Byggingarsjóður ríkisins
Fimmtudaginn 29. mars 1990


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Hér komu fram í máli bæði hæstv. félmrh. og hv. 5. þm. Reykv. alvarlegar ásakanir sem menn urðu vitni að. Þær eru auðvitað útútsnúningur. Ég var að tala um kerfið sem slíkt og það eru nú þrjú kerfi í gangi sem bjóða upp á það að mönnum er mismunað eftir því í hvaða kerfi þeir eru. Það eru staðreyndir málsins sem verður ekki gengið fram hjá. Ég var ekki að tala um það að hæstv. félmrh. gerði þetta persónulega. Mér hefur aldrei dottið það í hug. En auðvitað gerir hann það óbeint með sínum reglum.
    Og svo vil ég segja það að helmingurinn af húsbankakerfinu var tekinn upp af hæstv. félmrh. til að bæta núverandi kerfi. Hefði hann tekið upp allt kerfið hefði það orðið miklu betra.