Tekjuskattur og eignarskattur
Föstudaginn 08. desember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í frv. er gert ráð fyrir margvíslegum breytingum á gildandi lögum. Þessar breytingar þarf annars vegar að skoða í tengslum við breytingar á öðrum þáttum skattkerfisins sem nú er í endurskoðun og hins vegar í samhengi við þá viðleitni að draga úr skattlagningu á almennum neysluvörum heimilanna.
    Samsetning skatta á Íslandi er talsvert frábrugðin því sem gengur og gerist víða erlendis, sérstaklega í Vestur-Evrópu og helstu viðskiptalöndum okkar. Á Íslandi bera óbeinu skattarnir, verðlagsskattarnir, 4 / 5 hluta tekjuöflunarinnar en beinir skattar innan við fimmtung. Í öðrum löndum sem við eigum einkum viðskipti við er skiptingin mun jafnari milli beinna og óbeinna skatta, raunar víða nálægt því að vera helmingaskipti. Það hefur margsinnis verið á það bent, m.a. af sérfræðingum viðurkenndra alþjóðastofnana á sviði hagfræði og viðskipta, svo sem Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og OECD, að óheppilegt væri frá sjónarhól almennrar hagstjórnar að leggja svo mikið upp úr skattlagningu á neysluvörum að verðlagsskattar hefðu mun stærra hlutfall í heildarskattheimtunni en beinir skattar. Skynsamlegt væri að dómi hinna erlendu sérfræðistofnana og viðurkenndu fjármálastofnana að færa tekjuöflunina meira yfir á beinu skattana Slíkt væri mikilvæg forsenda þess að stöðugleiki gæti skapast í íslensku efnahagslífi. Ástæðurnar eru einkum tvær:
    Í fyrsta lagi hafa óbeinir skattar, verðlagsskattarnir, mun sterkari áhrif á verðlag og þar með vísitölur heldur en beinir skattar. Skattahækkanir sem stundum eru nauðsynlegar til að stuðla að efnahagslegum stöðugleika valda þannig beinni hækkun verðlagsins ef skattarnir eru fyrst og fremst óbeinir.
    Í öðru lagi sveiflast beinir skattar ekki eins mikið með hagsveiflunni og óbeinir skattar þar sem inn í þá eru byggð alls kyns krónutöluframlög og frádrættir eins og persónuafsláttur og barnabætur. Skattbyrði beinna skatta hefur þannig tilhneigingu til að lækka á samdráttartímum en aukast á þenslutímum og vinnur þannig gegn hagsveiflunni og er mikilvægt tæki til þess að stuðla að efnahagslegum stöðugleika. Hins vegar er auðvitað álitamál hversu langt á að ganga í því að hafa innbyggða sveiflujöfnun í skattkerfinu þar sem hagsveiflur á Íslandi eiga yfirleitt rætur að rekja til breytinga í afla og ytri skilyrðum en ekki til breytinga í innlendri eftirspurn eins og algengt er í stórum iðnríkjum. Það er því mjög mikilvægt að menn geri sér skýra grein fyrir þessum mun sem er á hagsveiflum á Íslandi og í þróuðum vestrænum iðnríkjum.
    Það mælir einnig með því að auka hlutdeild beinna skatta að við álagningu þeirra er hægt að taka tillit til efna og ástæðna hvers og eins og beita þannig skattkerfinu markvissara til tekjujöfnunar og félagslegs stuðnings en hægt er við álagningu óbeinna skatta.
    Með þessu frv. er stigið skref í þessa átt. Þannig

tengjast fyrirhugaðar breytingar á tekjusköttum einstaklinga gildistöku virðisaukaskattsins sem ég hef nú þegar mælt fyrir í hv. Ed. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að virðisaukaskattur skuli vera 24,5% eða 0,5% lægri en gildandi söluskattur. Á móti vega breytingar á tekjuskatti. Annars vegar 2% hækkun á skatthlutfallinu úr 30,8% í 32,8%, hins vegar sérstök 4% hækkun á barnabótum og persónuafslætti umfram forsendur fjárlaga til að koma í veg fyrir aukna skattbyrði hjá tekjulágum barnafjölskyldum.
    Heildaráhrif þeirra breytinga sem koma fram í þessu frv. og virðisaukaskattsfrv. sem ég mælti fyrir í Ed. fyrir tveimur dögum síðan eru þríþætt:
    1. Lægra hlutfall í virðisaukaskatti en söluskatti, en það leiðir til allt að 1% lækkunar á framfærslukostnaði heimilanna. Matvæli lækka meira eða um 2% að jafnaði og einstakar tegundir matvæla um 8--9%.
    2. Veruleg lækkun eignarskatta sem snertir fyrst og fremst fólk með lágar tekjur þar sem það verður undanþegið hærra þrepinu.
    3. Breytingar á tekjusköttum sem hafa í för með sér léttari skattbyrði hjá barnafjölskyldum með lágar tekjur, einkum einstæðum foreldrum, en nokkra þyngingu hjá hátekjufólki.
    Tekjuskattar hjá tekjulágum barnafjölskyldum lækka að meðaltali milli áranna 1989 og 1990. Þetta kemur yfirleitt þannig út að endurgreiðsla ríkisins til einstæðra foreldra og tekjulágra hjóna með börn hækkar í krónutölu þar sem þessir aðilar greiða almennt ekki tekjuskatt. Hjá hjónum munar þessi hækkun á endurgreiðslum upp undir 1% af tekjum sem skattbyrðin lækkar en hjá einstæðum foreldrum allt upp í 2% af tekjum og rúmlega það. Þessi breyting felur þess vegna í sér verulegan tekjuauka hjá einstæðum foreldrum.
    Hvað snertir eignarskatta einstaklinga þá lækka þeir verulega á næsta ári. Annars vegar lækkar háþrepið um helming, úr 1,5% eins og það er í dag í 0,75%. Jafnframt verður það tengt tekjum viðkomandi þannig að háþrepið fellur alveg niður hjá einstaklingum með undir 70 þús. kr. í skattskyldar tekjur á mánuði.
Með þessari breytingu einni fækkar þeim einhleypingum sem lentu í háþrepinu í ár um helming eða úr 1600 í 700--800. Á bilinu frá 70 þús. kr. mánaðartekjum til 140 þús. kr. mánaðartekna fer háþrepið síðan smátt og smátt að virka og kemur inn að fullu hjá einstaklingum þegar mánaðarlaunin eru orðin yfir 140 þús. kr. á mánuði. Samsvarandi tekjur hjóna væru 280 þús. kr. á mánuði.
    Í frv. eru einnig nokkrar breytingar gerðar á gildandi lögum um vaxtabætur vegna íbúðarkaupa en sl. vor voru sett lög um vaxtabætur í tengslum við upptöku húsbréfakerfisins. Þær miða einkum að því að rýmka rétt þeirra einstaklinga sem hafa lágar tekjur á kostnað hinna tekjuhærri.
    Í þessu frv. eru heimildarákvæði um frádrátt vegna fjárfestingar einstaklinga í atvinnurekstri rýmkuð, m.a. til þess að stuðla að aukinni eiginfjármyndun fyrirtækja með sölu hlutabréfa. Jafnframt er gert ráð

fyrir að skoða þennan þátt enn frekar í tengslum við samræmda skattlagningu fjármagnstekna og almenna endurskoðun á skattlagningu fyrirtækja. Í frv. eru þar að auki breytingar varðandi skattfrelsi húsbréfa þannig að þau fái sömu skattalega meðferð og spariskírteini ríkissjóðs. Með þessu er bæði stuðlað að lægri vöxtum á húsbréfum en ella og lægra útborgunarhlutfalli við íbúðarkaup í húsbréfakerfinu. Að lokum eru í frv. nokkrar breytingar á skipan og starfsháttum ríkisskattanefndar, m.a. í því skyni að flýta afgreiðslu mála.
    Virðulegi forseti. Ég mun þá víkja nánar að einstökum efnisatriðum frv. og gera stutta grein fyrir þeim breytingum sem í því felast ásamt því að taka hér nokkur dæmi sem sýna ljóslega þá skattalækkun hjá tekjulágu fólki, sérstaklega barnmörgum fjölskyldum og einstæðum foreldrum, sem frv. felur í sér. Vík ég þá fyrst að tekjuskatti einstaklinga.
    Í fjárlagafrv. fyrir árið 1990 var gengið út frá þeirri meginforsendu að heildarskattbyrði ríkissjóðstekna yrði svipuð og áætluð er fyrir þetta ár. Þetta sjónarmið var einnig lagt til grundvallar hvað snertir álagningu tekjuskatta á einstaklinga. Með ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að virðisaukaskattur skuli vera 0,5% lægri en söluskattur hafa þessar forsendur breyst. Til að fjármagna þessa lækkun var ákveðið að hækka tekjuskattshlutfallið en verja helmingi af þeirri hækkun til þess að hækka persónuafslátt og barnabætur sérstaklega. Það er því aðeins helmingurinn af tekjuaukanum sem kemur til ríkissjóðs. Hinn helmingurinn er notaður til þess að auka jöfnunaráhrif tekjuskattsins. Þannig er miðað við að persónuafsláttur og barnabætur hækki um tæplega 7,5% um áramótin í stað 3,5% eins og gert var ráð fyrir í fjárlagafrv. Þar með hækka skattleysismörkin í 52.466 kr.
    Ef við tökum dæmi um áhrif breytinganna á tekjusköttum á einstætt foreldri með 80 þús. kr. tekjur á mánuði, en 80 þús. kr. eru einmitt meðaltekjur einstæðra foreldra, og á heimilinu eru tvö börn, annað yngra en sjö ára, þá fela þessar breytingar í sér að viðkomandi einstætt foreldri fær endurgreiðslu frá ríkinu í formi barnabóta og barnabótaauka sem nemur 14.500 kr. eftir breytingarnar að meðaltali á mánuði á næsta ári en var að meðaltali á árinu 1989 12.673 kr. Meðaltalshækkunin milli ára er því 14,5% eða 3% umfram forsendur fjárlagafrv. Meðalskattbyrði þessa einstæða foreldris lækkar þannig um 0,5% af heildartekjum. Með öðrum orðum: Þrátt fyrir hækkun á skatthlutfallinu fela breytingarnar í sér lækkun á skattbyrði með því að endurgreiðslan frá ríkinu hækkar vegna hærri barnabóta og persónuafsláttar sem gera meira en að vega upp hærra hlutfallið. Það er ekki fyrr en mánaðartekjur einstæðra foreldra eru komnar upp undir 100 þús. kr., sem er töluvert yfir meðaltekjum einstæðra foreldra, um það bil 25% yfir meðaltekjum einstæðra foreldra, að skattbyrðin fer að þyngjast hjá þessum þjóðfélagshópi.
    Ef við tökum annað dæmi af hjónum með tvö börn þar sem annað barnið er yngra en sjö ára og hjónin

hafa 150 þús. kr. tekjur á mánuði, þá mundi þessi fjölskylda samkvæmt gildandi lögum greiða í tekjuskatt 1.735 kr. á mánuði eða um 1,2% af tekjunum. Eftir breytinguna eykst skattbyrðin lítillega eða um 0,4% af tekjum sem svarar til tæplega 700 kr. hækkunar á mánuði. Hins vegar er rétt að hafa í huga í þessu samhengi að um leið er verið að gera breytingar á neyslusköttunum, verðlagssköttunum sem fela í sér að framfærslukostnaður þessa heimilis verður allt að 1% lægri en annars hefði orðið eftir áramótin. Matvælin lækka enn meira eða um 2% í heild og einstök matvæli um 8--9%.Þess vegna verður að bera saman þá breytingu sem verður á skattbyrði tekjuskattsins við þá lækkun sem verður á skattbyrði verðlagsskattanna sem sérstaklega kemur til góða fjölskyldum þar sem börnin eru mörg í heimili og þar sem matarreikningurinn er hlutfallslega stór þáttur í heimilisútgjöldunum. Þetta er enn eitt dæmið sem sýnir að með því að lækka neysluskatta en hækka í þess stað tekjuskatta á hálaunafólki er verið að koma í framkvæmd verulegum kjarabótum til fjölskyldna með lágar tekjur eða meðaltekjur, sérstaklega fjölskyldna þar sem börnin eru mörg í heimili. Þannig endurspeglast jafnaðarstefna þessarar ríkisstjórnar og félagshyggja hennar í þeim tillögum sem hér eru lagðar fram.
    Við skulum einnig taka til fróðleiks þriðja dæmið og skoða hjón með tvö börn og tekjur sem samsvara 120 þús. kr. í dag, en það eru tekjur nokkuð undir
meðallagi, og skoða breytinguna á skattbyrði þessa lágtekjuhóps á árunum 1988, 1989 og 1990.
    Árið 1988 varð skattbyrði þessara hjóna af tekjuskatti neikvæð sem samsvaraði 9,5% af meðaltekjum ársins. Með öðrum orðum, fjölskyldan fékk greitt úr ríkissjóði í formi barnabóta og barnabótaauka um 9500 kr. á mánuði.
    Árið 1989 var skattbyrði þessarar lágtekjufjölskyldu lækkuð sérstaklega um 0,6% af tekjum eða með öðrum orðum, greiðslan úr ríkissjóði hækkaði upp í 10,1% af tekjum. Og nú með þessu frv. fyrir árið 1990 er lagt til að stíga enn frekara skref til þess að lækka skattbyrðina hjá þessari lágtekjufjölskyldu. Skattbyrðin lækkar enn á ný í kjölfar lækkunar á skattbyrði þessarar lágtekjufjölskyldu á síðasta ári um 0,6% af tekjum. Greiðslan frá ríkissjóði verður 10,7% af mánaðartekjum eða 13.300 kr. að meðaltali. Á árinu 1988 var greiðslan úr ríkissjóði hins vegar eingöngu 9,5% af meðaltekjum.
    Þetta dæmi sýnir betur en mörg orð hvernig barnafjölskyldur með tekjur umdir meðallagi hafa farið út úr þeim tekjuskattsbreytingum sem núv. ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir. Þessi dæmi sýna greinilega, hvað sem líður öllum tölum sem jafnvel samtök launafólks kunna að birta, að þessi ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir umtalsverðri lækkun á skattbyrði lágtekjufólks, barnafjölskyldna með lágar tekjur og lágar miðlungstekjur. Skattbyrði þessara fjölskyldna hefur beinlínis lækkað um 1,2% af tekjum þrátt fyrir að skatthlutfallið hafi verið hækkað um 4,3%. Skýringin liggur í þeirri jöfnunarstefnu þessarar ríkisstjórnar að

breyta skatthlutfallinu milli barnabóta og persónuafsláttar barnabótunum og persónuafslættinum í hag og hækka þessa liði til þess að verja, og í sumum tilvikum beinlínis bæta, kjör láglaunafólksins. Þetta er það sem ég hef kallað jöfnunarstefnu í skattamálum
þessarar ríkisstjórnar.
    Við skulum taka fleiri dæmi. Ég nefni hér sams konar dæmi um tvo einstaklinga þar sem annar er með tekjur undir meðallagi en hinn talsvert fyrir ofan meðallag. Þessi dæmi gefa svipaða mynd af þróuninni. Sá tekjulægri kemur mun betur út úr skattkerfisbreytingunum en hinn tekjuhærri. Í fyrra tilvikinu eykst skattbyrðin úr 0,2% af tekjum ársins 1988 í 1,4% 1990. Í því síðara, hjá hinum tekjuháa, eykst skattbyrðin úr 14,4% 1988 í 17,1% á árinu 1990.
    Áður en ég skil við þessa umræðu um tekjuskattinn vil ég þess vegna ítreka sérstaklega að þær fullyrðingar sem birst hafa á opinberum vettvangi á þann veg að hinir lægst launuðu fari verst út úr þessari skattkerfisbreytingu eru alrangar. Þær standast á engan hátt faglega og sanngjarna skoðun á því frv. sem hér er lagt fram og því skattkerfi sem gilt hefur, bæði á árinu 1988 áður en breyting varð á ríkisstjórn né heldur á árinu 1989.
    Því hefur líka verið haldið fram að í slíkum samanburði sé um að ræða óraunhæfar launa- og verðlagsforsendur. Um það skal ekkert fullyrt fyrir fram enda eru samningamálin eins og kunnugt er að mestu leyti í höndum aðila á hinum frjálsa vinnumarkaði. Hitt er svo annað mál að jafnvel þótt launahækkanir verði meiri á næsta ári en reiknað er með í þeim forsendum sem ég hef hér rakið þá eru áhrifin engu að síður þau að hinir lægst launuðu koma mun betur út en hinir tekjuhærri skv. því frv. sem ég mæli hér fyrir miðað við að óbreytt lög hefðu gilt.
    Ef breytingarnar á tekjuskatti eru síðan skoðaðar í stærra samhengi, vegna þess að þær tengjast lækkun á óbeinum sköttum, verðlagssköttunum, er ljóst að breytingarnar á heildarskatttekjum ríkisins fela í sér mjög óverulega breytingu eða aðeins um 100 millj. kr. Megináhrif þessara breytinga eru því ekki að styrkja fjárhagsstöðu ríkissjóðs heldur eingöngu að jafna dreifingu skattbyrðanna meðal landsmanna. Styrkja stöðu þeirra sem lág hafa launin, beinlínis auka kaupmátt þeirra með skattkerfisbreytingum, en leggja byrðarnar fyrst og fremst á herðar þeirra sem hærri hafa tekjurnar.
    Virðulegur forseti. Ég mun þá víkja nokkrum orðum að þeim breytingum sem gerðar eru á eignarsköttum einstaklinga. Í fjárlagafrv. var gert ráð fyrir að í tengslum við upptöku skatts á fjármagnstekjur mundi eignarskattur lækka á næsta ári. Þrátt fyrir að skattlagning fjármagnstekna komi ekki til framkvæmda á næsta ári, m.a. vegna þess að ekki reynist kleift af tæknilegum ástæðum og vegna vinnuálags á starfsmönnum skattkerfisins að breyta í senn frá söluskatti yfir í virðisaukaskatt og taka um leið upp staðgreiðslu á skattlagningu fjármagnstekna,

ákvað ríkisstjórnin að haga framkvæmd mála á þann veg að þrátt fyrir að skattlagning fjármagnstekna bíði í eitt ár, þótt frv. verði lagt fram um það efni hér eftir áramótin, þá yrði engu að síður hrint í framkvæmd lækkun eignarskatta á næsta ári. Sú breyting er tvíþætt. Annars vegar, eins og ég gat um áðan, lækkar hærra þrepið í eignarskatti úr 1,5% í 0,75% eða um helming. Í þessu felst að skattur á skuldlausri eign einstaklinga sem er yfir 8 millj. 50 þús. kr. lækkar úr 2,7% í 1,95%. Hins vegar var ákveðið að tekjutengja hærra þrepið í eignarskattinum og gera ráð fyrir því, eins og ég áður rakti, að einstaklingur með minna en 70 þús. kr. í skattskyldar tekjur á mánuði og hjón með minna en 140 þús. kr. í skattskyldar tekjur greiði ekki þennan sérstaka
háa eignarskatt og að hann komi ekki að fullu til greiðslu hjá þessum þjóðfélagshópum nema mánaðartekjur einstaklinganna séu yfir 140 þús. og mánaðartekjur hjónanna yfir 280 þús. kr.
    Með þessum breytingum lækka eignarskattar í heild um 20% að raungildi miðað við gildandi lög. Áhrifin eru hins vegar enn meiri hjá þeim einstaklingum sem í ár lentu í hinu sérstaka háþrepi í eignarskattinum en þeir voru samtals 5000. Lækkunin hjá þeim nemur 35% að raungildi þegar miðað er við einstaklingana sem lenda undir þeim tekjumörkum sem ég gat um áðan.
    Sem dæmi um áhrif þessarar lækkunar má nefna eignarskatt einstaklings sem á skuldlausa eign upp á 14 millj. kr., en það er einmitt sú meðaleign sem einstaklingar áttu sem lentu í hærra þrepinu í ár. Og hafi þessi einstaklingur minna en 70 þús. kr. á mánuði lækkar eignarskattur hans um 7.400 kr. á mánuði eða um 36% að raungildi. Hafi þessi sami einstaklingur 100.000 kr. mánaðarlaun lækkar eignarskattsgreiðslan um 5.200 kr. á mánuði eða um 25% að raungildi. Og fari hann yfir 140 þús. kr. tekjur lækkar eignarskatturinn engu að síður um 3.700 kr. á mánuði eða um 18% að raungildi. Lækkunin hjá hjónum er svipuð og jafnvel meiri þar sem persónuafsláttur beggja nýtist að fullu.
    Í fylgiskjölum með frv. eru, auk þessara dæma sem ég hef hér lýst, birtar til fróðleiks upplýsingar úr skattframtölum um fjölda þeirra framteljenda sem lentu í hærra þrepi eignarskattsins á þessu ári, meðaltekjur þeirra, dreifingu eftir tekjubilum, eignir o.s.frv.
    Virðulegur forseti. Þriðja stóra breytingin sem felst í þessu frv. er um greiðslu vaxtabóta til íbúðarbyggjenda og íbúðarkaupenda. Ég hef orðið var við að ýmsir misskilja þetta nýja kerfi og halda að í því felist mikil skerðing frá þeim endurgreiðslukerfum sem nú eru í gildi. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að víkja nokkuð að vaxtabótakerfinu sjálfu sem og þeim breytingum sem felast í þessu frv.
    Eins og hv. alþm. er kunnugt taka um næstu áramót gildi þau ákvæði tekju- og eignarskattslaganna sem varða vaxtabætur vegna íbúðarkaupa en lög um vaxtabætur voru samþykkt á Alþingi sl. vor. Samhliða því falla úr gidli ákvæðin um vaxtaafslátt og

húsnæðisbætur. Þó er rétt að vekja athygli á því að þeir sem þegar hafa fengið úrskurð um húsnæðisbætur halda þeim rétti að fullu til ársins 1993. Þeim er hins vegar gefinn kostur á því að koma inn í vaxtabótakerfið á næsta ári. Enda þótt vaxtaafsláttarkerfið sem verið hefur í gildi, falli úr gildi um áramót, munu þeir sem fengu endurgreiðslu samkvæmt því gamla kerfi flytjast yfir í hið nýja vaxtabótakerfi svo framarlega sem þeir uppfylla öll almenn skilyrði þess. Í vaxtabótakerfinu felst enn fremur sá ávinningur fyrir húsbyggjendur og íbúðarkaupendur að vaxtabótakerfið er ekki takmarkað við tiltekinn árafjölda. Þetta er mjög mikilvægt atriði vegna þess að endurgreiðslur skv. gömlu vaxtaafsláttar- og húsnæðisbótakerfunum hafa verið takmarkaðar við 4--7 ár. Nú eru þessi tímatakmörk hins vegar afnumin og þeir sem ganga úr gamla kerfinu yfir í nýja kerfið munu ávinna sér þau réttindi að geta haldið þeim um ótakmarkaðan tíma svo lengi sem þeir uppfylla hin almennu skilyrði. Skv. gamla kerfinu hefðu þeir hins vegar dottið út eftir 4--7 ár. Þá er einnig rétt að vekja athygli á þeirri endurbót að vaxtabætur eru ekki takmarkaðar við þá sem eru að byggja og kaupa í fyrsta skipti eins og húsnæðisbæturnar.
    Megineinkenni vaxtabótakerfisins og helstu frávik frá þeim tveimur kerfum sem nú eru í gangi eru:
    1. Hugsunin á bak við vaxtabótakerfið er í meginatriðum sú sama og í vaxtaafsláttar- og húsnæðisbótakerfinu, þ.e. að létta undir með húsbyggjendum og íbúðarkaupendum með einhvers konar endurgreiðslum í gegnum skattakerfið.
    2. Sá grundvallarmunur er þó á þessum kerfum að í vaxtabótakerfinu, hinu nýja kerfi, er jafnframt leitast við að koma til móts við almenn jöfnunarsjónarmið með því að fjárhæð vaxtabóta skerðist í hlutfalli við hækkandi tekjur. Jafnframt fá einstaklingar sem eiga miklar eignir skertar vaxtabætur og jafnvel engar. Þannig birtist jöfnunarhugsjón núv. ríkisstjórnar í framkvæmd í þeim tillögum og í þeim lögum sem snúa að vaxtabótakerfinu. Þetta þýðir að fjárhæð vaxtabóta er mjög misjöfn, allt eftir vaxtabyrði, eftir tekjum og eftir eignum viðkomandi. Húsnæðisbæturnar hafa hins vegar verið ákveðnar sem sama krónutala til allra.
    3. Greiðsla vaxtabótanna er ekki takmörkuð við tiltekinn árafjölda eins og ég hef áður vikið að. Einstaklingar geta þá komið til álita um greiðslur vaxtabóta hvenær sem er svo framarlega sem þeir uppfylla önnur skilyrði vaxtabótakerfisins.
    4. Greiðsla vaxtabóta er, eins og ég vék að áðan, ekki takmörkuð við þá einstaklinga sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta skipti líkt og gilt hefur um húsnæðisbæturnar.
    Þá er að lokum rétt að vekja athygli á því að aðeins þeir einstaklingar koma til greina við endurgreiðslur vaxtabóta sem sannanlega bera vaxtagjöld. Það er breyting frá því kerfi sem gilt hefur frá árinu 1986, húsnæðisbótakerfinu, en þar gátu einstaklingar fengið húsnæðisbætur jafnvel þótt þeir

bæru engin
vaxtagjöld.
    Ég mun nú, virðulegur forseti, víkja að þeim breytingum sem gerðar eru á vaxtabótakerfinu í því frv. sem ég mæli hér fyrir.
    Veigamesta breytingin snýr að hækkun á eignarmörkunum. Upplýsingar úr skattframtölum ársins 1989 benda til þess að nokkrar breytingar hafi orðið á eignarstöðu framteljenda frá árinu áður, en gildandi lög um vaxtabætur tóku mið af skattframtölum áranna 1987 og 1988. Þannig er meðaleign fjölskyldna nokkru hærri í dag en gert hafði verið ráð fyrir þegar eignamörk laganna voru sett. Þá virðist líka hafa dregið talsvert úr mun á eignarstöðu einstaklinga og einstæðra foreldra annars vegar og hjóna hins vegar undanfarin tvö ár.
    Í ljósi þessara nýju upplýsinga er lagt til að þau eignarmörk sem áður voru sett verði hækkuð um 30% að raungildi hjá einstaklingum og einstæðum foreldrum og um 6--7% hjá hjónum. Skv. till. í frv. verður munurinn á eignamörkum einstaklinga og einstæðra foreldra annars vegar og hjóna hins vegar þriðjungi minni en hann er í gildandi lögum. Þessi breyting er því tvímælalaust einstæðum foreldrum og einstaklingum í hag.
    Það er rétt að vekja sérstaka athygli á því að í umræðunni undanfarna mánuði hefur komið fram að draga ætti kannski sérstaklega fram einstæða foreldra umfram aðra einstaklinga. Hins vegar er það ekki gert hér, vegna þess að upplýsingar úr framtölum sem unnar hafa verið sýna að eignarstaðan hjá einstæðum foreldrum og hjá einstaklingum er mjög svipuð. Þess vegna er ekki ástæða til að gera greinarmun á þessum tveimur þjóðfélagshópum í frv. Skýringin á þessu, sem kemur kannski sumum nokkuð á óvart, er sú að þótt einstæðir foreldrar búi í stærri íbúðum en einstaklingar þá kemur þetta ekki fram í eignarstöðunni sjálfri þar sem þeir skulda jafnframt meira. Nettóeignin er því mjög svipuð. Þess vegna er ekki ástæða til að gera greinarmun á milli einstaklinga og einstæðra foreldra í þessu tilviki. Á hinn bóginn er vaxtabyrði einstæðra foreldra þyngri en einstaklinga sem er hin hliðin á meiri skuldabyrði. En til þessa er tekið tillit við ákvörðun á hámarksgreiðslu vaxtabóta, sem er 140 þús. kr. hjá einstæðum foreldrum skv. ákvæðum þessa frv., en 107 þús. hjá einstaklingum. Þar sem tölur sýna að munur er í reynd hjá einstæðum foreldrum er gerð breyting einstæðum foreldrum til hagsbóta.
    Önnur breyting á gildandi lögum um vaxtabætur snýr að skilgreiningu á eignaviðmiðuninni við ákvörðun vaxtabóta, en það er eignarskattsstofn framteljandans. Þetta þýðir að skattfrjálsar eignir, verðbréf o.fl. skerða ekki rétt til vaxtabóta. Þar eru húsbréf og ríkisskuldabréf meðtalin. Með þessu frv. er hins vegar stefnt að víðari skilgreiningu á eignaviðmiðuninni við ákvörðun vaxtabóta þannig að hún nái til allra framtalsskyldra eigna að frátöldum skuldum. Með því yrði aðstoðin við íbúðarkaupendur gerð markvissari, þ.e. þeir sem helst þurfa á henni að halda munu njóta hennar fremur.

    Þriðja breytingin gerir ráð fyrir hækkun á hlutfalli tekjuskerðingar úr 5% í 6%. Hér er annars vegar verið að mæta því tekjutapi sem hlýst af hækkun eignamarkanna en hins vegar er með þessu gengið enn lengra í átt til tekjujöfnunar en felst í gildandi lögum.
    Fjórða breytingin felst í því að sett er þak á þau vaxtagjöld sem geta komið til álita við ákvörðun vaxtabóta. Er það gert til þess að koma í veg fyrir að tekjuháir einstaklingar með óeðlilega mikil vaxtagjöld hagnist meira á vaxtabótakerfinu en hinir tekjulágu.
    Loks er lagt til að það ákvæði eignarskattslaga er varðar skattlagningu eftirlifandi maka sem situr í óskiptu búi gildi einnig við ákvörðun vaxtabóta en til þessa atriðis er ekki tekið tillit í gildandi lögum. Ég vil svo vísa hv. þm. á nokkur dæmi um greiðslur vaxtabóta sem birtast í fylgiskjölum með frv.
    Ef við lítum yfir þær breytingar sem ég hef hér gert grein fyrir, þá væri fróðlegt að velta fyrir sér þeirri spurningu: Hver er niðurstaðan af þessu víðtæka samspili breytinga á beinum og óbeinum sköttum á skattbyrði heimilanna? Í grófum dráttum má segja að þær breytingar sem ýmist eru boðaðar í frv. eða tengjast því séu þríþættar. Í fyrsta lagi lægra hlutfall í virðisaukaskatti en í söluskatti. Í öðru lagi veruleg lækkun eignarskatta,
sérstaklega hjá tekjulægra fólki og í þriðja lagi breyting á tekjusköttum með hækkun skatthlutfalls og sérstakri hækkun barnabóta og persónuafsláttar. Þessar breytingar allar ganga í tekjujöfnunarátt og fela, hver fyrir sig, í sér víðtæka undirstöðu undir þær jöfnunaraðgerðir sem núv. ríkisstjórn beitir sér fyrir að taki gildi um næstu áramót. Heildaráhrifin af þessum breytingum eru aukinn jöfnuður í þjóðfélaginu en ekki auknar tekjur ríkissjóðs vegna þess að tekjudæmi ríkissjóðs stendur óbreytt miðað við það sem áður var.
    Virðulegi forseti. Ég vil svo að lokum víkja fáeinum orðum að nokkrum öðrum atriðum sem er að finna í þessu frv. Í frv. er gert ráð fyrir að heimildir til frádráttar vegna fjárfestingar í atvinnurekstri verði auknar sérstaklega umfram verðlagshækkanir. Þessi breyting er í samræmi við þá stefnumörkun ríkisstjórnarinnar sem kynnt hefur verið við mörg tækifæri hér á hv. Alþingi, að leita leiða til þess að örva viðskipti með hlutabréf og styrkja stöðu
atvinnulífs í landinu. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja það til við Alþingi að stimpilgjald af útgáfu hlutabréfa verði lækkað og getur komið til greina að það verði gert með þeim hætti að samþykkja í einu formi eða öðru það þmfrv. sem lagt hefur verið fram hér á Alþingi um þetta atriði. Enn fremur hefur ríkisstjórnin ákveðið að beita sér fyrir því að ákvæði í lögum um tekjustofna sveitarfélaga verði breytt á þann veg að kostnaður við verðbréfakaup viðskiptavaka myndi ekki stofn við útreikning aðstöðugjalds. Fyrri breytingin felur í sér að stimpilgjald af hlutabréfum verði a.m.k. helmingi lægra, og jafnvel ríflega það, en af skuldabréfum. Viðskiptavakar með verðbréf munu þurfa að kaupa og selja verðbréf í miklu magni. Það getur hins vegar orðið hemill á þessi viðskipti ef greiða þarf af þeim

aðstöðugjald og aðstöðugjald af þessum stofni mundi fyrst og fremst renna til stærri og betur stæðu sveitarfélaganna á suðvesturhorni landsins. Ríkisstjórnin áformar einnig að stíga enn frekari skref til þess að bæta skattalega stöðu hlutafjáreignar miðað við aðrar fjáreignir og framkvæma þær breytingar í tengslum við fyrirhugaða skattlagningu raunvaxtatekna. Þannig munu þegar á næsta ári og í framhaldi af þeim breytingum sem ég hef hér kynnt verða leiddar í lög víðtækar breytingar sem stuðla að því að styrkja stöðu atvinnulífsins með því að laða fjármagn frekar inn í atvinnulífið heldur en aðra farvegi í okkar þjóðfélagi. Með því að skattleggja raunvaxtatekjur af skuldabréfaeign og innistæðum í bönkum væri stigið stórt skref til jöfnunar á skattalegri stöðu hlutabréfa- og skuldabréfaeignar.
    Í tillögum nefndar um skattlagningu fjármagnstekna er einnig gert ráð fyrir að greiddur arður verði að fullu frádráttarbær hjá fyrirtækjum en skattlagður eins og aðrar tekjur hjá einstaklingum. Þetta felur í sér fulla samræmingu á skattlagningu tekna af hlutafjáreign og öðrum fjáreignum og öll tvísköttun tekna af hlutafjáreign verður úr sögunni. Eignarskattlagning hlutabréfa verður á næstunni skoðuð sérstaklega m.a. með tilliti til skattamats. Ég tel ekki ástæðu til að víkja nánar að þessum efnisatriðum hér, en það mun gefast tækifæri til þess síðar á þessu þingi, þegar ríkisstjórnin leggur önnur frumvörp sín um þetta efni fram á Alþingi, að fjalla ítarlegar um hvernig við hyggjumst beita skattkerfinu til að styrkja fjárhagsgrundvöll atvinnulífsins.
    Í þessu frv. er einnig að finna ákvæði um eignarskattsfrelsi húsbréfa. Reyndar er einnig að finna breytingu varðandi eignarskattsfrelsi skuldaviðurkenninga ríkissjóðs og mun ég fyrst víkja að því. Hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða sem eingöngu eru myndaðir af eignarskattsfrjálsum skuldaviðurkenningum ríkisins verða undanþegin eignarskatti. Þegar eignarskattsfrelsi spariskírteina ríkissjóðs var ákveðið voru verðbréfasjóðir ekki komnir til sögunnar. Það þykir því eðlilegt að ekki sé gerður greinarmunur á því með hvaða hætti einstaklingar fjárfesta í spariskírteinum og öðrum ríkispappírum. Vænti ég að þessi breyting verði til þess að örva eðlileg viðskipti verðbréfasjóðanna með spariskírteini ríkissjóðs og aðra verðpappíra ríkisins. Getur slíkt stuðlað að enn frekari styrkingu markaðarins fyrir spariskírteini ríkissjóðs og ríkisvíxla og aðra ríkispappíra sem nokkuð kom til umræðu hér á Alþingi fyrir nokkrum dögum síðan.
    Í frv. er einnig gert ráð fyrir því að húsbréf fái sömu skattalega meðferð og spariskírteini ríkissjóðs. Þetta er í samræmi við þær ákvarðanir sem teknar voru sl. vor í tengslum við upptöku húsbréfakerfisins. Ég hef orðið var við að þetta ákvæði hefur vakið nokkra athygli og tel þess vegna rétt að leiða hér fram helstu röksemdirnar fyrir eignarskattsfrelsi húsbréfa.
    Í fyrsta lagi auðveldar það eldra fólki að losa sig við of stórar íbúðir og gerir því kleift að breyta þeim

að hluta yfir í eignarskattsfrjálsar eignir. Þetta stuðlar þannig að þeirri innri fjármögnun sem að er stefnt með húsbréfakerfinu en hún felst í því að íbúðaseljendur lána stærri hluta við sölu og auka sparnað sinn með því að halda að einhverju marki í þau húsbréf sem þeir fá við söluna.
    Í öðru lagi stuðlar eignarskattsfrelsi húsbréfa að því að samkeppnisstaða spariskírteina ríkissjóðs raskast ekki. Eignarskattlagning húsbréfa mundi valda því að þau bæru hærri vexti en spariskírteini. Þar sem lífeyrissjóðir verða hins vegar að öllum líkindum helstu kaupendur húsbréfa, en þeir greiða eins og kunnugt er ekki eignarskatta, mundi áhugi þeirra á spariskírteinum verða lítill sem enginn svo lengi sem húsbréf eru í boði.
    Virðulegi forseti. Að lokum vil ég víkja að þeim breytingum sem lagðar eru til á starfsháttum ríkisskattanefndar. Ástæða þess að þær breytingar eru lagðar til er að á síðari árum hefur afgreiðsla skattamála eigi verið nægilega greið. Tafir hafa orðið á uppkvaðningu úrskurða bæði af hálfu skattstjóra og ríkisskattanefndar. Umsagnir ríkisskattstjóra og kærur hafa borist ríkisskattanefnd seint. Til að ráða bót á þessu ástandi þykir nauðsynlegt að gera skipulagsbreytingar á starfsháttum ríkisskattanefndar svo og skipan hennar. Samhliða því er nauðsynlegt að ríkisskattstjóri geri sérstakt átak til að flýta afgreiðslu umsagna um einstök kærumál til ríkisskattanefndar. Er gert ráð fyrir að ríkisskattstjóri fái heimild til að verkefnaráða starfsmann í
eitt ár til að sinna þessu verki svo að unnt verði að koma ástandinu í viðunandi horf.
    Þá hefur að frumkvæði fjmrn. verið unnið verulegt starf í skipulagsmálum skattstjóra. Fyrir liggur skýrsla nefndar þar að lútandi og hefur fjmrn. sent skattstjórum nýtt skipurit og í ráði er að efla starfsmenntun starfsmanna skattkerfisins. Skattstjórum hefur verið fenginn í hendur tölvubúnaður sem ætlað er að auðvelda þeim störf sín og fyrirhugað er að ljúka tölvuvæðingunni á árinu 1990. Þá hefur starfsmönnum skattkerfisins einnig verið fjölgað til að styrkja það vegna upptöku staðgreiðslunnar og virðisaukaskattsins. Hins vegar hefur skipan ríkisskattanefndar verið óbreytt frá árinu 1980 sem og það fyrirkomulag sem mótar starfshætti hennar. Í núgildandi lögum eru aðeins tveir menn skipaðir í ríkisskattanefnd sem hafa það starf að aðalstarfi en auk þess eru fjórir menn í ríkisskattanefnd sem gegna því starfi samhliða öðrum störfum. Veigamikil rök eru að dómi fjmrn. fyrir því að þessu fyrirkomulagi verði breytt og heppilegra sé að nefndin verði eingöngu skipuð mönnum sem hafa þau störf að aðalstarfi. Ætla má að meðferð mála verði greiðari ef nefndarmenn sinna ekki öðrum störfum samhliða nefndarstörfunum og einnig er óeðlilegt að þeir menn sem starfa í ríkisskattanefnd að hlutastarfi séu jafnframt að reka ýmis önnur deilumál í skattkerfinu og vinna sem fulltrúar fyrirtækja sem eiga í útistöðum við skattkerfið eða í málaferlum við skattyfirvöld. Getur slíkt leitt til óeðlilegra hagsmunaárekstra eða

grunsemda um stöðu mála. Þótt engin ástæða sé til að væna þá einstaklinga sem nú hafa starfað í ríkisskattanefnd um það atriði er að mörgu leyti heppilegt að þessu sé ekki blandað saman. Þá er einnig í frv. til fjárlaga fyrir árið 1990 gert ráð fyrir fjölgun á skrifstofu ríkisskattanefndar um tvo starfsmenn.
    Það er ljóst að verkefni ríkisskattanefndar munu aukast frá því sem verið hefur með upptöku á virðisaukaskatti. Enn fremur er ríkisskattanefnd ætlað með þessu frv. að ákveða sektir vegna brota á lögum um staðgreiðslu. Sérstök sektanefnd sinnir nú þessu hlutverki en ekki þykir ástæða til annars en að öll refsimeðferð hjá skattayfirvöldum sé hjá sama aðila. Samhliða þessu frv. sem ég mæli hér fyrir hefur þess vegna verið lagt fram á Alþingi annað frv. um staðgreiðslu opinberra gjalda varðandi refsimeðferðina þar sem ríkisskattanefnd tekur við hlutverki sektanefndar. Má ætla að ef þessar breytingar verða lögfestar mundu þær hraða mjög gangi mála hjá ríkisskattanefnd þó þær séu í sjálfu sér ekki beint tengdar þeim breytingum á tekju- og eignarskatti sem hér eru lagðar til.
    Virðulegi forseti. Ég legg áherslu á að þetta mál fái vandaða og örugga meðferð hér á Alþingi og þingheimur geti sameinast um að ljúka afgreiðslu þess fyrir áramót. Ég vona svo að hv. fjh.- og viðskn. fái tækifæri til að fjalla um málið og fá þær upplýsingar sem hún óskar eftir og legg til að að lokinni 1. umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.