Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Það er orðinn langur tími síðan byrjað var að ræða þetta mál hinn 23. nóv. sl. Það hlýtur að teljast mjög slæmt fyrir umræðu sem þessa að þurfa að slíta hana svo í sundur sem orðið hefur, en þetta er nú sjöundi fundurinn þar sem þetta mál er á dagskrá. Hlýtur það einnig að teljast mjög slæmt að við skulum enn eiga eftir að ræða þetta mál eftir jólahlé þingsins.
    Þetta er mjög mikilvægt mál og getur haft mjög afdrifaríkar afleiðingar fyrir Ísland. Þess vegna er mjög mikilvægt að ræða það ítarlega. Því hefur verið haldið fram og mikið talað um að þetta mál hafi verið rætt ítarlega hér á þinginu. Ég vil meina að það sé of lítið rætt, þurft hefði að ræða það miklu betur og miklu meir. Og það sem meira er, ég hefði talið að það hefðu þurft að fara fram mikið meiri skoðanaskipti. Ég tel einnig mjög slæmt að hæstv. utanrrh., sem fer með þessi mál af hálfu Íslands og mun væntanlega gera það á næsta ári, skuli ekki vera viðstaddur jafnmikilvæga umræðu og hér fer fram.
    Talað hefur verið um ræðutíma manna og að svo og svo margir hafi talað í svo og svo marga klukkutíma. Það má vel vera að einhver hafi talað hér lengi en ég fullyrði að allt sem hér hefur verið sagt, alla vega allt sem ég hef hlustað á og ég tel mig hafa hlustað á allt sem hér hefur farið fram, hafi verið mjög málefnalegt og mjög nauðsynlegt innlegg í þessa umræðu sem hér hefur farið fram og þá jafnvel þær lengstu ræður sem hér hafa verið haldnar. Því ég vísa því á bug að hér hafi farið fram einhver óþarfa umræða heldur hefur hún verið mikilvæg. ( Forseti: Ég vil gera athugasemd við ræðu hv. þm. Enginn hefur kvartað yfir lengd þessara umræðna. Þetta mál hefur verið sett á dagskrá hvenær sem möguleiki hefur verið og að sjálfsögðu hafa forsetar þingsins talið þessa umræðu mjög nauðsynlega. Enginn hefur kvartað yfir hversu langan tíma hún hefur tekið eins og sá tími sýnir
sem þessi ræða fer nú fram. Þetta hlýt ég að láta koma hér fram.) Ég biðst afsökunar og finnst leiðinlegt ef forseti hefur tekið þetta til sín. Ég var einungis að tala um það að á síðasta fundi hér, ég get nú ekki munað nákvæmlega hvenær hann var, ( Gripið fram í: 19. des.) þann 19. des. talaði hæstv. viðskrh., settur utanrrh., um tímalengd og fór í nákvæma útlistun á því í hversu marga tíma hefði verið rætt hér o.s.frv. Ég var ekki að vitna til forseta. Ég var einungis að vitna til þessa. Að vísu sagði ég það ekki þannig að það kæmi beinlínis fram, en vegna þessara fyrri orða sem ég sagði ... ( Viðskrh.: Ég tók reyndar fram að margt gagnlegt hefði komið fram í þessari umræðu.) Ég tel að það hafi verið mjög margt gagnlegt. (Gripið fram í.) Nei, en það var einungis þess vegna sem ég tók fram að ég tel að hún sé mjög mikilvæg, það var það sem ég sagði. Ég var ekki að gagnrýna það sem sagt var. Ég tel að það sé mjög eðlilegt að löng og ítarleg umræða fari fram og ég tek undir með hæstv. viðskrh. og settum utanrrh. að þetta

hafi verið mjög gagnleg umræða.
    Sumir hafa haldið mjög langar og góðar ræður og aðrir mjög stuttar líka mjög góðar. Þetta segi ég aðallega vegna þess að ég hefði gjarnan þurft að tala mjög lengi hér líka í þessari umræðu en ég hef ákveðið að reyna að stytta mál mitt mjög. Það er ekki vegna þess að ég hafi ekki mikið um þetta mál að segja, heldur hef ég ákveðið að reyna að stytta mál mitt vegna þess að við höfum gert samkomulag um að hafa ekki mjög langan ræðutíma. Ég er að taka þetta fram vegna þess að ég hef mjög mikið um þetta mál að segja, miklu meira en ég get komið að á þeim tíma sem ég ætla að reyna að takmarka mig við. Kvennalistakonur hafa verið mjög stuttorðar hér í þessari umræðu þannig að ég vona að ég gangi ekki neitt verulega á tíma þingsins. Ég vil lýsa ánægju minni með að samkomulag skuli hafa tekist um að halda þessa umræðu núna á þessum tíma þó óvenjulegur sé.
    Fyrir ári síðan eða vorið 1988 var sett á laggirnar svokölluð Evrópustefnunefnd sem hefur m.a. verið hér til umræðu. Henni var falið það hlutverk að móta stefnu Alþingis gagnvart Evrópubandalaginu. Ég held að þegar við settumst þá niður hafi fáir gert sér í hugarlund að sá hraði mundi verða á þessu máli sem raun ber vitni. Því miður hefur okkur ekki auðnast að ljúka starfi okkar eins og áætlað var en ég vona að það takist á næstu mánuðum. Við munum koma þeirri vinnu sem okkur var falið að vinna til Alþingis. Og ég vona að á næstu mánuðum, ekki allt of seint, liggi skýrsla frá okkur á borðum alþm.
    Eins og ég sagði áðan er orðinn langur tími frá því að þessi umræða hófst og hefur mikið gerst frá því að við byrjuðum að ræða skýrslu utanrrh. Fyrst má nefna að framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins kom saman þann 22. nóv. og gaf út skýrslu sem er orðsending frá framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins til ráðherraráðsins í tengslum við þær samningaviðræður sem þarna er verið að tala um varðandi Evrópubandalagið og EFTA. Mig langar til að gera þessa samþykkt aðeins að umtalsefni í tilefni af þessari skýrslu utanrrh., en þar segir í lauslegri þýðingu, með leyfi forseta:
    Framkvæmdastjórnin er á þeirri skoðun að grundvöllur samninganna innan EES [þ.e. evrópsks efnahagssvæðis] um óhindruð vöruskipti, fjármagns- og
þjónustuviðskipti, frjálsan atvinnu- og búseturétt og jaðarmálefni skuli vera viðeigandi löggjöf EB (acquis communautaire). EFTA-ríkin féllust á að viðeigandi löggjöf ætti á einn eða annan hátt að fella inn í samning sem sameiginlegan lagagrundvöll, eingöngu undantekningar réttlætanlegar með tilliti til grundvallarhagsmuna á aðlögunartímabilinu ætti að vera samningsatriði.
    Þetta er hluti af þessu samkomulagi, örlítið brot af því sem þarna var samþykkt og fór til ráðherraráðsins, þ.e. að EFTA-ríkin fallast á að löggjöf Evrópubandalagsins um þessi atriði sem ég nefndi áðan eigi að gilda á hinu evrópska efnahagssvæði.

Ráðherraráð EB kom saman 8. og 9. des. sl. og féllst á þetta álit framkvæmdastjórnarinnar, þ.e. að samskipti EFTA og Evrópubandalagsins ættu að styrkjast á grundvelli laga Evrópubandalagsins eins og þar stendur líka, þetta margnotaða ,,acquis communautaire``. Það eru því gildandi reglur EB sem munu gilda á hinu evrópska efnahagssvæði og að því er virðist á þessum plöggum hérna hafa EFTA-ríkin fallist á þá tilhögun.
    Ég er ekki alveg viss um að allir hv. þm. geri sér grein fyrir því hvers konar reglur gilda í Evrópubandalaginu, þær reglur sem ætlað er að gildi á þessu evrópska efnahagssvæði og utanrrh. er þá væntanlega búinn að fallast á. En ég vildi stikla á stóru varðandi reglur EB, fara hratt yfir sögu til að rifja upp. Eins og menn vita var Rómarsáttmálinn undirritaður árið 1957 og með honum var lagður grundvöllur Evrópubandalagsins. Þar var gerður sáttmáli um hin fernu fríðindi, þ.e. réttinn til að flytja vörur, fjármagn og þjónustu óhindrað milli aðildarríkjanna og rétt borgaranna til að flytja óhindrað milli landa.
    Í Rómarsáttmálanum er kveðið á um almenn réttindi borgara í aðildarríkjunum til að hefja atvinnurekstur hvar sem er innan EB. Þetta felur í sér að stefnt er að því að íbúar aðildarríkjanna geti stofnað til atvinnurekstrar í sérhverju aðildarríki með sömu skilyrðum og heimamenn. Sömuleiðis er stefnt að því að þessi réttur taki einnig til starfrækslu umboða, útibúa eða dótturfyrirtækja. Sama gildir um heimildir til að kaupa og selja hlutabréf í hlutafélögum í öðrum bandalagsríkjum, jafnvel meirihlutaeign. Þetta yrði þó með vissum takmörkunum vegna þjóðaröryggis gagnvart fyrirtækjum á sviði heilbrigðis- og öryggismála.
    Í Rómarsáttmálanum er einnig fjallað um aukið frjálsræði á sviði þjónustu og stefnt í áföngum að óheftri starfsemi í fjármálaþjónustu, m.a. banka og tryggingafélaga. Þetta markmið felur í sér að banki eða tryggingafélag sem má starfa eða veita þjónustu í einu aðildarríki mundi sjálfkrafa öðlast rétt til að veita sömu þjónustu í öðrum aðildarríkjum EB án þess að þurfa sérstakt starfsleyfi þar. Gert er ráð fyrir að sams konar reglur tækju gildi um aðra fjármálaþjónustu, svo sem eignarleigu, fjármálaráðgjöf og verðbréfaviðskipti. Að sjálfsögðu er einnig fjallað um fjármagn í Rómarsáttmálanum og hvernig stefnt skuli í áföngum að auknum fríðindum á sviði þess. Að liðnum 12 ára aðlögunartíma, þ.e. frá 1957, er gert ráð fyrir að allt fjármagn geti óhindrað flust milli aðildarríkjanna. Eins og allir vita hefur þetta ekki ræst hjá þeim en þeir stefna að því að það verði núna í upphafi næsta árs. Ákvæði þetta beinist því gegn öllum gjaldeyrishömlum og allri mismunun einstakra aðildarríkja gagnvart einstaklingum varðandi fjármagn og lánafyrirgreiðslu. Sérstakt ákvæði heimilar aðildarríki að setja hömlur á fjármagnshreyfingar við tilteknar aðstæður, en ráðherranefndin getur fellt allar slíkar hömlur úr gildi, þ.e. hægt er að setja ákveðnar hömlur en þær eru alltaf undir því komnar að

ráðherranefndin samþykki þær.
    Í sáttmálanum er einnig lagður rammi að samkeppnisreglum fyrir alla einstaklinga og lögaðila sem starfa í EB-löndum, þar á meðal aðila á fjármagnsmarkaði. Þessar reglur fela í sér almenn ákvæði um að aðilar megi ekki misnota aðstöðu sína og þeim beri ávallt að virða samkeppnisreglur. Í þessu sambandi fjallar Rómarsáttmálinn sérstaklega um samræmingu á starfsskilyrðum fyrirtækja, þar á meðal skattameðferð. Stefnan er því sú að ekkert aðildarríki geti í framtíðinni mismunað útflytjendum frá öðrum aðildarríkjum með því að leggja á vörur þeirra eða þjónustu sérstök gjöld. Þetta eru nú þær reglur sem eiga að gilda innan EES.
    Í hvítbókinni, sem er raunverulega stefna framkvæmdastjórnarinnar í því hvernig framkvæma skuli ákvæði Rómarsáttmálans, er talað um fjögur meginatriði varðandi óhefta fjármagnsflutninga milli aðildarlandanna. Það er efling evrópska myntkerfisins, samræming á reglum aðildarríkjanna til að hægt sé að koma á óhindraðri fjármálaþjónustu, ráðstafanir gegn skattalegri mismunun, full aðlögun að fjármagnsmarkaði EB með algerlega frjálsum fjármagnsflutningum. Nú eru engar hömlur innan EB á viðskiptum með verðbréf utan kauphalla eða gjaldeyrishömlur vegna langtíma viðskiptalána. Seinni áfanginn í því að ryðja á braut hindrun í fjármagnsflutningum er lagður með tillögum framkvæmdastjórnarinnar frá 1987. Gert er ráð fyrir að þær reglur sem EB hefur sett hindri ekki aðildarlöndin í að setja sérreglur í tengslum við fjármagnsflutninga, t.d. varðandi skattameðferð, en slík lög mega þó ekki
hindra fjármagnsflutninga. Þannig að allt gengur þetta út á að reyna að koma í veg fyrir það. Stefnt er að því að einungis þurfi starfsleyfi í einu aðildarríkjanna, t.d. fyrir bankastofnanir, sem gildi þá í öllum aðildarríkjum.
    Veltum nú fyrir okkur hvaða áhrif það muni hafa á hagstjórn, sem hlýtur að skipta máli fyrir okkur Íslendinga ef við gerumst aðilar að evrópska efnahagssvæðinu. Þegar fjármagnsmarkaðurinn er orðinn fullkomlega opinn og óskiptur innan bandalagsins felur það í sér að ekkert misræmi getur komið til vegna mismunar á gengisskráningu. Þetta þýðir í reynd að einungis mjög tímabundnar og óverulegar breytingar á innbyrðis gengisskráningu gjaldmiðla aðildarríkjanna geta komið til. Til þess að tryggja þetta viðkvæma innbyrðis samband ríkjanna án þess að afnema gjaldmiðla einstakra þjóðríkja og sjálfstæða gengisskráningu þeirra hefur bandalagið komið sér upp, og stefnir að eflingu á eigin sjóði, peningamálasjóði Evrópu, til að mæta sveiflum í greiðslujöfnuði ríkjanna. Minnir þetta helst á kerfi aðildarríkja Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
    Af hálfu framkvæmdastjórnarinnar er talin þörf á miklu nánari samvinnu bandalagsríkjanna á þessu sviði. Að mati framkvæmdastjórnarinnar verða öll ríkin að taka þátt í peningakerfinu og stofna verður einn sameiginlegan seðlabanka. Það eru að vísu margir

á móti þessu og það hefur m.a. komið fram að Bretar eru mjög mikið á móti því að hafa eina mynt og einn sameiginlegan seðlabanka, en þó hefur ráðherraráðið nýlega samþykkt að stefnt skuli að því að taka upp sameiginlegan gjaldmiðil og sameiginlega stjórn gengismála með einn seðlabanka.
    Þetta mun allt hafa í för með sér að hvert aðildarríki getur ekki stundað venjulega peningamálastjórn í gegnum t.d. vaxtastefnu. Það verður einnig torvelt að ætla að stjórna peningamálum með því að setja innlánsstofnunum reglur um lausafjárhlutföll þar sem slíkar reglur mega ekki þrengja stöðu innlendra banka umfram þær sem honum eru settar í heimalandi. Í reynd þýðir þetta allsherjar samræmingu á starfsskilyrðum stofnana eins og banka og mikla takmörkun á möguleikum til sérstakrar peningamálastjórnar í einu landi.
    Það er því greinilegt af þessu að ef við gerumst aðilar að evrópska efnahagssvæðinu munum við takmarka mjög möguleika okkar til peningamálastjórnar. EFTA-ráðherrarnir samþykktu á fundi sínum þann 11. og 12. des. að gangast undir þetta, eins og kemur fram --- ef ég fæ aðeins að grípa niður í yfirlýsingu fundarins, með leyfi forseta: ,,Þeir gerðu ráð fyrir því [þá er talað um ráðherrana] að samningurinn mundi gera kleift að ná fyllsta mögulega árangri varðandi óhindruð vöruviðskipti, þjónustuviðskipti, fjármagnsflutninga og atvinnu- og búseturétt innan evrópska efnahagssvæðisins sem heildar.`` Aðeins síðar kemur: ,,Í þessu sambandi samþykktu ráðherrarnir að viðeigandi reglur Evrópubandalagsins sem þegar hafa verið mótaðar og sem skilgreina skal í samvinnu við EB skuli felldar inn í samningana á einn eða annan hátt.``
    Þarna kemur greinilega fram að EFTA-ráðherrarnir, og þá væntanlega hinn íslenski einnig, eru tilbúnir að undirgangast reglur Evrópubandalagsins að því er þessi atriði varðar.
    Það sem líka hrellir mig við þessa samþykkt EFTA-ráðherranna frá því í desember er að mér finnst mjög greinilegt að þar sé verið að undirgangast yfirþjóðlegt vald. Það er talað um það þannig að við þurfum að lúta sameiginlegum úrskurðaraðila til að setja niður deilumál og samræmda túlkun reglna sem kannski út af fyrir sig er ekki óeðlilegt á margan hátt, en hins vegar er greinilegt að dómstólar einstakra ríkja, ef sömu reglur eiga að gilda og eru innan EB, verða að lúta úrskurði yfirþjóðlegs dómstóls eins og gildir í Evrópubandalaginu. Ég get ekki séð annað út úr samþykktinni en að þarna sé verið að setja fram hugmyndir um sams konar yfirvald. Þetta þykir mér mjög miður því að ég hef einmitt haldið að allir sem hér hafa tekið til máls í þessu máli hafi gert það mjög skýrt að Ísland muni aldrei vilja lúta yfirþjóðlegum stofnunum. Þessu hélt ég að allir væru samþykkir og allir væru sammála um, en það er greinilegt og mér finnst ekki hægt að sjá neitt annað út úr þessu en að þegar sé búið að samþykkja að undirgangast þessar reglur Evrópubandalagsins.
    Auðvitað verður að taka það fram að það er ekki

búið að gera samningana. Það er einungis búið að veita heimild til samningaviðræðna. En það er búið að gera það á grundvelli þessara samþykkta sem hérna liggja fyrir. Ríkisstjórnin er búin að veita utanrrh. umboð til þess að ganga til samninga á grundvelli Oslóaryfirlýsingarinnar sem er orðrétt að reynt skuli að ná fyllsta mögulega árangri varðandi óhindruð vöruviðskipti, þjónustuviðskipti, fjármagnsflutninga og atvinnu- og búseturétt. Þetta er nákvæmlega það sem þar stendur þannig að grundvöllurinn er þarna og það virðist vera að þarna hafi ríkisstjórnin vitandi eða óafvitandi viljað ganga til samninga á þessum forsendum. Ég vona að þessi samþykkt ríkisstjórnarinnar sé ekki endanleg og að það sé ekki hægt að taka hana upp og endurskoða. Ég hef því miður ekki séð þess merki, alla vega ekki hingað til, en það er þó alltaf hægt að vona.
    Fyrir nokkrum árum hélt EFTA ráðstefnu þar sem margir sérfræðingar komu saman og ræddu m.a. áhrif óheftra fjármagnsflutninga og fjármálaþjónustu. Ég hef aðeins gluggað í það sem þar kom fram. Ég ætla ekki að taka það allt saman en það hefði kannski verið mjög gott og skemmtilegt að líta yfir það sem þeir sérfræðingar sem þar tóku til máls sögðu. Ég ætla aðeins að taka nokkur dæmi og ég tek þau vegna þess að þau varða Ísland sérstaklega að mínum dómi. En á þeirri ráðstefnu var prófessor Dornbusch frá MIT-háskólanum í Bandaríkjunum. Hann telur að EB-löndin hafi nú þegar stigið þau skref sem eru þeim hagkvæmust, þ.e. að afnema ýmsar almennar viðskiptahindranir og koma á auknu frjálsræði á fjármagnsmörkuðum.
    Næstu skref EB-ríkjanna að fullkomnu frjálsræði á fjármagnsmörkuðum fela í sér meiri vanda í framkvæmd, t.d. kröfuna um eitt peningakerfi og stórlega skert sjálfsforræði aðildarríkjanna, og leiða alls ekki til óumdeilanlegrar hagkvæmni fyrir aðildarríkin. Hann telur að stækkun EB sem vörumarkaðar með því að bjóða nýjum ríkjum inngöngu í bandalagið hefði miklu augljósari hagkvæmni í för með sér fyrir núverandi aðildarríki, einkum ef nýju aðildarríkin gætu boðið upp á mikilvæg hráefni og neytendamarkað fyrir iðnríkin, og ég endurtek: mikilvæg hráefni. Það er einmitt það sem verið er að gera núna með þessum samningum sem við erum að ganga til, því miður, að við verðum þarna eingöngu hráefnisframleiðendur. Ég tel mikla hættu á því. Það er mjög eðlilegt af hálfu Evrópubandalagsins og framkvæmdastjórnarinnar fyrst og fremst sem fer með þessi mál að vilja fá meira hráefni, fiskinn okkar, inn á markaðinn, ekki unninn, heldur sem hráefni.
    Dornbusch bendir einnig á að mörg ríki fjármagni hluta af ríkisútgjöldum með svonefndum verðbólgugróða, með gróðanum af eigin peningaútgáfu. Aðildarríki EB hafi nú með samræmdri peninga- og gengisstjórn svipt sig að mestu möguleikunum á þess konar fjármögnun ríkisútgjalda. Margir hagfræðingar telja að slík fjármögnun opinberra útgjalda eigi heldur ekki rétt á sér, en það

sé í sjálfu sér pólitísk spurning hverjir eigi að greiða opinbera starfsemi. Dornbusch sýnir að ríkisskuldir nokkurra aðildarríkja EB hafi vaxið mjög mikið á þeim tíma sem þau hafa verið að þvinga niður innlent verðbólgustig á EB-kvarða sem er þýska markið með peningamálastjórn og gengisstefnu.
    Dornbusch gagnrýnir einnig mjög margt hér sem mætti taka til en ég ætla aðeins að nefna eitt atriði enn. Hann bendir á að flestar skammtíma fjármagnstilfærslur eigi rætur að rekja til vonar um skattalegan ávinning. Skammtíma fjármagnsflutningar eru til þess fallnir að auka óstöðugleika í peningakerfinu, sérstaklega á jaðarsvæðum, og skyldi nú ekki Ísland verða jaðarsvæði inni í þessu evrópska efnahagssvæði ef til kemur? Frjálsræði til skyndiflutninga fjármagns vegna skattalegs ávinnings eykur hins vegar hagkvæmni í nýtingu fjármagnsins sem er nú eitt af því sem verið er að stefna að.
    Komið hefur gagnrýni úr fleiri áttum en eingöngu frá þessari EFTA-ráðstefnu en fróðlegt væri einhvern tíma að vitna meira til hennar því að þar kom fram mjög mikil gagnrýni og er ég mjög undrandi á því að EFTA-ríkin hafa ekki tekið meira mið af því sem þarna kom fram þar sem það voru þau sem efndu til þessarar ráðstefnu og kölluðu saman þá sérfræðinga sem þar voru. En ef við tökum nú gagnrýni úr annarri átt sem ég ætlaði að drepa hérna á og er sjálfsagt kunnug mörgum alþingismönnum, þá hafa þeir sem telja byggðajafnvægið mikilvægt miklar áhyggjur af áformum um innri markað EB. Það voru vafalítið byggðasjónarmið sem réðu því á sínum tíma að EB-ríkin féllust á að verja miklum fjármunum til að halda uppi landbúnaði og fiskveiðum í þeim mæli sem raun ber vitni. Ef áformin um óheftan fjármagnsmarkað ná fram að ganga ásamt öðrum áformum hvítbókarinnar munu stórfyrirtækin í kjarnaríkjum EB stækka enn meira og samkeppnisstaða smáfyrirtækja í jaðarríkjum versna. Staða smáiðnaðar og þjónustu mun versna í jaðarríkjum. Þetta mun annars vegar leiða til meiri uppsöfnunar tekna og auðs í kjarna EB og hins vegar fækka atvinnumöguleikum með beinum hætti í jaðarbyggðum bandalagsins. Aukin byggðaröskun blasir þess vegna við þjóðum EB og hvítbókin gerir ekki ráð fyrir neinum sérstökum viðbrögðum vegna þessara atvinnugreina. Hins vegar er gert ráð fyrir styrkjakerfi vegna landbúnaðar og sjávarútvegs sem öllum er nú reyndar kunnugt þannig að ef við ætlum að fara inn í þetta kerfi, inn í þetta evrópska efnahagssvæði með þeim reglum sem gilda innan EB, þá óttast mjög margir, ekki bara ég heldur mjög margir, að þetta sama gerist. Við erum jaðarsvæði á nákvæmlega sama hátt og þau jaðarsvæði sem nú eru innan EB. Þau hafa misst fjármagn. Það hefur streymt fé þaðan. Írland og Danmörk eru eftir því sem ég best veit í miklum vandræðum með sitt fjármagn þar sem það streymir frá þeim svæðum til kjarna bandalagsins.
    Þetta eru atriði sem ég tel að við ættum að hafa áhyggjur af og við hljótum að horfa til þess sem gerist innan svæðisins. Og ég trúi ekki öðru en að

hæstv. viðskrh., sem ég vil ávarpa svo í þessu sambandi, hafi áhyggjur af þessu einnig, svo fróður sem hann er á sviði hagfræði. Og hann hlýtur að hafa lesið mikið af þeim varnaðarorðum sem hagfræðingar viðhafa í þessu sambandi.
    Mikið hefur verið talað um að gerðir séu ýmsir fyrirvarar af Íslands hálfu. Í upphafi fundarins í Osló hélt hæstv. forsrh. ræðu og ætla ég að fá að vitna örlítið í þá ræðu, með leyfi forseta, þar sem hann hafði lýst áður ýmsu um aðstöðu okkar Íslendinga en segir svo: ,,Með þetta í huga verð ég að leggja áherslu á að af Íslands hálfu á fyllsta mögulega framkvæmd samstarfsins fyrst og fremst við frjálsa verslun með varning. Hins vegar verðum við að hafa fyrirvara hvað varðar frelsi á sviði fjármagnshreyfinga, þjónustu og fólksflutninga. Hið litla og viðkvæma íslenska peningakerfi verður að styrkja og gera virkara en það nú er áður en unnt er að samþykkja fullt frelsi fjármagnshreyfinga.``
    Þetta sagði hæstv. forsrh. í Osló og hefur oft verið vitnað til þess hér úr þessum ræðustól af honum og öðrum. Hins vegar telja hæstv. utanrrh. og hæstv. viðskrh., að því er mér heyrist, að ekki sé um neina fyrirvara að ræða við Oslóaryfirlýsinguna að því er varðar þessi atriði. Þetta hef ég skilið af ræðum þeirra og því sem ég hef heyrt þá segja bæði hér úr þessum ræðustól, svo og í blaðagreinum og annars staðar þar sem þeir hafa látið álit sitt í ljós. Það virðist því ekki vera, alla vega ekki á þessari stundu, um neina fyrirvara að ræða. Þó er þetta alls ekki ljóst.
    Ég hlustaði á ræðu hæstv. viðskrh. Jóns Sigurðssonar í Sþ. 24. nóv. þar sem verið var að ræða um fyrirvara. Hann segir, með leyfi forseta:
    ,,Á þessu sviði höfum við gert skýran fyrirvara varðandi fjárfestingar erlendra aðila í náttúruauðlindum okkar eða atvinnurekstri sem tengist þeim, fiskveiðum, fiskvinnslu og orkuverum. Þessir fyrirvarar eru ótímabundnir. Við höfum jafnframt gert fleiri fyrirvara eins og kemur fram í skýrslu utanrrh. sem hér er rædd. Við þurfum að takast á um þessa fyrirvara í samningum við Evrópubandalagið [það kemur skýrt fram að það þarf að taka á þeim fyrirvörum sem nefndir eru í skýrslu utanrrh. í samningum], en við þurfum einnig að skilgreina þá betur en við höfum gert til þessa. Hvar liggja hinir íslensku hagsmunir? Ég tel það afar brýnt að við setjum sem fyrst, og helst á þessu þingi, almenna löggjöf um fjárfestingar erlendra aðila í íslenskum atvinnurekstri.``
    Ég er svo innilega sammála hæstv. viðskrh. að því er þetta varðar. Auðvitað þurfum við að vita hvar hinir íslensku hagsmunir liggja. En hefði nú ekki verið eðlilegra að skilgreina okkar fyrirvara betur og gera okkur betur grein fyrir því með hvaða hætti hægt er að sporna við því að erlendir aðilar eignist auðlindirnar? Og hefði ekki verið betra að byrja á því að gera okkur grein fyrir því sem hérna stendur: Hvar liggja hinir íslensku hagsmunir? Auðvitað erum við öll sammála því --- eða ég vona það --- að erlendir aðilar eigi ekki að fá aðgang að náttúruauðlindunum. En hvernig eigum við að koma í veg fyrir það? Það er

það sem málið snýst um. Það eru að vísu örugglega einhverjir aðilar í þjóðfélaginu sem telja þetta engu máli skipta. Ég hef hins vegar sem betur fer ekki hitt nema einn einasta aðila og vona ég að hann sé sá eini og held ég að hann hafi kannski ekki gert sér grein fyrir hvað hann var að segja. Hins vegar hef ég ekki heyrt það hér á Alþingi og hvergi frá þeim sem ég tel hafa eitthvað að segja í þessu máli. Þeir hafa ekki sagt svo. En þá verður líka að gera grein fyrir því hvernig í ósköpunum við eigum að koma í veg fyrir að útlendingar nái yfirráðum yfir auðlindum okkur.
    Ég hef líka verulegar áhyggjur af því misræmi sem kom fram í ræðu hæstv. viðskrh. sem þá var settur utanrrh. þegar hann talaði þann 4. des. Ég tók eftir að hann segir á einum stað, með leyfi forseta, þar sem hann er að tala um fyrirvara Íslands:
    ,,Slíkir fyrirvarar eða undantekningar verða þó í sjálfu sér ekki samningsatriði.`` En á bls. 9 í skýrslu utanrrh. kemur þetta fram, með leyfi forseta: ,,Undantekningar, sem réttlættust með hliðsjón af grundvallarhagsmunum, svo og tilhögun á aðlögunartíma, ættu að vera samningsatriði.`` Þarna gætir því ákveðins misræmis sem mig langar til að inna hæstv. utanrrh. eftir. Ég átta mig ekki á hvers vegna þetta er ýmist samningsatriði eða ekki samningsatriði. Getur hugsanlega geti verið um prentvillu í skýrslunni að ræða. ( Viðskrh.: Á hvaða blaðsíðu í skýrslunni?) Bls. 9, sagði ég, neðarlega á síðu þar. Þetta passar ekki alveg saman. Það kom fram í máli hv. 2. þm. Austurl. að eitthvert plagg hefði verið hér á ferð líka innan ríkisstjórnarinnar sem ég hef ekki aðgang að, þannig að það virðist eitthvert ósamræmi vera þarna í heildina sem væri ágætt að fá einhvern botn í.
    Síðan kemur aðeins síðar í ræðu hæstv. utanrrh. frá 4. des. --- Hæstv. forseti. Mér reynist stundum erfitt að átta mig á hvort ég á að ávarpa viðskrh., settan utanrrh., sem utanrrh. eða viðskrh. ( Forseti: Hæstv. viðskrh. er nú hæstv. utanrrh.) Þannig að mér er óhætt að ávarpa hann sem slíkan? ( Forseti: Algjörlega.) Takk. Hæstv. utanrrh. hefur nú brugðið sér frá þannig að ég veit ekki hvort ég á að vitna til ræðu hans í bili, en ég hefði gjarnan viljað spyrja um fleiri atriði sem koma fram síðar í ræðu hans þar sem hann er að ræða um tímabundin sérákvæði. Ég óska því eftir að fá að gera örstutt hlé ef hann hefur brugðið sér frá. ( Forseti: Þingvörður segir mér að hæstv.
utanrrh. sé í símanum örstutta stund og hann kemur von bráðar.)
    Ég var stödd þar í ræðu minni að ég ætlaði að spyrja fleiri spurninga varðandi ræðu hæstv. utanrrh. frá 4. des. þar sem hann sagði einnig, með leyfi forseta: ,,Þá eru einnig gefnar almennar yfirlýsingar um nauðsyn tímabundinna sérákvæða sem verða að sjálfsögðu samningsatriði. Undir slík ákvæði fellur margt sem varðar tímasetningu og forgangsröð í breytingum t.d. að því er varðar aukið frelsi til fjármagnshreyfinga.``
    Þarna sýnist mér að einungis sé gert hugsanlega ráð fyrir því að um verði að ræða tímabundin

sérákvæði en ekki varanlega fyrirvara að því er varðar frelsi með fjármagnshreyfingar. Þetta kom mér mjög á óvart þar sem hæstv. forsrh. hafði tjáð Alþingi að varðandi Oslóaryfirlýsinguna hefði Ísland fyrirvara að því er þetta varðar. Ég vil því enn spyrja hvort þarna sé ekki tekið í raun neitt tillit til þess sem Íslendingar hafa sagt að því er varðar þessi atriði, alla vega í Osló og að því er ég hélt á síðari fundum EFTA.
    Það voru nokkur fleiri atriði sem ég ætlaði að vitna til og spyrja um varðandi ræðu hæstv. utanrrh. þennan dag en ég geymi mér það og ætla eingöngu að minnast á eitt atriði í ræðu hans sem ég hnaut um sérstaklega þó að margt hefði nú verið athyglisvert og ástæða til að minnast á. Það var það sem varðaði gildandi reglur innan Evrópubandalagsins um staðla og ýmsar öryggiskröfur varðandi bæði umhverfi og heilsu og öryggi og þess háttar atriði. Þetta var varðandi spurningu sem var borin fram til hans og hann svaraði í þessari ræðu. Þar kom fram að hverju aðildarríki væri heimilt að setja strangari reglur, sem er alveg rétt og mér er kunnugt um að það er margtekið fram, bæði að því er varðar öryggi og umhverfi og fleiri þætti, en þar má ekki vera um dulbúnar viðskiptahindranir að ræða en það er einmitt það sem er málið. Það mega ekki vera dulbúnar viðskiptahindranir. Í því sambandi vil ég benda á að Evrópudómstóllinn hefur dæmt í slíkum málum. Ég get nefnt tvö atriði. Í Þýskalandi hafa frá því 1516 verið reglur sem banna að sett verði nokkur aukaefni í bjór, svo sem rotvarnarefni og fleira. Þjóðverjar hafa verið mjög harðir á þessu og þar af leiðandi hefur nánast engin bjórtegund verið seld í Þýskalandi nema þýskur bjór og Guinness, ákveðin tegund af honum sem ekki hefur þessi aukaefni. Nú hefur Evrópudómstóllinn dæmt Þjóðverja til að heimila innflutning á bjór vegna þess að þeir telja að þarna hafi verið um viðskiptahindranir að ræða. Auðvitað geta Þjóðverjar haldið áfram að banna sínum verksmiðjum að framleiða bjór með aukaefnum, en það þýðir að þeir eiga mjög erfitt með að keppa vegna þess að þeir þurfa miklu oftar að skipta um bjór í verslunum og annars staðar. Umsetningin verður að vera hraðari vegna þess að hann geymist heldur skemur.
    Sama er að segja um asbest. Í Danmörku hefur til skamms tíma staðið á asbestplötum að þær séu krabbameinsvaldandi. Evrópudómstóllinn er búinn að banna Dönum að stimpla asbestplöturnar með þessu vegna þess að þeir telja það viðskiptahindrun. Að vísu stukku þeir til og skiptu út asbestplötum í allri byggingunni sinni, stóru byggingunni í Brussel, vegna þess að þeir vildu helst ekki vera í byggingu með asbesti. Hins vegar mega Danir ekki lengur, frá næsta ári, skýra frá þessu á sínu asbesti.
    Annað dæmi er að danska Krabbameinsfélagið hefur farið fram á það við yfirvöld að öll 250 efnin sem að dómi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar eru krabbameinsvaldandi verði merkingarskyld í Danmörku, en Evrópubandalagið hefur ákveðið að einungis 50 megi vera merkingarskyld vegna þess að

það er talið viðskiptahindrandi.
    Þetta þykja mér vera túlkanir sem ég á mjög erfitt með að sætta mig við. Þrátt fyrir þessa reglu er hægt að fara þannig með hana að hún heldur í raun ekki. Þetta vildi ég aðeins láta koma hér fram þar sem ég taldi það mikilvægt vegna orða hæstv. utanrrh. á þessum tíma. Um þetta er mikið talað í Evrópu og hafa t.d. Græningjar vakið athygli á þessu og telja þetta vera mjög varasamt.
    Ég ætla nú að víkja örlítið að öðrum þætti sem eru flokkssamþykktir framsóknar og Alþb. Ég hafði haldið miðað við málflutning þessara aðila hingað til að þeir mundu kannski spyrna eitthvað við fótum þannig að ríkisstjórnin mundi nú ekki stökkva út í fenið að óathuguðu máli. Við erum búin að vinna saman í Evrópustefnunefndinni frá vorinu 1988 og þar hafa menn verið að kynna sér málin og það er kannski eftirtektarvert að við sem tölum hér úr þessari nefnd höfum ýmsa fyrirvara varðandi þá stefnu sem ríkisstjórnin er að taka í þessu máli núna. Það skyldi þó ekki vera bara tilviljun að það erum einmitt við.
    Miðstjórn Framsfl. hefur ályktað í þessu máli og hefur talað um að ákveðnir fyrirvarar þurfi að vera af Íslands hálfu. Landsfundur Alþb. hefur ályktað og þeir eru með ákveðna fyrirvara og ekki alls fyrir löngu ályktaði þingflokkur Alþb. líka um ákveðna fyrirvara varðandi samningaviðræður. Ég hirði ekki að lesa það hér upp. Það hefur verið gert fyrr í umræðunni. Þeir sem eitthvað hafa kynnt sér þessi mál þekkja það því sjálfsagt. En í bókun ríkisstjórnarinnar frá 29. nóv. kemur enginn af þessum fyrirvörum fram, ekki einn einasti. Og ekki bara það að ekki komi fram neinir fyrirvarar að því er
varðar atriði eins og fjármagnsflutninga og fjármálaþjónustu og þess háttar heldur á líka að fórna grundvallarhagsmunum. Það er ekki tekið á aðalvandamálinu og aðalmálinu fyrir Íslendinga, þ.e. varðandi það að koma fiskinum á markaði í Evrópu sem við höfum þó lagt höfuðáherslu á. Í raun eru því engir fyrirvarar hvað varðar þessa þætti sem ég hef hér gert að umtalsefni þrátt fyrir allar samþykktir flokksstjórna Framsfl. og Alþb. og þingflokka. Þetta þykir mér mjög einkennilegt. Hér eru nú engir ráðherrar Alþb. Þeir eru stokknir þannig að ég get illa spurt þá hverju þetta sæti, en ég hlýt að varpa því samt til þeirra og vonandi svara þeir því seinna, þegar þeir hafa tækifæri til, hvers vegna í ósköpunum þeir hafi raunverulega gengið þannig fram hjá samþykkt bæði landsfundar og þingflokks. Sama er að segja um Framsfl. Þó að þingflokkur hans hafi ekki ályktað, að því er ég best veit, sérstaklega í þessu máli, ekki opinberlega, hefur það a.m.k. komið fram á miðstjórnarfundi og verið samþykkt tillaga þar um þetta sama efni.
    Ég verð að fara að stytta mál mitt, virðulegur forseti, en ég má þó til með að benda á það að fyrirvarar að því er varðar fjármagnsflutninga eru mjög mikilvægir. Ég hef hér undir höndum ýmis álit manna að því er þetta varðar. Ég vil benda á í þessu sambandi fréttabréf frá fræðslusamtökum um Ísland og

Evrópubandalagið sem öllum þingmönnum hefur borist. Það væri vel þess virði að lesa það upp hér en ég ætla nú að spara mér það. En mig langar til að lesa úr þessu hefti lokaorð Ragnars Árnasonar prófessors í kafla sem heitir ,,Ísland og óheftir fjármagnsflutningar``. Ég ætla bara að lesa nokkur orð, með leyfi forseta, þar sem hann segir:
    ,,Samkvæmt ofansögðu`` --- og það ætla ég ekki að lesa, ég ætla að leyfa öðrum að lesa það, hverjum og einum --- ,,þýðir skipulag óheftra fjármagnsflutninga á hinn bóginn að Ísland framtíðarinnar verður verulega frábrugðið því sem við þekkjum og sennilega miklu fámennara og fátækara en flestir Íslendingar gera ráð fyrir.``
    Ég ráðlegg öllum hv. þm. að lesa þessa grein sem ég reikna með að flestum hafi borist. Þetta kom í hólf þingmanna núna fyrir einni eða tveimur vikum. Ég tel að fyllsta ástæða sé til að hlusta á Ragnar Árnason sem er prófessor í fiskihagfræði.
    Við í Evrópustefnunefnd höfum líka verulegar áhyggjur af þessu atriði. Við höfum m.a., eins og formaður hennar hefur kynnt, ákveðið að senda nokkrum aðilum bréf með það í huga að skoða nánar hvaða áhrif óheftir fjármagnsflutningar hafa á þætti sem við höfum sérstaklega áhyggjur af, yfirráð erlendra aðila og nýtingu náttúruauðlindanna, og sérstaklega hvað varðar sjávarútveg og orkulindir. Ég lagði fram tillögu í Evrópustefnunefnd í október sem var samþykkt. Bréf var sent út og hafa okkur borist nokkur svör. Að vísu gáfum við mjög stuttan fyrirvara því að við vildum vinna málið hratt og við vildum gera skyndikönnun á því hvað sérfræðingar hefðu um málið að segja. Síðan ætlum við að vinna þetta nánar. Okkur er líka kunnugt um að einhver vinna hefur farið fram á vegum utanrrn. varðandi þetta og við munum setja okkur í samband við þá aðila sem það hafa unnið og þá kemur væntanlega í ljós eitthvað frekar. Eins og ég sagði áðan er þarna kannski allt of seint af stað farið, sérstaklega með tilliti til þess að þarna er allt komið á fulla ferð, en í þeim fáu álitum sem við höfum eru uppi ýmsar efasemdir um það að við getum haldið sjávarútvegi og orkulindum frá því að útlendingar nái tökum á þeim. Við þurfum því að flýta okkur hægt í þessum efnum og stöðva það sem nú á sér stað og flana ekki að neinu eins og við erum að gera núna. Það er sama hvaða skoðun menn hafa á því hvort hér eigi að leyfa óhefta fjármagnsflutninga eða ekki, þetta er óheillaspor.
    Mig langaði til að gera aðeins að umtalsefni þá tillögu sem við höfum lagt fram hér á Alþingi. 1. flm. er Eyjólfur Konráð Jónsson. Við leggjum hana fram fyrst og fremst vegna þess að við teljum að þessi leið sem valin er, að láta meginhagsmunina, þ.e. verslun með sjávarafurðir, verða út undan í þessum samningaviðræðum ekki rétta. Sjálfstæðismennirnir sem standa að þessari tillögu ásamt mér hafa að sjálfsögðu ekki sömu skoðun og ég að því er varðar aðra þætti málsins. Þeir telja, alla vega að því er mér skilst, að Ísland eigi að ganga til samninga við EFTA en vilja eins og ég að meginhagsmunir okkar og

grundvallarhagsmunir þjóðarinnar verði ekki samningsatriði einhvern tíma seinna eins og stefnt er að núna að því er virðist af hálfu ríkisstjórnarinnar.
    Ég hafði hugsað mér að víkja enn frekar að sjávarútvegsmálunum og þá sérstaklega þeirri skýrslu sem hér hefur orðið að umtalsefni. Ég held að alþingismenn hafi ekki lesið þá skýrslu nægilega vel. Hún er verulega gott innlegg í þessa umræðu. Þá á ég við skýrslu Samtaka atvinnurekenda í sjávarútvegi sem hér hefur verið vitnað til af mörgum. Ég hefði gjarnan viljað vitna líka til þeirrar skýrslu og nota hana en hins vegar ætla ég að spara mér það til seinni tíma. Það er aðeins eitt atriði sem ég vil þó gera að umtalsefni sem fram kemur í þeirri skýrslu, og reyndar í bókun ríkisstjórnarinnar, þar sem verið er að tala um tvíhliða viðræður. Það er farið að nota tvíhliða viðræður á svolítið misvísandi hátt. Í upphafi, áður en
við fórum að ræða þessi mál hér, höfðu tvíhliða viðræður í mínum huga ótvírætt verið formlegar viðræður við einhvern ákveðinn aðila. Hins vegar er greinilegt að hugtakið ,,tvíhliða viðræður`` er notað í bókun ríkisstjórnarinnar þegar um er að ræða opinberar heimsóknir eða þegar ráðherrar fara og ræða við kollega sína, annaðhvort einhvers staðar erlendis eða þeir koma hingað til lands. Þess vegna er ég hætt að nota orðin ,,tvíhliða viðræður`` um það sem ég átti við í upphafi, heldur segi ég ,,beinar samningaviðræður`` og þess vegna er það notað í tillögu okkar sem ég vitnaði til áðan. Þar er talað um beinar samningaviðræður við Evrópubandalagið um viðauka við bókun 6.
    Þar sem mikið hefur verið rætt um þessa skýrslu samstarfsnefndar atvinnurekenda í sjávarútvegi kemur greinilega fram hjá þeim hvað þeir eiga við með tvíhliða viðræðum. Í athugasemd í Morgunblaðinu þann 7. des. segja þeir í lokin --- og ég ætla aðeins að taka þar eina setningu: ,,Það má vera hverjum manni ljóst að slíkar tvíhliða viðræður hljóta að vera formlegar.`` Þannig að þegar þeir eru að ræða um tvíhliða viðræður eru þeir að meina formlegar viðræður vegna þess að það er það eina sem þýðir. Það þýðir ekkert að vera að bíða og bíða með viðræður og vona svo bara að einhvern tíma seinna komi hugsanlega upp sú staða að Ísland geti fengið einhverjar tollaívilnanir.
    Ég veit ekki hvort ég á að vera að ræða um fríverslun með fisk innan EB vegna þess að það hefur svo margoft komið hér fram að fríverslun með fisk er óraunhæft markmið. Það er alveg útilokað að sú geti orðið raunin í þeim samningaviðræðum sem ríkisstjórnin er búin að ákveða að ganga til við Evrópubandalagið. Það hefur margoft komið fram, bæði hér á Alþingi og annars staðar, og mjög greinilega í þeim plöggum sem við höfum fengið frá framkvæmdastjórninni, að þeir hafa ekki neinn einasta áhuga á fríverslun með fisk. Þeir margítreka í viðræðunum um spurninguna um óhindruð viðskipti með sjávarafurðir, fríverslunina, að hún sé tengd öðrum þáttum sameiginlegrar fiskveiðistefnu EB og

þar með talið aðgangi að fiskimiðum. Þessu hafa þeir aldrei látið af, enda er líka öll þeirra fiskveiðistefna byggð upp þannig að gagnkvæmur aðgangur sé að fiskimiðum og, það sem kannski er mest um vert, að þeir eru með mjög mikið og flókið styrkjakerfi sem þeir eru ekki tilbúnir til að láta af, svo að það að veifa því er náttúrlega tóm vitleysa. Það hlýtur öllum að vera ljóst. Við þurfum aðgang að mörkuðum Evrópu sem og öðrum mörkuðum en ekki að vera að reyna að halda því fram að það sé einhver von til þess að ná fram fríverslun með fisk.
    Það er öllum ljóst og það vita það allir að innan EFTA er ekki nein fríverslun með fisk heldur, þó svo það hafi verið samþykkt. Við heyrðum hér áðan og erum búin að heyra lengi í fréttum að Norðmenn eru ekki tilbúnir að leggja af sína styrki í sjávarútvegi. Og hvernig í ósköpunum er þá einhver von til þess að þeir standi með okkur um það að samið verði um fríverslun með fisk við EB? Við verðum bara að viðurkenna þetta. Aðilar innan sjávarútvegs telja að Ísland muni auðveldlega geta tekið þátt í samkeppni á þessu sviði, kannski ekki einmitt núna, en þeir eru ekkert hræddir við það ef styrkjakerfið leggst af annars staðar. Ég held því að það sé nú kominn tími til að við reynum að líta raunhæfum augum á þetta mál.
    Þar sem ég hef kannski talað dálítið lengi verð ég að reyna að sleppa hluta af því sem ég mundi hér vilja sagt hafa ( HG: Þetta er allt í lagi. Nóg er nóttin.) Er það? Já, ég vil samt ekki fara, alla vega ekki mjög mikið, yfir á næsta dag.
    Mig langar hins vegar til rétt að minnast á einn þátt enn sem allt of lítill gaumur hefur verið gefinn en það eru félagsleg réttindi. Launamannasamtökin á Íslandi hafa ákaflega lítið látið í sér heyra varðandi þessi mál. Meira að segja er það svo að stærstu launamannasamtökin hafa að því er virðist ekki gert sér grein fyrir hvað er á ferðinni varðandi launamenn innan Evrópubandalagsins. Mig langar til að taka hér örstuttan kafla úr samþykkt launamálaráðs BHMR frá 14. des. sl. sem var samþykkt samhljóða þar. 23 félög eiga fulltrúa í launamálaráði BHMR. Þar fór fram ítarleg umræða um þessi mál og síðan var samþykkt stefna sem kölluð er ,,Viðhorf BHMR til EFTA og EB``. Ég reikna með að allir hv. þm. hafi fengið þetta plagg og ætla ég því ekki að lesa það allt þó að fyllsta ástæða væri til þess. Ég ætla eingöngu að taka það sem sagt er um starfsemi stéttarfélaga, með leyfi forseta:
    ,,Þátttaka launafólks í stéttarfélögum er miklu minni í EB en almennt þekkist á Norðurlöndum. Í EB er það einungis 15--45% en á Norðurlöndum 80--95%. Stéttarfélög í EB-ríkjum hafa m.a. átt í erfiðleikum með að fá samningsrétt viðurkenndan og fylgja honum eftir með verkfallsrétti. Einnig hafa stéttarfélög í EB-löndum átt í erfiðleikum með að verja gerða kjarasamninga, bæði gagnvart vinnuveitendum og ríkisvaldi. Í þessum efnum ríkir allt önnur hefð á Norðurlöndum, e.t.v. að Íslandi undanskildu.
    Víða í EB-löndum er samningsréttur og

verkfallsréttur ekki bundinn við stéttarfélög, heldur einstaklingsbundinn. Þess vegna hefur virkni launamanna í EB-löndum verið lítil og haft þau áhrif að stéttarfélagsleg sjónarmið mega sín lítils í ákvarðanatöku í þjóðríkjum og innan bandalagsins. EB grundvallast á
hagsmunum vinnuveitenda og fjármagnseigenda. Hins vegar starfa launamannasamtökin ýmist svæðisbundið eða starfsgreinabundið í einstökum aðildarríkjum. Það gefur því auga leið að stéttarfélög innan EB eru þess vanbúin að tryggja heildarhagsmuni launamanna þrátt fyrir formlegan samstarfsvettvang sem er Evrópska verkalýðssambandið (ETUC).
    Þessi atriði eru rakin hér til að benda á að BHMR getur ekki fallist á evrópskan samruna sem fæli í sér að starfsemi íslenskra stéttarfélaga yrði takmörkuð á sama hátt og er til siðs í ríkjum EB.``
    Síðan kemur um sameiginlegan vinnumarkað:
    ,,Það er ein af niðurstöðum embættismannanefndar EFTA og EB að nauðsynlegt verði að koma á einum sameiginlegum vinnumarkaði á evrópska efnahagssvæðinu. Áhrif þess á íslenskan vinnumarkað eru margþætt. Í EB-ríkjum er mikið atvinnuleysi en einnig viss skortur á sérhæfðu vinnuafli. Þetta gæti í fyrsta lagi haft þau áhrif að til Íslands sækti mikill fjöldi atvinnulausra sem gæti sætt sig við léleg kjör og mundi halda launakjörum hér á landi áfram niðri.
    Í öðru lagi má reikna með að margir sérmenntaðir Íslendingar taki þann kost að flytja utan á vit betur launaðra starfa þar sem sérhæfni þeirra nyti sín. Áhrif þessa á stéttarfélög og launaþróun eru augljós. Má fullyrða að Íslendingar mundu á þennan hátt flytja inn í landið launamisrétti af áður óþekktri stærðargráðu. Þess vegna er það mat BHMR að frjáls atvinnu- og búseturéttur innan EFTA/EB-svæðisins stangist á við grundvallarhagsmuni Íslendinga. BHMR vill benda stjórnvöldum á að forsenda þess að hér sé unnt að halda uppi lífskjörum eins og þau gerast í nágrannalöndunum er fjölskrúðugt atvinnulíf sem nýtir sér margvíslega sérfræðiþekkingu.``
    Meira ætla ég ekki að taka úr þessu plaggi, en eins og ég sagði áðan væri fyllsta ástæða til að ræða þetta betur. Ég óttast að búið sé að samþykkja það að ganga inn í þessar samningaviðræður á þeim forsendum sem EB hefur sett. Eitt af því fyrsta sem ríkisstjórnin samþykkti var að búseturéttur, og flutningur vinnuafls, væri eingöngu háður þeim takmörkunum sem giltu um norrænan vinnumarkað sem er mjög takmarkað og eru eingöngu að því er varðar mikla flutninga á vinnuafli til landsins. Þarna er því alls ekki allt sem sýnist. Spurningin er: Að hverju stefnum við? Verður það hugsanlega aldamótatillaga Sjálfstfl. sem hér var lesin upp áðan um að Ísland gerist aðili að Evrópubandalaginu? Ég vona svo sannarlega að svo verði ekki. Þó hef ég verulegar áhyggjur af afstöðu Alþfl. og þeirra ráðherra hans sem hér hafa talað þar sem þeir virðast vera kaþólskari en páfinn að því er varðar samruna og sameiningu Evrópu. Finnst mér það raunar alveg stórmerkilegt að alþýðuflokksráðherrarnir hæstv. skuli

í raun vera búnir að gefast upp á að eiga við hagstjórnina og telja að það sé eðlilegt að Ísland fái aðhald að sinni efnahagsstjórn, eins og hér hefur verið orðað af hæstv. viðskrh., ekki kannski orðrétt eins og ég sagði en einhvern veginn á þá leið að Íslandi væri nauðsynlegt að fá aðhald í sinni efnahagsstjórn. Þetta átti ég mjög erfitt með að skilja að það að afsala sér allri efnahagsstjórn væri að fá aðhald í efnahagsstjórninni. Þetta minnti mig á það sem hér var lesið upp áðan um sjálfstæðið sem vitnað var til í ræðu frá 1963 sem haldin var í Þjóðminjasafninu.
    Mér finnst líka að ráðherrar Alþb. bregðist undarlega við. Sú ræða sem hér var flutt áðan er alls ekki í samræmi við neitt sem ríkisstjórnin gerir með aðild Alþb. og þrjá ráðherra þar, þannig að ég spyr: Er Alþb. að gefast upp á að reyna að spyrna við fótum? Eru þeir svo fljótir að gefast upp að þrátt fyrir landsfund Alþb., og ekki er langt síðan hann var haldinn, hafi þeir gefist upp á því að reyna að spyrna við fótum að því er þetta mál varðar? ( HG: Nær áttum á nýju ári.) Nær áttum á nýju ári, segir hv. 2. þm. Austurl. Eins og ég sagði áðan getur maður auðvitað alltaf vonað en ákaflega á ég eitthvað erfitt með að vera mjög bjartsýn, sérstaklega með tilliti til þess sem hæstv. fjmrh. hrópaði hérna í dyragættinni áðan þegar hann fór að tala um --- ja, á ég að kalla það hugsanlegan samruna AA-flokkanna?
    Það hefur verið dálítið áberandi í fjölmiðlum og kannski sérstaklega Þjóðviljanum að undanförnu hversu jákvætt þeir tala um þessi mál og í öllu ósamræmi við það sem hv. 2. þm. Austurl. talaði hér áðan. Þar er hæstv. utanrrh. hrósað fram og til baka fyrir það sem hann hefur verið að gera á erlendum vettvangi. Ég átta mig því mjög illa á þessu Alþb. sem virðist hafa margar skoðanir orðið á því hvað eigi að gera. Það virðist vera að formaðurinn hafi helst áhuga á því að sameinast Alþfl. Síðan koma tveir hæstv. ráðherrar sem ekki tala nú mikið í þessu máli þannig að ákaflega lítið er vitað hvaða skoðun þeir hafa í þessu máli. Síðan kemur þingflokkurinn og ekki veit ég hvaða aðilar þar ráða ferðinni sem koma með einhverja fyrirvara sem ekki eru kannski mjög merkilegir, en þó, einhver viðleitni, og landsfundurinn --- það virðist ekki skipta einu einasta máli hvað landsfundurinn segir. Ég hélt að landsfundurinn væri æðsta stofnun flokksins en það er líklega misskilningur. Það er líklega búið að taka upp miðstýringu á þeim bæ og eingöngu þrír ráðherrar ráða ferðinni. Það er ákaflega einkennilegt að fylgjast með því sem
þar er að gerast.
    Framsfl. veit ekki í hvorn fótinn hann á að stíga og Borgfl. er týndur þannig að það þarf nú ekki að ræða um það. Lítið hefur komið frá þeim flokki í þessu máli, enda er þeim kannski alveg sama. Því miður óttast ég að búið sé að glutra þessu máli niður. Hingað til hafa verið stigin óheillavænleg spor. Ég eygi þó enn þá von um að við getum spyrnt við fótum. Það er talað um að samningaviðræður muni ekki hefjast strax. Það er talað um

undirbúningsviðræður fyrst. Ég vona að einhver möguleiki verði á að spyrna við fótum þegar kemur að alvörusamningaviðræðum þannig að við getum leitt málið inn á rétta braut.
    Í bókun ríkisstjórnarinnar er talað um samráð innan ríkisstjórnarinnar og við utanrmn. Ég vona að það sé ekki samráð eins og hefur verið hingað til sem þar er talað um því að það hefur nánast ekki verið neitt að því er utanrmn. varðar. Við höfum fengið upplýsingar um það sem gert hefur verið að einhverju leyti. Að vísu höfum við stundum þurft að ganga hart eftir þeim. Það var ekki haft neitt samráð við utanrmn. fyrir EFTA-ráðherrafundinn 11.--12. des. Það var ekkert samráð haft fyrir fund utanríkisráðherranna 19. des. Ég átta mig ekki á til hvers það stóð í bókun ríkisstjórnarinnar að samráð ætti að vera innan ríkisstjórnarinnar. Það er gott og gilt en ekki hefur verið mikið samráð í utanrmn., því miður, þrátt fyrir það sem stendur í þingsköpum um það að ríkisstjórnin skuli hafa samráð við utanrmn. í meiri háttar utanríkismálum. Ég vona að hæstv. utanrrh. flokki þetta mál ekki undir minni háttar utanríkismál. Ég held því fram að þetta sé meiri háttar utanríkismál, eitt það mesta sem Ísland hefur staðið frammi fyrir nú í langan tíma og þess vegna finnst mér mjög einkennilegt það samráðsleysi sem hér hefur verið að því er varðar þetta mál allt, því miður. Og vona ég að hér verði einhver stefnubreyting. Menningarlegt sjálfstæði þjóðarinnar er ekki mælt í krónum og aurum. Þegar verið er að tala um að aukinn hagvöxtur sé svo mikilvægur, þá er verið að tala um aukinn hagvöxt á svæðinu í heild. Það er ekkert víst að við njótum nokkurs af auknum hagvexti sem menn sjá fyrir sér. Eins og ég hef skýrt hér eru miklar hættur í þessu fólgnar. Það er kannski jafnlíklegt að miklu minni hagvöxtur verði á Íslandi ef Ísland gerist aðili að EES auk þess sem velferð þjóðarinnar og einstaklinganna er ekki mæld í hagvexti. Það eru aðrir mælikvarðar sem hér verður að nota. Ég held að það sé kominn tími til að endurskilgreina þær stærðir sem eru notaðar til þess að reyna að meta hvernig þjóðinni vegnar, eins og t.d. hagvöxt og landsframleiðslu og allt það sem notað er til þess að mæla hagsæld þjóðarinnar, og nota einhvern þann mælikvarða sem tekur raunverulegt mið af því hvernig fólki líður.
    Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það að utanríkisviðskipti eru okkur Íslendingum mjög mikilvæg. Ég er ekki að tala um að við eigum ekki að hafa samskipti við Evrópubandalagið. Auðvitað eru markaðir Evrópu okkur mikilvægir en einnig Bandaríkjamarkaður og markaðir í Austur-Evrópu, Asíu og víðar. Þess vegna er þýðingarmikið fyrir okkur að binda okkur ekki við einn stórmarkað sérstaklega og ég tala nú ekki um ef múrarnir í kringum markaðinn eru eins og virðist eiga að vera í kringum markað EB.
    Í skýrslu utanrrh. er sérstaklega tekið fram að ef um tollabandalag yrði að ræða, sem er líka eitt af því sem stefnt er að í þessum viðræðum, þó að það hafi ekki komið upp á borðið enn sem betur fer, muni

viðskipti við aðra aðila utan þessa svæðis verða mjög takmörkuð. Ég tel þetta ekki vera hagsmuni Íslendinga, að aðrir markaðir en Evrópumarkaðir séu okkar nánast lokaðir ef við förum út í tollabandalag. Að sjálfsögðu er ekki stefnt að því, að því er mér skilst, núna, en þó stendur á bls. 18 í skýrslu utanrrh.:
    ,,Auk ofangreindra samninga EB sem EFTA-ríkin yrðu að laga sig að yrði að samræma viðskiptastefnuna gagnvart ríkjum utan evrópska efnahagssvæðisins. Þetta yrði m.a. til þess að tvíhliða fríverslunarsamningar Íslendinga við önnur ríki kæmu ekki til greina og sérstakar undanþágur Íslands vegna viðskipta við ríki Austur-Evrópu yrðu líklega að falla niður.``
    Þarna kemur það greinilega fram að ef af tollabandalagi yrði muni viðskipti Íslands við önnur ríki verða takmarkaðri. Þetta hefur einnig komið fram í viðræðum, reyndar óformlegum, við starfsmann framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins, starfsmann sem ræddi við Evrópustefnunefndina, þar sem fram kom þetta sama álit, að viðskipti við aðila utan tollabandalags yrðu erfið.
    Í viðtali við Morgunblaðið 20. des. er haft eftir hæstv. utanrrh. Jóni Baldvini Hannibalssyni að Íslendingar yrðu að skoða vandlega kosti tollabandalags. Ef Íslendingar eiga að fara að skoða kosti tollabandalags held ég að ekki væri úr vegi, áður en farið er að flana að því, að skoða gallana ekki síður. Þetta er í viðtali sem Kristófer Már Kristinsson, fréttaritari Morgunblaðsins, átti við utanrrh. úti í Brussel.
    Þykir alþingismönnum ekkert athugavert við þessi atriði? Telja menn í raun allt í lagi að útiloka viðskipti við aðrar þjóðir en þær sem nú eru í EFTA og EB? Ég tel það að sjálfsögðu hina mestu fjarstæðu. Ég vona að ríkisstjórnin fari ekki út í neina slíka samninga. Og ég tel það mjög varhugavert að fara út
í samninga, svona flókna samninga eins og stefnt er að, án þess að taka á stærsta hagsmunamáli þjóðarinnar. Ég spyr bara: Hverra hagsmuna telur ríkisstjórnin sig vera að gæta? Ég á erfitt með að skilja það.
    Öllum ætti nú að vera orðið ljóst að Kvennalistinn telur að leita beri beinna samninga um samskipti okkar við Evrópubandalagið. Nú þegar ætti að óska eftir viðræðum við bandalagið um útvíkkun á viðskiptasamningi með sjávarafurðir. Það er hins vegar ekki bara á þessu afmarkaða sviði sem við teljum vænlegra fyrir Íslendinga að leita beinna samninga við bandalagið, heldur einnig á öðrum sviðum. Það hefur komið fram á undanförnum árum og ekki síður nú á seinni missirum að Íslendingar njóta mikils velvilja alls staðar í Evrópu. Skilningur ráðamanna á sérstöðu okkar er rómaður, eftir því sem við heyrum í fjölmiðlum, eftir að þjóðhöfðingjar sækja landið heim og þeir sem koma heim frá heimsóknum erlendis segja sömu sögu. Þeir hæstv. ráðherrar sem hér hafa talað hafa m.a. talað mikið um velvilja í garð Íslendinga alls staðar. Við kvennalistakonur teljum hins vegar fráleitt að tengjast Evrópubandalaginu á

þeim forsendum sem felast í Oslóaryfirlýsingu forsætisráðherra EFTA-ríkjanna. Við viljum að Íslendingar gæti hagsmuna sinna með því að taka upp beinar viðræður við Evrópubandalagið en séu ekki í samkrulli við þær fimm EFTA-þjóðir sem hafa allt annarra hagsmuna að gæta. Ég velti því fyrir mér hvort þeir menn sem hér halda á málum séu búnir að gefa upp á bátinn að á Íslandi geti lifað sjálfstæð þjóð með eigin menningu og tungu.
    Það er nöturlegt til þess að vita að nú þegar enn er ekki hálf öld liðin frá því að lýðveldi var stofnað á Íslandi skuli valdamiklir menn í þjóðfélaginu mæla með því að Ísland gerist aðili að evrópsku efnahagssvæði. Við verðum að minnast þess að frelsið er ekki fólgið í efnislegum þáttum einum saman og að ekki er allt gull sem glóir. Það er ekki nein trygging fyrir því að Íslendingar muni hafa það nokkuð betra hér á Íslandi þó svo það mundu verða einhver örfá prósent í auknum hagvexti. Við verðum að muna það að hagvöxtur er ekki mælikvarði á velferð.