Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Fyrir Alþingi liggur skýrsla utanrrh. til Alþingis um könnunarviðræður EFTA-ríkjanna við Evrópubandalagið. Skýrslan var send fyrir helgi hv. meðlimum utanrmn. og formönnum þingflokka og dreift í byrjun viku hér á hinu háa Alþingi þannig að ég vona að hv. þm. hafi gefist góður tími til að kynna sér efni hennar og okkur sé þess vegna kleift að eiga hér ítarlegar og málefnalegar umræður um þetta stærsta utanríkisviðskiptamál okkar Íslendinga.
    Ég vil taka það fram í upphafi máls míns, virðulegi forseti, að við höfum leitast við að hafa sem nánast samráð við bæði hv. utanrmn. og Evrópustefnunefnd Alþingis sem og aðra aðila sem hagsmuna eiga að gæta í okkar þjóðfélagi. T.d. er starfandi sérstök ráðgjafarnefnd á vegum fríverslunarsamtakanna EFTA þar sem fulltrúar samtaka atvinnulífs og vinnumarkaðar, íslenskir, hafa starfað mjög dyggilega enda nefndin undir formennsku Ólafs Davíðssonar, framkvæmdastjóra Félags ísl. iðnrekenda. Auk þess er starfandi sérstök þingmannanefnd EFTA sem hefur unnið gott starf á þessum vettvangi. Hér heima hefur verið stofnað til samráðs við fjölmennan hóp fulltrúa samtaka atvinnuvega og fulltrúa vinnuveitenda og launþegasamtaka. Leitast hefur verið við að öll helstu vinnugögn málsins berist jafnóðum í hendur fulltrúa þessara fjölmennu samtaka þannig að þeim ætti þess vegna að gefast kostur á að dreifa upplýsingum og hefja umræður um málið á málefnalegum grundvelli í nafni sinna umbjóðenda. Auk þess vil ég taka það fram að starfshópar á vegum ýmissa samtaka hafa unnið mjög gott starf við að greina hagsmuni íslensks atvinnulífs í þessu máli og að miðla upplýsingum um það. Þetta á ekki síst við um ýmsa hagsmunaaðila í sjávarútvegi og úr því að ég nefni þá hér í máli mínu er rétt að ég skýri frá því að sendiherra Íslands í Moskvu sendi skeyti núna fyrir skömmu til utanrrn. þar sem hann skýrði frá því að samningar hefðu tekist um síldarsölu Íslendinga til Sovétríkjanna núna í dag. Jafnframt hefur Síldarútvegsnefnd sent frá sér fréttatilkynningu, þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Í samræmi við það samkomulag sem tókst milli Síldarútvegsnefndar og sovésku stofnunarinnar Sovrybflot hinn 4. nóv. var í dag undirritaður samningur um fyrirframsölu á 150 þús. tunnum af hausskorinni og slógdreginni saltsíld til afgreiðslu á fyrsta ársfjórðungi 1990. Í samningnum er sérstakt ákvæði um að kaupandi muni athuga möguleika á 50 þús. tunna viðbótarkaupum og gefi svar þar að lútandi eins fljótt og við verður komið. Söluverð og aðrir skilmálar eru óbreyttir frá fyrra ári en samkomulag varð um að veita kaupendum 3% afslátt til frekari kynningar á íslenskri saltsíld í Sovétríkjunum.
    Heildarverðmæti þeirra 150 þús. tunna sem þegar hafa verið staðfestar nemur rúmlega einum milljarði ísl. kr.``
    Ég þarf ekki að hafa nein orð um þetta frekar. Ég

lýsi einfaldlega ánægju minni fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar að það hafa fengist málalyktir í þessu mikilvæga máli og óska þeim sem mestra hagsmuna áttu að gæta til hamingju með það.
    Virðulegi forseti. Þjóðir Evrópu hafa um aldaraðir borist á banaspjótum. Fyrsti stóri harmleikurinn á þessari öld var fyrri heimsstyrjöldin. Friðarsamningar í lok hennar voru varla til þess fallnir að binda endi á deilur Evrópuþjóða. Þegar við bættist heimskreppan eftir 1928 og sú verndarstefna sem henni fylgdi var gróðrarstía seinni heimsstyrjaldarinnar þegar fyrir hendi. Eftir lok hennar var það því eitt af forgangsverkefnum að auka frelsi í viðskiptum og efla önnur tengsl milli þjóða heims. Úr þeim jarðvegi spruttu reyndar samtök hinna Sameinuðu þjóða og ýmsar stofnanir á þeirra vegum. Meðal þeirra átti að vera viðskiptastofnun Sameinuðu þjóðanna. Svo langt komst þetta mál þó ekki en stór hluti þeirra stóð að gerð samkomulags um vissar grundvallarreglur í viðskiptum þjóða. Það fékk nafnið Hið almenna samkomulag um tolla og viðskipti og gengur undir nafninu GATT í samræmi við skammstöfun á hinu enska heiti samkomulagsins. Enda þótt meginregla þessa samkomulags væri ákvæði um bestu viðskiptakjör gagnkvæmt fyrir alla aðila samkomulagsins var þó heimilt að veita enn betri kjör í skiptum milli ríkja sem stofnuðu sín í milli tollabandalag eða fríverslunarsvæði. Með heimild í þessum ákvæðum var Efnahagsbandalag Evrópu síðar stofnað sem tollabandalag og EFTA sem fríverslunarsvæði.
    Hugsjónin að baki stofnunar Efnahagsbandalags Evrópu, eða Evrópubandalagsins eins og við nú köllum einu nafni bandalögin þrjú sem það mynda, var þó í reynd miklu djúpstæðari. Frumkvöðlar Evrópubandalagsins áttu sér þá draumsýn að tengja forna fjendur svo traustum böndum að fleiri styrjaldir þeirra á milli yrðu óhugsandi. Lokamarkmiðið skyldi vera samruni á sem flestum sviðum eða eins konar bandaríki Evrópu. Markmiðið var í höfuðdráttum staðfest milli stofnríkjanna sex í Rómarsáttmálanum svokallaða sem gerður var fyrir röskum 30 árum. Fleiri ríki bættust í hópinn og framkvæmd hugsjónanna miðaði misvel. Það
var síðan með ákvörðun bandalagsins árið 1985 um framkvæmd innri markaðar og með einingarlögunum 1987 að verulegur skriður komst á framkvæmd þessara hugmynda. Hindrunarlaus heimamarkaður tólf ríkja bandalagsins á að vera orðinn að veruleika í árslok 1992. Það verður hindrunarlaus heimamarkaður 320 milljóna manna eða stærsti markaður þeirrar tegundar á jarðríki. Þetta á ekki aðeins við um vöruviðskipti heldur fjölmarga aðra samstarfsþætti.
    Í framhaldi af þessu þykir mér rétt að víkja að nokkrum efnahagslegum og pólitískum þáttum þessa máls. Árið 1988 fóru 69% alls útflutnings okkar til ríkja Evrópubandalagsins og EFTA eða þess sem við köllum evrópska efnahagssvæðið og tæp 74% innflutningsins komu þaðan. Tölur fyrir inn- og útflutning frá öðrum ríkjum EFTA eru svipaðar en þó

heldur lægri. Viðskipti Evrópubandalagsríkja sín á milli eru mikil en þegar aðeins er litið á inn- og útflutning bandalagsins til ríkja utan þess eru viðskiptin við EFTA-ríkin meira en fjórðungur og reyndar meiri en viðskipti Evrópubandalagsins við Bandaríkin og Japan samanlagt.
    Á undanförnum árum hefur útflutningur Íslendinga til ríkja Vestur-Evrópu aukist mikið. Á sama tíma hefur verulega dregið úr útflutningi til Bandaríkjanna og Austur-Evrópu. Tollar af íslenskum sjávarafurðum í Bandaríkjunum eru óverulegir og þeir eru því ekki ástæða til þessa samdráttar. Á hinn bóginn hefur gengisþróun átt nokkurn þátt í þessu og svo sú staðreynd að markaðir í Vestur-Evrópu hafa einfaldlega öðlast meira aðdráttarafl á undanförnum árum. Allt bendir til þess að Vestur-Evrópa verði á næstu árum langsamlega stærsti markaður fyrir útflutning frá Íslandi þótt sjálfsagt sé að reyna af fremsta megni að hlúa að öðrum líklegum vaxtarbroddum, bæði í Bandaríkjunum, í Japan og í hinum rísandi löndum Asíu.
    Sjávarútvegur hefur verið megingrundvöllur aukins hagvaxtar á Íslandi. Með aðildinni að EFTA og síðar fríverslunarsamningnum við Evrópubandalagið var ætlunin að skjóta fleiri stoðum undir íslenskt efnahagslíf og efla íslenskan iðnað. Hægar hefur miðað í þeim efnum en til stóð og má eflaust kenna stjórnvöldum að einhverju leyti um. Á hinn bóginn á þetta sjónarmið fullan rétt á sér og má ekki gleymast í umræðum um viðskiptalega stöðu Íslendinga. Hagvöxtur undanfarinna áratuga á Íslandi hefur að verulegu leyti byggst á sjávarfangi og þá á þeirri staðreynd að fiskveiðilögsagan var færð úr þremur sjómílum í tólf, úr tólf í fimmtíu og loks úr fimmtíu í tvö hundruð sjómílur. Lengra verður ekki komist í þeim efnum. Veruleg aukning fiskveiða verður því ekki áfram sami vaxtarbroddur og áður þótt betri nýting geti enn aukið verðmæti verulega. Iðnaður hlýtur því að verða vaxandi þáttur í íslensku efnahagslífi og þar með útflutningi á komandi árum. Sambærileg skilyrði og eru í öðrum löndum verða því að gilda einnig hér á landi. Þetta á bæði við um aðstöðu, aðgang að fjármagni og hindrunarlausan aðgang að öðrum mörkuðum. Með þátttöku í samstarfi Evrópuþjóða getum við náð árangri í þessum efnum, árangri sem ekki næst ef við stöndum utan samstarfsins.
    Nú má víða sjá stöðnunarmerki í íslenskum þjóðarbúskap og koma þau vel í ljós þegar borin er saman hagþróun hér á landi á áttunda áratugnum annars vegar og þessum áratug hins vegar. Á síðasta áratug var hagvöxtur á mann hér á landi að jafnaði 5,5% á ári. Það þýðir að í lok áttunda áratugarins var landsframleiðsla á mann orðin 60--70% meiri en hún hafði verið við upphaf þessa áratugar. Á þessum áratug, sem senn er á enda, bendir hins vegar flest til þess að hagvöxtur á mann verði ekki nema 1% á ári að meðaltali sem þýðir að landsframleiðsla á mann í lok áratugarins verði ekki nema um 10% meiri en við upphaf hans. Þetta eru mikil og alvarleg umskipti og

viðvörunarmerki.
    Á sama tíma og svo virðist sem verulega hafi hægt á hagvexti hér á landi hefur hann ef eitthvað er heldur aukist í ýmsum af helstu viðskiptalöndum okkar. Síðustu tvo áratugina hefur hagvöxtur á mann í OECD-ríkjum að jafnaði verið um 2--2,5% á ári. Á þessum áratug hefur því dregið í sundur með Íslendingum og nálægum þjóðum hvað varðar landsframleiðslu á mann og það sama gildir þar af leiðandi að sjálfsögðu um lífskjör.
    Þetta eru í afar stuttu máli hin efnahagslegu rök fyrir nauðsyn okkar Íslendinga á að tryggja okkur markaðsaðild og að taka fullan þátt í samstarfi Evrópuríkja á sviði viðskipta og efnahagslífs.
    Það eru mörg önnur rök sem hníga að náinni samvinnu við ríki Vestur-Evrópu. Þau eru bæði pólitísks eðlis og menningarlegs. Við erum hluti af Evrópu, höfum verið það og viljum vera það áfram. Við höfum sótt okkur fyrirmyndir til ríkja Evrópu, ekki síst annarra Norðurlanda, á mörgum sviðum í okkar þjóðlífi. Öll þessi ríki stefna nú að víðtækari samvinnu í Evrópu. Ef við stöndum utan við þá þróun stefnum við í einangrun, ekki aðeins frá þeim ríkjum sem eru innan Evrópubandalagsins heldur mjög líklega einnig frá öðrum Norður-Evrópuríkjum og Norðurlöndum.
    Miklar og sögulegar breytingar eiga sér nú stað í Evrópu og þau ríki sem allt frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar hafa staðið utan við þróunina í vesturhluta álfunnar stefna nú óðum að opnara þjóðfélagi og nánari samskiptum vestur á bóginn. Sú gleðilega staðreynd eykur enn á nauðsyn þess að við verðum
þátttakendur í þessu samstarfi. Af hálfu EFTA-ríkjanna hefur því verið lýst yfir að því fyrr sem samningum milli þeirra og Evrópubandalagsins verði lokið, því fyrr geti Vestur-Evrópa sameiginlega einbeitt kröftunum að aðstoð við þjóðir Mið- og Austur-Evrópu og stefnt að því að samvinna og samstarf blómstri um gjörvalla Evrópu.
    Virðulegi forseti. Það er sérstök ástæða til þess fyrir okkur hér á hinu háa Alþingi að ræða vandlega hina einföldu spurningu: Hvaða hlut ætlum við Íslendingar okkur í framtíðarmynd Evrópu? Enginn vafi er á því að við teljum okkur Evrópubúa og ætlum okkar að tengjast samstarfi Evrópuþjóða. En með hvaða hætti er okkar hag best borgið? Með einangrun eða einhverju formi samstarfs? Nokkrar leiðir hafa verið nefndar í almennri umræðu undanfarið.
    Ber þar fyrst að nefna aðild að Evrópubandalaginu. Fríverslunarsamtök Evrópu voru á sínum tíma stofnuð af þeim ríkjum í Evrópu sem töldu sig ekki geta eða ekki hafa hag af því að ganga í Efnahagsbandalagið eins og það hét þá. Kom þar til að þessi ríki vildu ekki, ýmist vegna hlutleysisafstöðu í öryggis- og alþjóðastjórnmálum eða af öðrum ástæðum, ganga í bandalag sem náði til pólitísks samstarfs, hafði sameiginlega landbúnaðarstefnu og síðast en ekki síst fól í sér takmörkun á sjálfsákvörðunarrétti aðildarríkja.

Nokkur af stofnríkjum EFTA eins og Bretland, Danmörk og Portúgal sáu síðar hag sínum betur borgið innan Evrópubandalagsins. Austurríki hefur tekið sömu stefnu og hefur nú sótt um aðild að bandalaginu sem hins vegar eru engar líkur á að verði afgreidd fyrr en líða tekur á seinni hluta næsta áratugar.
    Þau EFTA-ríki sem nú eru aðilar að Fríverslunarsamtökunum beita hins vegar sömu rökum og áður fyrir því að gerast ekki aðilar að Evrópubandalaginu. Þar á meðal er Ísland sem auk framangreindra raka hefur ekki talið sér hag í því að gerast aðili, m.a. vegna hinnar sameiginlegu fiskveiðistefnu Evrópubandalagsins.
    Í annan stað má nefna þá hugmynd að semja við Evrópubandalagið á tvíhliða grundvelli. Það fyrsta sem segja þarf um þá leið er að Evrópubandalagið hefur marglýst því yfir að það sé ekki reiðubúið að taka upp samninga á tvíhliða grundvelli við hvert einstakt EFTA-ríki. Öðru máli gegni hins vegar um að taka tillit til sérstöðu og sérhagsmuna einstakra EFTA-ríkja sem fara saman með hagsmunum bandalagsins sjálfs innan ramma heildarsamnings.
    Í þessu sambandi verður að leita skýringa á afstöðu Evrópubandalagsins í eðli hins innri markaðar. Ef ná á þeim markmiðum sem sett eru með sameiginlegum markaði verða sömu skilyrði að gilda innan alls svæðisins sem markaðurinn nær til. Verði innri markaðurinn einnig látinn ná til EFTA-ríkjanna er ljóst að EFTA-ríkin verða að gangast undir sömu skilyrði í grundvallaratriðum að því er varðar efnahagslífið. Eðli sameiginlegs markaðar leyfir einfaldlega ekki að mismunandi tvíhliða samningar gangi um þvert og
endilangt svæðið. Það er einnig ljóst að Evrópubandalagið er einfaldlega svo upptekið af því að hrinda í framkvæmd þeim markmiðum sem þær þjóðir hafa sett sér að það skipar þeim málum eða framkvæmd þeirra hugmynda í forgangsröð.
    Ef samningar við EFTA-ríkin ættu að fara fram á tvíhliða grundvelli eru þess vegna allar líkur á því að við yrðum að bíða eftir niðurstöðum þess máls fram yfir árslok 1992 eða síðar en markmið EFTA-ríkjanna sem slíkra hefur hins vegar verið, þvert á móti, að ná samningum sem fyrst, hefja samningagerð sem fyrst, til þess beinlínis að hafa áhrif á mótun innri markaðarins fram að þeim tíma.
    Þær raddir heyrast oft að Íslendingar eigi ekki að taka þátt í sameiginlegum samningaviðræðum EFTA-ríkjanna við Evrópubandalagið. Íslenskt þjóðfélag sé svo einstætt, svo sérstætt í sinni röð, að við getum ekki átt samleið með öðrum þjóðum. Í stað þátttöku í sameiginlegum samningaviðræðum EFTA-ríkjanna við Evrópubandalagið eigi Íslendingar þess vegna að leita eftir tvíhliða samningum til þess að tryggja sína hagsmuni.
    Sannleikurinn er sá að við stöndum í reynd ekki frammi fyrir vali í þessu efni. Þetta er ekki spurningin um annaðhvort eða. Þetta er ekki spurning um það að fara annaðhvort EFTA-leiðina í samstarfi við

samstarfsríki okkar fimm innan Fríverslunarsamtakanna eða að freista þess að taka upp tvíhliða viðræður milli Íslands og Evrópubandalagsins. Við höfum farið báðar þessar leiðir. Við sækjum fram á þessum vígstöðvum hvorum tveggja. Munurinn er hins vegar sá að við höfum nú þegar náð umtalsverðum árangri eftir EFTA-leiðinni en við höfum enn ekki náð árangri eftir hinni leiðinni. En það skal tekið skýrt fram að báðar leiðirnar eru farnar og við erum í viðræðum við Evrópubandalagið þótt þær hafi enn ekki leitt til niðurstöðu.
    Sérstakir samningar Íslands við Evrópubandalagið eiga aðeins við um einn þátt þeirrar víðtæku samvinnu sem Íslendingar þurfa að eiga við Evrópubandalagið og þá um leið við samstarfsaðila sína í EFTA en það er á sviði markaðsstöðu og viðskipta með sjávarafurðir. Allt frá árinu 1972 höfum við Íslendingar átt í viðræðum við Evrópubandalagið um tolla á íslenskum fiskafurðum við útflutning til bandalagsins. Bókun nr. 6 við fríverslunarsamning okkar við bandalagið tryggði okkur í fyrsta lagi --- og
það má ekki gleymast --- útflutning án magntakmarkana á fiskafurðum okkar til bandalagsins. Samningsaðilar okkar gerðu okkur þó vissulega grein fyrir því að við værum ekki að verða aðilar að bandalaginu og því hlyti að verða ljóst að sömu kjör og aðildarríkin gætum við ekki fengið. Það sem við fengum af tollfríðindum fyrir sjávarafurðir var ýmist algjört tollfrelsi eða lækkaðir tollar á verulegum meiri hluta útflutnings okkar á sjávarafurðum á þeim tíma sem samningurinn var gerður. Þetta var viðurkenning samningsaðila okkar á því að fiskur væri og yrði um fyrirsjáanlega framtíð undirstaða útflutnings okkar til bandalagsins. Því bæri að veita okkur slík tollfríðindi til þess að jafn ábati yrði fyrir báða aðila af gerð fríverslunarsamnings.
    Svo dæmi sé tekið fékkst saltfiskur ekki inn í þessa sérstöku bókun og var reyndar á þeim tíma ekki lögð afgerandi áhersla á það af tveimur auðskiljanlegum ástæðum. Annars vegar vegna þess að tollur hafði verið felldur niður af þessari vöru í bandalaginu einhliða og tímabundið og okkur var sagt að ekki væru líkur á að sá tollur yrði tekinn upp að nýju. Hins vegar vegna þess að helstu markaðslönd fyrir saltfisk voru á þessum tíma utan Evrópubandalagsins, Spánn og Portúgal, og því var þýðing tollfrelsis fyrir hann ekki afgerandi. Breytt afstaða bandalagsins eftir að helstu innflytjendur saltfisks í Evrópu, Portúgal, Spánn og Grikkland, urðu aðilar að bandalaginu hefur valdið okkur ýmsum vandræðum. Engin ástæða er til að gera lítið úr þeim og þess vegna hefur mikið verið reynt að ná fram viðunandi lausn á þessu máli. Ríkisstjórnin hefur á engan hátt útilokað að reynt yrði að ná tvíhliða samningum við Evrópubandalagið um að felldir yrðu niður eða lækkaðir þeir tollar sem enn eru á ýmsum íslenskum fiskafurðum sem fluttar eru út til bandalagsins. Spurningin hefur hins vegar ætíð verið þessi og er enn: Hvað ættum við Íslendingar að bjóða

á móti því að samningar eru venjulega samningar en ekki einhliða tilhliðranir?
    Þegar rætt er um tvíhliða samninga Íslands við Evrópubandalagið um frekari tollfríðindi en þegar hefur verið samið um fyrir íslenskan fisk vaknar að sjálfsögðu þessi spurning: Hvað erum við tilbúnir að láta af hendi á móti?
    Evrópubandalagið hefur samkvæmt sinni sameiginlegu fiskveiðistefnu staðfest að það gefi ekki kost á frekari tilhliðrunum í þessu efni nema að fullnægðum þeim skilyrðum sem það setur í slíkum viðskiptum, þ.e. veiðiheimildir fyrir tollfríðindi. Þeirri stefnu hefur þessi ríkisstjórn hafnað og ég veit ekki betur en að um þá afstöðu sé órofa samstaða meðal stjórnmálaflokka, stjórnmálaafla og hagsmunasamtaka á Íslandi. Til þess að reyna að losa um þessa stöðu hefur af Íslands hálfu verið rætt um að efna til samkomulags eða samninga í víðum skilningi um fiskveiðimálefni við Evrópubandalagið. Þannig hefur verið rætt um samning um vísindalega samvinnu, um sameiginlegar aðgerðir til þess að vernda lífríki hafsins og ýmis önnur atriði, þeirra á meðal t.d. um kröfur og stöðlun á gagnkvæmum kröfum um gæði og eftirlit með þeim.
    Hingað til hefur bandalagið ekki talið samninga af því tagi skapa grundvöll fyrir víðtækari tollfríðindi fyrir íslenskan fisk. Þá hefur af Íslands hálfu verið reifaður sá möguleiki á grundvelli gagnkvæmni að skipst yrði á einhverjum takmörkuðum veiðiheimildum á einstökum fisktegundum þar sem báðir aðilar sæju sér hag í því. Jafnframt mætti þá kanna hvort núgildandi fríverslunarsamningur veitti ekki frekara svigrúm til tollalækkana á ýmsum iðnvarningi fyrir ríki Evrópubandalagsins, og þá væri ég að ræða um þá litlu fjáröflunartolla sem eftir eru, en sannleikurinn er sá að Íslendingar hafa þegar gengið mjög langt í því að lækka sína ytri tolla. Þeir eru t.d. lægri en ytri tollar Evrópubandalagsins til jafnaðar. Viðræður við bandalagið á þessum grundvelli eru skammt á veg komnar en sjálfsagt er að halda þeim áfram enda verður þeim haldið áfram og þær eru í gangi, alveg óháð víðtækari viðræðum EFTA og Evrópubandalagsins. Sú niðurstaða leiðir þó á engan hátt til þess að álykta megi að viðræður EFTA við Evrópubandalagið séu ekki í þágu íslenskra hagsmuna. Bæði er að sameiginleg afstaða EFTA-ríkjanna varðandi fríverslun með fisk veitir okkur aukinn styrk við samningaborðið og eins hitt að við erum að tala um miklu fleira en eingöngu tolla á fiskafurðum. Við erum að tala um víðtæka samvinnu ríkja Vestur-Evrópu, og e.t.v. fyrr en varir allra ríkja Evrópu, um fjölmarga þætti daglegra samskipta einstaklinga, fyrirtækja, samtaka og þjóða sem þessi ríki byggja.
    Þriðji kosturinn og sá sem nú er í boði er að EFTA-ríkin semji sameiginlega við Evrópubandalagið um sín mál. Eins og skýrsla mín um þær könnunarviðræður sem fram hafa farið á undanförnum mánuðum ber með sér og ég mun skýra hér á eftir getum við með því samstarfi tryggt okkur þátttöku á

sameiginlegum evrópskum markaði þar sem hömlum er lyft af viðskiptum með vörur, fjármagn, þjónustuviðskipti, og þar sem námsfólki okkar og launþegum verður tryggður réttur til náms og starfs á jafnréttisgrundvelli með öðrum ríkisborgurum aðildarríkja á evrópsku efnahagssvæði sem mundi ná til 18 ríkja Vestur-Evrópu og á síðari stigum jafnvel til allrar Evrópu.
    Með Oslóaryfirlýsingunni, sem gefin var út að loknum leiðtogafundi EFTA í Osló 15. mars sl., var brotið blað í þróun samskipta EFTA-ríkjanna og
Evrópubandalagsins. Fyrir þann tíma, eða frá árinu 1984, í samræmi við svokallaða Lúxemborgaryfirlýsingu, hafði verið unnið að afmörkuðum þáttum í myndun svokallaðs evrópsk efnahagssvæðis með starfi vinnuhópa sérfræðinga á ákveðnum sviðum sem bæði EFTA-ríkin og Evrópubandalagið komu sér saman um. Þessum hópum hefur fjölgað á liðnum árum og skipta þeir nú nokkrum tugum, u.þ.b. 30. Störf þessara hópa hafa gengið misjafnlega. Sum hafa gengið allvel, svo sem á sviði tollmeðferðar og vísindasamstarfs og nú síðast menntamála, en hjá öðrum hefur vinnan gengið hægar og má nefna um það fjölmörg dæmi.
    Á síðari hluta árs í fyrra var það mat margra sem unnu að þessum svokallaða Lúxemborgarferli að það gengi ekki nægilega hratt fyrir sig þegar litið væri til þróunar innri markaðar Evrópubandalagsins. Til þess að bæta úr þyrfti að endurskoða samstarfsgrundvöllinn og víkka hann. Jafnframt þyrfti að tryggja EFTA-ríkjunum meiri þátttöku í mótun og ákvörðun verkefna og framkvæmd þeirra á grundvelli gagnkvæmra réttinda og skyldna. Þetta varð til þess að Gro Harlem Brundtland, þáverandi forsætisráðherra Noregs, bauð til leiðtogafundarins í Osló í mars sl. Áður en af þessum fundi varð hélt forseti framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins, Jacques Delors, ræðu í Evrópuþinginu í Strasbourg í janúar á þessu ári þar sem hann hvatti EFTA-ríkin til þess að sýna raunverulegan vilja til nánara samstarfs við Evrópubandalagið sem einn aðili og lagði til að athugaðir yrðu ítarlega ýmsir þætti samvinnu EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins, þar með talið réttarreglur og stofnanir sem leitt gætu af nánara samstarfi. Þetta var, eins og kunnugt er, gert með yfirlýsingu leiðtogafundarins í Osló 15. mars, en í þeirri yfirlýsingu segir m.a. með leyfi forseta:
    ,,Við svörum frumkvæði Delors á jákvæðan hátt og lýsum yfir vilja okkar til að kanna með Evrópubandalaginu aðferðir og leiðir til að ná fram kerfisbundnara samstarfi með sameiginlegri ákvarðanatöku og stjórnstofnunum til þess að samstarf okkar verði árangursríkara.
    Við gerum ráð fyrir því að fyrirhugaður ráðherrafundur EFTA og Evrópubandalagsins sem haldinn verður í Brussel 20. mars leggi grunninn að því að hefja viðræður um framtíðarform og umfang samvinnu milli EFTA-ríkja og bandalagsins í náinni framtíð.
    Við gerum ráð fyrir því að samningaviðræður leiði

til fyllsta mögulega samkomulags um óhindraðan flutning á vöru, þjónustu og fjármagni og tryggi atvinnu- og búseturéttindi fólks með það að markmiði að koma á einu samræmdu evrópsku efnahagssvæði. Við erum því reiðubúin til að kanna ýmsa möguleika og leiðir til að styrkja formleg tengsl milli EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins. Við útilokum engan valkost í framtíðarviðræðum okkar við Evrópubandalagið.``
    Þetta eru nokkur lykilatriði úr svörum þjóðarleiðtoga EFTA við þeim hugmyndum sem Delors hafði lýst og það má segja að Oslóaryfirlýsingin sem slík, eins og hún var samþykkt af þjóðarleiðtogum EFTA, einróma, hafi verið grundvöllur þessara viðræðna.
    Eftir fund utanríkisráðherra EFTA og EB 20. mars sl. var ákveðið að koma á sameiginlegri stjórnarnefnd háttsettra embættismanna EFTA-ríkjanna og framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins. Þessi stjórnarnefnd, sem gekk undir nafninu ,,High Level Steering Group``, kom á fót fimm vinnuhópum til að sinna þessu verkefni. Ákveðið var að fyrsti áfangi í viðræðum EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins hæfist 28. apríl og honum yrði lokið 20. okt.
    Á þessum sex mánaða ferli skyldi kannað hvort EFTA-ríkin í sameiningu gætu fundið með framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins á grundvelli þeirra reglna sem Evrópubandalagið hefur þegar sett nægilega sameiginlega afstöðu til að efna mætti til samningaviðræðna um framkvæmd hins fjóreina frelsis varðandi vörur, fjármagn, þjónustu og réttindi fólks, auk jaðarmálefna sem taka til annarra þátta er varða viðskiptalegan samruna og um réttarreglur og stofnanir til þess að tryggja framkvæmd slíkra samninga.
    Til þess að takast á við þá vinnu sem fram undan var var ráðuneytisstjóri íslenska utanrrn., Hannes Hafstein, skipaður fulltrúi Íslands í stjórnarnefndinni og hefur hann verið talsmaður EFTA-ríkjanna þar frá 1. júlí er Ísland tók við formennsku í EFTA. Vinnuhópunum var síðan deilt niður á ráðuneyti í samræmi við eðli verkefna og verksvið ráðuneyta. Sendiherrar Íslands í Brussel og Genf tóku að sér að vera talsmenn Íslands út á við en samræmingunni hér heima var skipt með eftirfarandi hætti:
    Ráðuneytisstjóri fjmrn. tók að sér samræmingu á störfum vinnuhópsins um óhindruð vöruviðskipti, ráðuneytisstjóri viðskrn. um óhindruð þjónustuviðskipti og fjármagnshreyfingar, ráðuneytisstjóri í félmrn. og Ólafur Walther Stefánsson, skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, höfðu á hendi verkstjórn um atvinnu- og búseturétt. Skrifstofustjóri í menntmrn., Sólrún Jensdóttir, og Greta Gunnarsdóttir, sendiráðsritari í utanrrn., verkstýrðu starfinu um jaðarmálefni. Yfirumsjón með réttarreglum og stofnanalegum atriðum hafði Sverrir Haukur Gunnlaugsson sendiherra, skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu utanrrn.
    Jafnframt var komið á samstarfsnefnd stjórnvalda og hagsmunaaðila sem ég vék að í upphafi þar sem fulltrúar ráðuneytisins gerðu hagsmunasamtökum grein

fyrir gangi mála með reglubundnum hætti.
    Hvað er svo í aðalatriðum að segja um niðurstöður og starf þessara hópa? Það er ástæðulaust að rekja alla þætti, enda er það gert ítarlega í þeirri skýrslu sem fram hefur verið lögð en ástæða til að rifja upp nokkur meginatriði. Áður en ég geri það er ástæða til þess að árétta þrennt:
    1. Sú vinna sem unnin hefur verið við upplýsingaöflun um lög og reglur EFTA-ríkjanna og úrvinnsla þeirra miðast við það að EFTA-ríkin tali einni röddu í samtölum við framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins.
    2. Upplýsingaöflun hópanna hefur byggst á að kanna möguleikana á hvort EFTA-ríkin sem ein heild geti aðlagað sig að þeim reglum sem þegar hafa verið settar innan Evrópubandalagsins á þessu takmarkaða samningssviði.
    3. Kannaðar hafa verið leiðir til að tryggja lagalegan grundvöll fyrir samstarfinu og raunverulegt jafnræði aðila við mótun og töku ákvarðana eftir að grunnsamningur hefði verið gerður.
    Um einstaka hópa er annars þetta helst að segja. Þá vík ég fyrst að starfshópi I, um óhindruð vöruviðskipti. Innan þess starfshóps var einkum rætt um vörusvið samnings og form. Vörusvið núgildandi samninga sem EFTA-ríkin gerðu tvíhliða við Evrópubandalagið á árunum 1972--1973 ná einkum til iðnaðarvara. En samningunum fylgja sérstakar bókanir um mismunandi vörusvið sem sum varða sérhagsmuni einstakra þjóða. Bókun nr. 2 fjallar þannig um unnar landbúnaðarafurðir og er að finna í öllum fríverslunarsamningunum þótt mismunandi vörulistar séu í hverjum samningi. Bókun nr. 6, sem aðeins er til í fríverslunarsamningi Íslands við Evrópubandalagið, fjallar um fríðindi fyrir íslenskar sjávarafurðir við innflutning til Evrópubandalagsins. Þessi bókun tók, eins og kunnugt er, gildi eftir lausn landhelgisdeilu Íslendinga við Breta 1. júlí 1976.
    EFTA-ríkin vilja að komið verði á sams konar fríverslun með fiskafurðir milli EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins og tekur gildi milli EFTA-ríkjanna innbyrðis á næsta ári. Jafnframt hefur komið fram að fulltrúar framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins vísa til núverandi fiskimálastefnu bandalagsins, Common Fisheries Policy, þar sem gert er ráð fyrir því að fyrir tollfríðindi fyrir sjávarafurðir inn á innri markað bandalagsins fái bandalagið fiskveiðiheimildir. Þetta er, eins og við höfum bent á, óaðgengilegt fyrir okkur með hliðsjón af þjóðarhagsmunum. Bæði í þessum viðræðum og viðræðum sem farið hafa fram á tvíhliða grundvelli við framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins og einstaka ráðherra, forsætisráðherra,
utanríkisráðherra og sjávarútvegsráðherra aðildarríkja, höfum við bent á að við séum ekki að krefjast þess að bandalagið hverfi frá fiskveiðistefnu sinni heldur hitt, að það taki tillit til hagsmuna okkar í þessu sambandi og veki ekki máls á slíkum tengslum. Það er ljóst að við eigum góða stuðningsmenn meðal ráðherra ýmissa bandalagsríkja en framkvæmdastjórn þess er hins vegar enn óhagganleg og lýsir því

einfaldlega yfir að hún hafi ekki umboð til samninga út fyrir ramma hinnar sameiginlegu fiskveiðistefnu.
    Varðandi vörusvið samningsins hefur auk fisks og fiskafurða og iðnaðarvara verið rætt um að samningur gæti náð til fleiri landbúnaðarafurða sem framleiddar eru í suðurhluta Evrópubandalagsins. Einkum er hér um að ræða ávexti en þeir eru nú þegar fluttir inn til Íslands tollfrjálst.
    Hvað varðar form samningsins er annars vegar rætt um útvíkkun núgildandi fríverslunarsamnings eða hins vegar tollabandalag. Hér eru settir fram tveir kostir. Því er yfirlýst að ekki verði tekin endanleg afstaða til þessara leiða á næstunni enda verði ýmislegt að kanna betur, sérstaklega varðandi hugmyndina um tollabandalag. Í því sambandi má t.d. nefna að þótt hún gæti á margan hátt orðið auðveldari leið kæmi hitt á móti að ekki er gert ráð fyrir fullkomnu tollabandalagi þar sem a.m.k. landbúnaðurinn yrði utan við slíkt tollabandalag og því yrði ekki unnt að afnema eftirlit á landamærum.
    Þótt ýmsar takmarkanir séu enn við lýði á sviði þjónustu- og fjármagnsviðskipta er nú markvisst unnið að því að afnema þær í EFTA-ríkjunum og Evrópubandalaginu. Í þessum fyrsta áfanga settu EFTA-ríkin ýmsa fyrirvara, einkum varðandi eignarhlutdeild erlendra aðila í fasteignum og bönkum. Af Íslands hálfu hefur verið lögð áhersla á að helsti fyrirvari okkar sé varðandi fjárfestingar erlendra aðila í náttúruauðlindum okkar sem tengjast útgerð, fiskvinnslu og orku og er sá fyrirvari ótímabundinn. Þó er rétt að hafa í huga að skv. 11. gr. laga nr. 39/1922 geta erlendir aðilar átt allt að 49% af hlutafé í útgerðarfyrirtækjum. Við leyfum nú ekki starfsemi erlendra banka eða eignaraðild að íslenskum bönkum. Undantekning var þó gerð í tengslum við stofnun Útvegsbanka Íslands hf., þar sem heimilt er að selja erlendum aðilum allt að 25% hlutabréfa í bankanum.
    Lagt var fram á Alþingi í fyrra frv. um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnustarfsemi hér á landi sem kæmi í stað dreifðra ákvæða um þetta atriði. Við erum þó ekki eins fjarri félögum okkar í EFTA hvað þessi mál varðar og
búist hafði verið við. En til að auðvelda óhindruð þjónustu- og fjármagnsviðskipti þarf eflaust að kanna ítarlega framkvæmd íslenskrar löggjafar um gjaldeyris- og innflutningsmál og athuga hvort fyrsta skref í frjálsræðisátt gæti ferið frílisti á þessu sviði, hliðstætt því sem gert var varðandi vörur árið 1960.
    Varðandi flutningastarfsemi bæði á sjó og í lofti þarf að fylgjast náið með þróun mála innan Evrópubandalagsins, sérstaklega hvað varðar flutninga á sjó milli ríkja Evrópubandalagsins og heimildir flugfélaga til flugs með farþega og frakt frá einum stað til annars innan alls svæðisins.
    Önnur atriði sem rædd hafa verið og kynnt og eru ítarleg í skýrslunni eru vátryggingarstarfsemi, fjarskiptaþjónusta, gagnabrunnar og verðbréfaviðskipti. Varðandi þessi atriði vísa ég til skýrslunnar en vil þó benda á mikilvægi þessara atriða í viðskiptalífi okkar Íslendinga.

    Útflutningstekjur okkar af þjónustu árið 1988 námu samtals 23,6 milljörðum kr. eða 27,7% af heildargjaldeyristekjum það ár. Þar af námu tekjur af samgöngum og ferðamannaþjónustu 58,2%, tekjur af varnarliðinu 21,7% og tekjur af öðru 20,1%. Á sama ári greiddu Íslendingar til útlanda fyrir þjónustu samtals 32,5 milljarða kr. eða sem nam 34% af gjaldeyrisútgjöldum. Þar af var greitt fyrir ferðaþjónustu og samgöngur 57,5%, vextir af erlendum skuldum námu 28% og annað nam 14,4%. Þjóðarbúinu er sýnilega nauðsyn á auknum útflutningi þjónustu og það þarf að auka fjármagnstekjur og tekjur af fjármálaþjónustu erlendis frá til þess að jafnvægi verði náð.
    Þriðji starfshópurinn fjallaði um atvinnu- og búseturétt einstaklinga og fjölskyldna á öllu svæðinu. Það fyrsta sem segja ber er að atvinnu- og búseturéttur tengist öllum öðrum sviðum sem samið verður um vegna þátttöku í hinum innri markaði. En í hverju felst atvinnu- og búseturéttur innan Evrópubandalagsins? Meginreglan sem gildir um rétt einstaklinga til atvinnu og búsetu í öðrum aðildarríkjum Evrópubandalagsins felst í því að einstaklingur sem hefur hug á því að starfa í öðru aðildarríki á rétt á því að fara inn í landið og leita sér þar að atvinnu í allt að þrjá mánuði. Hann á rétt á að eins sé farið með hans umsókn og ríkisborgara í því landi og fái hann vinnu skal hann njóta sömu launa og starfsskilyrða og ríkisborgarar þess lands þar sem hann starfar. Sama regla gildir um önnur félagsleg réttindi svo sem aðgang að stéttarfélögum og almannatryggingum. Tvær mjög mikilvægar undantekningar frá þessari meginreglu, um að ekki megi mismuna vegna þjóðernis, gilda þó innan Evrópubandalagsins. Önnur er sú að frjáls atvinnuréttur nær ekki til starfa á vegum hins opinbera. Hin undantekningin er sú að gera má kröfur um tungumálakunnáttu í tungumáli gistilandsins vegna eðlis starfsins. Sömu reglur gilda um sjálfstætt starfandi aðila. Þeim má ekki mismuna eftir þjóðerni.
    Til þess að auðvelda raunverulegt atvinnufrelsi hefur jafnframt verið leitast við að samræma reglur um gagnkvæma viðurkenningu prófa og annarra starfsskilyrða innan Evrópubandalagsins. Innan Evrópubandalagsins á meginreglan um að ekki megi mismuna eftir ríkisfangi einnig við um aðgang að menntastofnunum sem undirbúa einstaklinga á einn eða annan hátt undir framkvæmd starfa. Ríkisborgarar aðildarríkja Evrópubandalagsins hafa því forgang t.d. að háskólum og öðrum menntastofnunum umfram erlenda ríkisborgara. Íslendingar hafa þegar orðið varir við að þeim er skipað á bekk með ríkjum utan bandalagsins. Í þeim tilfellum eru skólagjöld bæði hærri en gilda fyrir ríkisborgara aðildarríkja og jafnframt er einfaldlega ekki tryggður aðgangur að skólum, menntastofnunum. Aðgangur að menntastofnunum í aðildarríkjum Evrópubandalagsins er okkur hins vegar ómetanlegur svo þetta er eitt af þeim forgangsmálum sem við höfum á formennskutímabili okkar gert aðildarþjóðum

Evrópubandalagsins og fulltrúum þess grein fyrir að við leggjum mikið kapp á að fá leyst.
    Íbúar í ríkjum Evrópubandalagsins eru nú u.þ.b. 320 milljónir. Eins og töflur þær sem birtast í skýrslunni bera með sér eru erlendir ríkisborgarar í þessum ríkjum samtals 12,5 milljónir, þar af eru 5,5 milljónir ríkisborgarar frá öðrum aðildarríkjum Evrópubandalagsins. Fjöldi Evrópubandalagsborgara sem vinna til frambúðar í öðrum aðildarríkjum Evrópubandalagsins er hins vegar undir 2 milljónum.
    Dönsk stjórnvöld láta vel af reynslu sinni af þátttöku í frjálsum vinnumarkaði innan Evrópubandalagsins. Aukning á búsetu ríkisborgara annarra aðildarríkja Evrópubandalagsins í Danmörku hefur orðið sáralítil eftir að Danir gerðust aðilar að bandalaginu.
    Reynsla Íslendinga af þátttöku í hinum norræna vinnumarkaði hefur verið góð. Íslendingar hafa nýtt sér vel þá möguleika að geta starfað á Norðurlöndum. Ísland hefur fyrirvara við samninginn um norræna vinnumarkaðinn, en samkvæmt honum geta Íslendingar við sérstakar aðstæður áskilið atvinnuleyfi í því skyni að koma í veg fyrir röskun jafnvægis á vinnumarkaði. Hingað til hefur ekki verið nein þörf á að beita þessum fyrirvara.
    Í viðræðum EFTA-ríkjanna við Evrópubandalagið í sumar var tekið fram að í mögulegum samningum um þessi mál yrði Ísland að hafa fyrirvara til að koma í
veg fyrir hugsanlega röskun vegna smæðar vinnumarkaðar. Hvað varðar sjálfstætt starfandi fólk og rétt til að hefja starfsemi yrði einnig að gera vissan fyrirvara í sambandi við nýtingu á þeim auðlindum sem lífsafkoma þjóðarinnar byggist á.
    En hvað þýðir þátttaka Íslendinga í frjálsum vinnumarkaði á evrópska efnahagssvæðinu? Munu ríkisborgarar annarra ríkja svæðisins streyma til Íslands í atvinnuleit? Reynslan innan Evrópubandalagsins bendir ekki til þess. Hlutfallslega nýta íbúar Evrópubandalagsins sér hinn frjálsa vinnumarkað í mjög litlum mæli og þá helst hjá næstu nágrannalöndum sinum.
    Við þurfum hins vegar að hafa í huga að þeim íslensku námsmönnum sem afla vilja sér menntunar í Vestur-Evrópu og öðrum Íslendingum sem þar vilja starfa þurfum við að skapa skilyrði til þess. Ef Ísland verður ekki aðili að frjálsum búsetu- og atvinnurétti innan átján ríkja bandalagsins þarf að hugleiða m.a. eftirfarandi: Vandræði geta skapast vegna námsmanna semm sækja mikið til þessara landa þar sem þessi þáttur er verulega tengdur hinum almennu reglum um frjálsan búseturétt. Vandamál geta skapast vegna atvinnu- og dvalarleyfa þeirra rúmlega 4000 Íslendinga sem búa nú þegar á evrópska samstarfssvæðinu þegar að því kemur að framlengja leyfi. Vonlítið verður fyrir þá Íslendinga að fá störf á hinu evrópska efnahagssvæði sem þangað vilja leita á komandi árum. Þetta þarf þó ekki nauðsynlega að eiga við Norðurlönd ef við getum treyst því að Norðurlandasamningurinn gildi áfram sem sérstakur

samningur. Óvíst er hversu víðtæk önnur þátttaka Íslands innan hins evrópska efnahagssvæðis gæti orðið ef grundvallarreglan um frjálsan búsetu- og atvinnurétt verður ekki samþykkt, þó að sjálfsögðu með öllum réttlætanlegum fyrirvörum.
    Reynsla Íslendinga fram til þessa hefur sýnt að tungumálið, fjarlægðin frá öðrum Evrópulöndum og loftslagið eru áhrifaríkari hömlur á verulega flutninga fólks frá Vestur-Evrópu hingað en ýmsar þær undanþægu reglur sem hér gilda í lögum.
    Virðulegi forseti. Þá vík ég að starfi þess starfshóps sem fjallaði um svokölluð jaðarmálefni, þ.e. samstarfsverkefni sem eru utan hins eiginlega viðskiptasamruna. Þau eru ekki síður hluti af samstarfi innan hins evrópska efnahagssvæðis en önnur svið sem áður hefur verið vikið að. Hér ber nokkur samstarfsverkefni hæst að mínu mati, en þau varða þátttöku í samstarfi á sviði vísinda, rannsókna og tækniþróunar. Í annan stað samstarf á vettvangi umhverfisverndar og þátttökuréttur að því er varðar menntamál, aðgengi að menntastofnunum, starfsþjálfunarstofnunum og vísindastofnunum.
    Samstarf EFTA-ríkjanna við Evrópubandalagið á sviði rannsókna og þróunar hófst með tvíhliða samningum milli EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins um aðild að SCIENCE-áætlun bandalagsins sem er ætlað að stuðla að samstarfi um menntun, rannsóknir og ráðstefnur vísindamanna á sviði náttúruvísinda og verkfræði. Þátttaka Íslands er enn ekki hafin í verki þar sem undirritun á rammasamningi milli Íslands og Evrópubandalagsins um vísinda- og tæknisamstarf gat ekki farið fram fyrr en í lok október vegna tafa af völdum lagabreytinga innan Evrópubandalagsins. Aðrar rannsóknaráætlanir innan Evrópubandalagsins eru enn lokaðar EFTA-ríkjunum en gert er ráð fyrir því að þær opnist smám saman.
    Meginviðfangsefni fram undan í umhverfismálum er umhverfisverndarstofnun Evrópu sem er í undirbúningi á vegum Evrópubandalagsins, verður væntanlega stofnuð í febrúarmánuði á næsta ári. EFTA-ríkin hafa öll lýst yfir áhuga á aðild að stofnuninni á jafnréttisgrundvelli. Hlutverk hennar verður aðallega að sjá aðildarríkjum fyrir upplýsingum um ástand umhverfisins til þess að auðvelda þeim stefnumörkun í umhverfismálum. Stofnuninni er ætlað að tryggja samræmingu upplýsinga um umhverfismál innan Evrópubandalagsins og að tryggja að þær séu sambærilegar. Jafnframt að örva þróun og nýtingu tækni til að geta spáð fyrir um ástand umhverfis svo hægt verði að hefja fyrirbyggjandi aðgerðir í tæka tíð. Í tillögu framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins um stofnunina er gert ráð fyrir þátttöku ríkja sem standa utan bandalagsins. Ljóst er orðið að EFTA-ríkin geta ekki fengið aðild að stofnuninni þegar frá upphafi en búist er við að þeim verði boðin þátttaka fljótlega eftir að Evrópuráðið tekur formlega ákvörðun í málinu, þ.e. ráðherraráðið, ekki framkvæmdastjórnin.
    Umhverfismál eru alþjóðlegs eðlis svo sem mengun hafs, loftlagsbreytingar, eyðing ósonlagsins o.fl. Því er

það ljóst að við höfum vissulega mikilla hagsmuna að gæta af samstarfi við helstu grannþjóðir okkar á þessu sviði. Með þátttöku okkar í stofnuninni fáum við aðgang að upplýsingum um umhverfismál sem við getum notað við stefnumörkun hér á landi. Íslenskar stofnanir sem sinna umhverfismálum gætu orðið hluti af því upplýsingakerfi sem miðlaði upplýsingum til stofnunarinnar og tæki við þeim. Verði af þátttöku Íslands er mikilvægt að reyna að hafa áhrif á hvaða málaflokkar fái forgang og hafa í huga að stofnunin fari ekki að vinna að sömu verkefnum og þegar er verið að vinna að hjá öðrum alþjóðastofnunum.
    Verði um frekara samstarf að ræða við Evrópubandalagið á sviði umhverfismála verður að tryggja að EFTA-ríkin, sem yfirleitt gera strangari kröfur um
umhverfisvernd en Evrópubandalagið, geti haldið þeim kröfum.
    Evrópubandalagið stefnir ekki eingöngu að samræmingu á menntunarkröfum, heldur einnig að fjölbreyttu samstarfi milli aðildarríkja á sviði menntamála. Í könnunarviðræðum EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins kom fram að samstarfið nú innan Evrópubandalagsins varðar aðallega menntun á háskólastigi, tungumálakennslu, tengsl skóla og atvinnulífs, sköpun jafnra tækifæra fyrir stúlkur og drengi, nýtingu hátækni, vandamál sem blasa við, svo sem eins og ólæsi, námsvandamál og menntun barna innflytjenda.
    Ísland á misjafnlega mikla samleið með Evrópubandalaginu um þessi atriði sem talin voru upp. En við höfum ótvírætt hag af samstarfi við Evrópubandalagið um menntun á háskólastigi og á öðrum sviðum höfum við væntanlega nokkuð til málanna að leggja og getum þar jafnvel miðlað öðrum af þekkingu og reynslu.
    Umræður um hugsanlega aðild EFTA-ríkjanna að samstarfi Evrópubandalagsins á sviði menntamála hafa staðið frá því á árinu 1987. Fyrsta áætlunin á því sviði sem Evrópubandalagið hefur samþykkt að EFTA-ríkin fái aðild að er svokölluð COMETT II áætlun sem miðar að því að örva tækniþróun með samstarfsverkefnum á milli háskóla og fyrirtækja. Áætlunin er um að háskólar og fyrirtæki í hinum ýmsu ríkjum myndi nokkurs konar samstarfsnet og að stuðlað verði að nemendaskiptum og skiptum á sérfræðingum og starfsmönnum sem þegar eru komnir út á vinnumarkaðinn. Jafnframt er ætlunin að stuðla að auknu framboði á menntuðu vinnuafli. Búist er við að unnt verði að fullgilda samninga milli EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins um þátttöku þeirra í þessu verkefni snemma á næsta ári.
    Annað samstarfsverkefni innan Evrópubandalagsins, sem EFTA-ríkin hafa lýst áhuga á að taka þátt í, er svokölluð ERASMUS-áætlun og er búist við að viðræður um aðild að henni geti hafist á næsta ári, vonandi í febrúar. Tilgangurinn með ERASMUS er að koma á samstarfi milli háskóla aðildarríkjanna, annars vegar með skiptum á nemendum og kennurum og hins vegar með sameiginlegum menntunarverkefnum.

    Loks hafa EFTA-ríkin lýst yfir áhuga sínum á að gerast aðilar að samstarfi Evrópubandalagsins um gagnkvæma viðurkenningu prófa og starfsþjálfunar.
    Það verður að teljast sérstaklega mikilvægt fyrir okkur að eiga hér eftir sem hingað til greiðan aðgang að menntastofnunum í aðildarríkjum Evrópubandalagsins og eiga þar af leiðandi áframhaldandi kost á fjölbreyttari menntun og menntun sem ekki er boðið upp á hér á landi. Samstarf við Evrópubandalagið á þessu sviði getur komið í veg fyrir að aðgangur íslenskra námsmanna að skólum innan Evrópubandalagsins verði takmarkaður.
    Virðulegi forseti. Þá kem ég að því að gera grein fyrir starfi og sameiginlegum niðurstöðum nefndar sem fjallaði um lagalegar og stofnanalegar breytingar sem gera þarf til þess að tryggja framkvæmd væntanlegs samnings milli EFTA- og Evrópubandalagsríkjanna, framkvæmd samningsins, eftirlit með framkvæmd hans, samræmda túlkun samningsins og með hvaða hætti réttur einstaklinga og lögaðila verði tryggður til þess að fá lausn deilumála sem og með hvaða hætti verði tryggt jafnvægi í réttindum og skyldum beggja aðila þegar kemur að sameiginlegri ákvarðanatöku um stjórnun innan bandalagsins eftir að heildarsamningurinn hefur verið gerður sem væntanlega mun ná yfir meginsamstarfsverkefnin, þ.e. um hið fjóreina frelsi, samstarfsverkefnin sjálf, og í grundvallaratriðum um þær stofnanir og lagareglur sem þetta felur í sér.
    Þetta er verkefni sem að mörgu leyti er nýtt og framandi viðfangsefni. Þótt grundvöllur þeirra, þ.e. þessara lagalegu mála, sé tiltölulega einfaldur virðast málin flókin af því að nálgast þarf málið frá öðru sjónarhorni en við eigum kannski að venjast. Fríverslunarsamningar þeir sem EFTA-ríkin hafa gert við Evrópubandalagið höfðu að markmiði að greiða fyrir viðskiptum með iðnaðarvörur. Aðferðin var öðru fremur að lækka eða afnema tolla á gagnkvæman máta milli samningsaðila. Hugmyndin um sameiginlegt efnahagssvæði er af öðrum toga spunnin og gengur mun lengra. Þess vegna hefur hún í för með sér
viðfangsefni sem eru annarrar gerðar. Sameiginlegt efnahagssvæði ber með sér að atvinnurekstur og viðskiptastarfsemi innan svæðisins þurfa að búa við sömu viðskiptaleg skilyrði innan svæðisins alls. Grundvöllur þess að sömu skilyrði gildi fyrir allan atvinnurekstur og viðskiptastarfsemi er að þær reglur sem starfað er eftir séu sambærilegar innan alls svæðisins. Okkur þykir sjálfsagt að sömu reglur gildi um atvinnu- og viðskiptastarfsemi innan sama ríkis og á sama hátt er sjálfsagt að sömu reglur gildi um þau mál innan sameiginlegs efnahagssvæðis.
    Sl. 30 ár hafa aðildarríki Evrópubandalagsins unnið að því að samræma lög og reglur á sviði vöru- og þjónustuviðskipta, fjármagnsflutninga, atvinnu- og búseturéttar og varðandi önnur þau atriði sem Rómarsamningurinn, sem er þeirra samstarfssamningur, nær til. Það er því eðlilegt að þær reglur sem þegar eru í gildi innan Evrópubandalagsins á þeim sviðum sem samið verður um verði lagðar til grundvallar

þegar samningaviðræður hefjast um samstarf EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins á evrópska efnahagssvæðinu. Þær reglur sem samið verður um
að gilda eigi á evrópska efnahagssvæðinu verða væntanlega settar í einn heildarsamning.
    Taka þarf sameiginlegar ákvarðanir um þær reglur sem kunna að verða settar í framtíðinni á þessu evrópska efnahagssvæði. Evrópubandalagið og EFTA-ríkin hafa hins vegar ítrekað lagt áherslu á að sameiginleg ákvarðanataka innan svæðisins alls megi ekki hafa áhrif á forræði hvors aðila til eigin ákvarðanatöku. Í þessu felst að hvorki Evrópubandalagið né EFTA-ríkin hafa áhuga á að stofnuð verði yfirþjóðleg löggjafarstofnun fyrir hið nýja sameiginlega evrópska efnahagssvæði. Þess ber hins vegar að gæta að ákvarðanir sem teknar verða innan Evrópubandalagsins og í EFTA-ríkjunum og snerta samstarf beggja á evrópska efnahagssvæðinu varða hagsmuni allra aðildarríkja. Það verður því að vera samvinna á milli EFTA-ríkjanna og bandalagsins á meðan á mótun ákvarðana stendur. Þannig getur t.d. verið gagnkvæmt samráð frá því að tillaga kemur fram, annaðhvort innan EB eða frá einhverju EFTA-ríkjanna, alveg þar til endanleg ákvörðun hefur verið tekin. Þrátt fyrir gagnkvæmt samstarf Evrópubandalags og EFTA-ríkja um undirbúning þeirra reglna sem settar eru innan Evrópubandalagsins og EFTA-ríkjanna er ljóst að á evrópska efnahagssvæðinu þarf að vera sameiginleg stofnun þar sem allir aðilar hafa frumkvæðisrétt og þar sem starfað er á jafnréttisgrundvelli. Þar yrðu teknar ákvarðanir sem gilda ættu fyrir allt svæðið. Formlega lögbindingu slíkra ákvarðana í aðildarríkjum EFTA og innan EB þyrfti að gera eftir að ákvörðun hefur verið tekin í sameiginlegri stjórnarstofnun svæðisins.
    Eitt þeirra atriða sem rædd hafa verið á milli Evrópubandalags og EFTA-ríkjanna eru svokölluð bein réttaráhrif. Þá er átt við rétt einstaklinga og lögaðila til að leita réttar síns fyrir dómstólum samkvæmt þeim reglum sem gilda á öllu svæðinu og eru samræmdar reglur. Innan Evrópubandalagsins geta einstaklingar farið með mál fyrir dómstóla í aðildarríkjum og krafist þess réttar sem þeir telja sig eiga samkvæmt EB-reglum. Evrópubandalagið telur að einstaklingur verði að geta leitað réttar síns á sama hátt í öllum aðildarríkjum hins evrópska efnahagssvæðis. Í sumum EFTA-ríkjum, þar á meðal á Íslandi, hafa þjóðréttarsamningar almennt ekki verið lögfestir þó að dæmi séu um að slíkt hafi verið gert. Íslenskir dómarar dæma einungis eftir landslögum og því hafa einstaklingar ekki getað byggt rétt sinn á þjóðréttarsamningum eins og t.d. fríverslunarsamningnum við Evrópubandalagið þar sem hann hefur ekki verið lögfestur. Evrópska efnahagssvæðið mun væntanlega ná til mun fleiri sviða sem snerta einstaklinginn beint, eins og t.d. reglur sem verða settar um atvinnu- og búseturétt. Verður því að telja að lögfesting þeirra reglna sem gilda munu á evrópska efnahagssvæðinu feli í sér verulega réttarbót, auk þess sem réttur einstaklinga

innan aðildarríkja EB og EFTA-ríkjanna yrði samræmdur.
    Annað atriði sem rétt er að nefna í þessu sambandi er forgangur þeirra reglna sem gilda á evrópska efnahagssvæðinu. Á einhvern hátt verður að tryggja að einstök aðildarríki setji ekki ný lög sem ganga þvert á þær reglur sem samið hefur verið um að gildi á afmörkuðum sviðum yfir svæðið allt. Innan Evrópubandalagsins er það almennt viðurkennd regla að Evrópubandalagsreglur hafi forgang umfram landslög aðildarríkja ef þetta tvennt stangast á. Landslög aðildarríkja víkja því ef þau brjóta í bága við reglur sem gilda um svæðið allt.
    EFTA-ríkin hafa viljað líta á þennan vanda fyrst og fremst sem spurningu um túlkun reglna fyrir evrópska efnahagssvæðið og því eigi að vísa ágreiningi um að ný lög stangist hugsanlega á til sérstaks dómstóls. Það væri ekki óeðlilegt að hlíta úrskurði dómstóls um slíka árekstra þar sem að öðrum kosti yrði grundvellinum kippt undan samningum um sameiginlegar reglur á öllu svæðinu. Á hinn bóginn þarf að kanna betur en unnt hefur verið að gera hingað til leiðir til að ná slíku markmiði án þess að til stjórnarskrárbreytinga þurfi að koma.
    Þar sem ég hef þegar minnst á sérstakan dómstól er rétt að geta þess að í könnunarviðræðunum var það álit bæði fulltrúa Evrópubandalags og EFTA-ríkja að vænlegast væri að úrlausn deilumála og túlkun á samræmdum reglum fengi dómsmeðferð og hún væri á einni hendi. Þetta þýðir að æskilegast þykir að stofna einn dómstól fyrir allt svæðið. Fulltrúar Evrópubandalagsins lögðu áherslu á að dómstóll Evrópubandalagsins hefði sannað gildi sitt og sjálfstæði. Töldu þeir mjög mikilvægt að sú reynsla og þekking sem þar væri fyrir hendi nýttist sem best og að hinn nýi dómstóll yrði starfræktur í samvinnu við dómstól Evrópubandalagsins.
    Ekki var farið út í neinar umræður um hvernig dómstóllinn yrði samsettur. Hins vegar var talið rétt að hann fjallaði bæði um deilumál ríkja og samræmda túlkun á reglum á öllu svæðinu. Mál sem einstaklingar höfða og varða túlkun á reglum á hinu evrópska efnahagssvæði fari hins vegar fyrir dómstóla í aðildarríkjum. Þar sem sömu reglur yrðu túlkaðar af fjölda dómstóla verður hins vegar að vera til staðar einn aðili sem sjái um samræmingu á þeirri túlkun. Kerfi það sem notað hefur verið innan Evrópubandalagsins hefur gefist vel en þar geta dómstólar leitað eftir bráðabirgðaúrskurði eða ráðgjöf hjá dómstól bandalagsins varðandi öll mál sem snerta túlkun Evrópubandalagsreglna.
Dómstóllinn hefur talið að dómstólar í aðildarríkjunum séu bundnir af því að fara eftir þessum úrskurðum. EFTA-ríkin töldu það kerfi sem notað er innan Evrópubandalagsins til að samræma túlkun á EB-reglum í öllum aðildarríkjum út af fyrir sig vænlegan kost til að nota innan evrópska efnahagssvæðisins en af okkar hálfu var hins vegar bent á að bindandi gildi slíkra úrskurða væri viðkvæmt mál sem gæti varðað stjórnarskrár

EFTA-ríkjanna og leita þyrfti e.t.v. annarrar lausnar á.
    Í könnunarviðræðum kom fram að nauðsynlegt væri að sett yrði upp sjálfstætt eftirlit með því að settum reglum verði framfylgt innan aðildarríkjanna á svæðinu. Þannig þyrfti t.d. einhver að hafa eftirlit með því að aðildarríkin framfylgdu samkomulagi um að aðildarríkin settu öll, hvert um sig, samræmd lög um ákveðinn málaflokk. Eftirlit með því að samræmdum reglum sé fylgt beinist bæði að aðildarríkjunum og einnig að fyrirtækjum og einstaklingum. Það er ljóst að mikið af því eftirliti sem hér um ræðir getur farið fram innan lands. Umboðsmaður Alþingis er gott dæmi um eftirlitsstofnun hér á landi. Hugsanlegt er að nýta þær stofnanir sem fyrir eru eða setja á stofn nýja. Allt eftirlit sem snýr að einstaklingum og fyrirtækjum verður að fara fram í samráði við stjórnvöld í viðkomandi landi. Það er hins vegar eðlilegt að sjálfstæð stofnun aðildarríkja fari með eftirlit með ríkjunum sjálfum. Þannig gæti slík stofnun bent á það sem hún telur miður hafa farið og leitað samkomulags um úrbætur. Rísi hins vegar ágreiningur um hvort rétt er að farið gæti eftirlitsstofnun farið með málið fyrir dómstól evrópska efnahagssvæðisins.
    Ein leið sem rædd hefur verið varðandi uppbyggingu á sjálfstæðu eftirlitskerfi er að hægt væri að hafa tvær eftirlitsstoðir, annars vegar á vegum EFTA og hins vegar á vegum Evrópubandalagsins. Sérstök eftirlitsstofnun EFTA færi þá með eftirlitið innan EFTA-ríkjanna ásamt eftirlitsstofnunum í aðildarríkjum EFTA sjálfum. Framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins fer hins vegar með eftirlit innan Evrópubandalagsins ásamt þarlendum stjórnvöldum eins og tíðkast í dag. Síðan yrði byggð eins konar brú á milli þessara tveggja stoða sem væri í formi sameiginlegrar nefndar eða stofnunar. Sameiginlega stofnunin mundi sjá um samræmingu og eftirlit innan bæði Evrópubandalags og EFTA. Mismunandi leiðir varðandi uppbyggingu á sérstöku eftirlitskerfi eru hins vegar samningaatriði.
    Virðulegi forseti. Að því er varðar laga- og stofnanalega þætti þessa máls vil ég að lokum leggja áherslu á eftirfarandi:
    Ef vilji er fyrir hendi um að ganga til samninga um sameiginlegar reglur um frelsi á hinu fjóreina sviði og um jaðarmálin verður eflaust unnt að finna lausnir varðandi lagareglur og stofnanir. Stefnt er að því að finna einfaldar lausnir sem skerða ekki sjálfsákvörðunarrétt þjóða en þær hugmyndir um lausnir sem ég hef þegar nefnt eru taldar skapa góðan grundvöll fyrir niðurstöður sem báðir aðilar geti sætt sig við. Margir þeir laga- og stofnanalegu þættir sem hér koma við sögu eru vandmeðfarnir út frá sjónarmiðum lögfræði og þjóðaréttar. Það má hins vegar ekki gleymast að það samstarf sem hér um ræðir er samstarf margra sjálfstæðra þjóða sem kallar á kerfi sem tryggja á jafnræði þjóðanna og samræmda framkvæmd þeirra samningsskuldbindinga sem þær hafa tekið á sig. Í alþjóðasamstarfi tryggir slíkt kerfi ekki síst hag og rétt smáþjóðar eins og okkar.
    Virðulegi forseti. Að fenginni skýrslu, sameiginlegri

skýrslu, stjórnarnefndar þessara könnunarviðræðna, sem skipuð var fulltrúum beggja aðila, EFTA og EB, í lok október sl. voru þessi mál tekin til skoðunar og umræðu af hálfu utanríkis- og utanríkisviðskiptaráðherra EFTA í Genf 27. okt. sl. Það var fyrsta umræðan þar sem málið lá fyrir í heild sinni og þótt ekki væri birt sameiginleg yfirlýsing þess fundar, enda var hann óformlegur, var mér falið sem formanni ráðherraráðsins að draga saman niðurstöður fundarins og kynna þær sem sameiginlegar niðurstöður fulltrúum Evrópubandalagsins sem ég hef gert í viðræðum við bæði fulltrúa framkvæmdastjórnar og einstakra ríkisstjórna Evrópubandalagslandanna. Eftir þennan fund hafa síðan verið gefnar skýrslur í þjóðþingum EFTA-landanna um málið í heild sinni, stöðu þessara könnunarviðræðna, þar sem mat er lagt á það starf sem hingað til hefur verið innt af höndum og þann árangur sem hefur náðst.
    Í þessum sameiginlegu niðurstöðum, eftir hinn óformlega ráðherrafund í Genf, var staldrað við ein fimmtán atriði. Þau eru þessi:
     1. Við ætlum okkur sameiginlega að standa fast við markmið og skuldbindingar leiðtogafundarins í Osló frá því í mars.
     2. Það er sameiginlegt pólitískt mat okkar á niðurstöðum stjórnarnefndarinnar að þær séu vissulega jákvæðar. Við erum sammála um að nægjanlegur sameiginlegur grundvöllur til samningsgerðar sé fyrir hendi og erum einhuga um að halda áfram af fullum krafti.
     3. Við vonumst til að sameiginlegur ráðherrafundur EFTA-ríkja og Evrópubandalags, sem haldinn verður þann 19. des., lýsi yfir skýrum pólitískum vilja um að undirbúningsviðræður um víðtækan samning um sameiginlegt evrópskt efnahagssvæði geti hafist sem fyrst og í framhaldi af þeim samningaviðræðurnar
sjálfar snemma á árinu 1990.
     4. EFTA-ríkin munu hér eftir sem hingað til halda áfram að tala einum rómi í þessum viðræðum.
     5. Við leggjum áherslu á að samningur eigi að tryggja jafnvægi milli réttinda og skyldna og vera byggður á þeirri forsendu að allir aðilar að evrópska efnahagssvæðinu skuli vera jafnréttháir.
     6. Við erum sammála um að markmiðið í efnislegum þáttum samnings, heildarsamnings, um hið evrópska efnahagssvæði eigi að vera að ná fyllsta mögulega árangri varðandi óhindruð vöruviðskipti, þjónustuviðskipti, fjármagnsflutninga og atvinnu- og búseturéttindi einstaklinga ásamt nánari samvinnu á ýmsum sviðum sem tengjast slíku samstarfi, m.a. varðandi menntamál, rannsóknir, þróun og umhverfismál.
     7. Til þess að ná þessum markmiðum vorum við sammála um að fella ætti viðeigandi reglur Evrópubandalagsins, sem þegar hefðu verið mótaðar og sem aðilar mundu skilgreina sameiginlega, inn í hinn væntanlega heildarsamning á einn eða annan hátt sem sameiginlegan lagagrundvöll fyrir áformað evrópskt efnahagssvæði. EFTA-ríkin mundu hefja starf

að þessari skilgreiningu eins fljótt og auðið væri.
     8. Við vísuðum til þeirrar athugunar sem stjórnarnefndin og vinnuhópar hennar höfðu gert og lögðum áherslu á að undantekningar sem réttlættust af grundvallarhagsmunum þjóða yrðu samningamál.
     9. Að því er varðar hindrunarlaus vöruviðskipti töldum við ekki tímabært að taka endanlega ákvörðun um það hvort stefnt skyldi að tollabandalagi eða fríverslunarsvæði sem væri endurbætt í grundvallaratriðum. Báðir kostir eru því áfram til athugunar og sá möguleiki hafður í huga að þetta samstarfssvið geti haldið áfram að þróast.
    10. Við lögðum áherslu á að efnislegt umfang samnings væri nátengt þeim lausnum sem fundnar yrðu á lagalegum og stofnanalegum þáttum hans.
    11. Við lögðum áherslu á að sameiginlegt kerfi í reynd við töku ákvarðana, bæði varðandi efni og form, væri grundvallarforsenda fyrir því að samningur væri viðunandi frá pólitísku sjónarmiði.
    12. Ýmsar leiðir voru kannaðar varðandi mótun ákvarðana og töku ákvarðana um reglur sem settar verða eftir að heildarsamningur hefur komist á, þar á meðal svonefnt tveggja stoða kerfi EFTA og EB með sameiginlegum stofnunum fyrir hið sameinaða evrópska efnahagssvæði þar sem einnig væri gert ráð fyrir að halda mætti sameiginlega fundi með þátttöku aðildarríkja Evrópubandalagsins og EFTA.
    13. EFTA mun halda áfram að starfa á grundvelli samhljóða ákvarðana.
    14. Við vorum sammála um að styrkja EFTA sem stofnun.
    15. Loks ítrekum við þá afstöðu okkar að þessi nýi Osló-Brussel-ferill mætti ekki draga úr áherslu okkar á að ná árangri við framkvæmd þeirra málefna sem falla undir Lúxemborgarferilinn þar til nýr samstarfsrammi hefði verið ákveðinn.
    Virðulegi forseti. Þá er komið að lokum þessa máls míns. Sumir hafa varpað fram þeirri spurningu að undanförnu hvort við séum ekki að rasa um ráð fram, hvort við eigum ekki að bíða og sjá hvað setur. Við þeirri spurningu á ég aðeins eitt svar og það er þetta: Tækifærið er núna. Hvort það kemur aftur getur enginn verið viss um.
    Við gerðumst aðilar að fríverslunarsamtökunum EFTA árið 1970 eftir tíu ára hik. Árið 1972 gerðum við fríverslunarsamning við Evrópubandalagið af því að við vorum þá komnir inn í EFTA. Þeir samningar buðust þá vegna þeirrar miklu bjartsýni og þess vaxtarskeiðs sem þá ríkti í Evrópu. Ári síðar var fyrri olíukreppan skollin á. Áður en vestrænar þjóðir höfðu jafnað sig á henni var síðari olíukreppan orðin staðreynd og því fór ekki að birta til aftur í alþjóðaviðskiptum fyrr en undir miðjan þennan áratug. Undanfarin ár hafa verið blómlegt hagvaxtarskeið víðast hvar í Vestur-Evrópu. Ný Evrópa er nú í mótun. Hún býður möguleika á víðtækri samvinnu. Dyrnar að þátttöku standa okkur opnar, ekki þátttökuundantekningu á öllum sviðum heldur þátttöku þjóðar sem þorir að bera höfuðið hátt, þjóðar sem ekki krefst eingöngu réttinda heldur er líka reiðubúin

að taka á sig skyldur í samstarfi frjálsra þjóða, þjóðar sem ekki kýs að byggja utan um sig múr, eins og þann sem nú er að bresta í miðri Evrópu, heldur þjóðar sem telur sig geta lagt sitt af mörkum til frjálsra samskipta þjóða Evrópu á komandi árum.
    Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.