Fæðingarorlof
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég kem vanbúin í þessa umræðu vegna þess að ég heyrði ekki fyrri hluta hennar því miður. En ég vil þó geta þess hér að ég veit til þess að í tryggingaráði og líka í heilbrrn. hafa lögin um fæðingarorlof verið túlkuð á þann veg að ef kona þiggur laun í fæðingarorlofi fellur jafnframt niður réttur hennar til þess að fá fæðingarorlof frá Tryggingastofnun. Þetta hefur verið vandi t.d. í sambandi við bankamenn eftir að fæðingarorlof lengdist og bankamenn vildu að konur í þeirri stétt héldu fullum launum eins og kjarasamningar kváðu á um þriggja mánaða fæðingarorlofið. Ég hygg að einmitt þess vegna hafi verið sett nefnd í málið, til að skýra túlkunina og reyna að ná samkomulagi um hana vegna þess hversu erfitt hefur reynst í ýmsum tilvikum að túlka lögin og reglugerðina sem var sett um þau.
    Óstöðugleiki vinnumarkaðar og líka það hve margar konur vinna hlutastörf og eru þess vegna hjá fleiri en einum atvinnuveitanda, bæði hjá ríkinu og kannski öðrum atvinnuveitanda, hafa líka gert það að verkum að það er erfitt að túlka rétt kvenna til fæðingarorlofs. Ég vona bara að þessari nefnd takist að draga skýrari línur í þessum efnum.