Fjárveitingar til Rannsóknasjóðs
Fimmtudaginn 29. mars 1990


     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég fagna því að þessi fsp. skuli hafa komið hér fram. Einnig tel ég ástæðu til þess að þakka ráðherra fyrir þær upplýsingar sem komu fram í svari hans. Við hv. þm. höfum fengið send gögn frá Rannsóknaráði sem gefa allgóða mynd af því hvað gerst hefur í þessum málum. Ég vil þó segja frá því að vegna samstarfs við erlenda aðila má ekki horfa á þær tölur sem ganga til Rannsóknasjóðsins alveg einar og sér. Á sínum tíma þegar Evreka-samstarfið fór á stað og við fórum að taka þátt í sameiginlegum verkefnum þá gerðist það með fjármunum sem gengu m.a. í gegnum Iðnlánasjóð, þannig að allar upplýsingar fást ekki með því að einblína einungis á þær tölur sem fara í gegnum Rannsóknaráð ríkisins.
    Þetta er nú aukaatriði málsins. Það sem öllu máli skiptir er það að þessi Rannsóknasjóður hefur gert það að verkum að rannsóknastofur, bæði opinberar og einkastofur, geta nú í samstarfi við fyrirtæki fengið fjármuni frá ríkinu með tilteknum hætti. Sá háttur innifelur það m.a. að fyrirtæki verða að taka á sig verulega fjárhagsbyrði. Allt þetta hefur þó orðið til þess, virðulegur forseti, að rannsóknir sem eiga sér stað í tengslum við atvinnulífið eru miklu markaðslægari og beinskeyttari og þess vegna skiptir mjög miklu máli að þetta samstarf sé aukið en ekki dregið úr því. Ég tek undir það með hv. fyrirspyrjanda.
    Að öðru leyti, virðulegur forseti, ætlaði ég einungis að þakka fyrir það að þetta mál skuli koma inn í þennan fyrirspurnatíma og læt máli mínu lokið.