Tekjuskattur og eignarskattur
Laugardaginn 09. desember 1989


     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegur forseti. Áður en forseti gengur úr sal langar mig aðeins að minnast á að það kom mér nokkuð spánskt fyrir sjónir hvernig dagskráin var rofin núna til að koma öðrum málum að. Það var ekki í samræmi við það sem á áætlun var hér á fundi í gærkvöldi, þeim fundi sem var síðan frestað vegna þess hve þingmenn mættu illa, og mér leikur forvitni á að vita hvern var verið að ... (Gripið fram í.) já, enda er ég bara að spyrja. Ég veit ekki hvernig þessi ákvörðun var tekin. ( ÁrnG: Það var rætt við formann ...) Já, það er nefnilega það.
    Þá sný ég mér að þessum virðulega forseta. ( Forseti: Hann er hér.) Það eina sem virðist öruggt varðandi skattamál hér á landi er að öll umfjöllun um þau gerist í óðagoti og flaustri. Sú staðfesta sem menn sýna í því að draga til elleftu stundar framlagningu frumvarpa um skatta og álögur mætti gilda víðar. Það verður því enn einu sinni að hefja umræður með því að gagnrýna harðlega vinnubrögð. Það er einkennilegt að þeir sömu menn og gagnrýna flumbruganginn og álagið sem af þessu vinnulagi leiðir, ár eftir ár, skuli svo taka upp námvæmlega sömu vinnubrögð þegar þeir setjast í þessa eftirsóttu og margumræddu stóla. Það meira en hvarflar að manni að þetta sé með ráðum gert,
sem sé að það þjóni hagsmunum þeirra sem hafa veg og vanda af því verki sem ræður svo miklu um afkomu heimila og fyrirtækja að menn nái ekki að átta sig á afleiðingum gerða þeirra í tíma. Það aftur vekur grunsemdir um að niðurstöður verði ekki eins heillandi og þeir vilja vera láta þegar öll kurl eru komin til grafar. Enda hefur það sýnt sig æ ofan í æ að stjórnvöld falla á eigin bragði, hafa sjálf ekki séð fyrir endann á afleiðingum verkanna. Er skemmst að minnast breytinga á eignarskattslögum sem gerðar voru fyrir réttu ári og eru reyndar afturkallaðar að hluta núna. Þá mátti hæstv. fjmrh. ekki heyra á það minnst að þær breytingar kynnu að leiða til óréttlætis sem kæmi ósæmilega niður á ýmsum.
    Þau óþægindi sem skapast hér á þinginu vegna fyrrnefndra vinnubragða eru ótvíræð en kannski ekki aðalatriðið heldur hitt að þetta er hrein móðgun við skattgreiðendur þessa lands, henda yfir þá breytingum sem allflestir vita nú orðið að hafa ekki fengið þann undirbúning og ígrundun sem sjálfsagt er. Sífelldar hækkanir og breytingar sem menn eiga svo alltaf að gleypa hrátt að séu raunverulega til hagsbóta. Þó vita auðvitað allir að ríkissjóður stendur höllum fæti, jafnvel hallari en viðurkennt er og það er því verið að reyna að stoppa í gatið. Til þess er verið að breyta, ekki til þess að bæta hag launþega, enda eykst skattabyrði með hverju ári þrátt fyrir rýrnandi laun og kaupmátt. Enginn trúir lengur fögrum útreikningum. Hvernig eiga skattgreiðendur að skipuleggja sín fjármál? Það er þýðingarlaust í raun og veru þegar áformum er kollvarpað jafnóðum. Á heimilum venjulegs launafólks eru ótal atriði sem verið er að reyna að skipuleggja. Þess gerist þörf þar sem halda

þarf vel á. Flest áform byggja að einhverju leyti á fjárhagsáætlunum sem standast svo ekki. Forsendur breytast, eins og það heitir, en skilaboð ríkisvaldsins eru ótvíræð. Skipuleggið ekki, umfram allt engar langtímaáætlanir. Skammtímaáætlanir eru skömminni skárri. Skipulagsleysi er auðvitað aldrei til fyrirmyndar, en sá er þó munur á skipulagsleysi ríkisins og heimilis að hið fyrrnefnda getur aukið tekjur sínar á kostnað hins síðarnefnda, hefur því betri möguleika á því að útvega sér stoppugarn til þess að staga með í götin. Heimilin verða bara að gjöra svo vel að borga og aðeins eitt úrræði er til bjargar, ef það er þá fyrir hendi --- að vinna meira.
    Einnig er vert að nefna hve óþægilegt þetta óðagot hlýtur að vera fyrir þá embættismenn sem eiga að sjá um framkvæmd síbreytilegra laga. Hvaða undirbúning fá þeir? Hversu mikið eykur tímaskorturinn ekki líkurnar á rangri framkvæmd eða mistökum af ýmsu tagi? Og hvað skyldi þetta kosta í raun og veru í beinhörðum peningum? Hve mikla yfirvinnu? Það segir sig sjálft að kerfisbreytingar ganga ekki átakalaust fyrir sig. Ekki þýðir að bæta við nýliðum til að mæta auknu álagi og því hljóta síðbúnar breytingar fyrst og fremst að koma fram í auknu vinnuálagi starfsfólks sem er þó kvartað yfir að sé ærið fyrir. Það kostar fé og eykur hættu á mistökum og því að mönnum yfirsjáist eitthvað. Það er því sama hvert litið er, alls staðar er þetta vinnulag til óþæginda og auðvitað kostnaðarauka.
    En það er eins og valdsmenn séu óforbetranlegir. Upptöku virðisaukaskatts var frestað til að betri tími gæfist til undirbúnings. En hvað gerðist? Nákvæmlega sama sagan endurtók sig. Ákvarðanir teknar í hasti, sem hafa svo keðjuverkandi afleiðingar. Erfist þetta vinnulag frá manni til manns í embætti fjármálaráðherra? Eða hvað veldur? Ef einhver hagnast á þessum vondu vinnubrögðum, hver gerir það þá?
    Að þessu sögðu, virðulegi forseti, sný ég mér að frv. sem hér er til umræðu.
    Það má segja að um sé að ræða þrjá meginþætti. Það er í fyrsta lagi hækkun tekjuskatts, í öðru lagi nokkur leiðrétting þess óréttlætis sem varð niðurstaða meiri hlutans við ákvörðun eignarskatts í desember sl. og í þriðja lagi vaxtabæturnar sem nú koma í stað vaxtaafsláttar og húsnæðisbóta. Sem fyrr
látum við kvennalistakonur okkur miklu varða afkomu heimila og fjölskyldna í landinu og því nefni ég þessa þrjá þætti. Hvað viðkemur fyrirtækjum eru flest ákvæði frv. sem þau varða til hagsbóta fyrir atvinnurekstur en það sama gildir því miður ekki fyrir heimilin.
    Staldra ég fyrst við hækkun á álagningu tekjuskatts. Hlutfallið á nú að hækka úr 30,8% upp í 32,8%. Það hefur sem sagt ekki tekið nema tvö ár að hækka álagningu um 4,3% frá því að staðgreiðslukerfið var tekið upp og er þá ótalin sú hækkun sem varð í raun við upptöku þess.
    Helstu rök hæstv. fjmrh. fyrir þessari hækkun er sú að virðisaukaskattur verður 24,5% í stað 25% í söluskatti. Við það er áætlað að tekjur ríkissjóðs

minnki um tæpa 2 milljarða frá því sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. Á móti vega --- eins og segir orðrétt í athugasemdum með frv., með leyfi forseta: ,,Á móti vega breytingar á tekjuskatti.`` Þarna segir beinum orðum að hækkun á tekjuskatti eigi að bæta tekjumissi vegna virðisaukaskatts. Til þess að breiða yfir þessa staðreynd er bætt við að hins vegar eigi að hækka barnabætur og persónuafslátt. En þarna stendur einmitt hnífurinn í kúnni. Er sú hækkun raunveruleg? Maður fyllist efasemdum því viðmiðanir virðast skekktar. Með öðrum orðum, staðreyndum er hagrætt. Það heyrir nú að vísu varla til tíðinda í þessu hanaati lýðræðisins. Barnabætur og persónuafsláttur ættu hvort eð er að reiknast upp 1. jan. og er þeirri staðreynd sleppt úr dæminu. Annars kæmu líklega ekki út fjórir. Barnabætur og persónuafsláttur miðast nú við skattavísitölu sem er í botni í desember en janúartölur eru uppreiknaðar. Þarna mætist sem sagt til samanburðar það versta annars vegar og það besta hins vegar. Dálagleg tilraun það.
    Í tilkynningu sem hagdeild ASÍ sendi frá sér er bent á að forsendur þessara útreikninga og samanburður séu afar hæpnar og þeirri fullyrðingu að skattbyrði minnki harðlega mótmælt. Mig langar því aðeins að vitna í þessa tilkynningu, með leyfi forseta, eins og hún birtist í Morgunblaðinu í gær. Þar segir að þessar fullyrðingar séu byggðar á samanburði á skattbyrði í desembermánuði 1989 og janúarmánuði 1990. Þessi samanburður gefi hins vegar alls ekki rétta mynd af raunverulegri skattbyrði. Til að gera raunhæfan samanburð við skattbyrði í janúar 1990 verði að bera hana saman við skattbyrði í júlí 1989 vegna þess að þá breyttust persónuafsláttur og barnabætur. Hagdeild ASÍ segir að samanburður á skattbyrði ýmissa tekjuhópa sýni að hlutfallsleg skattbyrði sé yfirleitt hærri í janúar 1990 en í júlí 1989 og einnig komi greinilega í ljós að skattbyrði þyngist við launahækkanir í september og nóvember. Hagdeildin segir síðan að töluvert hafi verið rætt um hvort eðlilegt sé að hækka persónuafslátt og barnabætur samkvæmt lánskjaravísitölu í stað þess að miða við forsendur fjárlaga eða aðrar ákvarðanir skattayfirvalda. Síðan fjallar tilkynningin að mestu leyti um útreikninga á persónuafslætti og barnabótum og við hvað skuli miðað.
    Í ljósi þess er fróðlegt að spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann hafi á reiðum höndum --- og ég vona að hann sé að hlusta. ( Fjmrh.: Ég hlusta alltaf. Já, já.) Hann getur sem sagt bæði lesið og hlustað. ( Fjmrh.: Já, já, já, já.) Gott. ( Gripið fram í: Hann getur allt.) Hann getur allt. Gott er að vita það --- útreikning á því hvernig dæmið liti út ef tekið hefði verið mið af júlí í stað desember og hverjar væru þá niðurstöður þess dæmis.
    Í DV eru mótmæli ASÍ frá í gær ítrekuð og BSRB hefur bæst í hópinn. Þar kveður við sama tón. Forsendur útreikninga dregnar í efa. Nokkur dæmi eru rakin um mismunandi niðurstöður eftir því hvaða forsendur menn gefa sér. Að því eru leidd rök að verið sé enn og aftur að hækka skattbyrði verulega.

Ég ætla ekki að rekja þessi dæmi hér því að niðurstöðutölum ASÍ og BSRB ber heldur ekki saman, en þær eiga það þó sameiginlegt að vefengja útreikninga fjmrn. og að útkoma dæmanna er skattgreiðendum verulega óhagstæð. Eftir stendur það að það breytir dæmum stórlega að barnabætur og persónuafsláttur miðast ekki lengur við lánskjaravísitölu. Um það var þó samið. Lánskjaravísitalan er að vísu breytt núna og launþegum sýnu óhagstæðari en hún var og er enn eitt dæmi um breytingar sem skerða hag launþega, allt undir flaggi hagsbóta, en flaggið falskt eins og oft áður. Ofan á nýjar forsendur og nýjar viðmiðanir bætist að búið var að margfalsa, eða það heitir líklega að hagræða, útreikningum áður.
    Kvennalistakonur lögðu á það mikla áherslu við upptöku staðgreiðslukerfisins og í milliþinganefndinni sem átti að fara yfir það frv. að persónuafsláttur yrði reiknaður út mánaðarlega. Það náði ekki fram að ganga. Ef sú tillaga hefði verið samþykkt litu málin talsvert öðruvísi út í dag. Þá þýddi ekki fyrir hæstv. fjmrh. að bera þær tölur á borð fyrir fólk sem hann gerir í dag og kalla það hækkun. Fróðlegt verður að reikna dæmið núna út frá þeim forsendum sem kvennalistakonur lögðu til. En í stað þess að reikna mánaðarlega var reiknað á þriggja mánaða fresti. Jafnvel þar var bellibrögðum beitt. Má minnast á þegar persónuafsláttur var uppreiknaður vorið 1988. Það var gert í júní í stað júlí eins og til stóð. Þáv. hæstv. fjmrh. lét í veðri vaka að það væri gert með hag launþega í huga, til að þeir nytu hækkananna fyrr! Lét þess
ógetið, og hélt líklega að enginn kæmi auga á það, að fyrsta júlí voru forsendur aðrar og hækkun persónuafsláttarins hefði orðið meiri.
    Við afgreiðslu tekju- og eignarskattsfrv. í desember sl. notaði núv. hæstv. fjmrh. sömu blekkingaraðferðina og nú, tók ekki fram hversu mikið persónuafslátturinn hefði átt að hækka ef launa- og verðhækkunarbannið hefði ekki komið til, sló svo um sig með tölum um stórhækkaðan persónuafslátt. Og hvernig dettur honum í hug að hann geti komist upp með sömu blekkingaraðferðina ár eftir ár?
    Barnabætur vil ég ekki tala um í sömu andránni og skatta. Barnabætur eru framlag hins opinbera til uppeldis og viðurværis barna og koma því sköttum ekki við. Auðvitað hækkar framfærsla barna eins og annar framfærslukostnaður. Dagvistargjöld hafa hækkað mikið, svo eitthvað sé talið. Forsendur hækkana barnabóta nú eru jafnskekktar og forsendur persónuafsláttarins og því ekki marktækar fremur en hækkun hans. Auk þess eiga ekki allir börn, allra síst þau tvö börn sem alltaf er gert ráð fyrir, þar sem annað er undir sjö ára aldri.
    Fyrst ég minnist nú á þetta verð ég að geta þess að fyrst verið er að taka barnabætur inn í skattareikningsdæmið í fegrunarskyni má spyrja hvers vegna aldrei sjást nein dæmi þar sem ekki er gert ráð fyrir tveim börnum og öðru undir sjö ára aldri. Það skyldi þó aldrei vera vegna þess að þannig lítur

dæmið best út? Miklu betur en ef börn eru tvö, annað 17 ára og hitt 15 ára, eða ef barnið er eitt eða ef börnin eru fjögur eða fimm eða ekkert? Það verður fróðlegt að vita hve margar fjölskyldur sem njóta barnabóta eru rétt saman settar. Um það munum við kvennalistakonur vilja fá upplýsingar í hv. fjh.- og viðskn.
    Að öllu þessu töldu verður það að teljast enn eitt dæmið um þá ótrúlegu ósvífni og kokhreysti sem jafnan einkennir málflutning og framkomu hæstv. fjmrh. að hann skuli henda þessu frv. framan í launþega svona útlítandi. Væri ekki heiðarlegra að reyna ekki með svo gagnsæjum hætti að breiða blæju velvildar og jöfnuðar yfir raunverulegt inntak frv. heldur standa við þau orð sem hann tiltekur fyrst í athugasemdum með því. Það er verið að auka tekjur ríkisins til að bæta upp fyrirhugað tap vegna virðisaukaskatts. Hve mikið langlundargeð telur hæstv. fjmrh. að launþegahreyfingin hafi? Er hann kannski að greiða fyrir samningum við opinbera starfsmenn? Er það sáttasemjarahlutverkið sem hann er að leika núna?
    Virðulegur forseti. Það er margt sem þarf að athuga varðandi frv. og segir mér svo hugur um að ýmsar forsendur þess verði gjörbreyttar þegar það kemur til 2. umr. í þessari hv. deild. Ég get þó ekki skilið við þennan þátt frv., þ.e. tekjuskattinn, án þess að minnast á fleiri forsendur sem lagðar eru til grundvallar og eru hæpnar. Þar er ég þó ekki að tala um falsaða útreikninga, heldur forsendur sem standast ekki raunveruleikann, en það eru skattleysismörkin. Skattfrjálsar tekjur eru nú, eða eiga að vera samkvæmt frv. 63.567 kr. á mánuði. Forsendur skattfrelsismarka hljóta, ef rétt er að staðið, að gera ráð fyrir því að ofan þeirra sé fólk aflögufært. Hæstv. fjmrh. telur sem sagt að hafi umræddar tekjur náðst geti einstaklingar með góðu móti framfleytt sér og séu því aflögufærir. Að baki þessari upphæð liggur hjá þúsundum einstaklinga, aðallega konum, mikil vinna því það er kunnara en frá þurfi að segja að grunnlaun flestra þeirra eru langtum lægri, þ.e. flestra kvenna, þrátt fyrir tekjujöfnunarsamninga.
    Fjölyrðum ekki um vinnuálagið og margvíslegar afleiðingar þess en víkjum aftur að skattleysismörkunum. Í fyrra fengum við kvennalistakonur, eftir langa bið, útreikninga Hagstofunnar á framfærslu einstaklings, eitthvað í svipuðum dúr og hv. þm. Stefán Valgeirsson er nú að biðja um í þáltill. og verður fróðlegt að fá niðurstöður þeirrar ályktunar. Framfærsla einstaklings reyndist í fyrra vera rúmlega 84 þús. kr. á mánuði. Var sá einstaklingur þó ekki þurftarfrekur. Þvert á móti var hann lítillátur í alla staði og ráðdeild hans til fyrirmyndar. Ekki hafa aðstæður þessa fyrirmyndareinstaklings batnað á heilu ári og því engar meiri líkur til þess að hann sé aflögufær nú en þá. Því er það fullkomlega óraunsætt að telja fólk aflögufært, svo framarlega sem það hefur, oft með ómældu erfiði og álagi, krækt sér í 63.567 kr. á mánuði.
    Við reifuðum þá skoðun í fyrra að ná mætti upp

tapi ríkissjóðs sem hlytist af því að hækka skattleysismörk með hátekjuþrepi í tekjuskatti. Hæstv. fjmrh. sagði í fyrra að löngun sín stæði til þess að koma á öðru þrepi í tekjuskatti. Hann mundi snúa sér að því verkefni um leið og færi gæfist. Enn stendur löngun hans til þess en líklega hefur ekki gefist tími. Ekki getur þó ástæðan verið annríki við undirbúning virðisaukaskatts. Þar var ekki tekið til hendinni fyrr en nýlega. Er það kannski af tillitssemi við starfsfólk skattheimtu sem hann vill ekki leggja á það aukna vinnu? Það er þá nýtilkomin tillitssemi.
    Á fundi nú í haust um skattlagningu fjármagnstekna voru rök kvennalistakvenna fyrir frestun þeirrar skattlagningar léttvæg fundin. Okkar rök voru einmitt þau að ekki væru aðstæður til þess núna að bæta svo
stórfelldri breytingu við aðrar sem í bígerð væru. Sammála þessu virtust ýmsir embættismenn sem áttu að hafa á hendi framkvæmd skattbreytinganna. Hæstv. fjmrh. fannst þetta beinlínis hlægileg rök. Hann hlær ekki eins hátt núna. Það er búið að fresta þeirri skattlagningu. Ég býð hann velkominn í hóp þeirra sem vildu fresta þessari skattlagningu, þann hóp sem fannst frestunin skynsamleg. En hann er búinn að hafa langan tíma til að undirbúa að hrinda í framkvæmd hátekjuþrepi því það er svo sannarlega ekki nýtilkomin hugmynd. Það var áhugamál Alþb. áður en það komst í ríkisstjórn. Hvað dvelur orminn langa? Hefur hæstv. fjmrh. e.t.v. fallist á þau rök vina sinna í ríkisstjórn að það séu svo fáir aflögufærir í þjóðfélaginu að það svari ekki kostnaði að ná til þeirra? Velur þann kost heldur að hækka tekjuskatt á öllum í nafni jafnréttis og félagshyggju.
    Virðulegur forseti. Það hefur ekki verið siður okkar kvennalistakvenna að minnast ekki líka á það sem vel er gert. Þær breytingar sem hér eru boðaðar á álagningu eignarskatts virðast tvímælalaust til bóta. Vona ég einungis að forsendur þeirra útreiknuðu dæma sem við blasa í fylgiskjölum frv. reynist traustari en þær sem ég hef gert hér að umtalsefni. Ef þær reynast réttar er stigið stórt skref í þá átt að bæta það óréttlæti sem lögfest var í fyrra. Þó næðist vegna baráttu Kvennalistans að mýkja örlítið afleiðingar eignarskattsins við missi maka voru held ég allir sammála um, þegar afleiðingar skattsins komu í ljós, að þær væru í mörgum tilfellum harkalegar. Kom þar margt til. Eignarskattsálagningin var hækkuð úr 0,95% í 1,2%. Fasteignagjöld hækkuðu verulega og við bættist svo háþrep eignarskatts. Þar gætti þess verulega að forsendur útreikninga leiddu ekki allan sannleika í ljós. Eignaviðmiðunin var of lág og allt of mikill munur var á leyfilegum eignum hjóna annars vegar og einstaklinga og einstæðra foreldra hins vegar. Í öllum tilfellum máttu hjón eiga helmingi stærri skuldlausa eign en einstaklingar og einstæðir foreldrar. Nú hefur þetta verið fært til betri vegar en ég verð þó að játa að ég skirrist við að lýsa hrifningu minni of mikið þar til fullsannað er hvernig útkoman verður í raun og veru. Mistökin sem urðu í álagningu eignarskatts í fyrra voru einmitt afleiðingar

óðagotsvinnubragða. Ekki skoðað til enda hverjar afleiðingar yrðu. Nú þarf að vinda ofan af og ekki í eina skiptið. Nóg er nú annríkið hér síðustu daga fyrir hátíðir þó ekki fari verulegur tími í að leiðrétta fyrri mistök. Því hefðu menn óskað að stórfelld mistök í álagningu eignarskatts yrðu mönnum víti til varnaðar en svo varð ekki, því miður. Vil
ég þó gjarnan enda umfjöllun um þennan þátt frv. með jákvæðum orðum og vona því að uppskeran verði eins og sáð virðist til. Get ég þó ekki stillt mig um að geta þess að heildarendurskoðun á eignarskattslögum væri að mati okkar kvennalistakvenna þörf aðgerð.
    Virðulegi forseti. Sný ég mér nú að þriðja þætti frv. sem ég nefndi áðan, þ.e. vaxtabótunum. En nú er þörf að víkja til baka og rifja aðeins upp söguna.
    Frv. um vaxtabætur sem samþykkt var sl. vor var fylgifiskur húsbréfafrv. Fulltrúi Kvennalistans í nefnd þeirri sem samdi húsbréfafrv. í fyrra gerði þegar í skýrslu nefndarinnar athugasemdir um vaxtabæturnar. Hún efaðist um forsendur útreikninga þeirra og gerði ýmsa fyrirvara þar að lútandi. Setti þá fram þá skoðun að afstaða til húsbréfafrv. markaðist af því hvernig til tækist með útfærslu vaxtabóta. Þegar svo vaxtabótafrv. var til umfjöllunar á þinginu tóku kvennalistakonur þráðinn upp að nýju, gerðu það að skilyrði fyrir stuðningi við vaxtabótafrv. að sérstaklega yrði tekin til umfjöllunar tekju- og eignaviðmiðun við ákvörðun vaxtabóta. Þetta var skjalfest í nál. fjh.- og viðskn., og þar segir, með leyfi forseta:
    ,,"Ríkisstjórnin hefur ákveðið að hækkun vaxta hjá Byggingarsjóði ríkisins verði ekki afturvirk.``
    Meiri hluti nefndarinnar lítur svo á að fenginni þessari yfirlýsingu að eftir gildistöku laganna verði vextir af byggingarsjóðslánum ekki hærri en að hámarki 4,5%.
    Frv. þetta er flutt í tengslum við frv. til laga um húsbréf, 344. mál. Við afgreiðslu þess máls varð að ráði að fela milliþinganefnd að athuga nánar ýmis atriði húsbréfamálsins og móta útfærslu þess. Meiri hl. þykir einboðið að vísa frv. um vaxtabætur einnig til þeirrar milliþinganefndar og óskar eftir því að hún taki sérstaklega til umfjöllunar ákvæði um tekju- og eignaviðmiðun við ákvörðun vaxtabóta.``
    Nú er skemmst frá því að segja að við þetta var ekki staðið. Ég ætla ekki að dæma um hvers vegna það var. Kannski vegna þess að pappírar, komnir fram í þingi, eru lagðir til hliðar og e.t.v. ekki lesnir nógu vel því að enginn virtist vita hvað hafði staðið í þessu nál. Það kom jafnflatt upp á alla að vaxtabótafrv. hafði ekki verið tekið til meðferðar í nefndinni. Þar af leiðandi og m.a. vegna þess greiddi fulltrúi Kvennalistans ekki atkvæði með vaxtahækkun í húsnæðismálastjórn. Önnur ástæða var líka að ekki er alveg sami skilningur á því hvort staðið hafi verið við þau framlög sem lofað var.
Í samkomulagi Kvennalistans við stjórnina segir að á árinu verði 100 millj. kr. raunaukning á framlögum. Á þessu er kannski nokkuð mismunandi skilningur, hvað ,,raunaukning á framlögum`` þýðir. Við

kvennalistakonur álítum ekki að kaup á bréfum frá lífeyrissjóðunum séu framlög.
    Varðandi orð hv. 1. þm. Reykv. um hlut Kvennalistans að þessu máli vil ég aðeins nefna eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi brigslar hv. þm. Kvennalistanum, en um leið er hann náttúrlega að brigsla allri ríkisstjórninni og væntanlega öllum þingheimi, um að skilja ekki orðið ,,afturvirk``. Það má vel vera að til séu einhverjar lögfræðilegar útskýringar á því hvernig það orð er notað samkvæmt strangasta skilningi. En maður verður að líta svo á að einhver almenn tilfinning fyrir íslensku máli sé í fullu gildi enn þá á Alþingi Íslendinga, og afturvirkni þýðir held ég í hugum allra Íslendinga það sama, eitthvað sem virkar aftur fyrir sig. Í orðabók Menningarsjóðs stendur: ,,Afturvirkur: sem verkar aftur fyrir sig.`` Ég held að hv. þm. sé fullkunnugt um þann skilning sem að baki lá, þ.e. ekki yrðu teknar ákvarðanir um breytingar á vöxtum þess fólks sem þegar hafði tekið lán og undirskrifað þar með skuldbindingar um einhverja ákveðna tiltekna vexti, mismunandi á hverjum tíma. Sú var hugsun okkar kvennalistakvenna að ekki væri sífellt komið aftan að fólki með breyttum stjórnvaldsaðgerðum þannig að fólk hefði smámöguleika á því að skipuleggja fjárhag sinn og útgjöld í samræmi við þær skuldbindingar sem það hafði á sig tekið.
    Annað orð tók hv. þm. sér nokkuð oft í munn og það var orðið ,,hrossakaup``. Margur heldur mig sig og það hefur iðulega vafist fyrir þingmönnum að skilja einmitt þá afstöðu Kvennalistans að standa ýmist með, eins og þeir kalla, stjórn eða stjórnarandstöðu eftir því hvernig málin horfa við hverju sinni. Það virðist vera fullkomlega ofvaxið skilningi margra hv. þm. að þau vinnubrögð séu viðhöfð og dettur þeim sömu hv. þm. aldrei neitt annað í hug en að eitthvað búi að baki og þá örugglega eigin hagur. Vil ég bara endurtaka að margur heldur mig sig. Í orðabók Menningarsjóðs segir um orðið ,,hrossakaup`` fyrir utan þá merkingu að selja hross ( Gripið fram í: Eða kaupa.) eða kaupa --- versla með hross: ,,óheiðarleg viðskipti``, og sem dæmi um þá orðanotkun er tekið: ,,hrossakaup þingmanna: þegar A styður B til þess eins að B styðji A í öðru``. ( FrS: Þetta er nákvæmlega það sem ég var að segja.) Já. Nú langar mig til að biðja um rök fyrir því að Kvennalistinn hafi haft eitthvað upp úr þessum viðskiptum. ( FrS: Hann er búinn að hafa
eitthvað upp úr þeim eða á eftir að hafa eitthvað upp úr þeim ...) Ja, ef við eigum að tengja einhverjar aðgerðir sem gerðar eru á vissum tíma við alla framtíð efast ég ekki um að hv. þm. muni geta krækt sér í ýmiss konar rök. Mér þætti hins vegar gaman ef hann gæti bent á eitthvert eitt ákveðið atriði þessara samninga sem réttlætir fullyrðingar hans um hrossakaup eða hvort hann álítur að samningar séu alltaf hrossakaup og hvort andstæð öfl í stjórnmálum geti aldrei samið um nokkurn skapaðan hlut nema að baki liggi einhverjar annarlegar hvatir, von um ábata

eða annað sem varðar eigin hag.
    Svo að ég víki aftur að vaxtabótunum og þeirri áherslu sem við kvennalistakonur lögðum á það að vaxtabæturnar yrðu teknar til endurskoðunar, þá var það auðvitað vegna þess að við vorum þess fullmeðvitaðar að húsbréfakerfið væri ekki til bóta fyrir þá sem minna höfðu umleikis. Það auðveldaði fleirum sem á því höfðu efni að kaupa húsnæði fyrr, en við ítrekuðum þráfaldlega að einmitt þess vegna legðum við áherslu á það að allt félagslega húsnæðiskerfið yrði endurskoðað. Til þess yrði sett sérstök nefnd. Það hefur þegar verið gert. Og við lögðum líka áherslu á það að vaxtabæturnar væru byggðar á tekju- og eignaviðmiðum sem stæðist raunveruleikann á sama hátt og ég talaði áðan um skattfrelsismörk, að þau miðuðu ekki við einhvern ímyndaðan raunveruleika, þ.e. að búið væri til dæmi sem síðan stæðist í raun og veru ekki.
    Því er það svo, þar sem þessi endurskoðun fór ekki fram, að við efumst nokkuð um réttmæti þeirra dæma sem hér eru tekin. Þar er fyrst og fremst verið að ræða um húsnæðiskaup fólks sem við getum ekki með nokkru móti séð að geti yfir höfuð keypt húsnæði. Það gefur auga leið að þau dæmi sem tekin eru um vaxtabætur og líta best út, þ.e. dæmi af fólki sem fær verulegar vaxtabætur til að mæta vaxtagjöldum vegna húsnæðiskaupa, eru í raun aðeins dæmi og ætla ég að taka aðeins eitt til marks um það.
    Dæmi II í fskj. 5 með frv. er um einstætt foreldri, ég kalla það nú einstæða móður. Tekjuskattsstofn er 1 millj. kr. Það þýðir að þessi einstaklingur hefur um 83 þús. kr. á mánuði í laun. Aftur væri freistandi að víkja að því hvað það hefur tekið hana langan tíma að vinna fyrir þessum 83 þús. kr., en látum það nú bíða. Hún á að greiða 175 þús. kr. á ári, þ.e. 14.600 kr. á mánuði í vaxtagjöld og eru þá afborganirnar sjálfar ótaldar. Vaxtabætur hljóða upp á 115 þús. kr. Mismunurinn er 60 þús. kr., þ.e. um það bil 5000 kr. á mánuði. Þetta lítur ekki sem verst út. En ósvarað er: Hvernig fór hún að því að eignast þessa íbúð? Það er gert ráð fyrir skuldlausri eign
að upphæð 1 1 / 2 millj. kr. Hvernig tókst henni að eignast þann hluta með 83 þús. kr. á mánuði til framfærslu. Ég tel ekki barnabæturnar með því að þær eru ætlaðar börnunum og nægja þó engan veginn til framfærslu þeirra.
    Ég vísa aftur til dæmisins um fyrrnefndan fyrirmyndar hagstofueinstakling. Hann sýnir ráðdeild og sparnað í hvívetna en þarf ekki að láta sig dreyma um að geta keypt sér íbúð. Þetta er einmitt það sem við kvennalistakonur höfum efasemdir um varðandi vaxtabótakerfið.
    Það er til bóta að það skuli ekki vera tímamörk á hve lengi fólk getur fengið vaxtabætur. Það er líka ágætt að tekju- og eignaviðmiðun sé beitt og að vaxtagjöldin tengist óvefengjanlega húsnæðiskaupum. En þessi ágætu ákvæði eru lítils virði ef matið á þörfum fólks er ekki raunsætt. Það er einmitt það sem maður óttast við tekjuviðmiðun, ekki bara í tekjuviðmiðun vaxtabóta heldur í ýmiss konar

tekjuviðmiðun sem verið er að tala um núna, þ.e. að tekjubinda alls konar bætur --- það er einmitt það sem maður óttast að viðmiðunin sé ekki raunsæ. Matið á hvað séu lágar tekjur, hvað miðlungstekjur og hvað háar tekjur sé byggt á röngum forsendum.
    Ef talið er að einstaklingur sem hefur 63.567 kr. á mánuði sé þar með aflögufær til skattgreiðslu er von að álitið sé að einstaklingur með 83 þús. kr. á mánuði eigi fé afgangs til íbúðakaupa. Síðan reiknast dæmið áfram á sömu forsendum.
    Kvennalistakonur munu fara fram á upplýsingar um fjölda þeirra einstaklinga sem sótt hafa um lán til íbúðakaupa og falla undir tiltekin dæmi sem tekin eru í fylgiskjölum þar sem vaxtabætur er útskýrðar. Ég á ekki von á því að hæstv. fjmrh. geti upplýst þær tölur nú en ef hann gæti það væri það að vísu ágætt.
    Virðulegi forseti. Ég fer nú að ljúka máli mínu. Eins og fram hefur komið verður af nógu að taka og nóg um að tala í hv. fjh.- og viðskn. Hætt er við að fólki gefist varla sá tími til íhugunar og athugunar sem vert hefði verið. Helgast það augljóslega af þeim tímaskorti sem nú hrjáir þingheim og ekki batnaði ástandið við það sem gerðist hér í gærkvöldi. Ég á fastlega von á því að það hefði verið boðað til fundar í fjh.- og viðskn. núna í morgun hefði verið fundarfært hér í gærkvöldi en svona rekur hvað annað.
    Ég vona þó að frv. rati ekki aftur inn í þessa deild fyrr en afdrifaríkum spurningum hefur verið svarað og efasemdum um forsendur eytt. Þá verður hægara fyrir kvennalistakonur og þingheim allan að taka afstöðu til frv. en þangað til verður manni hugsað til vísunnar sem svo oft er rauluð rétt fyrir jólin:

,,Hvað það verður veit nú enginn,
vandi er um slíkt að spá.
En eitt er víst að alltaf verður
ákaflega ...``

og ég lýk tilvitnun. Botninn kemur seinna.