Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Ég vil í upphafi lýsa ánægju minni með það að nú hafa tekist samningar um saltsíldarkaup, eða réttara sagt að þeir hafa fengist staðfestir. Það er þá a.m.k. hægt að snúa sér að öðrum málum í bili varðandi viðskipti við Sovétríkin. Vonandi er stjórnvöldum þó ljós sú breytta staða sem nú er komin upp varðandi viðskiptaumhverfi í Sovétríkjunum. Jafnframt því sem við fögnum því sem nú á sér stað þar austur frá verða stjórnvöld að sjá til þess að hagsmuna okkar sé gætt að því er samskipti varðar. Í því sambandi hafa þau verið sofandi á verðinum hingað til.
    Í umræðunni um samskipti Íslands við Evrópubandalagið hafa stjórnmálamenn hér á landi ýmist sagt að aðild að bandalaginu sé ekki á dagskrá eða að það komi ekki til álita að Ísland gerist aðili að Evrópubandalaginu. Nokkur munur er á þessu tvennu en að mínu mati kemur ekki til greina að Ísland gerist aðili að bandalaginu. Bandalagið er miklu meira en samstarfsvettvangur sjálfstæðra þjóða því að með inngöngu afsala þjóðirnar sér hluta af sjálfstæði sínu til yfirstjórnar í Brussel.
    Evrópubandalagið er stórríki með mikla miðstýringu. Stjórnkerfi EB er langt frá því að vera lýðræðislegt. Ráðherraráðið fer með æðsta vald samtakanna. Í sumum málum hafa ríkin neitunarvald en í öðrum fer atkvæðisréttur eftir stærð ríkjanna. Framkvæmdastjórn bandalagsins hefur í raun einnig mikið vald og er sú stofnun bandalagsins sem getur lagt fram lagafrumvörp. Þing Evrópubandalagsins hefur aðallega ráðgefandi hlutverki að gegna en hefur ekki löggjafarvald. Þing einstakra ríkja hafa lítið sem ekkert að segja í málefnum stórríkisins. Auk þess hefur EB eigin dómstól sem getur fellt úr gildi stjórnvaldsákvarðanir og jafnvel lög einstakra aðildarríkja ef þau ganga gegn reglum bandalagsins. Dómstólar hvers aðildarríkis eru bundnir af túlkun dómstóls EB á reglum þess. Þó ekki væri nema vegna skorts á lýðræði innan EB tel ég ekki koma til greina að Ísland gerist hluti af því. Þó margt komi til sem geri það ómögulegt fyrir Ísland að gangast undir ákvæði Rómarsáttmálans er það þó ekki síst fiskveiðistefna bandalagsins sem Íslendingar munu aldrei geta sætt sig við.
    Eins og flestir vita lítur EB öðrum augum á auðlindir hafsins en aðrar auðlindir. Hver þjóð innan bandalagsins hefur yfirráð yfir auðlindum, svo sem olíu, kolum og skógum. Þetta þýðir að 200 mílna lögsaga hvers ríkis er ekki lengur staðreynd að því er varðar þegna stórríkisins. Þessu er auðvitað ekki hægt að ganga að af Íslands hálfu. Mér þótti það þess vegna alveg með ólíkindum þegar kynnt var aldamótaskýrsla á landsfundi stærsta stjórnmálaflokks landsins og framsögumaður hennar, á landsfundi Sjálfstfl., sá sem síðar var kjörinn varaformaður, sagði að stefna bæri að því að Ísland gerðist aðili að EB. Að vísu hefur þessi krafa ekki verið hávær að undanförnu. E.t.v. hafa vísir menn bent manninum á

að svona yfirlýsingar væru ekki mjög heppilegar eða líklegar til að falla í frjóan jarðveg meðal almennings í landinu.
    Virðulegi forseti. Upphafið að því að við erum í dag að ræða þessa bláu skýrslu utanrrh. er ræða sem Delors, forseti framkvæmdastjórnar EB, hélt þann 17. jan. 1989. Það sýnir á vissan hátt hvert vald framkvæmdastjórnarinnar er að orð forseta hennar skuli koma svo stórri skriðu af stað sem raun ber vitni.
    Á leiðtogafundi EFTA-ríkjanna í Osló í mars sl. var fjallað um þau atriði sem komu fram í ræðu Delors. Þetta mál var rætt hér á Alþingi áður en hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. héldu til Oslóar er ég kvaddi mér hljóðs utan dagskrár í Sþ. Þá fullvissaði forsrh. okkur um að af Íslands hálfu mundi aldrei verða fallist á yfirþjóðlegar stofnanir né heldur annað það sem ógnað gæti sjálfstæði þjóðarinnar.
    Í yfirlýsingu Oslóarfundarins segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Við gerum ráð fyrir því að samningaviðræður muni leiða til samkomulags, að svo miklu leyti sem það er mögulegt, um óhindraðan flutning á vöru, þjónustu, fjármagni og fólki, með það að markmiði að koma á einu samræmdu efnahagssvæði.``
    Forsætisráðherra Íslands gerði fyrir fram fyrirvara um yfirlýsingu fundarins að því er varðaði fjármagnsflutninga, fjármálaþjónustu og flutninga fólks. Hann gerði grein fyrir þeim fyrirvörum sínum í ræðu sinni hér áðan. Að vísu hefur ósköp lítið farið fyrir þessum fyrirvörum og virðist sem samningamenn ríkisstjórnarinnar með utanríkisráðherrann í broddi fylkingar hafi alveg gleymt þeim. Það væri fróðlegt að vita hvar þessir fyrirvarar eru nú staddir.
A.m.k. sér þeirra ekki stað í yfirlýsingu fundarins og þeim hefur heldur ekki verið haldið til haga í þeim könnunarviðræðum sem síðan hafa farið fram nema þá að mjög litlu leyti.
    Ef litið er aðeins nánar á fjórfrelsið svonefnda kemur líka fljótt í ljós að málið er ekki svo einfalt sem margir vilja vera láta. Hömlulausir fjármagnsflutningar til og frá Íslandi og erlend fjármálaþjónusta munu fljótt leiða til þess að erlendir aðilar muni geta náð tökum á öllum þáttum íslensks atvinnulífs, sjávarútvegi og fiskvinnslu einnig.
    Það hefur verið yfirlýst stefna allra íslenskra stjórnmálaflokka, hingað til a.m.k., að yfirráðaréttur yfir og nýting auðlindanna skuli vera í höndum Íslendinga þó svo að margir telji að hleypa eigi útlendingum inn í íslenskt atvinnulíf að öðru leyti. Flestir þeirra sem ég hef heyrt tjá sig um þetta atriði hingað til, bæði á vettvangi EB-nefndarinnar og annars staðar, hafa hins vegar talið að ekki verði hægt að koma í veg fyrir að útlendingar geti náð tökum á sjávarútvegi og fiskvinnslu jafnt og öðrum þáttum ef fjármagnsflutningar og fjármálaþjónusta verði óheft milli Íslands og annarra landa.
    Reglur um fjárfestingu erlendra aðila hér á landi eru mjög margbreytilegar og má segja að lagasetning að því er varðar þetta atriði sé í miklum molum. Þetta

kemur m.a. fram í skýrslu sem lögð var fram á Alþingi á 109. löggjafarþingi, en í þeirri skýrslu er bent á að þegar íslensk lagasetning er skoðuð með tilliti til erlendra fjárfestinga er hún mjög ósamstæð. Bent er á ýmis atriði í þessu sambandi, m.a. að ekki sé leitast við að skýra hvað felst í hugtakinu ,,erlend fjárfesting`` né heldur hverjir skuli teljast erlendir aðilar og hverjir íslenskir í skilningi laganna.
    Meðan ástandið er slíkt að því er varðar íslenska löggjöf er það mikill ábyrgðarhluti að flana áfram eins og nú virðist eiga að gera að því er varðar fjármagnsflæði. Hvernig hafa menn hugsað sér að halda auðlindunum utan við erlendar fjárfestingar? Á hvern hátt hefur utanrrh. og reyndar ríkisstjórnin öll hugsað sér fyrirkomulag þessara mála? Hefur málið verið hugsað til enda? Það getur varla verið. Það er kominn tími til að hugsa um nokkur skref fram á við en ekki bara eitt í einu eins og hæstv. utanrrh. virðist vera að gera, alla vega að því er þetta mál varðar.
    Mikil áhersla hefur verið lögð á það af hálfu EB að áður en farið verði að ræða af alvöru um svokallað frelsi fjármagnsins verði að tryggja að fólk fái að flytjast frjálst og óhindrað milli landa. Í þessu felst rétturinn til að taka sér bólfestu hvar sem er á svæðinu öllu með þeim réttindum og skyldum sem því tengjast. Er fyrst og fremst hafður í huga réttur manna til að stofna fyrirtæki.
    Í raun er ekki mikil ástæða til að ætla að launafólk fari í stórum stíl að flytjast búferlum á milli landa og raska þannig byggðamynstrinu verulega þó sú hætta sé vissulega fyrir hendi. Í þessu sambandi hefur verið minnst, bæði hér í dag og oft áður, á rétt íslenskra námsmanna til að stunda nám í löndum Evrópubandalagsins. Þar ber að athuga að á grundvelli Lúxemborgaryfirlýsingarinnar frá 1984 hefur verið unnið að tugum samstarfsverkefna milli EB og EFTA. Verkefnin eru auk viðskipta m.a. á sviði rannsókna, vísinda, menntamála og umhverfismála. Það er því engin ástæða til að ætla annað en að það samstarf muni halda áfram burtséð frá því hvaða leið verður farin varðandi frekara samstarf við EB. Með því ætti ekki að vera veruleg hætta á að Íslendingum verði úthýst úr evrópskum háskólum.
    Að því er varðar flutning vinnuafls milli landa er rétt að benda á að EB hefur að mjög takmörkuðu leyti tekið á þeim félagslegu þáttum sem óhjákvæmilega tengjast innri markaðinum. Í bæklingi sem samtök launafólks gáfu nýlega út er m.a. bent á þetta atriði. Andstæðingar innan markaðarins hafa bent á að starf framkvæmdastjórnar og ráðherraráðs EB beinist fyrst og fremst að því að greiða götu fjármagnsins en fólkið eigi að bíða. Það kemur að launafólkinu seinna, er sagt. Sú hætta sem fyrst og fremst fylgir því fyrir okkur að veita erlendum aðilum rétt til að stofna hér fyrirtæki án viðhlítandi takmarkana er að við getum í raun ekki komið í veg fyrir það að hver sem er geti eignast hlut í undirstöðuatvinnuvegum okkar og e.t.v. náð þar undirtökum á nokkrum tíma.
    Hvernig ætlum við að bera okkur að þegar erlendur

aðili vill eignast hlut í fiskvinnslufyrirtækjum? Ef við höfum skrifað undir að fólk fái að koma hingað og stofna hér fyrirtæki óhindrað er ég hrædd um að við höfum í raun engin tök á að koma í veg fyrir slíkt. Eða hvernig hafa menn hugsað sér að taka á þessum málum? Ég veit að íslenska ríkisstjórnin hefur gert fyrirvara að því er varðar flutninga vinnuafls til Íslands en þá aðeins með tilvísun til smæðar íslensks vinnumarkaðar.
    Það vakti athygli varðandi afgreiðslu ríkisstjórnarinnar í sumar á fyrirvörum Íslands varðandi vinnuaflið að ekkert samráð var haft við samtök launafólks í landinu vegna afgreiðslunnar. Það er að vísu í samræmi við annað samráð eða samráðsleysi sem ríkisstjórnin hefur haft í þessu máli við aðila vinnumarkaðarins og reyndar aðra aðila. Utanrmn. og EB-nefnd Alþingis hafa að vísu fengið sendar allar upplýsingar og ráðherrann hæstv. upplýsti hér áðan að aðrir aðilar hefðu fengið allar upplýsingar sem ráðuneytinu hefðu borist, en samráð að öðru leyti hefur verið mjög lítið. Það hefur verið upplýst af aðilum vinnumarkaðarins að nánast engir samráðsfundir hafi verið haldnir. Einn fundur hafi verið í upphafi þessa svokallaða samráðs en síðan hafi það verið í algjöru lágmarki og margir hverjir hafa aldrei verið neitt kallaðir til viðtals, ekki einu sinni aðilar í sjávarútvegi sem hlýtur að vera mikill
ábyrgðarhluti því að þetta er okkar aðalatvinnuvegur og undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar og ég trúi ekki að ríkisstjórnin ætli ekki að hlusta á það sem þeir hafa að segja.
    Af Íslands hálfu hefur aðaláhersla okkar í samskiptum við aðrar þjóðir verið í vöruviðskiptum enda erum við mjög háð bæði vöruinnflutningi og útflutningi. Það hefur verið lífsnauðsyn fyrir okkur að koma vörum okkar á markað. Strax eftir að Ísland gerðist aðili að EFTA voru hafnar viðræður við EB um fríverslunarsamninga. Í stórum dráttum féllst EB á að láta skilmála fríverslunarinnar vera þá sömu og milli EFTA-landanna. Um sjávarafurðir var samið sérstaklega, bókun 6 eins og hér hefur verið rætt um fyrr í dag, og tollar lækkaðir á flestum sjávarafurðum. Eitt af því sem hingað til hefur verið talin hindrun í vegi fyrir að hægt væri að semja um fríverslun með fisk við EB er að innan EFTA hafði ekki tekist að koma á fríverslun með fisk. Í mars sl., á umræddum Oslóarfundi, var samið um fríverslun með fisk innan EFTA og mátti skilja á talsmönnum íslenskra stjórnvalda að þeir teldu að málið væri þá nánast í höfn að því er varðaði EB. Þetta hafa reynst tálvonir einar. Nú er flestum ljóst að EB mun ekki í náinni framtíð samþykkja fríverslun með fisk, ekki síst vegna þess að það mun hafa í för með sér að þeir verða að leggja af það mikla styrkjakerfi sem viðgengst í sjávarútvegi innan bandalagsins.
    Fulltrúar bandalagsins hafa ætíð lýst því yfir að fríverslun með fisk væri tengd öðrum þáttum hinnar sameiginlegu fiskveiðistefnu þess. Það kom fram í máli hæstv. utanrrh. hér áðan að EB hefði lýst því yfir að engar viðræður gætu farið fram um aðgang

Íslendinga að innri markaðinum með sjávarafurðir nema þeir fengju aðgang að fiskveiðilögsögu okkar. Hæstv. ráðherra sagði að þetta ætti við um tvíhliða viðræður en gat ekki um hið sama ef EFTA-löndin ganga til samninga sem ein heild.
    Þetta finnst mér furðulegar yfirlýsingar og vil fá nánari skýringar á þeim fullyrðingum.
    Vegna stækkunar bandalagsins svo og annarra aðstæðna er nauðsynlegt að fá endurskoðun nú þegar á viðskiptasamningi milli Íslands og EB. Sú endurskoðun getur ekki átt sér stað með öðrum hætti en tvíhliða viðræðum. Við höfum ítrekað heyrt frá leiðtogum Evrópuþjóða að Íslendingar njóti mikillar velvildar. Við eigum að nota þann byr sem málstaður okkar hefur og hefja viðræður nú þegar.
    Í ræðu sem fyrrnefndur Delors, forseti framkvæmdastjórnarinnar, hélt á þingi Evrópuráðsins þann 26. sept. sl. sagði hann að val EFTA-ríkjanna um það hvaða leið verði farin varðandi samskipti við EB sé algjörlega mál þeirra sjálfra. Tvíhliða viðræður eða sem ein heild, það er þeirra eigið val. Það er því spurning hvort Delors var alvara þegar hann sagði þetta eða hvort viðhorf hans hafi breyst frá þessum tíma. Mér finnst merkilegt að ekkert skuli vera gert með þessa yfirlýsingu Delors miðað við það vægi sem hans orð frá 17. jan. höfðu innan EFTA.
    Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum er það mat samtaka atvinnurekenda í sjávarútvegi að ekki sé neinn tími til að bíða eftir að viðræðum EFTA-ríkjanna í heild, um aðra þætti en aðgang að innri markaðinum með fisk, ljúki. Í viðræðunum hingað til hefur sá þáttur mætt algjörum afgangi og það þrátt fyrir að Ísland gegni formennsku í ráðherraráði EFTA. Hvernig halda menn að takist að þoka þessum málum ofar á dagskrána eftir áramótin? Hvernig ætlar hæstv. utanrrh. að tryggja að viðræðurnar fari nú fyrst og fremst að snúast um fisk? Það er ekki grundvöllur til að ræða um fjórfrelsið fyrr en fisksölumál okkar til Evrópubandalagsins og yfirráð yfir auðlindinni hafa verið tryggð.
    Af því sem ég hef sagt ætti að vera ljóst að ég tel Íslendinga ekki eiga að taka þátt í evrópsku efnahagssvæði þar sem ekki er grundvöllur fyrir því að hafa takmarkanir á aðgangi erlendra aðila að þeim auðlindum sem eru lifibrauð þjóðarinnar. Það er því algert glapræði að halda áfram á þeirri braut sem ríkisstjórnin er að marka í könnunarviðræðum við EB. Það er alveg ljóst að þar er ekkert tillit tekið til sérstöðu Íslendinga að því er varðar sjávarafurðir. Þær munu verða algert aukaatriði ef til samningaviðræðna kemur.
    Það er heldur ekki að undra þar sem Norðmenn sem koma næstir Íslendingum að því er varðar útflutning á sjávarafurðum eru aðeins með 6% af sínum útflutningi til EB. Hagsmunir annarra EFTA-ríkja, m.a. Svíþjóðar, eru svo langt frá okkar að við eigum greinilega ekki samleið með þeim. Við höfum ekki ráð á að bíða eftir að búið sé að ræða meginatriði varðandi frelsi fjármagnsins innan evrópsks efnahagssvæðis og semja um það áður en

farið er að ræða við EB um aðgang Íslendinga að þeim mörkuðum með okkar vörur. Það er e.t.v. mikilvægast af öllu þegar verið er að meta stöðu Íslands í sambandi við önnur ríki að við áttum okkur í senn á sérstöðu okkar og með hvaða hætti við viljum þróa íslenskt samfélag. Það eigum við að gera af festu og með rökum, þó án þess að ýkja sérstöðuna. Þetta á ekkert skylt við það að við viljum einangra okkur. Öllum er væntanlega ljóst að við eigum mikið undir góðum samskiptum við aðra, bæði viðskiptalega og menningarlega. Sérstaða okkar er einkum fólgin í fámenni og smæð íslensks samfélags og þeirri staðreynd að við
byggjum efnahag okkar að mestu leyti á einni auðlind. Þessar aðstæður valda því að við þurfum að beita öðrum ráðum en stórþjóðir í fjölþættum og flóknum iðnaðarsamfélögum. Við verðum að gæta þess að varðveita eigin stjórn á efnahagslífi þjóðarinnar. Það mun ekki takast ef við göngum inn í stærri heildir. Á sama hátt verðum við að gæta þess að geta tekið ákvarðanir á eigin forsendum en afsala ekki sjálfræði til yfirþjóðlegra stofnana með miðstöðvar langt í burtu frá íslenskum veruleika.
    Við eigum að hafna þeim viðhorfum sem gerast nú býsna áleitin og heyrast æ oftar að lausnin út úr efnahagsvanda Íslendinga sé að láta framandi öflum og kerfum eftir að lækna meinsemdirnar og halda að það muni bjarga okkur og framtíð barna okkar. Styrkur okkar er þvert á móti fólginn í smæðinni, sérstöðunni og legu landsins langt úti í Atlantshafi milli heimsálfa. Þessi lega býður ekki lengur upp á einangrun heldur er hún kostur sem við eigum að nýta okkur með góðum og markvissum samskiptum til allra átta um leið og við gætum þess að vernda umhverfi okkar og auðlindir.
    Alþingi Íslendinga á verk fyrir höndum á næstu mánuðum. Hér þurfum við að fjalla um markmið og leiðir í samskiptum við þá Evrópu sem nú tekur breytingum á hverjum degi, en einnig að líta til annarra átta. Umræðan hér í dag er aðeins fyrsti þátturinn af mörgum áður en komist er að niðurstöðu. Við eigum ekki að láta aðra skammta okkur þann tíma sem við þurfum til þess að komast að niðurstöðu. Eitt af því sem við þurfum að svara er með hvaða hætti við ætlum að gæta hagsmuna okkar gagnvart EB. Í mínum huga er einboðið að við búum okkur undir tvíhliða viðræður og engu að síður þótt sumir virðist hafa trú á samningum EB um evrópskt efnahagssvæði. Það er hins vegar villuljós sem ég vona að hv. alþm. og ríkisstjórn hætti að elta fyrr en seinna.
    Ég tel hæstv. utanrrh. á rangri braut í tillögum sínum eins og þær birtast í þessari skýrslu. Ráðherrann sagði að tækifærið væri núna og við hefðum ekki tíma til að bíða. Fróðlegt væri að vita hvernig framtíðarsýn hæstv. ráðherra er. Hvernig sér hann fyrir sér að 250 þúsund manna rödd okkar muni hljóma í 350 millj. manna kór Evrópu? Mun hún hljóma skært eða verður hún kæfð?
    Varðandi framhald þessa máls sem hlýtur að hafa

afdrifaríkar afleiðingar fyrir íslenskt samfélag er allt mjög óljóst. Þar á ég við málsmeðferðina hér á hinu háa Alþingi. Ég tel það augljóst að áður en tekin er ákvörðun um að ganga til samningaviðræðna á þeim grunni sem utanrrh. hefur gert grein fyrir verður Alþingi að taka formlega afstöðu til málsins. Ef ríkisstjórnin hefur hugsað sér að ákvörðun verði tekin um framhaldið fyrir ráðherrafund EB og EFTA þann 19. des. n.k. verður að hafa hraðar hendur. Tíminn er að mínu mati allt of stuttur þótt ég sé sannfærð um að við eigum ekki að fara þá leið sem ríkisstjórnin er að marka á þeim forsendum sem gefnar eru.
    Eins og ég sagði áðan höfum við mikla sérstöðu í samfélagi þjóðanna. Við eigum að nota okkur þá sérstöðu á jákvæðan hátt. Við verðum að átta okkur á með hvaða hætti við viljum þróa íslenskt samfélag og taka síðan mið af því í samskiptum okkar við aðrar þjóðir.