Störf ríkisskattanefndar
Fimmtudaginn 25. janúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Birgir Ísl. Gunnarsson):
    Virðulegi forseti. Eins og kunnugt er eru þau ákvæði í skattalögum að ef ágreiningur verður um álagningu skatts, þá frestar áfrýjun ekki skattgreiðslum. Þ.e. hvort sem menn fara með málið alla leið í gegnum ríkisskattanefnd til dómstóla eða einungis til ríkisskattanefndar verða menn að greiða sinn skatt og bíða síðan eftir úrskurði viðkomandi stjórnvalds eða dómstóla. Það gefur því auga leið að miklir hagsmunir eru bundnir við það að slíkir úrskurðir séu kveðnir upp bæði fljótt og vel.
    Á sl. sumri kom það upp í sambandi við söluskattsinnheimtu, eins og menn muna, að ýmsir héldu því fram í fjölmiðlum að óafgreidd mál lægju hjá ríkisskattanefnd, sem gerðu það að verkum að menn biðu fjárhagstjón af þar sem þeir þyrftu að bíða lengi eftir úrskurðum en væru með fé sitt fest hjá ríkissjóði. Af þessum ástæðum þótti mér rétt að fá það fram hér á hv. Alþingi hvernig staðan væri hjá ríkisskattanefnd. Er því borin fram svohljóðandi fsp. til hæstv. fjmrh. á þskj. 456:
,,1. Hvað bíða mörg mál úrskurðar hjá ríkisskattanefnd?
    2. Frá hvaða árum eru þau (sundurliðist)?``