Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 22. nóvember 1989


     Guðmundur G. Þórarinsson:
    Virðulegi forseti. Ég mun undir þessum dagskrárlið fara fáeinum orðum bæði um 95. og 96. mál og nýta mér þar fordæmi hv. 1. þm. Reykv. sem gerði grein fyrir báðum málunum í sömu ræðu í framsögu, ef ég man rétt.
    Í þessum frv. er um að ræða mörg atriði um skattalega meðferð til að mynda á hlutafé sem að mínu viti eru jákvæð og þurfa að athugast vel í nefnd. Hluti af þessum tillögum er endurfluttur frá síðasta þingi og hv. 1. þm. Reykv. hefur verið ötull talsmaður þess hér í þinginu að fá fram lagfæringar á skattalegri meðferð hlutafjár og gera hana að einhverju leyti sambærilegri við skattalega meðferð annars sparifjár í okkar skattakerfi. Fyrir það á hann þakkir skildar.
    Ég held að það mál sem hér er til umræðu sé meðal brýnustu málanna í okkar þjóðfélagi í dag. Í þeirri stöðu sem allt okkar atvinnulíf er í þar sem eigið fé fyrirtækjanna, sérstaklega í útflutnings- og samkeppnisgreinum, hefur brunnið mjög ört upp á síðustu árum og lánsfé hefur sjaldan verið dýrara en nú er gríðarlega mikilvægt að örva fyrirtækin og hjálpa þeim til að auka sitt eigið fé og renna þannig styrkari stoðum undir atvinnulíf í landinu. Jafnframt eru slíkar breytingar mjög mikilvægar til að örva almenning til frekari þátttöku í atvinnulífinu. Ég ætla ekki að fara orðum um það að þessu sinni af hverju eigið fé fyrirtækjanna, sérstaklega í útflutningsgreinum, hefur brunnið mjög upp á síðustu árum og svo að dæmi munu vart til annars eins á tímum fastgengisstefnunnar.
    Annað atriði sem er auðvitað mjög mikilvægt, þegar rætt er um skattalögin almennt, er það að með aðlögun að Evrópubandalaginu er ljóst að Íslendingar þurfa mjög að horfa til í harðnandi samkeppni þeirrar starfsaðstöðu og starfsskilyrða sem löndin í kringum okkur, samkeppnislöndin, veita sínum fyrirtækjum.
    Vegna þeirra breytinga sem hér eru til umræðu um skattalega meðferð á hlutafé vil ég geta þess að þingflokkur framsóknarmanna skipaði á sínum tíma sérstaka þingmannanefnd til að gera tillögur í efnahags-, atvinnu- og byggðamálum. Í tillögum sem sú nefnd hefur skilað þingflokki Framsfl. segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Fyrirtækjum verði auðveldað að auka eigið fé sitt með því að:
    a. Skattfrádráttur vegna hlutabréfakaupa verði hækkaður.
    b. Ákvæði sem fyrirtæki þarf að uppfylla til þess að hlutabréfakaup njóti skattfrádráttar verði rýmkuð, þ.e. lágmarksfjöldi hluthafa, lágmarkshlutafé o.s.frv.
    c. Útgreiðsla arðs verði frádráttarbær hjá fyrirtæki og skattmörk rýmkuð hjá einstaklingum.
    d. Tap af hlutafé verði frádráttarbært í rekstri svipað og tap annarra eigna.
    e. Stimpilgjöld af hlutabréfum lækki úr 2% í 0,5%.
    f. Lífeyrissjóðum verði heimilað að verja ákveðnu hlutfalli eigna sinna til hlutabréfakaupa í atvinnurekstri.``

    Það er því ljóst að sú þingmannanefnd sem hér um ræðir hefur skilað tillögum inn í þingflokkinn sem að ýmsu leyti ganga mjög í sömu átt og þær tillögur sem hér liggja fyrir í frumvarpsformi þó að ekki sé það nú að öllu leyti.
    Mig langar til að gera athugasemdir við nokkrar greinar í þessum frv. sem fyrir liggja, 95. og 96. máli.
    Ef ég byrja þá á 95. máli er í 1. gr. gert ráð fyrir að hagnaður af hlutabréfum í eigu skattaðila verði ekki skattskyldur hafi hlutabréf verið í eigu skattaðila í þrjú ár eða lengur.
    Um þetta ætla ég ekki að fara mörgum orðum en sú spurning hlýtur að vakna hvort þarna ætti eitthvert hámark að vera á og þarf þá vafalaust að skoðast sérstaklega ef samræming ætti að vera á fjármagnstekjum eða skattlagningu fjármagnstekna hvernig sem því máli reiðir nú af.
    Undir b-lið í þessari 1. gr. er gert ráð fyrir að verði tap af sölu hlutabréfa megi draga það tap frá skattskyldum söluhagnaði hlutabréfanna.
    Þessi grein vekur ýmsar spurningar. Í fyrsta lagi er hún eingöngu miðuð við það ef tap á hlutabréfum verður við sölu hlutabréfa. Nú getur hlutafé tapast með ýmsum hætti, til að mynda með gjaldþroti þeirra fyrirtækja sem um er að ræða, og það er spurning hvort slíkt tap ætti þá ekki að vera frádráttarbært eins og tap annarra eigna, til að mynda í rekstri bifreiðar eða tölvubúnaðar eða einhvers slíks, þó um gjaldþrot væri að ræða, en hér í frv. þeirra sjálfstæðismanna gera þeir eingöngu ráð fyrir að tapið verði dregið frá skatttekjum í því tilviki að það verði til við sölu hlutabréfa.
    Í öðru lagi gera þeir ráð fyrir að þetta tap megi eingöngu draga frá skattskyldum söluhagnaði hlutabréfa sem væri þá samkvæmt a-liðnum eingöngu um að ræða fyrstu þrjú árin því að eftir það yrði ekki um að ræða skattskyldan söluhagnað, skilji ég greinina rétt, en það eru þá fyrstu þrjú árin. Þetta vekur enn upp spurningar um það hvort aðili, við skulum segja verkamaður við höfnina, sem á hlutabréf og tapar verulega á sölu þess en er ekki í almennum hlutabréfaviðskiptum og nýtur þess vegna ekki hagnaðar af sölu annarra bréfa,
ætti þá að bera þetta tap en aðili sem væri í þessum bransa, keypti og seldi hlutabréf, gæti dregið tapið frá hagnaði sem annars staðar hlytist. Þetta vekur auðvitað upp ýmsar spurningar og er spurningin um hvort á að halda þessum vangaveltum um hagnað og tap innan þessarar greinar eða færa þetta víðtækara út. Minn skilningur er sá að fari menn út í þetta ættu menn að geta notið þess taps við frádrátt þó að þeir væru ekki í viðskiptum með önnur hlutabréf.
    Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir að unnt sé að greiða út --- það er nú bæði hækkun á hámarki úr 10% í 15% en síðan að unnt sé að greiða út arð, jafnvel af þeim jöfnunarhlutabréfum sem réttur er til að gefa út án þess að þau séu í sjálfu sér gefin út. Ég tel það mjög jákvætt mál og í rauninni sjálfsagt.
    Í b-lið 2. gr. er fjallað um tölur sem geta auðvitað orðið endalaust álitamál og ég ætla ekki að fara nánar

út í hér.
    Í 3. gr. er fjallað um það að frádráttur fyrirtækis sem greiðir út arð af hlutafé skuli geta orðið 15% af stofni sem markast af nafnvirði hlutafjárins ásamt jöfnunarhlutabréfum.
    Greiði fyrirtækið út meiri arð en 15% yrði hann samkvæmt þessu frv. þeirra sjálfstæðismanna tvískattaður. Þá yrði fyrirtækið að greiða skatt af því sem það greiddi umfram 15% og síðan yrði einstaklingurinn að greiða skatt líka af því sama fé. Þarna er mikil spurning hvort ekki dygði ein sköttun, þ.e. að arðurinn væri bara frádráttarbær hjá fyrirtækinu en einstaklingurinn greiddi þá skatt af þeim arði sem hann fengi.
    Ég ætla ekki að fjalla um 4. og 5. gr. Ég tel að í þessu samhengi öllu sé 4. gr. miklu minna mál og 5. gr. er nú óneitanlega dálítið á gráu svæði sem ég ætla ekki að ræða mikið hér, en hvorug þeirra er jafnmikilvæg og hinar sem fjalla um skattafrádrátt vegna hlutafjárins.
    Í 6. gr. kemur fram athyglisverð hugmynd um sveiflujöfnun. Ég er þeirrar skoðunar að sveiflujöfnunarsjóður af þessu tagi sem hér er lýst sé mjög jákvæður. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að í því tilviki ætti að fella út ákvæðin um sérstakan fjárfestingarsjóð en nýta þá fremur heimild sveiflujöfnunarsjóðs til að fjárfesta að einhverju leyti enda er þá greiddur skattur af peningunum þegar þeir eru teknir út úr þessum sveiflujöfnunarsjóði.
    Mér þykir það ofrausn hjá þeim flm. að gera ráð fyrir að 30% af hagnaði megi renna í fjárfestingarsjóð og önnur 30% í sveiflujöfnunarsjóð eða 60% af hagnaði og síðan að gera ráð fyrir að skattprósentan að auki lækki úr 50% í 48%. Svona fljótt á litið virðist mér eðlilegast að innleiða sveiflujöfnunarsjóðinn sem ég held að sé mjög jákvætt hugtak inn í atvinnurekstur á Íslandi en fella þá út ákvæðin um fjárfestingarsjóð enda væri annað ofgert. Í því tilviki væri unnt að leggja í sveiflujöfnunarsjóð 30% af hagnaði til að mæta mögru árunum sem voru 30% í fjárfestingarsjóði áður og eru 15% núna en dyttu þá út. Það þýddi að fyrirtækið mundi greiða 50% skatt af 70% hagnaðarins sem svarar til um 35% og er þá orðið nálægt því sem einstaklingur greiðir sem er 37,74% ef ég man rétt. Það væri ekkert óeðlilegt að miða við svipaða prósentu þarna og þar með að aðlaga þetta e.t.v. dálítið því sem er að gerast í samkeppnislöndum okkar, enda samkeppnin mjög harðnandi. En ég ítreka það að mér þykir það mikil ofrausn að leggja til að 30% hagnaðar fari í fjárfestingarsjóð, að auki 30% í sveiflujöfnunarsjóð og síðan lækki skattprósentan sjálf úr 50 í 48.
    Í 11. gr. er breyting sem ég hygg að sé mjög jákvæð, þ.e. að ekki þurfi að meta til eignarskatts hlutabréfin eins og þau eru metin eða á skráðu gengi hlutabréfa á Verðbréfaþingi Íslands um síðustu áramót. Það hefur greinilega valdið miklum erfiðleikum við skráningu bréfanna. En ég vek athygli á því að byrjun 11. gr., eins og lögin eru reyndar núna, er svona: ,,Hlutabréf skal telja til eignar á nafnverði nema

sannað sé að raunvirði eigna félagsins sé lægra ...`` Og það er spurning sem margir hafa velt fyrir sér hvernig eigi að sanna það. Hvers konar sönnunarbyrði er það sem þar er átt við og hygg ég að vefjist fyrir fleirum en mér.
    Þegar kemur að 12. gr. er talað um að auka þær upphæðir sem þegar eru í lögum frádráttarbærar til eignarskatts þegar um er að ræða hlutafé og reyndar innistæður og ýmislegt annað lausafé. Þessi grein er þó þannig að frádrátturinn er heimill upp að þessum tölum að því marki sem hann er umfram
skuldir. Mér kæmi nú ekki á óvart að margir þyrftu að lesa þá grein oftar en einu sinni til að skilja hvað þar er átt við og e.t.v. væri rétt að endurskoða þessa grein betur og taka þessa skuldaviðmiðun þarna í burtu sem ég efast um að þjóni miklu hlutverki, a.m.k. átta ég mig ekki nægilega vel á henni. ( FrS: Í hvaða grein?) Það er 12. gr., þ.e. þar sem átt er við ákvæði 78. gr. um frádrátt að því marki er nemur umfram skuld.
    Varðandi 13. gr. þar sem gert er ráð fyrir að í stað ,,1,2%`` í 84. gr. komi 0,95% vil ég aðeins vitna í nál. þingmannanefndar Framsfl. þar sem segir, með leyfi forseta, í tillögum hópsins: ,,Núverandi hæsta stig eignarskatts verði fellt niður.``
    Ég vil síðan fara örfáum orðum um 96. mál þar sem einnig er hreyft mjög
athyglisverðum atriðum. Enn á ný ætla ég ekki að fjalla um tölurnar í 1. gr. frv. enda eru þær endalaust matsatriði. En þegar kemur að 3. gr. vakna ýmsar spurningar og kannski fyrst og fremst sú hvort ekki væri eðlilegra að breyta almennu greininni, um hvaða fyrirtæki falla innan þess ramma að hlutabréfakaup þeirra geti verið skattfrádráttarbær, fremur en að skjóta þessu inn í vegna þess að þetta ákvæði eins og það er þarna sett gerir eingöngu ráð fyrir nýju útboði hlutafjár í starfandi hlutafélagi sem takmarkar strax ef litið er til stofnunar nýrra hlutafélaga. Ég er ekki viss um að það sé eðlilegt að vera með þessa takmörkun ef menn fara á annað borð út í að rýmka þetta atriði sem ég tel mjög nauðsynlegt og þingmannanefnd Framsfl. leggur til í sínum tillögum. En jafnframt hygg ég að eðlilegt væri eigi að síður að miða við einhverja lágmarksfjárhæð hlutafjár, ekki bara það lágmarkshlutafé sem verður að vera samkvæmt hlutafélagalögum, til að mynda fjór- eða fimmfalt lágmarkshlutafé sem eru nú ekki það miklar upphæðir, og einnig er ég þeirrar skoðunar að lágmarksfjöldi hluthafa ætti að vera einhver, átta til tíu í þeim tilvikum að fyrirtækið eigi að njóta slíks frádráttar.
    Ég vil síðan almennt benda á að það er út af fyrir sig atriði sem flm. og aðrir þingmenn þurfa að athuga þegar talað er um frádrátt vegna hlutabréfakaupa annars vegar og hins vegar frádrátt vegna taps á hlutafé. Það getur auðvitað leitt til þess að þessi frádráttur verði virkur tvisvar, að menn nái samkvæmt tillögum, eins og sjálfstæðismenn leggja þetta fram, að draga öll hlutabréfakaupin frá skatti vegna kaupanna, en ef þeir tapa síðan hlutafénu, þá geti þeir dregið það allt saman frá aftur. Það kann að vera að

hugsunin að baki þessu sé sú að örva menn til kaupa á hlutabréfum í áhættufyrirtækjum. Á það skal ég ekki leggja dóm, en þetta hlýtur að koma inn í alla umræðuna.
    Ég er þeirrar skoðunar að þetta mál þurfi að fara í allvíðtæka athugun í nefnd. Þarna eru atriði sem að mínu viti þurfa talsverðrar lagfæringar og breytingar við en jafnframt, svo að ég ítreki það enn, eru hér mörg atriði sem ganga alveg í sömu átt og þingmannanefnd Framsfl. hefur þegar lagt til.