Hundar til fíkniefnaleitar
Fimmtudaginn 07. desember 1989


     Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegi forseti. Á þskj. 174 hef ég leyft mér að bera fram tvær fsp. til hæstv. dómsmrh. Á síðasta kjörtímabili urðu oft umræður hér á Alþingi um fíkniefnamál en þá var hæstv. þáv., og reyndar einnig núv., forsrh. beðinn um skýrslu af núv. hæstv. félmrh. um ástand í fíkniefnamálum. Þessari skýrslubeiðni var svarað og henni fylgdi ítarleg grg. um ástand í fíkniefnamálum, í hinum ýmsu þáttum þeirra mála. Jafnframt fylgdi í kjölfarið skipun nefndar sem hæstv. þáv. forsrh. setti á laggirnar þann 15. maí 1986. Var nefndinni ætlað að samræma aðgerðir stjórnvalda til úrbóta í þessum málum. Í henni áttu sæti fulltrúar alls sjö ráðuneyta, auk fulltrúa biskups Íslands. Nefndin hafði fremur stuttan tíma til að vinna skýrsluna en vann ötullega og skilaði af sér skýrslu í apríl 1987. Eitt af viðfangsefnum hennar var að kanna hvernig háttað væri löggæslu og tollgæslu í fíkniefnamálum því það er að sjálfsögðu veigamikill liður í því að hafa einhverja stjórn á þessum málum. Því miður virðist straumur fíkniefna til landsins vera stöðugur og efnin sem berast hingað gerast æ hættulegri.
    Það kom fram í þessari skýrslu, sem ég nefndi, um fíkniefnamál að starfsemi fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík hafi vaxið á undanförnum árum og sé mikilvægur þáttur í starfi lögreglunnar. Það kom einnig fram að skipulag þessara mála hefði riðlast vegna manneklu í lögreglunni og einnig vegna þess að húsnæði deildarinnar væri talið of lítið. Mér er kunnugt um að milli löggæslu og tollgæslu hefur verið náin og góð samvinna á sviðum fíkniefnamála. Það kemur fram í þeirri skýrslu sem ég vitnaði til áðan, og reyndar í fleiri skýrslum sem fyrir liggja um varnir gegn fíkniefnum, að alls staðar er tekið fram að þörf sé á að þjálfa fleiri hunda, og menn þá auðvitað með þeim, til að leita fíkniefna og koma í veg fyrir að þau berist til landsins. Hef ég því leyft mér á þskj. 174 að bera fram fsp. til hæstv. dómsmrh.:
,,1. Hve margir hundar til fíkniefnaleitar eru nú í eigu lögregluyfirvalda annars vegar og tollyfirvalda hins vegar? Hve margir slíkir hundar hafa verið í eigu þessara embætta síðastliðin tíu ár?
    2. Telur dómsmálaráðherra þann fjölda hunda, sem nú er fyrir hendi til fíkniefnaleitar, fullnægjandi? Ef svo er ekki, hvenær má búast við að þeim verði fjölgað og hve mörgum nýjum hundum er ætlunin að bæta við?``