Lánasýsla ríkisins
Föstudaginn 06. apríl 1990


     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég verð að taka undir með hv. 8. þm. Reykv. Ég hef ekki kynnt mér frv., ekki unnist tími til þess og get þess vegna ekki tekið afstöðu til efnisatriða þess. En athygli mína vakti grein í blaði sem gengur undir nafninu Pressan sem kom út í gær. Þar er fyrirsögnin: ,,Nýr kóngur í kerfinu. Ríkisrekið fésýsluapparat stofnað þegjandi og hljóðalaust.`` Og þar segir frekar í rammagrein, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þjónustumiðstöð ríkisverðbréfa hefur verið sett á laggirnar utan við lög og reglur. Ríkisendurskoðun hefur gert athugasemd við að kostnaður vegna miðstöðvarinnar hafi verið ,,falinn`` sem vaxtakostnaður ríkisins. Forstjóri þjónustumiðstöðvarinnar var ráðinn samkvæmt kjörum aðstoðarbankastjóra og með ríkisbifreið til afnota.``
    Ég ætla ekki að lesa greinina í heild en mig langar til þess að spyrja hæstv. fjmrh. hvort þarna sé átt við starfsmann sem tekinn er til starfa utan við lög og reglur og heyri undir það frv. sem hér er verið að mæla fyrir í dag því að ef svo væri eru slík vinnubrögð náttúrlega forkastanleg.
    Það kemur jafnframt fram í greininni að Ríkisendurskoðun hafi gert athugasemdir við ráðningu þessa manns á sínum tíma. Ég held að tilgreindar séu 10 millj. sem hafa verið faldar með því að þær hafa verið færðar undir fjárlagaliðinn Vaxtagjöld ríkisins en hafi verið ætlaðar til að setja þessa stofnun á laggirnar. Mér finnst eðlilegt og rétt þegar svona frétt birtist, ég vil taka það fram að ég trúi ekki öllum fréttum sem koma í þessu blaði því að það er oft svo að verið er að leita að fréttum sem hægt er að selja, án þess kannski að alltaf sé leitað heimildanna fyrir fréttinni áður en hún er birt, en mér finnst full ástæða til þess hér og nú að biðja hæstv. fjmrh. að skýra frá því hvort fréttin sé á rökum reist.