Sjómannalög
Föstudaginn 04. maí 1990


     Friðrik Sophusson:
    Hæstv. forseti. Ég vona að okkur verði fyrirgefið að ræða hér um mál af þessu tagi. Ég vil þakka hv. síðasta ræðumanni fyrir upplýsingar sem hann gaf í sinni ræðu sem voru athygli verðar. Ég ætla ekkert að rengja þær nema síður sé. Ég tel þetta mál vera þannig vaxið að það sé hafið yfir venjulegt pólitískt þras. Þetta er þessi gamla spurning um það annars vegar þegar stangast á íslensk lög og þær samþykktir sem Íslendingar hafa gerst aðilar að og hins vegar að hve miklu leyti íslensk lög standist lágmarksmannréttindi, lágmarks æðri réttindi, sem við teljum að löggjafinn verði að beygja sig undir, nema um stjórnarskrárbreytingar sé að ræða.
    Ég trúi því öllu sem hv. þm. sagði. Hann hélt því fram að 15 sinnum hefðu verið gerðar athugasemdir við ákvæði í 81. gr. sjómannalaganna og þá loks hefði hæstv. ríkisstjórn rankað við sér. Sjálfsagt er þetta á tímabili margra ríkisstjórna. Mér fannst svona liggja í orðunum þegar hann sagði þetta að líklega væri mál til komið að líta á hitt þegar búið væri að gera 15 athugasemdir eða svo, þá væri kominn tími til þess að við litum á þetta mál og könnuðum hvort ástæða væri til að fylgja því eftir.
    Ég efast ekkert um það heldur, því ég veit að hv. þm. þekkir þetta mál mjög vel, að athugasemdin sem kom hafi ekki verið löggild athugasemd á þjóðréttarlegan mælikvarða. En þá er spurningin, þarf það virkilega að gerast hér í okkar réttarríki, sem við oft köllum svo vegna þess að við teljum okkur hafa mannréttindi í heiðri, að það þurfi að gera ströngustu kröfur til slíkra aðgerða og aðfinnsla áður en við teljum ástæðu til þess að breyta okkar lögum? Ég vil a.m.k. láta það koma fram hér við þessa umræðu, og viðurkenni fúslega að það hefði mátt gerast við aðra umræðu en þessa, þ.e. í umræðunni um það mál sem ég hef blandað inn í þessa umræðu, að ég tel að hér eigi að virða félagafrelsi. Ég tel að aðilar á vinnumarkaði geti ekki með samningum sínum útilokað félagafrelsi hér á landi. Það sé ekki boðlegt að stjórnvöld --- og ég minni á að Atvinnuleysistryggingsjóður er opinber sjóður, þetta er ekki einkasjóður atvinnurekenda eða launþega, þetta er sjóður sem lýtur stjórn opinberra aðila og er opinber sjóður í þeim skilningi --- hann getur ekki, eftir að slíkar athugasemdir hafa borist og eftir að mál hefur verið kannað, jafnvel þótt það sé ekki gert með þessum þjóðréttarlega hætti, þá er ekki hægt að bjóða upp á það að lögum sé ekki breytt til samræmis við það sem við köllum stundum lágmarksmannréttindi.
    Stundum hefur verið sagt að þetta sé nú þannig hér á landi að í raun og veru séu þetta samningar á milli aðila. Ég leyfi mér að efast um það að slíkir kjarasamningar standist. Og lög sem byggjast á slíkum samningum geta ekki staðist ef þau brjóta í bága við þau grundvallarmannréttindi sem félagafrelsi er, þ.e. það frelsi að mega taka þátt í öllum löglegum félögum en þurfa þess ekki.
    Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að þakka samt þessa

umræðu sem hér hefur orðið og vona að hún skýri nokkuð þessi mál sem við höfum verið að fjalla hér um. Með þessum orðum mínum er ég ekki að ráðast að einum eða öðrum pólitískum aðilum heldur að benda á það að við þurfum á hverjum tíma að kanna það mjög vel hvort við stöndum við mannréttindayfirlýsingar. Við þurfum t.d. að huga að því hvort við þurfum að gera frekari breytingar. Og ég minni á að nú fyrir stuttu urðum við að gera verulegar breytingar á okkar dóms- og réttarkerfi vegna máls sem er fyrir Evrópudómstólnum. Ég bendi því á að það kann að vera heppilegra að við lítum á þessi mál og tökum sjálfstæða afstöðu til þeirra áður en við erum reknir til þess af þeim samtökum sem við af fúsum og frjálsum vilja höfum gerst aðilar að.