Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Ég vil fyrst og fremst harma það að hæstv. forsrh. skuli kjósa að gera það að forgangsverkefni í umræðum hér í dag að ræða um stofnun ráðuneytis án verkefna fremur en ræða hina nýju efnahagsstefnu aðila vinnumarkaðarins sem ég held að sé miklu brýnna og reyndar nýtur það greinilega stuðnings margra þingmanna stjórnarliðsins. Ég harma að það skuli hafa verið staðfest hér af hálfu hæstv. forsrh. að þetta skuli vera forgangur hæstv. ríkisstjórnar.
    Aðeins vegna þeirrar umræðu sem fram hefur farið milli hv. 1. þm. Reykv. og hæstv. forsrh. er rétt að minna á að vald ráðherra er einungis sótt í lagaákvæði. Enginn ráðherra hefur vald utan þeirra lagaákvæða sem um viðkomandi ráðuneyti gilda eða stofnanir á vegum þess. Þess vegna finnst mér í meira lagi óviðfelldið að vera að ræða hér um það hvort færa eigi til verkefni með stjórnarráðsreglugerð ef þvinga á fram samþykkt Alþingis um stofnun ráðuneytis án verkefna og síðan eigi að pukrast með það í reglugerðum hvaða verkefni eigi að flytja á milli vegna þess að stjórnarliðið kemur sér ekki saman um það hvað eigi að gera í þeim efnum. Mér finnst það í meira lagi óviðfelldið og varpa kannski enn skýrara ljósi á það hversu vafasöm vinnubrögð hæstv. ríkisstjórn hefur í þessu efni.
    En hitt er svo annað mál að ef fyrir hæstv. ríkisstjórn vakir það eitt að gefa hæstv. hagstofuráðherra annan titil til þess að hann sómi sér betur á ráðstefnum erlendis, þá eru kannski engar sérstakar athugasemdir þar um. Ég sé ekki að það þurfi einhverja sérstaka aukafundi á hinu háa Alþingi til þess að koma slíku máli fram.