Umferðarlög
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Flm. (Salome Þorkelsdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á umferðarlögum, nr. 50/1987, með síðari breytingum. Frv. er á þskj. 918 og er 521. mál þingsins.
    Flutningsmenn auk mín eru hv. þm. Eiður Guðnason, Guðrún Agnarsdóttir, Skúli Alexandersson, Valgerður Sverrisdóttir, Guðmundur Ágústsson, Eyjólfur Konráð Jónsson, Karl Steinar Guðnason, Danfríður Skarphéðinsdóttir, Margrét Frímannsdóttir, Jóhann Einvarðsson, Egill Jónsson og Halldór Blöndal.
    Það eru því þrettán þingmenn þessarar hv. deildar sem flytja frv.
    Fyrsta grein frv. fjallar um breytingar sem lagt er til að gerðar verði á 71. gr. laganna. Önnur breytingin er um það að hver sá sem situr í sæti bifreiðar sem búin er öryggisbelti skuli nota það. Hin breytingin varðar börn yngri en sex ára, að þau skuli nota bílbelti, barnabílstól, bílpúða, sem festur er með bílbelti, eða annan viðurkenndan öryggisbúnað og einnig er gert ráð fyrir að bannað sé að hafa börn laus í framsæti eða fyrir framan framsæti í akstri.
    Á síðasta þingi voru flutt tvö frv. um breytingar á umferðarlögunum. Annað frv. var flutt af 1. flm. þessa frv. ásamt fleiri þingmönnum og þar var að hluta til að ræða um sömu breytingar og þetta frv. fjallar um. Hitt frv. var flutt af 2. flm. þessa frv., þ.e. hv. 3. þm. Vesturl., og varðaði sömu atriði auk nokkurra annarra atriða varðandi breytingu á umferðarlögum.
    Nú þykir flutningsmönnum þessa frv. rétt að láta reyna á það hvort ekki er mögulegt að fá þær breytingar á umferðarlögunum, sem lagðar eru til með þessu frv., lögfestar fyrir þinglok. Þetta er eitt af mikilvægum öryggisatriðum sem varða það að fækka umferðarslysum, þ.e. koma í veg fyrir alvarleg slys á fólki þegar um er að ræða afleiðingar þess að menn noti ekki bílbelti.
    Þegar nýju umferðarlögin tóku gildi fólust í þeim margháttaðar breytingar eins og varðandi lögbundna ljósanotkun allan sólarhringinn og skyldunotkun bílbelta í framsætum og ég held að allir sem fjalla eitthvað um þessi mál séu sammála um að þessi atriði hafi ótvírætt sannað gildi sitt svo að ekki verður um villst. Þannig er t.d. með notkun bílbelta og þess vegna þykir flutningsmönnum ástæða til að stíga nú skrefið til fulls og lögleiða einnig notkun bílbelta fyrir þá sem sitja í aftursætum bifreiða, enda hefur sú ráðstöfun, þar sem hún hefur verið lögleidd, einnig ótvírætt sannað gildi sitt, ekki síst þar sem börn eiga í hlut.
    Það er rétt að benda á að gerð hefur verið skoðanakönnun sem birtist í tímaritinu Heilbrigðismálum í september 1988. Könnunin var gerð á vegum Hagvangs. Í þessari skoðanakönnun kom fram að í 1087 manna úrtaki voru 88% hlynnt skyldunotkun bílbelta í aftursæti en aðeins 12% andvígir.
    Sú tafla sem birt var í Heilbrigðismálum er birt hér

sem fylgiskjal með frv. Athyglisvert er að ungt fólk er ekkert síður hlynnt notkun bílbelta í aftursætum en þeir sem eldri eru.
    Ég held, hæstv. forseti, að ekki sé ástæða til að vera að tala langt mál um frv. Við höfum svo oft rætt þetta hér í þessari hv. deild, fjallað um þessi mál, og það að 13 þingmenn í deildinni flytja frv. held ég að sé besta staðfestingin á því að það eigi öruggt fylgi í deildinni og ég vænti þess að hægt verði að koma þessu máli í gegnum a.m.k. þessa hv. deild. Ég ætla þess vegna ekki að hafa fleiri orð um frv. en leyfi mér að vísa til fylgiskjala sem fylgja frv. Þar er gerð grein fyrir afleiðingum þeirra áverka sem menn hljóta þegar þeir lenda í umferðarslysum ef bílbelti hafa ekki verið notuð, og svo oft er búið að fjalla um þetta í fjölmiðlum þar sem birtar hafa verið upplýsingar og jafnvel sýndar myndir af afleiðingum slysa þar sem einmitt farþegar í aftursætum hafa ekki notað bílbelti.
    En ég legg til, hæstv. forseti, að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. allshn. Þó að ég telji í raun og veru að ekki sé nauðsynlegt að fjalla um þetta í nefnd ber að gera það samkvæmt þingsköpum.