Tekjuskattur og eignarskattur
Mánudaginn 18. desember 1989


     Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Friðrik Sophusson):
    Virðulegur forseti. Hér er til 3. umr. frv. til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Þetta mál hefur farið óvenjulega fljótt í gegnum hv. fjh.- og viðskn. enda var gott samkomulag í nefndinni sem byggðist m.a. á því að á sama tíma og þetta mál var rætt var jafnframt tekið til við að ræða önnur mál sem varða sömu lög, en nokkur frv. lágu fyrir hjá hv. nefnd. Annars vegar frv. sem snerta atvinnureksturinn í landinu og hins vegar frv. sem snýr að því réttlætismáli að hægt sé að telja fram sérstaklega fyrir börn sem misst hafa foreldri sitt, annað eða bæði.
    Við sjálfstæðismenn lýstum því yfir í nefndinni að þetta frv. væri fyrst og
fremst tekjuskattshækkandi frv. og hæstv. ríkisstjórn kæmist ekki hjá því að viðurkenna, þegar þetta frv. hefði verið samþykkt ásamt virðisaukaskattsfrv. sem er á hraðleið í gegnum þingið í ágætu samkomulagi, að verið væri að hækka skatta verulega og það þótt aðrar skattahugmyndir ríkisstjórnarinnar næðu ekki fram að ganga svo sem frv. annars vegar um gjald á orkuveitur og hins vegar um bifreiðagjald.
    Það er því áskorun mín til hv. stjórnarþingmanna að þeir endurskoði hug sinn varðandi þau tvö frv. sem á eftir að ræða hér, annað í deild og hitt í nefnd, og líti á það, eftir að hafa reiknað áhrif þessara frv. betur út, hvort ekki sé ástæða til að láta þau kyrr liggja það sem eftir er.
    Virðulegi forseti. Það var ekki ætlunin að flytja hér langt mál, heldur aðeins að ítreka það meginatriði að þetta frv., eins og önnur frv. sem hæstv. ríkisstjórn stendur að og snerta skattamál, er fyrst og fremst frv. til þess að hækka álög á allan almenning í landinu.