Almannatryggingar
Þriðjudaginn 30. janúar 1990


     Rannveig Guðmundsdóttir:
    Virðulegi forseti. Það er nú svo að þegar við erum að fá fram lagasetningu um mjög góð mál og réttindamál er eins og okkur takist aldrei að setja þau þannig fram að ekki komi til einhverra átaka síðar eða túlkunar á hvað þau hafi þýtt og það finnst mér miður. Það er ýmislegt sem vaknar í huganum þegar maður les yfir þetta frv. og þá sérstaklega það sem fram kemur í grg.
    Ef við skoðum a-lið 2. gr. laganna sem vísað er til hér í grg. hljóðar hún svo, með leyfi forseta:
    ,,Foreldrar í fæðingarorlofi, sem lögheimili eiga á Íslandi, eiga rétt á greiðslu fæðingardagpeninga samkvæmt grein þessari, enda leggi þeir niður launuð störf þann tíma. Þeir sem eiga rétt samkvæmt kjarasamningum til óskertra launa í fæðingarorlofi eiga þó ekki rétt til greiðslu fæðingardagpeninga samkvæmt ákvæði þessu.``
    Síðari setning málsgreinarinnar vísar að sjálfsögðu til opinberra starfsmanna. Það eru þeir sem hafa haft rétt til fullra greiðslna í fæðingarorlofi. En það sem ég vil benda á hér, ,,enda leggi þeir niður launuð störf þann tíma``, segir okkur það að aðrir sem fá fæðingargreiðslur, annaðhvort fæðingarstyrk, þ.e. þeir sem eru heima, eða fæðingarstyrk og orlofsdagpeninga, þ.e. þeir sem eru á vinnumarkaði, eru í raun að taka launalaust leyfi frá vinnu og fara á tryggingagreiðslur og þá kemur ýmislegt í ljós.
    Út af því máli sem hér liggur fyrir finnst mér sjálfri að miðað við lögin sé það mjög undarlegt að túlkun Tryggingastofnunar sé sú að hægt sé að greiða fæðingarorlofsgreiðslur til þeirra sem eru komnir með formlegan samning um mismunargreiðslur, þ.e. bankamanna, en ekki til einstaklinga sem gera samkomulag eða samning við vinnuveitanda um slíkar greiðslur. Þar finnst mér vera orðin gróf mismunun á einstaklingum og mér finnst bara það að viðurkenna rétt bankamanna til þessara greiðslna hafa verið það fordæmi sem hlyti að hafa verið nægilegt til þess að aðrir einstaklingar sem ná slíkum samningum ættu að fá þessa greiðslu eigi að síður.
    Það kom hér fram í máli 1. flm. að hætta sé á að konur hafi ekki efni á að taka leyfi frá störfum þar sem dagpeningar og orlofsgreiðslur geti verið mun lægri upphæð en mánaðarlaun viðkomandi. Ég tek alveg undir þær áhyggjur en ég vil líka lýsa áhyggjum mínum af því að jafnvel við samþykkt þessa frv. erum við ekki að leysa þann þátt. Við erum bara að leysa hann gagnvart þeim konum sem ná samkomulagi við sinn vinnuveitanda um mismunargreiðslur. Ég vil vekja athygli á þessu og þar með sérstaklega vekja athygli á þeirri nefnd sem er að skoða samræmingu fæðingarorlofsgreiðslna. Ég tel mjög brýnt að hún hraði störfum og skoði þessi mál og tryggi rétt allra kvenna og þá e.t.v. enn betur en nú er, en mér finnst samt að málið sé í þeim farvegi nú og það sé þegar búið að gefa það fordæmi að ekki sé hægt að líta fram hjá frv. sem nú liggur fyrir og jafnvel taka það til afgreiðslu.

    Það kom fram í máli ráðherra að fyrir utan þessa sérstöku nefnd sem er að skoða samræmingu á fæðingarorlofsgreiðslum séu málin líka á borðum samninganefnda nú og það hef ég líka heyrt. Það má því búast við að eitthvað gerist í þessum fæðingarorlofsmálum.
    Ég vek einnig athygli á öðru og þar með undirstrika ég um leið að ég er nokkuð fylgjandi því að málin séu skoðuð frá öllum hliðum. Sjálf var ég í starfshópi sem skoðaði réttindamál heimavinnandi fólks. Í þeirri vinnu létum við keyra fyrir okkur út öll þau þingmál sem flutt höfðu verið og jafnframt reyndum við að finna þau lög sem samþykkt höfðu verið í þessum málum. Það var fróðlegt út af fyrir sig að nær allir flokkar á þingi höfðu flutt sum málin. Þó höfðu þau ekki náð fram að ganga og má gefa sér það að e.t.v. hafi það verið vegna þess að þau voru oft flutt einskorðuð, ein sér um afmarkað efni, og ekki hefur gefist tími til að skoða þau í víðara samhengi sem ég er almennt mjög fylgjandi.
    Í þeirri vinnu rákum við okkur á lög um heimild til handa konum sem hafa vikið af vinnumarkaði til að vera heima við umönnun barna. Það var heimild til þess að konur gætu fengið að greiða í lífeyrissjóð þann sem þær höfðu greitt í meðan þær voru á vinnumarkaði allt að fjögur ár væru þær heima vegna umönnunar barna. Að sjálfsögðu þurftu þær þá að greiða 10% til lífeyrissjóðsins, en þarna höfðu alla vega verið sett lög sem tryggðu þeim möguleika á að halda við lífeyrisgreiðslum.
    Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er nokkuð sem mér barst til eyrna í tengslum við frv. sem hér liggur fyrir. Og það er að konur sem fara af vinnumarkaði til að vera heima við umönnun barna í fæðingarorlofi og eru þar með komnar af launum og farnar að taka við tryggingabótum geti ekki greitt í lífeyrissjóð þennan tíma, og það er mjög stórt mál þegar við erum í því að lengja fæðingarorlof og það er núna orðið sex mánuðir. Það eru margir mánuðir að missa úr við lífeyrissjóðagreiðslur. Skýringin er væntanlega sú að viðkomandi er að þiggja tryggingabætur en ekki launagreiðslur frá
vinnuveitanda. Því vek ég athygli á þessu og tel það mjög brýnt að nefndin sem er að skoða samræmingu kanni þetta mál, að það er sennilega ekki minna mál að allar konur geti samið við vinnuveitanda sinn um það að hann greiði framlag vegna lífeyrissjóðsgreiðslna meðan þær eru í fæðingarorlofi ef það reynist rétt að maður megi ekki greiða í lífeyrissjóðinn af tryggingabótunum. Því það sem er, eins og ég nefndi hér í upphafi, kjarni laganna er að þeir sem hafa samið um full laun í fæðingarorlofi halda því, þeir sem hafa ekki það hnoss leggi niður launuð störf og fari á tryggingabætur. Og ég geri ekki lítið úr því hvað var verið að gera góða hluti á sínum tíma, en við hljótum að sjá að þarna eru margir annmarkar og á það vil ég benda og jafnframt taka það fram að þó að ég hafi lagt svo mikla áherslu á það, og það mun ég gera áfram, að mál séu skoðuð almennt í víðara samhengi, finnst mér þetta frv. þess

eðlis og fordæmi komið með þeim hætti sem hefur verið á hafður gagnvart bankamönnum að ég tel að þegar sé búið að gefa það fordæmi sem þarf til að þetta verði gert öllum kleift.