Frumvarp um yfirstjórn umhverfismála
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Forseti (Árni Gunnarsson):
    Einn af kostum forseta, ef hann má orða það svo, er að hann tekur rökum. Hann mun nú gera tilraun til þess að kanna jarðveg samkomulags og óskar eftir fundi með hv. þingflokkaformönnum og hæstv. forsrh. í herbergi forseta Sþ. Gert verður tíu mínútna hlé á þessum fundi, enda er forseta fullljóst að frv. um umhverfismál mun ekki komast á dagskrá meðan hv. stjórnarandstæðingar halda uppi umræðum um þingsköp. --- [Fundarhlé.]
    Forseti vill gera grein fyrir niðurstöðu þess fundar sem nú hefur verið haldinn. Þær tíu mínútur sem fundi var frestað hafa orðið nokkuð langar, en tekist hefur samkomulag um að reyna enn á ný að ná samkomulagi um það mál sem deilur hafa staðið um í kvöld. Samkomulagið felst í grófum dráttum í því að fundi verður slitið núna. Hann hefst á nýjan leik kl. 10 í fyrramálið og þá verða umhverfismálin tekin til umræðu. En áður en sá fundur hefst verða gerðar tilraunir til að ná samkomulagi um framgang þess máls. Forseti hefur ekki meira um þetta að segja á þessu stigi.