að gæta. Sökum þeirra miklu anna, sem hafa einkennt þinghaldið síðustu daga, enda þinglok í sjónmáli, hefur málið verið afgreitt frá nefndinni án þess að hafa fengið þá ítarlegu umfjöllun sem þingmál af þessu tagi ætti að fá. Annar minni hl. lýsir yfir áhyggjum sínum yfir því að svona mikilvægt mál, sem snertir nær alla þjóðfélagsþegna, skuli afgreitt með þessum hætti.
    Fyrir frumkvæði minni hl. komu nokkrir á fund nefndarinnar til að skýra sjónarmið sín varðandi svokallað húsbréfakerfi, sem þessi breyting á húsnæðislöggjöfinni snýst um, og svara spurningum nefndarmanna.

Seðlabankinn í óvissu.
    Fulltrúar Seðlabanka Íslands, þeir Eiríkur Guðnason og Yngvi Örn Kristinsson, fjölluðu um áhrif húsbréfa á peningakerfi landsins og hlutverk bankans sem viðskiptavaka fyrir húsbréf. Þeir kváðust ekki geta sagt til um áhrif húsbréfanna á fjármála- og veðbréfamarkaðinn í landinu. Þeir töldu að húsbréf yrðu ekki talin eins álitleg eign og t.d. spariskírteini ríkisins. Því mundu vextir þeirra verða hærri en á spariskírteinum. Þá kom fram í máli þeirra að ekki er reiknað með að Seðlabankinn kaupi húsbréf í neinum mæli. Hann mun leggja fram kauptilboð á verðbréfaþingi fyrir húsbréf í litlum mæli til að tryggja sölugengi þeirra. Þó mundi mikið framboð húsbréfa líklega leiða til lækkandi kaupgengis af hálfu bankans. Þannig virðist erfitt að gera sér grein fyrir væntanlegum afföllum við sölu húsbréfa og ávöxtunarkröfu
markaðarins. Þess hefur ekki verið óskað að Seðlabankinn geri úttekt á þessu mikilvæga atriði og er það miður.

ASÍ á móti.
    Fulltrúar Alþýðusambands Íslands, þeir Ásmundur Stefánsson, Ásmundur Hilmarsson, Björn Þórhallsson og Grétar Þorsteinsson, komu á fund nefndarinnar og lýstu yfir andstöðu sinni við húsbréfafrumvarpið. Þeir töldu að með lagfæringum á gamla húsnæðiskerfinu, sem vissulega væri með mörgum agnúum, mætti komast hjá hinum löngu biðröðum. Bentu þeir m.a. á að enn vantaði um 2 milljarða króna af framlagi ríkisins til byggingarsjóðanna samkvæmt samkomulaginu frá 1986. Með þeim fjármunum yrði ekki um neinar biðraðir að ræða. Þeir höfðu hins vegar miklar áhyggjur af því húsbréfakerfi sem frumvarpið gerir ráð fyrir og neikvæðum áhrifum þess, m.a. hugsanlegum háum vöxtum og affallaviðskiptum með húsbréf sem mundu leiða til mikillar greiðslubyrði lántakenda. Talað var um vaxtasprengingu þegar 10.000 manns af biðlistanum yrði att saman um kaup á þeim 5000 íbúðum sem ganga kaupum og sölum árlega. Þeir höfðu áhyggjur af fólki sem mundi lenda í miklum greiðsluerfiðleikum þar sem óþolinmæðin mundi verða skynseminni yfirsterkari. Þá höfðu þeir áhyggjur af því að vaxtabótakerfið mundi reynast erfitt í framkvæmd og hætta á að félagslegar íbúðir yrðu út undan í því kerfi. Vaxtabætur í gegnum skattakerfið í stað niðurgreiddra vaxta væri mjög flókið kerfi og mikil hætta á að ríkið mundi fljótlega skera niður framlag til vaxta og koma smám saman á fullum markaðsvöxtum á húsnæðislánum.
    Nokkrar umræður urðu um þátt lífeyrissjóðanna og form húsbréfalána. Fulltrúar ASÍ töldu það vera til bóta ef seljendum eða kaupendum íbúða yrði gert að þurfa að sækja um húsbréfalán í stað hömlulausra skuldabréfaskipta. Þá töldu þeir ekki fráleitt að lífeyrissjóðirnir tækju upp beinar lánveitingar aftur og þá á grundvelli húsbréfa. Bent var á að nær allir fjármunir, sem notaðir eru til húsnæðislána, koma frá lífeyrissjóðunum. Þá væri ef til vill eðlilegast að lífeyrissjóðirnir sæju um húsnæðislán á grundvelli húsbréfa sjálfir í stað þess að láta fjármuni þeirra fara í gegnum byggingarsjóði ríkisins til húsbréfalána. Tekið er undir hugmyndir þingmanna Borgaraflokksins um húsnæðislán á grundvelli húsbréfaútboðs í stað hömlulausra skuldabréfaskipta eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Kemur þetta sjónarmið fram í umsögn ASÍ um frumvarp Borgaraflokksins um sérstakar húsnæðislánastofnanir á fylgiskjali I.

Verkamannasambandið með húsbréfum.
    Guðmundur J. Guðmundsson, fulltrúi Verkamannasambands Íslands, kom á fund nefndarinnar og lýsti yfir stuðningi þess við frumvarpið. Kom fram í máli hans að stjórn Verkamannasambandsins hefur fyrst og fremst áhyggjur af hinum löngu biðröðum eftir húsnæðislánum í núverandi kerfi. Hann benti m.a. á að fólk tekur dýr skammtímalán við kaup á íbúðarhúsnæði af þessum orsökum og lendir því oft í miklum greiðsluerfiðleikum. Hann sér þá lausn með húsbréfakerfinu að skjólstæðingar Verkamannasambandsins muni eiga styttri biðtíma eftir hefðbundnum lánum með niðurgreiddum vöxtum þar sem aðrir og efnameiri einstaklingar muni fara yfir í húsbréfalán.

Fasteignasalar ánægðir.
    Þórólfur Halldórsson, formaður Félags fasteignasala, kom á fund nefndarinnar og lýsti ánægju sinni yfir húsbréfafrumvarpinu. Hann taldi að þetta mundi létta á biðröðinni og auðvelda fasteignaviðskipti. Aðspurður taldi hann að ekki væri hætta á því að verð fasteigna mundi hækka vegna hömlulausra húsbréfaviðskipta. Ekki hefur þeirri spurningu verið svarað hvort ríkistryggð húsbréf og frjáls fasteignaviðskipti eiga saman. Ætlar ríkið að ábyrgjast öll fasteignaviðskipti landsmanna? Er næsta skref það að ríkið ábyrgist öll viðskipti landsmanna með notaða bíla?

Þjóðhagsstofnun á báðum áttum.
    Tveir fulltrúar Þjóðhagsstofnunar komu á fund nefndarinnar, þeir Jóhann Rúnar Björgvinsson og Sigurður Snævarr. Jóhann taldi að með þeirri útfærslu á húsbréfakerfi, sem lögð er til í frumvarpinu, sé verið að fara inn á mjög varhugaverðar brautir í peningamálum. Húsbréfin með þeirri ríkisábyrgð, sem fylgir þeim, koma til með að virka eins og aukið peningamagn í umferð án þess að nokkur verðmætasköpun í þjóðfélaginu standi þar á bak við. Ekki sé höfðað til sparnaðarins í þjóðfélaginu við veitingu húsbréfalána og því munu þau verða verðbólguhvetjandi. Skuldabréfaútboð, eins og tillögur Borgaraflokksins um húsbréfakerfi bera með sér, sé hins vegar í samræmi við það meginsjónarmið að höfða til sparnaðarins í þjóðfélaginu þegar hugsað er til fjárfestinga. Kemur þetta fram í umsögn um frumvarp Borgaraflokksins um húsnæðislánastofnanir og samanburði við húsbréfakerfi félagsmálaráðherra sem er á fylgiskjali II. Sigurður Snævarr var hins vegar ekki á sama máli og taldi að húsbréfakerfið, eins og það liggur fyrir, geti verið hagkvæm lausn.

Húsnæðisstofnun les blöðin.
    Á fund nefndarinnar komu fulltrúar Húsnæðisstofnunar ríkisins, þeir Sigurður E. Guðmundsson forstjóri, Hilmar Þórisson skrifstofustjóri, Grétar Guðmundsson, yfirmaður ráðgjafar- og greiðsluerfiðleikadeildar, Percy Stefánsson, deildarstjóri Byggingarsjóðs verkamanna, og Haukur Sigurðsson, deildarstjóri Byggingarsjóðs ríkisins. Í máli þeirra kom m.a. fram að þeir hafa ekki haft tækifæri til að setja sig sérstaklega inn í húsbréfafrumvarpið. Það var unnið í milliþinganefnd og síðan undirbúið af embættismönnum félagsmálaráðuneytisins. Húsnæðisstofnun veit því í raun ekki meira um málið en almennur blaðalesandi sem hefur fylgst með málinu í blaðafréttum. Fram kom að engin undirbúningsvinna hefur farið fram af hálfu Húsnæðisstofnunar vegna húsbréfakerfisins. Engar hugmyndir eru um væntanlegt umfang húsbréfaviðskipta og engar rekstraráætlanir hafa verið gerðar.
    Miklar umræður urðu um hina löngu biðröð eftir húsnæðislánum. Fulltrúar Húsnæðisstofnunar telja að ekkert lát sé á biðröðinni og hún haldi áfram að vaxa. Af hálfu nefndarmanna kom fram mikil gagnrýni á meðhöndlun Húsnæðisstofnunar á afgreiðslu lána og lánsloforða. Þannig eru margir lífeyrissjóðir sem hafa ekki staðið við samkomulag um skuldabréfakaup. Vantar um 1,6 milljarða kr. inn í húsnæðislánakerfið af þessum orsökum. Húsnæðisstofnun hefur þó ekki séð ástæðu til að skerða lánsrétt sjóðfélaga í þeim lífeyrissjóðum sem ekki hafa staðið við samningana. Enn fremur vakti góð sjóðsstaða hjá byggingarsjóðunum athygli. Rúmlega 1 milljarður kr. var í sjóði um áramót og rúmlega 800 millj. kr. við síðustu mánaðamót. Er ekki hægt að flýta útlánum sem þessu nemur?
    Vitað er að töluverð afföll verða á lánsumsóknum vegna ýmissa aðstæðna hjá umsækjendum. Samt hefur nær engin vinna verið innt af hendi til að rannsaka hvort umsóknir séu tvíteknar, m.a. sé bæði sótt um í verkamannabústaðakerfinu og í hinu almenna húsnæðislánakerfi. Ekki er gengið eftir því að þeir sem fá lánsloforð eða tilboð um lán sinni því en falli ella út úr biðröðinni. Svona mætti lengi telja. Þá hefur ekki verið hugað að þeirri lausn að hafa hærri vexti á lánum til umsækjenda úr víkjandi hópum (þ.e. eignamanna og þeirra sem eiga íbúðir fyrir) en hjá forgangshópunum sem þó er heimilt samkvæmt lögum. Þá kom fram gagnrýni á þá ráðstöfun að láta umsækjendur tíunda fjárhags- og eignastöðu sína þremur árum áður en lán er veitt. Spurt er hví óafgreiddar umsóknir falli ekki sjálfkrafa úr gildi við áramót.

Verkamannabústaðakerfið vantar íbúðir.
    Á fund nefndarinnar kom Ríkarður Steinbergsson, framkvæmdastjóri stjórnar Verkamannabústaða í Reykjavík. Hann sagði að mikil þörf væri fyrir félagslegar íbúðir og virtist fara ört vaxandi. Á síðasta ári komu 1150 umsóknir um verkamannabústaði, en aðeins var hægt að sinna 250 umsækjendum. Stjórn verkamannabústaða býr samt ekki til langar biðraðir þar sem allar umsóknir, sem eru óafgreiddar um áramót, falla þá úr gildi. Nú eru um 2800–3000 verkamannabústaðir í Reykjavík og þörf er fyrir byggingarátak á þessu sviði. Töluverð brögð eru að því að margir reyni að misnota félagslega íbúðakerfið og er erfitt að komast hjá slíku. Fram komu hugleiðingar um það hvort stjórnir verkamannabústaða þyrftu að kaupa íbúðir með húsbréfum. Stjórn verkamannabústaða kaupir töluvert af verkamannabústöðum eldri en 30 ára sem þá seljast á frjálsum fasteignamarkaði. Slíkar íbúðir yrðu væntanlega að kaupast með húsbréfum og endursala til umsækjanda að taka mið af því.

Atvinnulífið tapar.
    Á fund nefndarinnar kom Guðmundur Gylfi Guðmundsson, Fasteignamati ríkisins. Guðmundur Gylfi átti sæti í þeirri milliþinganefnd sem fjallaði um húsbréfamálið og skilaði hann minnihlutaáliti ásamt Ásmundi Stefánssyni. Gylfi kvaðst vegna starfa sinna hafa öðlast mikla þekkingu og reynslu á fasteignamarkaðinum. Hann sagði m.a. að 5–7% af öllum íbúðum landsmanna gengju kaupum og sölum árlega. Þetta eru um 4700 íbúðir. Þar við bætast 1300 nýjar íbúðir árlega eða samtals eru gerðir um 6000 kaupsamningar vegna íbúðakaupa árlega. Um þriðji hluti þeirra, sem er á fasteignamarkaðinum þarf ekki á lánum að halda. Það er fyrst og fremst ungt fólk sem þarf á miklum húsnæðislánum að halda.
    Gylfi taldi að með breytingum á núverandi húsnæðiskerfi væri hægt að ná jafnvægi og útrýma biðröðinni á tiltölulega skömmum tíma. Með hinu sjálfvirka húsbréfakerfi, þ.e. með hömlulausum skuldabréfaskiptum, verður dregið fé frá atvinnulífinu inn í húsnæðiskerfið þar sem sparnaðurinn eykst ekki.

Verðbréfasalar ánægðir.
    Síðastur kom á fund nefndarinnar Gunnar Helgi Hálfdanarson frá Fjárfestingarfélagi Íslands hf. Gunnar Helgi taldi eðlilegt að húsbréf yrðu með ríkisábyrgð. Allt húsnæðiskerfi landsmanna væri hvort sem er með ríkisábyrgð. Annað væri ekki hægt, einkum vegna hinna dreifðu byggða. Gunnar Helgi taldi ekki nein sésrstök vandkvæði á því að versla með húsbréf.
Verðbréfamarkaðurinn hefði þörf fyrir nýja tegund markaðshæfra bréfa af þessu tagi. Þó gat hann ekki sagt til um hvaða áhrif það hefði að húsbréfin verða til 25 ára og treysti sér ekki til að spá um hver yrðu afföll af húsbréfum. Hingað til hefur verðbréfamarkaðurinn ekki verslað með skuldabréf sem eru til lengri tíma en 10 ára. Alkunna er að afföll á skuldabréfum í verðbréfaviðskiptum hafa verið mjög mikil.

    Haustið 1987 lögðu þingmenn Borgaraflokksins í efri deild Alþingis fram frumvarp til laga um sérstakar húsnæðislánastofnanir sem fjármögnuðu útlán sín með útgáfu húsbréfa. Við lögðum á það áherslu að lífeyrissjóðirnir hefðu frumkvæði að því að koma upp slíkri stofnun en ríkið, þ.e. Húsnæðisstofnun, sinnti fremur hinum félagslega þætti húsnæðismála. Það húsbréfakerfi, sem við lögðum til, er í betra samræmi við þær hefðir og breytingar sem nú eiga sér stað í húsnæðislánamálum í Evrópulöndunum. M.a. töldum við að húsnæðislánastofnunin gæti gefið út t.d. fimm ára húsbréf og boðið til sölu á verðbréfamörkuðum til að afla fjármagns til húsnæðislána líkt og sænskar húsnæðislánastofnanir gera. Síðan ætti að veita húsnæðislán á venjulegan hátt á grundvelli umsókna frá seljanda íbúðar eða kaupanda. Þessa tilraun væri auðvelt að gera samhliða núverandi húsnæðislánakerfi. Á vegum Evrópubandalagsins fer nú fram vinna til samræmingar á húsnæðislánamálum aðildarríkjanna. Reglugerðir um húsnæðislánastofnanir bandalagsríkjanna eru í góðu samræmi við þær hugmyndir sem komu fram í frumvarpi Borgaraflokksins.
    Með hliðsjón af þeirri óvissu, sem enn ríkir um rekstur þess húsbréfakerfis, sem frumvarpið gerir ráð fyrir og áhrifum þess á peningakerfi landsmanna, leggur 2. minni hl. til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 19. maí 1989.



Júlíus Sólnes.






Fylgiskjal I.


Umsagnir miðstjórnar ASÍ um húsnæðismál.


(14. apríl 1989.)



    Á fundi miðstjórnar Alþýðusambands Íslands, sem haldinn var 13. apríl sl., voru meðal annarra samþykktar þrjár umsagnir um húsnæðismál.
    Miðstjórn telur að hugmynd Júlíusar Sólnes og Guðmundar Ágústssonar, þingmanna Borgaraflokksins, um að afla fjár fyrir lánum til þeirra sem ekki eiga rétt á láni úr Byggingarsjóði ríkisins með skuldabréfaútboði, „húsbréfa“, komi til álita. Það er þó með þeim fyrirvara að skuldabréfaútboðið verði í tiltölulega litlum mæli. Að mati miðstjórnar hefur það mjög afdrifaríkar afleiðingar í för með sér ef mikið magn „ríkistryggðra“ skuldabréfa verður í samkeppni við spariskírteini ríkissjóðs en einkum þó í samkeppni við atvinnuvegina um lánsfé.
    Húsbréfafrumvarpið var einnig til umræðu hjá miðstjórninni. En eins og kunnugt er byggir það ekki á skuldabréfaútboði heldur skuldabréfaskiptum. Miðstjórn ítrekar samþykkt Alþýðusambandsþingsins í haust. En þingið varaði alvarlega við hugmyndum um hin svokölluðu húsbréf við þær aðstæður er við búum við á fjármagnsmarkaðinum í dag. Miðstjórn vísaði einnig til sérálits fulltrúa ASÍ sem hann lagði fram í nefnd félagsmálaráðherra um breytingar á húsnæðislánakerfinu.
    Þriðja umsögnin um húsnæðismál, sem miðstjórn ASÍ fjallaði um, var um þingsályktunartillögu Aðalheiðar Bjarnfreðsdóttur, Guðmundar Ágústssonar, Óla Þ. Guðbjartssonar og Alberts Guðmundssonar. Miðstjórn tók undir tillögu fjórmenninganna um að ríkisstjórninni yrði falið að undirbúa breytingar á lögum til þess að húsaleiga lágtekjufólks yrði annað tveggja frádráttarbær frá tekjuskatti eða bætt með húsaleigustyrkjum.



Fylgiskjal II.


Minnispunktar


til Júlíusar Sólnes vegna beiðni um lauslegt álit á frumvarpi til laga


um húsnæðislánastofnanir og húsbanka.


(9. maí 1989.)



    Að mínu mati er grundvallarmunur á þessu húsbréfafrumvarpi og því frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi. Meginútfærsla þess samræmist vel þeim kröfum sem gerðar eru til peninga- og fjármálakerfis hverrar þjóðar, en það síðarnefnda gerir það hins vegar ekki.
    Grundvallarmunurinn liggur í eftirfarandi:
    Samkvæmt frumvarpi BF er gert ráð fyrir að hinir svonefndu húsbankar fjármagni útlán til fasteignakaupenda með útgáfu sérstakra húsbréfa (obligationer), með öruggri tryggingu, sem seld eru á frjálsum markaði. Þannig fást peningar til útlána. Með þessari útfærslu er fyrst höfðað til sparnaðarins í þjóðarbúinu með sölu á húsbréfum. Síðan er sparnaðinum ráðstafað til fasteignakaupa. Þannig verður fjárfestingin aldrei meiri en sparnaðurinn gefur tilefni til miðað við skynsamlega og eðlilega vaxtaþróun.
    Í frumvarpi ríkisstjórnarinnar er ekki gert ráð fyrir að húsbréf verði seld í fyrstu umferð á frjálsum markaði fyrir peninga sem síðan eru lánaðir til fasteignakaupenda, heldur er gert ráð fyrir að fasteignakaupandinn greiði íbúðina að hluta til með húsbréfum. Með þessari útfærslu á fjárfestingin sér fyrst stað. Síðan er látið reyna á hvort sparnaðurinn í þjóðarbúinu verði nægjanlegur til að mæta þeirri fjárfestingu miðað við skynsamlega og eðlilega vaxtaþróun. Hér vantar því nauðsynlega takmarkandi þætti í útfærslu húsbréfakerfisins sem draga eiga úr líkum á afföllum og verðbólguáhrifum sem geta komið til ef fjárfestingin verður of mikil miðað við sparnaðinn.
    Hér er um grundvallaratriði að ræða í útfærslunni. Góður ásetningur um hóflegt framboð af húsbréfum samrýmist engan veginn þeim ströngu kröfum sem gerðar eru til peninga- og fjármálakerfis í þróaðri ríkjum. Engum er fengið slíkt (útgáfu-) vald nema það samræmist vel viðurkenndum leikreglum því allar líkur benda til þess að það verði misnotað fyrr eða síðar.
    Vert er að nefna eftirtalin atriði sem eru nokkuð vandasöm í framkvæmd og er því ástæða til að huga vel að þeim:
    Samkvæmt frumvarpi BF er gert ráð fyrir að raunvextir veðlána skuli vera breytilegir í samræmi við mismunandi sölugengi húsbréfa. Þetta hefur í för með sér verulega óvissu um vaxtabyrðina af veðskuldabréfunum. Með hliðsjón af þessu er rétt að benda á að mikil ábyrgð og siðferðileg krafa er lögð á húsbankana, sem beinist að þeim aðilum sem þegar hafa gefið út veðskuldabréf, um að útgáfa húsbréfa verði ekki of mikil miðað við eftirspurn þeirra. Slíkt offramboð hefði í för með sér hærri afföll og meiri kostnað á þann stokk veðskuldabréfa sem þegar hefur verið gefinn út.
    Hægt er að komast hjá þessari óvissu varðandi vaxtabyrði veðskuldabréfanna með því að hafa verðtryggingu og fasta vexti yfir ákveðið vaxtatímabil eins og bent er á í frumvarpinu. En með því móti verður vaxtabyrðin mun ljósari. Þá gefst einnig tækifæri til að semja að nýju ef aðstæður breytast.
    Að sjálfsögðu er ekki hægt að galdra neinar biðraðir burt á skömmum tíma. Fjárfestingin í landinu hlýtur alltaf að taka mið af sparnaðinum í þjóðfélaginu (ef gert er ráð fyrir að ekki séu tekin erlend lán). Því er ekki hægt að lána hærri fjárhæð en sala húsbréfa gefur tilefni til. Ef framboð fasteignakaupenda á veðskuldabréfum til húsbanka er mun meiri en eftirspurn eftir húsbréfum á hinum frjálsa markaði, miðað við skynsamlega og eðlilega vaxtaþróun, verða biðraðir að sjálfsögðu til staðar. Með tímanum koma biðraðirnar til með að styttast en það eru fyrst og fremst niðurgreiddir vextir í núverandi kerfi sem hafa skapað þær. Auðvitað er hægt að uppræta biðraðir á mjög skömmum tíma með mjög háum raunvöxtum en það er ekki markmiðið. Það þarf að vinna sig hægt og sígandi út úr því ójafnvægi sem ríkir á fasteignamarkaðnum með skynsamri og eðlilegri vaxtaþróun að leiðarljósi.
    Varðandi erlent lánsfjármagn þá er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að hafa í huga að ekki má auka peningamagnið í hagkerfinu nema forsendur leyfi þar sem slíkt ýtir undir þenslu og verðbólgu.
    Að síðustu varðandi lánskjör og verðtryggingar þá tel ég eðlilegt að þannig sé bundið um hnútana að jákvæðir raunvextir verði greiddir af útlánum húsbanka.

Jóhann Rúnar Björgvinsson,


hagfræðingur.