Samkomulag um afgreiðslu kvótafrumvarpsins
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Skúli Alexandersson:
    Virðulegi forseti. Ég taldi rétt að koma hér upp til að staðfesta það sem ég sagði hér áðan í sambandi við vinnubrögð á því máli eða frv. sem hér er verið að tala um að skuli afgreiða næsta laugardag og hvernig staðið hefur verið að svipuðum málum á undanförnum árum.
    Frv. um Úreldingarsjóð var lagt fram í hv. Alþingi 29. nóv. Svo er staðið þannig að málum að það á að ræða það frv. hér á einum eða tveim dögum í nefndum og síðan á einum degi í hv. deild. Ég tel þetta forkastanleg vinnubrögð. Af hverju var þetta mál ekki rætt allan þennan tíma, en er nú tekið til afgreiðslu á síðustu dögum þingsins til þess að pína það í gegnum þingið. Á sama máta hefur verið staðið að frv. um stjórn fiskveiða þó það hafi ekki legið jafnlangan tíma hér inni á hv. Alþingi. Hinn 15. febr. var það frv. lagt fram til umfjöllunar í Ed. Raunverulega byrjaði ekki alvöruumræða um breytingar á því frv. fyrr en sl. laugardag. Þá var fyrst í alvöru farið að fjalla um hvað þyrfti að gera til þess að líkur væru fyrir því að hægt væri að ná samkomulagi um þetta mál.
    Umfjöllunin í sjávarútvegsnefndum var á þann hátt að til viðræðu voru kallaðir samstarfsaðilar sem voru í undirbúningsnefndinni, samráðsnefndinni, og þá var raunverulega verið að fjalla um hlutina á nýjan leik þar. Það var ekki farið að ganga að því að afgreiða málið. Þetta hafa verið vinnubrögðin hér ár eftir ár.