Löggæsla í Reykjavík
Mánudaginn 27. nóvember 1989


     Ásgeir Hannes Eiríksson:
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir að vekja máls á málefnum löggæslu í Reykjavík. Hér í miðborg Reykjavíkur hef ég fylgst svolítið með löggæslumálum, sérstaklega síðustu 12 árin og hér hefur bærinn oft verið í hers höndum. Kristalnætur hafa dunið hér yfir kaupmenn, brotnar rúður og ýmislegt fleira brotið sem ekki er tími til þess að rekja hérna, en það er á engan hátt lögreglumönnunum að kenna. Lögreglusveitin hérna í miðborginni er of fáliðuð. Það eru of fáir menn á vakt til þess að geta ráðið við þau vandamál sem koma upp. Það eru ekki nema 3--5 lögreglumenn á miðborgarstöðinni í einu sem þýðir að ef tveir eða þrír þeirra eru kallaðir út og einhver dytti í höfnina á sama tíma, þá er ekki nógur mannskapur á stöðinni til þess að fara með bát í björgunarleiðangur. Þess vegna fagna ég mjög orðum hv. þm. Alexanders Stefánssonar áðan og ég veit að fjvn. mun taka myndarlega á móti lögreglustjóranum í Reykjavík þegar hann kemur fyrir hana á morgun.