Stjórnarráð Íslands
Miðvikudaginn 21. febrúar 1990


     Frsm. 1. minni hl. allshn. (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegur forseti. Áður en ég hef mál mitt til þess að mæla fyrir nál. 1. minni hl. verð ég að leiðrétta það sem fram kom í ræðu hv. 5. þm. Reykv., frsm. meiri hl. allshn. Ed. Ég minnist þess ekki að sérstaklega hafi verið um það samið eða rætt að vinna málin bæði saman. Það var fyrir beiðni stjórnarandstöðunnar að kallaðir voru til þeir aðilar sem hafa faglega þekkingu á þeim verkefnum sem til stendur að flytja til þessa nýja ráðuneytis. Við sáum okkur allan tímann ekki fært að ræða þetta mál eitt og sér án þess að um leið væri rætt um það hver skyldu verða verkefni hins nýja ráðuneytis. Eins og margoft kom fram í störfum nefndarinnar og einnig í umræðum við þá sem komu til fundar við okkur, þá taldi yfirgnæfandi meiri hluti þeirra sem til okkar komu og stjórnarandstaðan, og mér segir svo hugur um að innst inni við hjartarætur einhverra stjórnarliða gæti leynst sú tilfinning, að það sé auðvitað alveg út í hött að stofna umhverfisráðuneyti sem ekki hefur nein verkefni til að vinna. Það er ekki ljóst hvenær það fær verkefni og hljóti þetta frv. afgreiðslu áður en hitt verður afgreitt skapast af því réttaróvissa, eins og reyndar kemur fram í grg. með frv. sem samin er af þeim sem undirbjuggu þessa frumvarpssmíð.
    En nál. 1. minni hl. allshn. er á þskj. 633 og ætla ég mér að byrja með því að lesa það, með leyfi forseta:
    ,,Frumvarp þetta um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands felur það eitt í sér að stofnað verði sérstakt ráðuneyti umhverfismála.
    Kvennalistakonur hafa frá upphafi lagt mikla áherslu á úrbætur í umhverfismálum og verið þeirrar skoðunar að nauðsyn beri til að hafa sérstakt ráðuneyti umhverfismála. Þingkonur Kvennalistans hafa alla tíð reynt að vinna því máli brautargengi á Alþingi og lögðu m.a. fram ítarlega tillögu um það
efni á 111. löggjafarþingi þar sem fram kemur hvernig þær vilja sjá málum borgið í slíku ráðuneyti.
    Í lok 111. löggjafarþings kom loks fram stjfrv. um stofnun umhverfisráðuneytis og starfssvið þess. Kvennalistakonur lýstu stuðningi við það frv. enda þótt það væri í raun ófullburða og gengi miklu skemur en þær hefðu kosið. Málinu var síðan vísað til sérstakrar nefndar sem vann að því á milli þinga og átti fulltrúi frá Kvennalistanum sæti í þeirri nefnd.
    Niðurstaða nefndarinnar var að skipta málinu í tvennt, þ.e. frv. það sem hér um ræðir um einfalda breytingu á stjórnarráðslögunum og annað frv., 128. mál, sem skilgreindi verkefni umhverfisráðuneytis. Svo sem vænta mátti hefur reynst erfitt að ná samkomulagi um hið síðarnefnda. Um starfssvið umhverfisráðuneytis eru mjög skiptar skoðanir, ekkert síður innan stjórnarflokkanna en annarra.
    Fyrsti minni hl. er þeirrar skoðunar að það veiki verulega grundvöllinn undir ásættanlegu samkomulagi um meginmál þessarar stjórnkerfisbreytingar ef umhverfisráðuneyti verður stofnað áður en slíku

samkomulagi er náð.
    Þegar þetta frv. var afgreitt frá nefndinni var frumvarpið um verkefni umhverfisráðuneytisins enn í umfjöllun allshn. neðri deildar. Ljóst er að í neðri deild munu koma fram brtt. við það en á þessari stundu er ekki vitað í hverju þær felast. Því er með öllu ófrágengið verkefni hins nýja ráðuneytis.
    Fyrsti minni hl. telur það lýsa fullkomnu ábyrgðarleysi og vanvirðu ríkisstjórnarflokkanna við málefnið að þröngva fram afgreiðslu þessa frv. án þess að ljóst sé hvaða verkefni hinu nýja ráðuneyti verða falin.
    Kvennalistakonur vilja koma á fót raunverulegu umhverfisráðuneyti málefnisins vegna og telja því nauðsynlegt að um leið og slíkt ráðuneyti verði stofnað fái það ákveðin verkefni og þann sess í stjórnarkerfinu sem því ber.
    Ríkisstjórnin hefur með afgreiðslu þessa máls misst sjónar á því sem ætti að vera aðaltilgangurinn með stofnun umhverfisráðuneytis, að koma betra skipulagi á stjórn umhverfismála með markvissa umhverfisvernd í huga. Það eru kvennalistakonum mikil vonbrigði að geta ekki greitt stofnun umhverfisráðuneytis atkvæði sitt á Alþingi.
    Fyrsti minni hl. telur að stofnun umhverfisráðuneytis sé fyrsta skrefið í átt til þess að umhverfismál skipi verðugan sess í stjórnkerfi landsins. Umhverfisráðuneyti án verkefna er hins vegar umbúðirnar einar, og sér 1. minni hl. sér því ekki fært að taka þátt í afgreiðslu þessa frumvarps.``
    Þar lýkur lestri mínum á nál. 1. minni hl. en ég vil minna á það í upphafi máls míns hér að kvennalistakonur hafa frá upphafi borið umhverfismál og verndun náttúrunnar mjög fyrir brjósti, enda stendur það nærri konum að vilja sjá börnum sínum borgið í framtíðinni. Framtíð mannkyns veltur á því hvernig við umgöngumst náttúruna, hvort við berum gæfu til þess að bæta úr þeim spjöllum sem við höfum valdið henni og hvernig okkur tekst til með að nýta gögn hennar og gæði.
    Eins og margoft hefur komið í ljós í umræðunni höfum við frá upphafi talið brýna nauðsyn bera til að koma á samræmdri stjórn umhverfismála og við lítum reyndar svo á að stofnun sérstaks ráðuneytis um þennan málaflokk sé besta og öruggasta leiðin til að tryggja þá faglegu yfirsýn sem nauðsynleg er. Að því
leyti getum við tekið undir með hæstv. ríkisstjórn um stofnun sérstaks ráðuneytis umhverfismála. En eins og fram kemur í því nál. sem ég hef nú mælt fyrir viljum við stofna nýtt ráðuneyti málefnisins vegna, ekki stofnunarinnar eða væntanlegs ráðherra. Það undrar mig mjög að svo mikil tímaþröng, eða ímynduð tímaþröng að mínu áliti, skuli setja okkur þær skorður að nú er ætlunin að afgreiða þetta mál þegar hitt mun vera langt komið í umfjöllun Nd. Ég tel aðalatriðið í þeim efnum vera það að auðvitað á að fjalla um þessi mál saman. Það er ekki hægt að ákveða að stofna ráðuneyti sem ekki hefur skilgreind verkefni eins og margoft hefur komið fram í umræðunni. Eins hefur því verið lýst yfir af a.m.k.

tveimur hæstv. ráðherrum að ekkert sé því til fyrirstöðu að þessi tvö mál fari samstiga hér frá þessari deild.
    Það ætti auðvitað að vera draumur okkar allra, og ég held að hann sé raunhæfur, að við Íslendingar gætum orðið fyrirmynd þjóða um verndun náttúrunnar og leiðandi í sókn til betra mannlífs í sátt við umhverfið. Mér finnst við hafa alla burði og aðstæður til þess en skilningur og vilji verður auðvitað að vera fyrir hendi og slík sókn verður að vera markviss og skipulögð til að skila árangri. Sú sókn sem nú er hafin til þess að stofna sérstakt umhverfisráðuneyti er mjög langt frá því að vera markviss, þar sem enn er ekki vitað hvernig frv. sem Nd. hefur til umfjöllunar reiðir af.
    Eins og fram kom í máli hv. frsm. meiri hl., 5. þm. Reykv., komu allmargir aðilar til funda við hv. allshn. Ed. þegar við fjölluðum um málið. Það voru starfsmenn stofnana og sérfræðingar á ýmsum sviðum umhverfismála. Mér sýnist niðurstaða af umræðum okkar við þessa fjölmörgu aðila sem hér voru upptaldir áðan hafa verið á þá lund að þeir töldu allir nauðsynlegt að samræma yfirstjórn umhverfismála. En þó þeir væru allir sammála um nauðsyn þess að koma betri stjórn á þessi mál er þó rétt að láta koma fram að það voru nokkuð mismunandi áherslur sem menn vildu leggja og leiðirnar að því marki voru mismunandi milli aðila.
    Einn þeirra sem til fundar við okkur komu var aðstoðarmaður hæstv. forsrh., Jón Sveinsson lögfræðingur, en hann var formaður þeirrar nefndar sem samdi bæði frumvörpin. Í máli hans kom fram að alveg frá upphafi og allan tímann sem nefndin starfaði var það verkefni nefndarinnar og tilgangur að frv. fylgdust að við afgreiðslu mála hér á Alþingi. Verð ég því að segja að mér þykir með ólíkindum sá yfirgangur og sú lítilsvirðing sem hæstv. ríkisstjórn sýnir þessum nánasta samstarfsmanni hæstv. forsrh. og því ágæta starfi sem hann og aðrir nefndarmenn hafa skilað með því að ætla nú að afgreiða frv. um stofnun umhverfisráðuneytis án þess að verkefnatilflutningur fylgi með um leið.
    Það kom einnig fram hjá öllum þessum fjölda sem til okkar kom að honum þótti til harla lítils að ákveða stofnun umhverfisráðuneytis sem ekki hefur nein skilgreind verkefni. Í því frv. sem við erum með til umfjöllunar nú kemur ekki fram nein stefna í umhverfisverndarmálum. Samkvæmt upplýsingum aðstoðarmanns forsrh. er í mesta lagi hægt að gefa út einhverjar yfirborðskenndar reglugerðir í því skyni að reyna að skilgreina einhvern starfsvettvang sem ekki er að finna í lögum um aðrar stofnanir umhverfismála fyrir tilvonandi ráðherra. Trúlega yrði það þá helst á sviði alþjóðlegra samskipta og e.t.v. fræðslumála. Ég vil þá minna á að á síðasta löggjafarþingi var samþykkt tillaga frá Kvennalistanum um umhverfisfræðslu meðal almennings og í skólum. Veit ég ekki betur en sú tillaga sé í höndum menntmrn. og vona ég reyndar að hún sé þar í góðum höndum. Það er þá e.t.v. ástæða til að spyrja hæstv. forsrh. um

þessa fræðslu, þetta fræðsluhlutverk sem tilvonandi umhverfisráðherra mun fá og oft hefur verið nefnt. Ég vildi gjarnan fá að vita í hverju sú fræðsla á að vera fólgin og að hverjum hún á að beinast.
    Mig langar líka til að leggja spurningu fyrir hæstv. forsrh. vegna skýrslu hæstv. samstarfsráðherra um störf norrænu ráðherranefndarinnar. Í skýrslunni er að finna sérstakan kafla um umhverfisvernd og þar er reyndar tiltekið að ekki hafi verið hér sérstakt umhverfisráðuneyti og það mun hafa verið félmrn. sem einkum hefur sinnt þeim verkefnum út á við og á Norðurlandavettvangi. Í skýrslunni segir hér, ef ég má vitna til hennar, með leyfi forseta:
    ,,Með bréfi forsrh. dags. 10. sept. 1989 var ráðherra Hagstofu Íslands falið að annast meðferð einstakra þátta umhverfismála sem ekki heyra beint undir önnur ráðuneyti samkvæmt lögum og reglugerðum.``
    Samkvæmt mínum skilningi á þessari setningu hlýtur ráðherra Hagstofu Íslands að hafa sinnt umhverfismálum frá 10. sept. 1989 og vildi ég gjarnan fá um það upplýsingar á hvaða sviðum hann hefur einkum starfað. Það sem er auðvitað aðalspurningin, hvers vegna getur þetta bréf ekki staðið aðeins lengur og þessi tiltekni hæstv. ráðherra haldið þeim verkefnum sem honum hafa verið falin með þessu bréfi? Hvað er það sem knýr á nú að gerð verði á önnur skipan? Er bréf hæstv. forsrh. ekki í gildi lengur? Það kemur reyndar ekki fram hér að það hafi verið tímasett, enda hlýtur það að vera ótímabundið þar sem ekki lá fyrir þá nákvæm dagsetning um það hvenær umhverfisráðuneyti skyldi stofnað. Reyndar kom fram í umræðunni um daginn að fregnir bárust af því á fund verkfræðinga úti í bæ að umhverfisráðuneyti yrði stofnað ákveðinn dag nú um
miðjan febrúar, þann 15. minnir mig. Þetta kom fram í 1. umr. um málið hér í síðustu viku.
    Ég vil vekja athygli á því að í bráðabirgðaákvæði með því frv. sem við höfum hér til umfjöllunar er þess getið að tilvonandi ráðherra skuli skipa nefnd sem semja skal frv. til laga um umhverfisvernd. Í umsögn frá Jarðfræðafélagi Íslands kemur fram athugasemd um þetta atriði. Stjórnarmenn þar telja ástæðu til að kveðið sé á um að í nefndina verði valdir a.m.k. nokkrir eintaklingar sem hafa faglega þekkingu og starfreynslu á sviði náttúruvísinda og með þekkingu á umhverfismálum, t.d. ákveðið hlutfall miðað við heildarfjölda nefndarmanna.
    Í máli aðstoðarmanns hæstv. forsrh. kom fram að tvíeggjað væri að setja þetta ákvæði inn. Það undirstrikar að mínu mati aðeins það að með þessu frv. fylgir engin stefna í umhverfisverndarmálum. Ég vil því spyrja hæstv. forsrh. hvort honum hefði ekki þótt það tilhlýðilegt að kveða nánar á um skipan slíkrar nefndar með tilliti til þess að þar eigi örugglega sæti fólk með faglega þekkingu.
    Ég vil svo leyfa mér að vitna aðeins til ræðu sem flutt var hér í Sþ. í fyrravetur þar sem fjallað var um tillögu Kvennalistans um stofnun sérstaks umhverfisráðuneytis. Þar kom einmitt fram að

hugtakið ,,umhverfisvernd`` er afar víðtækt og flókið og það á auðvitað að vera kjarninn í umhverfisráðuneyti því sem við ætlum að stofna að við verndum umhverfi okkar. Ég vitna hér aðeins til ræðu einnar varaþingkonu Kvennalistans, Sigrúnar Helgadóttur, en hún vildi í ræðu sinni hverfa aftur til ársins 1955. Hér segir, með leyfi forseta: ,,... en þáv. menntmrh. fól þeim Sigurði Þórarinssyni jarðfræðingi og Ármanni Snævarr prófessor að semja frv. til laga um náttúruvernd. Með þeim mun einnig hafa unnið Finnur Guðmundsson fuglafræðingur. Frv. var lagt fyrir 74. og síðan aftur fyrir 75. löggjafarþing árið 1955. Frv. fylgir löng og gagnmerk grg. Þar segir á einum stað, með leyfi forseta: ,,Hugtakið náttúruvernd er mjög víðtækt hugtak og tekur í rýmstu merkingu til verndar á öllum þáttum náttúrunnar, kvikum og dauðum.``
    Síðan er sagt frá hinum þrem megingerðum náttúruverndar, þ.e. menningarlegri náttúruvernd, félagslegri náttúruvernd og fjármunalegri eða búskaparlegri náttúruvernd. Menningarleg náttúruvernd felst í því að taka frá og friða staði eða náttúruminjar í þágu vísinda og menningar. Félagsleg náttúruvernd felst í því að auðvelda almenningi aðgang að náttúru landsins og hin fjármunalega eða sem síðar hefur verið kölluð hin hagræna náttúruvernd felst í því að virða náttúrulögmál búsvæðis síns og fylgja ákveðnum umgengnisreglum um búskap og náttúrunýtingu vegna þess að slík hegðan borgar sig þegar til langs tíma er litið.
    Í grg. segja höfundar það skoðun sína að ráðlegra sé að skipa ákvæðum um hagræna náttúruvernd í sérlög því virða þurfi hverja tegund náttúruauðæfa, hversu takmarka eigi nytjun þeirra eða stuðla að eðlilegri nýtingu þeirra. Þessi umræða er mjög merkileg og þær skilgreiningar sem þar eru gerðar.``
    Það er auðvitað mjög brýnt þegar farið verður að semja lög um náttúruvernd, að aðild að þeirri nefnd og því starfi sem þar verður unnið eigi fólk sem hefur faglega þekkingu á þessum sviði.
    Umhverfisráðuneyti á að mínu mati að hafa yfirsýn yfir allar náttúruauðlindir landsins. Það er mikilvægt að einhver aðili í stjórnkerfinu hafi það hlutverk en eins og við vitum þá er svo ekki nú og skil milli verksviða og stofnana eru óljós, togstreita um suma þætti og aðrir verða út undan.
    Við umfjöllun í Nd. urðu einnig á frv. þær breytingar að annað bráðabirgðaákvæðið um endurskoðun á lögum um þær stofnanir sem hugsanlega verður lagt til að kljúfa upp hefur nú verið fellt brott. Að mati aðstoðarmanns forsrh. er óhjákvæmilegt að taka þetta ákvæði inn í fylgifrv. svo og um aðrar þær stofnanir sem e.t.v. verður lagt til að skipt verði upp. Þar eð ekki hafa komið fram endarlegar brtt. við frv. um verkefnin, þ.e. 128. mál, það mál sem nú er til umfjöllunar hjá allshn. Nd., er allt í óvissu um hvernig þessum sem og reyndar öðrum málum verður skipað. Ég get ekki látið hjá líða að minnast á brtt. sem kynnt var í allshn. Nd. nú í morgun, frá meiri hl. nefndarinnar væntanlega, en

þar hefur orðið nokkuð undarleg lending að mínu mati. Lýsir sú niðurstaða sem þar er nokkuð ágreiningi þeim sem þar er meðal stjórnarliða í hnotskurn. Nú er gert ráð fyrir því að einni greininni verði breytt á þann veg að umhverfisráðherra geti, eftir að hafa fengið tillögur frá Náttúruverndarráði, lagt til við landbrh. að gripið verði til friðunar- og uppgræðsluaðgerða á sviði gróður- og skógverndar. Og það undarlega er, seinni setningin í þessari fyrirhuguðu brtt.: ,,Náist ekki samkomulag um framkvæmd slíkra aðgerða getur umhverfisráðherra vísað málinu til úrskurðar forsætisráðherra`` segir hér orðrétt, með leyfi forseta.
    Vil ég nú spyrja hæstv. forsrh. hvort hann telji að slíkt fyrirkomulag mundi einfalda málin frá því sem nú er þegar um þrjá aðila er að ræða eða í raun fjóra, tillagan á upphaflega að koma frá Náttúruverndarráði. Ég vil spyrja
forsrh. hvort hann trúi því í raun að þetta muni verða til þess að einfalda málin frá því sem nú er og hvaða sess hann hafi hugsað sér að þetta umhverfisráðuneyti hafi í framtíðinni. Eðli málsins samkvæmt á umhverfisráðherra og ráðuneyti hans, umhverfisráðuneytið fyrst og fremst, ráðherrarnir koma og fara, en í umhverfisráðuneytinu þarf að byggja upp sterka fagþekkingu og það á að hafa mjög sterka stöðu. Eins og málin eru hér lögð fram þarf einn að ganga með betlistafinn til annars og þeir enda síðan með ágreiningsmál sín hjá forsrh. Ekki veit ég hvað hann ætlar að leggja til grundvallar dómum sínum þegar þar að kemur, hvorum aðilanum beri að hlýða í þessu tilviki. Ég hefði haldið að umhverfisráðuneyti ætti að hafa þá fagþekkingu sem til þarf til að grípa inn í og það er nauðsynlegt að það skipi þann sess að það geti ráðið einhverju um framgang mála.
    Ég vil í tilefni af þessu vitna í grein úr DV frá 30. nóv. sl. sem Kristín Halldórsdóttir, starfskona Kvennalistans, hefur skrifað og fjallar um umhverfismálin þar sem hún lýsir áhyggjum sínum af því hvaða sess hið fyrirhugaða ráðuneyti muni fá í stjórnkerfinu. Ég les hér örlítið brot úr grein hennar, með leyfi forseta:
    ,,Við eigum enn langa leið að því marki að geta verið öðrum til fyrirmyndar. Engin ástæða er þó til þess að mikla fyrir sér erfiðleikana heldur skilgreina vandann og hefjast handa af myndarskap svo að orð Bretanna geti orðið að áhrínsorðum. Náttúra landsins og lega þess á jarðarkringlunni leggja okkur allt upp í hendurnar. Við þurfum aðeins að nota vit okkar og þekkingu. Fyrsta skrefið og það stærsta og mikilvægasta er því að auka við okkar þekkingu. Sem betur fer virðist kandídat ríkisstjórnarinnar í embætti umhverfisráðherra hafa gert sér einhverja grein fyrir mikilvægi umhverfisfræðslu, hefur e.t.v. kynnt sér tillögu Kvennalistans um það efni sem samþykkt var fyrir ári á Alþingi. Við hljótum að vona að hann verði þá til þess að hrinda henni í framkvæmd. Aðrir hafa víst ekki gert það enn þá.
    Hitt er öllu verra að hvorki fyrrnefndur kandídat né aðrir ráðherrar virðast skilja algera nauðsyn þess að

umhverfisráðuneyti fái það vægi sem gerir því kleift að snúa vörn í sókn. Þetta marka ég m.a. af orðum kandídatsins á fundi Landverndar nýlega. Þar leyfði ég mér að minna á margþætt hlutverk hans í núverandi ríkisstjórn þar sem hann hefur m.a. það verkefni að móta atvinnustefnu næstu ára hér á landi og benti á þau augljósu sannindi að sjónarmið atvinnurekstrar og umhverfisverndar rekast oft á.
    Í framhaldi af því beindi ég til hans þeirri samviskuspurningu með hverjum hann mundi standa þegar slíkir árekstrar yrðu. Svarið var dæmigert loðmullusvar stjórnmálamanns um bil beggja og annað eftir því. Þessi afstaða vekur ugg. Það er mín skoðun að umhverfisráðuneytið þurfi að hafa sama vægi og fjmrn. og eigi að geta sett stólinn fyrir dyrnar ef umhverfinu er ógnað. Annars nær það ekki tilgangi sínum.
    Það er verulegt áhyggjuefni hversu kærulausir og ábyrgðarlausir ráðamenn eru gagnvart umhverfismálum. Þeir fjalla um þau líkt og tískufyrirbrigði og af álíka mikilli alvöru og þekkingu eins og menninguna eða húsmóðurhlutverkið. Þeir verða að fara að skilja að við erum í miðri þriðju heimsstyrjöldinni eða jafnvel síðari hluta hennar, styrjöld mannsins við náttúruna. Það er okkar tap og þó fyrst og fremst afkomenda okkar ef við stöndum ekki með móður jörð.``
    Ég vil gera að sérstöku umræðuefni þetta atriði með þann sess sem umhverfisráðuneytið verður að geta skipað ef það á að hafa burði til þess að taka á þeim málum sem eru nú brýnust og blasa við okkur um landið allt.
    Varðandi þá tillögu sem kynnt var í allshn. Nd. í morgun minni ég á að í grg. með því frv. sem við fjöllum um hér kemur fram að nefndin sem vann bæði frv. klofnaði í tvennt í afstöðu sinni til málefna Landgræðslu og Skógræktar ríkisins, þ.e. þess hvar þessar stofnanir skyldu staðsettar innan stjórnsýslunnar. Fulltrúi Kvennalistans fyllir þann hóp innan nefndarinnar sem er þeirrar skoðunar að Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins eigi að flytja til umhverfisráðuneytis, þó með þeim hætti að landbrn. fari áfram með mál er varða ræktun skjólbelta og nytjaskóga á bújörðum. Ég vil reyndar benda á að þetta virðist nú vera það mál sem veldur mestum ágreiningi og verð enn og aftur að lýsa yfir furðu minni á þeirri niðurstöðu sem kynnt var í morgun í hv. allshn. Nd. Nú veit ég ekki hvort hún er endanleg en alla vega fengu fundarmenn þessa tillögu til skoðunar, væntanlega þá með sínum þingflokkum á þingflokksfundum í dag.
    Eins og ég minntist á virðast málefni, eða staðsetning öllu heldur, Landgræðslu og Skógræktar ríkisins vera þau mál sem hvað umdeildust eru og það hefði getað virst svo sem þar væri algjör eining um að þessar tvær stofnanir ættu og vildu vera áfram innan landbrn. Það kom reyndar í ljós á síðasta fundi okkar í nefndinni um þetta mál að umsögn Skógræktar ríkisins var ekki fyrir hönd allrar stofnunarinnar. Þar er starfandi rannsóknastöð sem er nokkuð sjálfstæð

stofnun innan Skógræktar ríkisins. Það voru e.t.v. einhver mistök að sú stöð fékk ekki sérstaka beiðni um að senda inn umsögn, því að þótt hún sé deild innan Skógræktar ríkisins starfar hún sjálfstætt og hefur sjálfstæðan
fjárhag.
    Fulltrúi rannsóknastöðvarinnar, Jón Gunnar Ottósson, forstöðumaður þeirrar stofnunar, tjáði okkur að þeir sem ynnu í rannsóknastöðinni hefðu um þetta aðrar hugmyndir. Þar eru starfandi 15 starfsmenn, 25 þegar mest er, en þar af eru átta háskólamenntaðir náttúrufræðingar. Hann telur að það sé sjálfgefið að Landgræðslan, rannsóknastöðin og gróðurnýtingardeild Rannsóknastofnunar landbúnaðarins ættu að fara saman og þá inn í umhverfisráðuneyti þannig að þar komi í raun og veru nýr flötur upp á því. Við trúðum e.t.v. að það væri algjör eining innan Skógræktar ríkisins. Hann benti á að e.t.v. hefði orðið minna úr því að þessar deildir, þar sem þær starfa dreifðar, eins og t.d. gróðurnýtingardeild RALA sem er lítil deild, hefðu getað náð að blómstra innan þeirra stóru stofnana þar sem þær eru staðsettar, en gróðurnýtingardeildin hefur starfað frá árinu 1961. Þessi viðmælandi okkar, forstöðumaður Rannsóknastöðvarinnar á Mógilsá, taldi mjög brýna nauðsyn bera til að sameina kraftana en dreifa þeim ekki á þær stofnanir eins og nú er gert. Hann lýsti sig jafnframt algjörlega andvígan því að stofnað verði umhverfisráðuneyti án þess að fyrir liggi hvaða verkefni það muni hafa. Og hann benti á nokkuð sem ég held að sé okkur verðugt umhugsunarefni en það er sá órói og sú upplausn sem slíkt gæti valdið innan þeirra stofnana sem á að fara að flytja til eða jafnvel kljúfa. Það verður að liggja fyrir um leið og umhverfisráðuneytið verður stofnað hverjir eiga að hefja störf undir umsjón þess. Hann benti reyndar líka á að aukið sjálfstæði stofnunarinnar á Mógilsá hafi farið að skila árangri hin seinni ár og í sinni munnlegu umsögn sem hann gaf okkur í gær á fundi nefndarinnar telur hann sig tala fyrir 40% fastra starfsmanna Skógræktar ríkisins þannig að e.t.v. er sitthvað fleira sem þarfnast nánari athugunar, atriði sem okkur hefur sést yfir þar sem við höfum formlega séð ekki verið að fjalla um seinna frv. en við teljum okkur þó eins og fram hefur komið hafa fjallað um alla helstu megindrætti í því.
    Eins og virðulegur forseti veit manna best eftir störf okkar í allshn. Ed. síðustu dagana getum við ekki staðið hér, ekki núna frekar en í störfum nefndarinnar, og fjallað um annan þáttinn án þess að hitt fléttist inn í, svo samtvinnað er þetta tvennt. Um leið vil ég samt undirstrika og benda á að það hefur að sjálfsögðu leitt til þess að við höfum flýtt fyrir störfum nefndarinnar og erum í raun búin að kynna okkur allar þær mismunandi skoðanir og sjónarmið sem uppi eru varðandi tilflutning verkefna frá öðrum ráðuneytum til hins fyrirhugaða umhverfisráðuneytis. Eins og ég gat um fyrr í máli mínu fluttu kvennalistakonur till. til þál. á síðasta þingi þar sem við lögðum fram okkar hugmyndir um það hvernig

við vildum sjá þessum málum borgið. Sú tillaga er á þskj. 159 frá þinginu í fyrra og ætla ég að lesa hana hér, með leyfi forseta. Í tillgr. segir:
    ,,Alþingi ályktar að stofnað verði sérstakt ráðuneyti umhverfismála sem fari með: a) rannsóknir og stjórn náttúruauðlinda, b) náttúruvernd, c) umhverfisfræðslu, d) skipulagsmál, e) mengunarvarnir og f) alþjóðleg samskipti um umhverfismál.
    Undir þetta ráðuneyti verði fluttar stofnanir eða deildir sem nú starfa á þessum sviðum undir stjórn ýmissa ráðuneyta. Stefnt skal að setningu löggjafar um yfirstjórn umhverfismála fyrir lok yfirstandandi þings.``
    Eins og fram hefur komið og kom reyndar fram strax við 1. umr. hefur hver atrennan af annarri verið gerð í þá veru að samræma og skipuleggja stjórn umhverfismála en allt komið fyrir ekki.
    Það mun hafa verið fyrst árið 1975 sem fyrsta frv. var samið og fyrir þá ríkisstjórn sem tók við árið 1987 var samið séstakt frv. sem var ekki flutt þegar upp úr því samstarfi sauð. Það frv. var flutt síðar, þ.e. á síðasta þingi, af þingmönnum Sjálfstfl., örlítið breytt reyndar. Það hafa í raun verið samin a.m.k. fjögur heildstæð frv. um yfirstjórn umhverfismála en aðeins tvö hafa verið lögð fram á Alþingi og annað reyndar oftar en einu sinni.
    Ástæðan fyrir því að hvorki gengur né rekur í þessum efnum er sú að skoðanir eru skiptar og við komumst svo sannarlega að því í starfi okkar í allshn. Ed. Menn eru ekki sammála um hvernig standa beri að framkvæmd málsins og þau skref sem menn eru tilbúnir að taka eru svo feikilega misstór eða jafnvel mislítil. Það er reyndar skoðun okkar kvennalistakvenna --- það var skoðun okkar, og er enn, þegar við fluttum þessa tillögu --- að tregðan sé ekki fyrst og fremst hjá stjórnmálamönnunum, heldur ekki síst í kerfinu sjálfu, eins og við köllum okkar stjórnsýslu gjarnan daglega. Það er kannski ekki síst fyrir það að menn telja sig vita hvað þeir hafa þar sem þeir eru núna, en mér heyrist reyndar á þeim að flestir hafi allt of lítið fjármagn til sinna verkefna. Það hefur staðið þessum málum fyrir þrifum í mörg undanfarin ár að um leið og áhugi manna hefur vaknað fyrir umhverfismálum hafa þeir samt ekki verið reiðubúnir til að leggja meira fé til þeirra. Umhverfismál eru núna í átta ráðuneytum og þó að flestir okkar viðmælenda viðurkenni svo sannarlega óhagræði þess, þá er tregðulögmálið ótrúlega seigt og virkt. Sem dæmi má nefna mengunarmálin. Nú er unnið að mengunarvörnum hjá mengunarvarnadeild Hollustuverndar ríkisins,
Geislavörnum ríkisins og eiturefnanefnd sem heyra undir heilbrrn. og hjá Siglingamálastofnun sem heyrir undir samgrn. Þær heyra reyndar einnig undir utanrrn. sem hefur með að gera mengun frá hernum.
    Þegar sett voru lög um varnir gegn mengun sjávar árið 1986 reyndu kvennalistakonur að sannfæra þingheim um gildi þess að nýta það tækifæri til að samræma stjórnun mengunarvarna og færa undir einn hatt, þ.e. mengunarvarnadeild Hollustuverndar ríkisins. Bent var á það þá að það væri e.t.v. fyrsta og eitt

mikilvægasta skrefið í átt til þeirrar samræmingar í stjórn umhverfismála sem koma skyldi. Á það vildi þingheimur því miður ekki fallast svo að enn eru varnir gegn mengun sjávar hjá Siglingamálastofnun ríkisins. Ég vil benda á það hér um leið að ef herinn skyldi menga vatn á einhverri heiðinni okkar, og það hefur legið við og jafnvel gerst, og mengunin bærist þaðan út í á og áfram út í sjó kynni það að koma til kasta a.m.k. þriggja ráðuneyta, þ.e. utanrrn., heilbrrn. og samgrn. Það er að sjálfsögðu ekkert vit í þessu. Þetta eru menn sem betur fer sem óðast að viðurkenna, en það er nú einu sinni svo með íhaldssemina, hún ríður ekki við einteyming.
    Í nál. því sem ég las upp hér áðan kom fram, og ég undirstrika það, að við höfum mikla fyrirvara, kvennalistakonur, á þessari stundu við frv. sem er til umfjöllunar í Nd. þar sem ekki er ljóst hvaða brtt. verða þar fluttar og ekki líst okkur á þessa tillögu sem kynnt hefur verið í nefndinni. Samt sem áður undirstrika ég það að við höfum alveg frá upphafi verið þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að stofna sérstakt ráðuneyti umhverfismála og sú skoðun hefur reyndar komið margoft fram og var m.a. einn af áherslupunktunum í þeim stjórnarmyndunarviðræðum sem við tókum þátt í sumarið 1987.
    Í þáltill. sem Kvennalistinn lagði fram á síðasta þingi voru lagðar til nokkuð róttækar breytingar en þær gerðu reyndar alls ekki ráð fyrir nýju bákni eins og þeir sem eru á móti stofnun umhverfisráðuneytis kjósa gjarnan að kalla það. Við gerðum okkur auðvitað ljóst að við lögðum til miklar breytingar á stjórnsýslunni sem kölluðu á enn frekari uppstokkun. Það hefur t.d. verið rætt í röðum kvennalistakvenna að stokka upp ráðuneytin og jafnvel hefur þeirri hugmynd verið komið á framfæri innan okkar raða að sameina beri atvinnumálaráðuneytin þrjú í eitt atvinnumálaráðuneyti. Það væri að okkar mati að mörgu leyti eðlileg skipan, en við hefðum talið að þurft hefði að stíga þetta skref, stofnun umhverfisráðuneytis, af fullri dirfsku eftir sem áður og ekki síður fyrir það.
    Það hefur reyndar komið fram á fundum allshn. að fyrir liggja hugmyndir frá stjórnskipaðri nefnd um uppstokkun ráðuneyta og heilmiklar breytingar að því er mér skilst á skipulagi ráðuneyta. Það er auðvitað fremur óþægilegt fyrir okkur í þessari umræðu að hafa aldrei barið þær augum. Það hefði verið betra fyrir okkur að öllu leyti, og reyndar vil ég láta þess getið að ég hefði talið að um svo stórt mál hefði verið viturlegra að hafa fulltrúa allra stjórnmálaflokka með vegna þess að við sjáum hvað stofnun eins ráðuneytis er greinilega mikið ágreiningsmál. Þær hugmyndir sem hafa komið fram um sameiningu og stækkun og fækkun ráðuneyta eiga sennilega eftir að vekja upp margar spurningar. Mér segir svo hugur um að það verði margir sem hafa mismunandi skoðanir á því, en það hefði auðvitað verið mjög þægilegt fyrir okkur að sjá hvað stjórnvöld hefðu í hyggju varðandi það mál. Við fengum reyndar upplýsingar um það frá ýmsum sem komu inn á fundina, t.d. ráðuneytisstjórum, sem

höfðu haft slíkar hugmyndir til umfjöllunar og umsagnar innan sinna raða. Burt séð frá því vil ég ekki draga úr þeirri áherslu sem við höfum lagt á raunverulegt umhverfisráðuneyti og ég get reyndar tekið undir með ráðuneytisstjóra félmrn., Berglindi Ásgeirsdóttur, sem var einn af gestum okkar á síðasta fundi nefndarinnar, en hún sagði að þrátt fyrir þessa fyrirhuguðu uppstokkun, hvort sem af henni verður eða ekki, hafi hún metið það svo að auðvitað þyrfti að samræma umhverfismálin. Hún taldi það vega þyngra en hugmyndir um stækkun og fækkun og ég get tekið undir það með henni. Auðvitað hefði samt eftir sem áður verið mjög gott fyrir okkur, þar sem við erum að fjalla um breytingar á Stjórnarráði Íslands, að hafa þær hugmyndir við höndina.
    Það eru allir sammála um þá samræmingu sem þörf er á, en þó að við viljum ekki byggja upp nýtt og meira bákn verðum við samt sem áður auðvitað að gera okkur grein fyrir að það kostar nokkurt fé að gera það átak sem þörf er á í umhverfismálum. Hingað til hefur allt of lítil áhersla verið lögð á þau verðmæti sem hreint umhverfi er fyrir okkur þegar fjárveitingar eru ákveðnar. Vil ég í því sambandi minna á vaxandi fjölda ferðamanna sem fara um landið. Bæði hefur það færst í vöxt á undanförnum árum, sem betur fer, að Íslendingar ferðast um eigið land en fjöldi erlendra ferðamanna hefur einnig vaxið mjög mikið og á síðasta ári er talið að hingað hafi komið 113 þúsund erlendir ferðamenn. Allflestir sem hingað koma koma í þeim tilgangi að njóta hinnar fögru náttúru landsins sem er gjarnan auglýst sem hrein og ómenguð. En hvernig skyldi ástandið vera þegar umferðin er mest og hvernig lítur landið út þegar háannatíminn í ferðaþjónustunni er um garð genginn?
    Á ráðstefnu Ferðamálaráðs um síðustu helgi, sem haldin var á Egilsstöðum,
var mikið fjallað um umhverfismál. Þeim spurningum var jafnvel varpað fram hvort nú væri svo komið að ástæða væri til að takmarka aðgang fólks að ákveðnum svæðum, hvort ástæða væri til að loka einstaka svæðum algjörlega fyrir umferð ferðamanna, hvort ástæða væri til að hafa sérstaka ítölu eins og gert er með sauðkindina. Ég held að svör við þessum spurningum hljóti að þurfa að koma til kasta fyrirhugaðs umhverfisráðuneytis. En það var óvenjumikið rætt um þörfina á að vernda umhverfið og mér sýnist að menn séu sem óðast að skilja að umhverfisvernd og ferðaþjónusta eru greinar sem gætu stutt hvor aðra eins og umhverfisvernd og önnur landnýting, hvort sem er landbúnaður eða eitthvað annað, allt þetta styður hvað annað. Vissulega þarf víða að bæta og laga umhverfið en slíkt væri auðvitað besta auglýsingin sem atvinnugreinin, ferðaþjónustan, á völ á og það er nú einu sinni svo að öll okkar umræða um atvinnumál nú um stundir beinist einmitt mjög að ferðaþjónustunni. Það er ekki undarlegt þar sem tölur sýna nú að á síðasta ári hafi ferðaþjónustan skilað okkur 6% af heildargjaldeyristekjum okkar, 9--10 milljörðum.

    Varðandi ferðamálin vil ég reyndar einnig minna á tillögu sem flutt var af kvennalistakonum og samþykkt sem ályktun Alþingis um úrbætur í ferðamálum. Það var árið 1986 sem samgrh. var falið að láta gera úttekt á ferðaþjónustu í landinu og tillögur til úrbóta. Eins og fram kom í greinargerðinni og umræðum var tilgangurinn fyrst og fremst sá að auðvelda fólki að ferðast um landið og skoða það og njóta þess án þess að vinna á því spjöll. En það verður því miður að segjast að ekki hefur þess verið gætt sem skyldi að hlífa okkar dýrmætu auðlindum úti í náttúrunni við óhóflegum ágangi og þess vegna eru þær nú margar í hættu. Nægir þar að nefna staði eins og Dimmuborgir, Landmannalaugar, Þórsmörk og jafnvel fleiri. Ekki mun ástandið við Gullfoss og Geysi vera sérlega björgulegt þegar verst lætur. Því miður hefur þessi ályktun aðeins verið framkvæmd að hluta til. Fé hefur skort til þess að bæta þar úr svo sem þörf er á.
    Í þeirri miklu umræðu sem farið hefur fram um stofnun umhverfisráðuneytis og hugmyndir manna um umhverfismál hefur oftlega borið á góma skýrsluna sem ber heitið ,,Sameiginleg framtíð okkar`` en er gjarnan kennd við Gro Harlem Brundtland þar sem hún var formaður þeirrar nefndar sem vann skýrsluna. Svo virðist sem nokkurs misskilnings gæti þegar rætt er um þær hugmyndir sem fram komu í skýrslunni um skipan umhverfismála. Einhvern veginn hefur sú hugmynd komist á kreik að Brundtland-skýrslan mæli ekki með stofnun sérstakra umhverfisráðuneyta, en þeir sem lesið hafa skýrsluna frá orði til orðs vita auðvitað að svo er alls ekki. Hins vegar er lögð á það rík áhersla að þrátt fyrir stofnun umhverfisráðuneyta breytist ábyrgð hinna ýmsu atvinnugreina á athöfnum sínum alls ekki. Hins vegar skiptir öllu máli að umhverfisráðuneyti hafi svo mikið vægi að það geti sett stólinn fyrir dyrnar sé umhverfinu ógnað og þar kem ég aftur að greininni úr DV frá því í nóvember sl. þar sem Kristín Halldórsdóttir fjallaði um stöðu og sess þess umhverfisráðuneytis sem hér yrði stofnað og hugmyndir okkar kvennalistakvenna um það hvers konar stöðu það ætti að hafa innan stjórnkerfisins.
    Brundtland-skýrslan fjallar um umhverfismálin vítt og breitt. Þar er lögð mikil áhersla á nauðsyn þess að tengja umhverfisvernd, nýtingu náttúruauðlinda og þróunarmál í þriðja heiminum og það eru e.t.v. mál sem við ræðum ekki allt of oft um hér, hvernig gengið er á þær auðlindir sem þriðji heimurinn byggir afkomu sína á. Eins og vænta má í svo vandaðri skýrslu sem Brundtland-skýrslan er er mikil áhersla lögð á framsýni í stað þess að láta stundarhagsmuni ráða för. Það hefur verið allt of áberandi að við höfum talið okkur geta gengið á auðlindir jarðar og sú hugmynd virðist hafa verið mjög sterk meðal okkar lengi vel að þær séu óþrjótandi.
    Ein af þeim spurningum sem ég hefði viljað beina til hæstv. forsrh. varðar Brundtland-skýrsluna. --- Ætli hæstv. forsrh. sé hér? ( Forseti: Ég hef óskað eftir að forsrh. verði látinn vita.) Brundtland-skýrslan hefur verið mjög rædd í allri þessari umræðu um umhverfisráðuneyti og þar kemur margt fram sem

getur reynst okkur gott veganesti þegar við höfum fengið hér ráðuneyti sem hefur raunveruleg verkefni. --- Ég var að minnast hér á Brundtland-skýrsluna og hvernig hún hefur verið meðhöndluð af íslenskum stjórnvöldum. Það er auðvitað spurning nú, þegar e.t.v. hillir undir stofnun umhverfisráðuneytis á Íslandi, hvaða hugmyndir ríkisstjórnin hefur um aðgerðir tengdar Brundtland-skýrslunni og hvernig ríkisstjórnin hefur til þessa fjallað um þá skýrslu. Mér er kunnugt um að á Norðurlöndunum hefur skýrsla þessi verið mikið notuð til stefnumótunar til framtíðar. T.d. er nú í Noregi unnið að endurmati umhverfismálastefnu á grundvelli skýrslunnar og þar verður þýðing umhverfisráðuneytisins enn meiri eftir þá endurskoðun sem nú fer fram á starfssviði umhverfisráðuneytisins norska. Mun ráðuneytinu ætlað að hafa með höndum yfirstjórn umhverfismála og ráðgjöf og eftirlit gagnvart öðrum ráðuneytum að því er varðar umhverfissviðið. Þá vil ég einnig benda á bók sem danska ríkisstjórnin hefur gefið út og er framkvæmdaáætlun til næstu ára um það hvað dönsk stjórnvöld hugsa sér að gera til þess að fylgja eftir þessari skýrslu. Í formála með
skýrslunni kemur fram að þrátt fyrir bágan efnahag í Danmörku um þessar mundir sjá menn sér ekki lengur fært að hunsa umhverfismálin og langtímasjónarmiðin og hafa því ráðist í að setja upp slíka áætlun. Af því tilefni vil ég endurtaka spurningu mína: Hvað er á prjónunum í þeim efnum hjá íslensku ríkisstjórninni? Með hvaða hætti mun hún nýta sér það efni, sem er að finna í Brundtland-skýrslunni, til þess að vinna að umhverfismálum og hvernig hefur hún verið notuð hingað til?
    Það er mikið talað um langtímasjónarmið. Við höfum hingað til, jarðarbúar, gengið þvert á öll lögmál náttúrunnar á leið okkar til þess að ná hámarks skammtímagróða. Við höfum hvorki tekið tillit til hagsmuna heildarinnar, jarðar né framtíðar. Þeir sem vilja bjarga umhverfinu hafa þó fyrir löngu gert sér grein fyrir að okkur er aðeins leyfilegt að taka vextina en okkur ber að láta höfuðstólinn óskertan til þess að afkomendur okkar fái notið sömu náttúrugæða og núlifandi kynslóðir. Helst ætti það auðvitað að vera metnaðarmál okkar að skila landinu í betra ásigkomulagi en þegar við tókum við því. Það má hins vegar minna á að talið er að gróið land hafi verið tvisvar til þrisvar sinnum meira við upphaf landnáms en nú er. ( Gripið fram í: Farðu nú gætilega með þessar tölur.) Ég fer gætilega með þær, hv. þm. ( Gripið fram í: Þetta veit enginn maður.) Það veit það auðvitað enginn maður en ýmsar jarðabækur liggja fyrir og ferðabækur með lýsingum á landinu. Ég held að það sé enginn sem ekki viðurkennir það að gróðureyðing og fok er stærsta umhverfisvandamálið sem við stöndum frammi fyrir og þess vegna hlýtur það að vera mjög mikilvægt þegar við tökum það skref að stofna ráðuneyti umhverfismála að við snúum okkur af öllu afli --- veit ég að vel hefur verið gert undanfarin ár og allir hafa reynt að gera eftir bestu getu, en það þarf í raun að

gera alveg sérstakt átak sem væri að mínu mati vel komið í höndum umhverfisráðuneytis þar sem fagleg þekking væri fyrir hendi og reynsla þeirra sem nú vinna í þessum málum.
    Ég vil aðeins minna aftur á umhverfisfræðsluna. Hún er mikilvægur þáttur í umhverfismálum. Hún beinist að því að auka skilning og um leið virðingu fyrir náttúrunni og áhuga á verndun hennar. Sá áhugi er e.t.v. harla lítill hérlendis. Það þarf að stórefla fræðslu, ekki síst með tilliti til þess að nú er mjög stór hluti þjóðarinnar orðinn borgarbúar. Það eru eflaust mjög mörg íslensk börn að alast upp núna sem eiga enga ættingja sem þeir heimsækja utan höfuðborgarinnar. En eins og ég sagði áðan: Sem betur fer hefur fólk aukið ferðalög sín um landið, en það er ekki nóg. Það þarf að efla slíka fræðslu og hvetja til ferðalaga innan lands. Ég vil t.d. nefna eina ábendingu sem fram kom á ferðamálaráðstefnunni um síðustu helgi, það eru ferðalög skólabarna. Það færist nú í vöxt að skólabörn fari í ferðalög til útlanda, bæði eftir að 9. bekk lýkur og svo gjarnan til annarra heimsálfa að loknu stúdentsprófi. Það var ein af þeim tillögum og hugmyndum sem ræddar voru, hvort ekki væri ástæða til að hvetja til þess að skólaferðalög, alla vega barna á skólaskyldualdri, skyldu einungis vera innan lands. Það er auðvitað mjög góður vettvangur þegar börnin fara með kennurum sínum í slík ferðalög að tengja þau við náttúruna og fræða þau um öll helstu fyrirbærin í náttúrunni og hvernig okkur ber að umgangast hana. Það getur einmitt opnað augu þeirra fyrir þeim verðmætum sem felast í því að komast út í óspillta náttúru og mun eflaust auka ánægju þeirra af útivist síðar meir og bæta umgengni þeirra við landið. Eins og ég gat um áðan komu á ferðamálaráðstefnunni á Egilsstöðum fram nokkrar áhyggjur af því hvernig væri gengið um landið og hversu mikill sá fjöldi er sem gengur nú eftirlitslaust um landið. Það þarf auðvitað líka að taka á því skipulagsleysi og óstjórn sem hefur verið í ferðamálum að undanförnu þannig að sumir af fegurstu stöðum landsins eru í hættu vegna ógætilegrar umferðar og átroðnings.
    Áður en ég lýk máli mínu, virðulegur forseti, get ég ekki látið hjá líða að minnast á starf okkar í nefndinni. Við fengum, eins og fram kom í nál. meiri hl., fjölmarga aðila til viðræðna við okkur. Kannski hefðu þeir þurft að vera fleiri eins og ég minntist á áðan. Kannski hefur okkur yfirsést í einhverjum atriðum, en það kemur þá í ljós þegar við fáum seinna málið til umfjöllunar. Ég hlýt hins vegar að harma það að málið skyldi vera afgreitt út úr nefndinni með þeim hætti sem gert var. Ég hef ekki setið lengi hér á hinu háa Alþingi en ég hef aldrei orðið vör við slík vinnubrögð. Að slíkt væri gert á þann hátt sem staðið var að málum í gær.
    Við í minni hl. nefndarinnar lýstum okkur reiðubúin til að afgreiða seinna málið hratt þegar þar að kæmi því við vorum í öllum aðalatriðum búin að fjalla um efni þess. Við höfum beðið í a.m.k. 12 ár ef ekki lengur eftir því að frv. um samræmda stjórn

uhverfismála yrði afgreitt hér á þinginu. Örugglega hefði þurft að huga að þeim málum fyrr eins og flestar aðrar þjóðir hafa gert. Við erum búin að bíða í 12 ár, við þyrftum kannski að bíða í tvær vikur enn til þess að geta afgreitt þessi mál saman út úr þessari hv. deild og staðið að því með þeim hætti sem við sjálf gætum verið ánægð með. Þetta er virðingarleysi við störf okkar hér og þetta er ekki síst virðingarleysi við alþjóð sem horfir upp á slík vinnubrögð, að hér er verið að stofna nýtt ráðuneyti. Enginn veit
hvað það á að gera, það hefur komið fram að það mun skapa réttaróvissu ef ekki eru nein lög um hvaða verkefni eiga að vera í þess umsjá. Það er hægt að búa til einhverjar reglugerðir um eitthvert fræðsluhlutverk og alþjóðleg samskipti. Ég get ekki betur séð en að þau samskipti séu tryggð hér með bréfi hæstv. forsrh. frá því í september í haust og vil reyndar endurtaka og ítreka spurningu mína til hans frá því áðan. Ég hlýt auðvitað líka að spyrja að lokum, eftir þessa tólf ára bið a.m.k. eftir stofnun umhverfisráðuneytis: Hvers vegna má ekki bíða í tvær vikur enn? Við höfum lýst því yfir í nefndinni að við gætum afgreitt þetta mjög hratt þegar við fáum það formlega í hendurnar. Strandar á einhverju í neðri deild nú? Og ég endurtek enn og aftur: Hvaða máli skipta tvær vikur á tólf árum?