Ástandið í atvinnumálum
Mánudaginn 06. nóvember 1989


     Skúli Alexandersson:
    Virðulegi forseti. Það er nokkuð sérstakt að hv. Alþingi skuli vera búið að ræða hér atvinnumál í --- ætli það sé ekki um 8 tíma án þess að hv. ræðumenn, hv. alþm. og ráðherrar, hafi komist að ráði út fyrir það að ræða aðeins einn þátt íslenskra atvinnumála, þ.e. skipasmíðar, ekki síst þegar við minnumst þess að á fimmtudag í síðustu viku varð hér umræða utan dagskrár um þetta sérstaka mál og hefðu margir haldið að sú umræða hefði átt að nægja að vissu leyti til þess að fjalla um þann þátt íslenskra atvinnumála. Og það er svolítið furðulegt að heyra fulltrúa Sjálfstfl. (Gripið fram í.), þm. Sjálfstfl. koma hér upp í ræðustól, fyrrv. ráðherra Sjálfstfl., og spjalla um stöðu mála í þessum eina atvinnuvegi við fyrrverandi samráðherra sína úr ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar, spyrja ákveðið: Hefur nokkuð breyst? Er þetta bara alveg eins og þetta var hjá okkur? og halda því fram við aðrar aðstæður að hlutirnir séu á einhvern annan máta en þeir voru þá. Hv. fyrrv. iðnrh., 1. þm. Reykv., talaði mikið um það við hæstv. forsrh. að þetta hefði nú verið dálítið öðruvísi þegar hann sjálfur var iðnrh.
    Það vill svo til að hér í dag var dreift gögnum frá Félagi dráttarbrauta og skipasmiðja. Hv. 2. þm. Vesturl. las upp úr bréfi frá því félagi. Með þessu bréfi fylgdu líka ansi skemmtileg súlurit, súlurit sem sýna hvernig þróunin hefur verið í þessum iðnaði. Þau sýna að aldrei hefur verið eins mikið unnið fyrir íslenska aðila í erlendum skipasmíðastöðvum en á síðasta ári, þ.e. 1988 þegar hv. 1. þm. Reykv. Friðrik Sophusson var iðnrh. Ég vænti þess að hv. þingmenn hafi lesið þetta bréf og flett upp súluritunum sem því fylgdu. Það kemur sem sagt í ljós að á árinu 1988 er unnið í erlendum skipasmíðastöðvum fyrir tæpar 4000 millj. á vegum íslenskra aðila á sama tíma og unnið er í íslenskum skipasmíðastöðvum fyrir um 2000 milljónir, næstum því tvöföldun sem er unnið á erlendum markaði. Þetta er undir stjórn hv. 1. þm. Reykv. Friðriks Sophussonar. Og er nú ekki nema von að hann ásamt öðrum þingmönnum Sjálfstfl. komi hér upp og býsnist yfir stöðunni í dag. En því miður, það er eins og hv. þm. var einnig að spyrja um: Hefur þetta ekkert breyst? Þetta hefur nefnilega ekkert breyst. Við stöndum því miður í ósköp svipuðum sporum og í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar. ( HBl: Þm. er ánægður með Stykkishólm.) Ég er alls ekki ánægður með Stykkishólm. Það er langt frá því. En þetta er afleiðing gjörða fyrri ríkisstjórnar fyrst og fremst og þess að núv. ríkisstjórn hefur ekki brotið sig út úr venjum og hefðum fyrri ríkisstjórnar, rekur í þessu tilfelli alveg sömu pólitík og rekin var í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar.
    Til viðbótar við þetta súlurit, sem ég var að sýna þingmönnum hér og þeir hafa á borðum sínum sjálfsagt flestir, geri ég ráð fyrir að inn í þetta dæmi, inn í þessa stóru súlu, komi ekki allur smábátaflotinn sem fluttur hefur verið inn og fluttur var inn sérstaklega á árinu 1988. Það hefur þó orðið nokkur

breyting á árinu í ár. Það hefur minnkað innflutningur á smábátum, en hann var óhóflegur á árinu 1988. Er nú ekki nema von að þessir höfðingjar, bæði hv. 2. þm. Norðurl. e. og 1. þm. Reykv. komi hér upp og haldi langar ræður og tali um atvinnumál, fyrst og fremst út frá stöðu þessa eina atvinnuvegar og býsnist yfir því að hlutirnir hafi ekkert breyst? En svo er nú ekki. Hitt er þó mikið furðulegra að hér skuli vera hafin umræða og búin að standa þann tíma sem ég nefndi áðan og ekki rætt um fleiri þætti íslenskra atvinnumála en þennan eina þátt. Það vantaði þó ekki að hv. 2. þm. Norðurl. e. Halldór Blöndal fengi aðstöðu til þess að auglýsa og boða þessa miklu utandagskrárumræðu sem hann ætlaði að standa hér fyrir í þinginu á þessum degi.
    Ég ætla að leyfa mér, virðulegi forseti, að lesa það sem hv. þm. sagði um hina væntanlegu utandagskrárumræðu sem hann mundi standa fyrir hér í dag og hann tilkynnti þingheimi á fimmtudaginn var við upphaf umræðu um skipasmíðina. Eftir að hann hafði ávítað forseta fyrir það að leyfa ráðherrum að tala heldur lengi, þá segir hann, með leyfi forseta:
    ,,Ég vil aðeins segja að lokum, hæstv. forseti, að ég þakka fyrir að hafa fengið heimild til þess að tala utan dagskrár á mánudag, [þ.e. í dag] ótímabundið, um ástand í atvinnumálum. Ástæður þess að ég fer fram á þessar umræður eru í fyrsta lagi að hæstv. ráðherrar hafa farið með ósannindi, bæði hér í þingsölum og í samtölum við fréttamenn sem nauðsynlegt er að leiðrétta og ég mun gera á mánudaginn.``
    Ég auglýsi nú alveg sérstaklega eftir þessu. Ég varð ekki var við að hv. þm. væri nokkuð að minnast á að ráðherrar hefðu verið að fara með ósannindi. Hann komst ekki frá þessari lokuðu umræðu sinni um skipasmíðaiðnaðinn. Hann nefndi ekki landbúnað, hv. þm. Egill Jónsson, og hann nefndi heldur ekki sjávarútveg.
    ,,Ástæður þess að ég fer fram á þessar umræður eru í fyrsta lagi að hæstv. ráðherrar hafa farið með ósannindi, bæði hér í þingsölum og í samtölum við fréttamenn sem nauðsynlegt er að leiðrétta og ég mun gera á mánudaginn.
    Í öðru lagi er ástæðan sú að ráðherrar svara ekki beinum fyrirspurnum sem til þeirra er beint í umræðum t.d. um lánsfjárlög og fjárlög.`` Ég varð ekki var við að hv. þm. nefndi þessa þætti. Hann á sjálfsagt eftir að gera það hér
síðar í nótt.
    ,,Í þriðja lagi vegna þess að hæstv. ráðherrar hafa tekið upp þann sið að vera ekki viðstaddir í þinginu þegar hin þýðingarmestu mál eru til umræðu eins og fjárlög og lánsfjárlög, rétt aðeins sá ráðherra sem málið heyrir undir er við. Því er óhjákvæmilegt að efna til sérstakrar umræðu í Sþ. til þess að kalla þessa ráðherra til svara og þeir ráðherrar sem ég hef óskað eftir að mæti hér kl. 2 á mánudag eru hæstv. fjmrh., hæstv. forsrh., hæstv. iðnrh. og að lokum, þó af öðru tilefni sé en ég hef nú gert grein fyrir, hæstv. sjútvrh. sem ég vil þó taka fram að er mjög til fyrirmyndar í

sinni embættisfærslu og í samskiptum sínum við þingmenn.``
    Hann nefnir hér þennan hóp ráðherra og ég hef ekki orðið var við að hv. þm. né heldur 1. þm. Reykv. hafi komist út fyrir það að tala um þetta einstaka málefni að öðru leyti en því að hv. 1. þm. Reykv. talaði nokkur orð við fjmrh. um skatta. Þannig er nú komið á Alþingi Íslendinga þegar verið er að tala um atvinnumál að það má ekki tala um það sem skiptir kannski mestu máli. Það er ekki talað um sjávarútvegsmál. Þau eru ekki nefnd á nafn nema aðeins sjútvrh. sem kom hér upp í ræðustól og nefndi þennan undarlega málflutning og kom því að um leið að að hans áliti væri staða sjávarútvegs allt önnur og betri nú en oftast áður. Skyldu nú þingmenn Sjálfstfl. vera sammála þessu? Það hlýtur að vera fyrst þeir sáu ekki ástæðu til, þegar verið er að ræða um atvinnumál, að nefna sjávarútveg á einn eða neinn hátt annan en þann þegar þeir gátu tengt það skipasmíðaiðnaðinum, að skipasmíðaiðnaðurinn ætti í erfiðleikum vegna bágrar stöðu sjávarútvegsins.
    Það er nú kannski rétt að minna aðeins á hvernig staðan er í sjávarútveginum og vita hvort hv. þm. Sjálfstfl. séu ekki til í að líta á þann þátt að einhverju leyti. Við sáum í DV í dag frétt um það að vanskil í Byggðastofnun á árinu í ár væru komin í 1200 millj. kr. Og þar er fjallað um það hvernig staða sérstaklega sjávarútvegsfyrirtækja hefur orðið meira og meira á þann veg að þau hafa ekki getað staðið við skuldbindingar sínar og stofnun eins og Byggðastofnun orðið að taka á sig stærri og stærri áföll. Þetta er ekki málefni sem Sjálfstfl. telur nauðsynlegt að ræða hér þegar rætt er um atvinnumál.
    Það var upplýst á fiskiþingi hvernig þróunin væri í sambandi við nýtingu íslensks sjávarafla. Þar var m.a. upplýst að nú væri staðan orðin sú að u.þ.b. 12% af botnfiskafla á Íslandi væru sjófryst. Það væri ekki lengur talin ástæða til að koma með aflann að landi til þess að vinna hann í íslenskum fiskvinnslustöðvum, heldur væri hann sjófrystur og það væri komið upp í þetta stóran hluta af íslenskum botnfiskafla. Sjálfstæðismönnum þykir sjálfsagt ekkert til um þetta og telja það sjálfsagt góða þróun að farið sé með vinnuna frá fiskvinnslustöðvunum út á haf, það sé sem sagt verið að breyta stöðunni í okkar landi á þann veg að það sé jafngott að gera fiskiskip út frá Cuxhaven eða Bremerhaven eða Hull, það megi alveg eins vinna þetta um borð eins og að nota aðstöðu Íslands sem fiskistöðvar í miðjum fiskimiðunum og nýta aflann í landi. (Gripið fram í.) Mér finnst alveg fráleitt að byggja íslensk fiskiskip á þann máta að þau séu um leið fiskvinnslustöðvar. Það er alveg fráleitt. Og eitt af því sem varð til í ríkisstjórnartíð Þorsteins Pálssonar og þar á undan Steingríms Hermannssonar er þessi stórkostlega uppbygging verksmiðjuskipa sem að meginhluta til, og næstum eingöngu, var byggð upp í erlendum skipasmíðastöðvum, sem sagt undir ráðherradómi hv. þm. Friðriks Sophussonar.
    En það er kannski rétt að upplýsa það aðeins hvernig nýting botnfiskaflans okkar er og ég ætla að

leyfa mér að lesa hér fyrst úr grein í Þjóðviljanum sem birtist í síðustu viku, með leyfi forseta:
    ,,Hagnýting fiskafla á síðustu árum hefur verið mjög óhagstæð fiskvinnslunni í landi þar sem sífellt stærri hlutur botnfiskaflans er ýmist sjófrystur eða fluttur óunninn út með gámum. Það er síðan umhugsunarefni hver skipan þessara mála verður í framtíðinni með tilliti til byggðaþróunar, hagsmuna fiskvinnslunnar og ekki síst fiskvinnslufólks.`` Þetta er haft eftir Jónasi Blöndal, skrifstofustjóra Fiskifélags Íslands, á fiskiþingi.
    Og greinin heldur áfram: ,,Hlutur sjófrystingar og útflutnings í gámum sem tóku til sín óverulegt magn árið 1981 nálgast að vera fjórðungur botnfiskaflans árið 1988.`` --- Heyrið þingmenn. Fjórðungur botnfiskaflans er fluttur út óunninn.
    ,,Sá hluti aflans sem ekki var settur í hefðbundna landverkun var á síðasta ári alls tæpur þriðjungur aflans en var árið 1981 einungis um 5%. Þetta kemur fram í Útvegi, sem hagdeild Fiskifélags Íslands gefur út.
    Sú grein fiskvinnslu sem mestur vöxtur var í á síðasta ári var sjófrysting. Það magn af botnfiski sem ráðstafað var á þennan hátt jókst um 67% og voru tæp 85 þús. tonn fryst á hafi úti. Árið 1987 nam sjófrysting rúmum 50 þús. tonnum. Auk þess voru um 10 þús. tonn af rækju fryst um borð. Hlutur sjófrystingar hefur því aukist úr engu árið 1981 í það að vera 12% af heildarbotnfiskaflanum.
    Meðalvöxtur sjófrystingar á ári hefur því verið um 67%. Ef þessi aukning verður svipuð á næstu árum kemst hagdeild Fiskifélagsins að þeirri niðurstöðu
að í ár verði fryst 150 þús. tonn á hafi úti og 250 þús. tonn árið 1990. En heildarbotnfiskafli togara árið 1988 var 410 þús. tonn.`` --- Takið eftir þessari tölu sem gæti verið fryst árið 1990, þ.e. 250 þús. tonn. Það er sama magn og Hafrannsóknastofnun leggur nú til að verði veitt af þorski á næsta ári. Slík er þróunin í þessari atvinnugrein á Íslandi. Það er verið að flytja meginhlutann af fiskvinnslunni annaðhvort á haf út eða til fiskvinnslustöðva erlendis. Þetta er málefni sem Sjálfstfl. þegar hann kemur hér upp á hv. Alþingi eftir að hafa verið utan ríkisstjórnar í rúmt ár og liðið illa, þetta er málefni sem Sjálfstfl. telur ekki ástæðu til þess að fjalla um. Hvar eru nú hugsjónir Ólafs Thors? Hvar eru nú útvegsmennirnir sem byggðu upp Sjálfstfl.? ( FrS: Við skildum þetta eftir handa þér, hv. ræðumaður.) Ja, ég geri nú ráð fyrir því að fyrirrennarar í forustusveit Sjálfstfl. hefðu aldrei sagt slíka setningu sem þessa að þeir skildu eftir einhverja hluti, og síst af öllu í sambandi við sjávarútveg á Íslandi, fyrir einhverja aðra flokka. Er nú reisnin að minnka enda kannski sumir menn ekki lengur í forustusveitinni?
    En það er ýmislegt fleira að gerast heldur en þessi þróun í sjávarútvegi og því miður er það nú svo að það er ekki nóg að hlutirnir séu á þann veg sem ég var að lýsa hér í sambandi við þróun fiskvinnslunnar, heldur er þróunin sú þrátt fyrir það að hæstv. sjútvrh. segi að hlutirnir séu hvað bestir nú gagnvart stöðu

sjávarútvegsins en hefur lengi verið, þá vil ég nú segja það að þá hefur það oft verið vont ef þeir eru hvað bestir nú.
    Það er alveg rétt að nokkuð mörg sjávarútvegsfyrirtæki hafa nú betri greiðslustöðu en áður var vegna þess að miklum fjármunum hefur verið ráðstafað til þessara fyrirtækja í gegnum Atvinnutryggingarsjóð og það er hægt að setja upp dæmi um afkomu þessara fyrirtækja og stöðu þessara fyrirtækja á annan máta en gert var áður. En staðreyndin er aftur á móti á hinn veginn að þau fyrirtæki sem ekki nutu fyrirgreiðslu vegna þess að þau höfðu betri stöðu, eða eins og kallað er núna höfðu betri eiginfjárstöðu en þau fyrirtæki sem notið hafa fyrirgreiðslu hjá Atvinnutryggingarsjóði, þau fyrirtæki eru nú að lenda í svipaðri stöðu og atvinnutryggingarsjóðsfyrirtækin voru í í fyrra vegna þess að rekstrarstaða sjávarútvegsins hefur ekki verið bætt svo sem þörf er á. En að sjálfstæðisþingmennirnir nefni það á nafn. Nei, það þarf að koma þingmaður úr stjórnarliðinu til að segja frá því. Þeir hafa ekki kjark eða ekki getu eða ekki vilja til þess að nefna slíka hluti og þá þróun sem á sér stað í sambandi við þennan undirstöðuatvinnuveg okkar.
    Það er nú svo að við eigum sem betur fer ansi myndarlegt dagblað sem heitir Morgunblað. Oft og tíðum koma í því blaði ýmsar gagnmerkar fréttir og það bendir á ýmsa hluti sem menn hafa ekki tök á að átta sig á, en þá bjargar Morgunblaðið mönnum í þeim tilfellum. Og það gerði það allrækilega sunnudaginn 29. okt. sl. Það birti þá merkilegar upplýsingar um tap á gjaldþrotum í þjóðfélaginu á undanförnum missirum. Ég geri ráð fyrir því að flestir hv. þm. hafi séð þessa grein. Ég var nú með hugann við það þegar ég bað um orðið að lesa svolítið upp úr þessu plaggi, notfæra mér svipaða aðstöðu og hv. 2. þm. Norðurl. e. að lesa hér dálítið upp úr ræðustól á Alþingi, en mér finnst nú vera orðið það áliðið að ég mun sleppa því. En ég held að fáar fréttir hafi upplýst betur hvernig landinu okkar hefur verið stjórnað á undanförnum árum heldur en þessi listi Morgunblaðsins um gjaldþrot hringinn í kringum landið.
    Við vitum það öll að sú staða að fyrirtæki lendi í gjaldþroti á sér oftast nær nokkurn aðdraganda og geri ég ráð fyrir og veit að svo er um meginhluta þeirra fyrirtækja sem hér eru tínd upp. Hvað segir þetta okkur? Það segir okkur það að á síðustu árum höfum við búið við slíkt stjórnarfar á Íslandi að fyrirtæki í hinum ýmsu greinum hafa farið á þann veg sem Morgunblaðið upplýsir okkur um. Það er fyrst og fremst vegna stjórnarhátta í tíð fyrri stjórnar Steingríms Hermannssonar og í stjórnartíma Þorsteins Pálssonar sem þeir hlutir voru að gerast sem urðu þess valdandi að öll þessi fyrirtæki fóru á þann veg sem Morgunblaðið lýsti fyrir okkur. Er það eitthvað slíkt sem hv. þm. Friðrik Sophusson er að biðja okkur um að láta endurtaka sig þegar hann biður um það að þessi ríkisstjórn sem nú situr fari frá? Ég vona að

hugur hans standi ekki að því og það sé af einhverjum öðrum hvötum en þeim að það eigi að endurtaka þessa hryllingsstöðu á nýjan leik þegar sú ríkisstjórn hverfur frá sem nú situr að völdum.
    Ég gagnrýni aftur á móti þessa ríkisstjórn fyrst og fremst fyrir það að hafa ekki breytt frá fyrri stjórnarháttum, að hafa haldið uppi meira og minna svipuðum stjórnarháttum og ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar stóð að, að hafa staðið að frjálshyggjunni meira og minna, vera með ýmsar tillögur um það að auka frjálshyggjuna jafnvel fram yfir það sem Friðrik Sophusson sem iðnrh. lagði í að gera í sinni stjórnartíð. ( FrS: Styður hv. ræðumaður ríkisstjórnina?) Já, hann styður nú ríkisstjórnina. Ræðumaður gerir það. (Gripið fram í.) Það er svo aftur alveg sjálfsagt að segja hv. þm. Friðriki Sophussyni að það er ekki gert vegna þess að þingmaðurinn sé sérstaklega ánægður með störf ríkisstjórnarinnar, heldur vegna þess að hann veit það að ef þessi ríkisstjórn sæti ekki, þá mundi nú eins og Alþingi er skipað koma enn þá
verri ríkisstjórn þegar Sjálfstfl. mundi fylkja liði með einhverjum öðrum flokkum, einhverjum úr þeirri ríkisstjórn sem núna situr því að sporin hræða, sporin og fréttirnar úr Morgunblaðinu hræða.
    Til viðbótar við þessa frétt úr Morgunblaðinu ætla ég að sýna hv. þm. eina síðu úr Morgunblaðinu. Ég ætla ekki að fara að lesa hana upp vegna þess að það er orðið áliðið nætur. En þessi síða sem er frá því 3. okt. er eingöngu um nauðungaruppboð í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu. Eingöngu. Þannig er staðan --- og ég endurtek --- þannig er staðan eftir stjórnartíð þeirra herra sem ég var að nefna hér áðan. Þetta er afraksturinn, þetta er það sem þeir eru að bjóða okkur upp á aftur og þetta er það sem þeir þora ekki að tala um. Þeir koma hér upp og þykjast vera að tala um atvinnumál, láta líta svo út að þeir séu þar með einhverjar tillögur og vilji breyta til og vilji gera betri hluti en gerðir eru, en tala hér um afmarkaðan, lokaðan einn þátt íslenskra atvinnumála vegna þess að þeir vita sem er að þeir hafa engar tillögur til að benda á, til þess að breyta um í íslenskri pólitík og íslenskri atvinnupólitík. Meira að segja meginhluti Sjálfstfl. stendur mjög fast að þeirri sjávarútvegsstefnu sem núna ríkir í landinu. Hann hefur staðið mjög ákveðið að því og hann heldur því fram ásamt með sjútvrh. að sú fiskveiðistefna sem við höfum búið við hafi skilað hinum besta árangri þrátt fyrir það að fiskistofnarnir og þá sérstaklega botnfiskstofnarnir og þorskurinn hafi minnkað ár frá ári alveg þveröfugt við það sem spáð var og fiskveiðistefnan átti að stefna að. Hún átti að stefna að því að auka fiskistofnana, gera okkur betur búna í að skapa meiri þjóðarauðæfi. Og fiskveiðistefnan átti líka að vinna að því að flotinn minnkaði. Hann átti að minnka ár frá ári. Hann hefur aftur á móti stækkað ár frá ári. Fiskveiðistefnan átti líka að stuðla að því að íslenskur sjávarútvegur yrði arðbærari, það yrði ódýrara að gera út heldur en áður. Þetta er alveg þveröfugt.
    Og áfram er staðið að þessari sömu fiskveiðistefnu

og áfram leggja menn til, kannski fyrst og fremst þingmenn Sjálfstfl. og fulltrúar Sjálfstfl. í hinum ýmsu atvinnugreinum, að þessari stefnu verði haldið áfram. Þeir koma ekki með neinar tillögur um það að hverfa frá gjaldþrotastefnunni sem þeir stóðu að á undanförnum árum, þeir hrópa bara: Þessi ríkisstjórn þarf að fara frá. En þeir nefna ekki á einn eða neinn hátt hvað skui koma í staðinn eða hverjar breytingar skuli verða á atvinnupólitík í landinu.