Ferill 6. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 6 . mál.


Sþ.

6. Tillaga til þingsályktunar


um tvöföldun Reykjanesbrautar.

Flm.: Hreggviður Jónsson, Ingi Björn Albertsson.


    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að láta hefja nú þegar undirbúning að tvöföldun Reykjanesbrautar frá Hafnarfirði að Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Skal gert ráð fyrir því að lögð verði önnur akbraut við hliðina á hinni gömlu þannig að fullkomin hraðbraut með algerlega aðskildum akstursstefnum og tveimur akreinum í hvora átt tengi saman þessa tvo staði. Stefnt verði að því að ljúka verkinu fyrir árslok 1992. Þetta verkefni verði tekið út úr vegáætlun og meðhöndlað sem sjálfstætt verkefni óháð langtímaáætlun um vegagerð. Leitað verði leiða til þess að afla fjár til verksins utan vegáætlunar.

Greinargerð.

    Tillaga þessi var fyrst flutt af Kolbrúnu Jónsdóttur og Júlíusi Sólnes á þinginu 1987–88 og síðan endurflutt af Júlíusi Sólnes og Hreggviði Jónssyni á síðasta þingi. Tillagan er nú flutt í þriðja sinn því það er mat flutningsmanna að hér sé um mjög brýnt mál að ræða.
    Reykjanesbrautin frá Hafnarfirði til Keflavíkur er fyrsti vegarkafli þjóðvegakerfisins á Íslandi með bundnu slitlagi. Lagning vegarins á árunum 1963 og 1965 markaði tímamót í sögu vegagerðar á Íslandi. Ekki mátti draga það öllu lengur að leggja fullkominn veg milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkur. Þegar fyrir 20 árum var umferðin á milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins orðin svo mikil að malarvegurinn gamli var orðinn ófullnægjandi.
    Með tilkomu nýja vegarins varð mikil breyting til batnaðar. Flutningsgeta jókst gífurlega og öll umferð bíla milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins varð miklu greiðfærari. Þetta olli straumhvörfum í öllum samskiptum milli íbúa þessara svæða og átti sinn þátt í því að efla atvinnulíf á Suðurnesjum. Um svipað leyti og nýi vegurinn var tekinn í notkun var öllu millilandaflugi beint til Keflavíkurflugvallar. Hafa allir flugfarþegar, sem koma og fara frá Íslandi, átt leið um Reykjanesbrautina allar götur síðan. Reykjanesbrautin er því þjóðvegur allra landsmanna.
    Umferð um Reykjanesbrautina hefur aukist jafnt og þétt, bæði fólksflutningar og vöruflutningar. Í vaxandi mæli eiga vöruflutningar til landsins með flugi þátt í því. Samstarf atvinnufyrirtækja á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu hefur einnig vaxið og það hefur í för með sér aukna umferð. Bættar samgöngur eru höfuðforsenda þess að tengja atvinnulíf þessara tveggja landsvæða saman, þannig að Suðurnesin og höfuðborgarsvæðið geti orðið að einu og sama atvinnusvæði. Þetta skiptir höfuðmáli í sambandi við byggðaþróun á Suðurnesjum og möguleika til þess að nýta til fullnustu þá kosti sem hin nýja Flugstöð Leifs Eiríkssonar hefur upp á að bjóða. Hefur verið talað um tollfrjáls atvinnusvæði í námunda við flugstöðina og eins um byggingu miðstöðvar fyrir erlend viðskipti. Atvinnulíf hefur átt erfitt uppdráttar seinni árin á Suðurnesjum. Mikill samdráttur hefur verið í útgerð og iðnaður og verslun ekki styrkst að sama skapi. Tvöföldun Reykjanesbrautar mundi gjörbreyta allri aðstöðu fyrir Suðurnesjamenn og er næg réttlæting fyrir því að hraða þessari framkvæmd.
    Reykjanesbrautin í núverandi mynd fullnægir hvergi nærri þeim kröfum sem verður að gera til höfuðsamgönguæðar milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins. Akstursskilyrði á Reykjanesbrautinni eru oft mjög slæm. Í rigningu og þoku eru umferðaróhöpp tíð. Á veturna myndast oft mikil hálka á örfáum mínútum. Umferðarslys orsakast þá af framúrakstri og útafakstri vegna þess að á veginum er umferð í báðar áttir. Með vaxandi umferð hefur umferðarslysum farið mjög fjölgandi. Á þessum 50 km af 8.300 km þjóðvegakerfi landsins verða 12,3% allra umferðarslysa. Árið 1987 urðu þar alls 172 slys. Kolbrún Jónsdóttir, er var fyrsti flutningsmaður þessarar tillögu á þinginu 1987-88, ræðir þennan þátt í grein í DV 18. september sl. og segir þá m.a.:
    „Reykjanesbrautin, eins og hún er í dag, er dauðagildra.
    Þar hafa orðið þrjátíu og fjögur dauðaslys á tuttugu og þremur árum. Höfum við efni á að missa þar nú á komandi vetri mörg mannslíf inn í eilífðina vegna þess fjölda slysa sem á brautinni kunna að verða.“
    Síðar í sömu grein segir Kolbrún:
    „Ekki er nóg að setja nýtt slitlag á brautina og ekki er hægt að fræsa hana meira því komið er niður á möl á mörgum stöðum.
    Leggja þarf aðra braut við hlið hinnar gömlu með eyju á milli því flest slysin verða við framúrakstur og að bílar aki hver framan á annan.“
    Stuttu síðar segir Kolbrún enn fremur:
    „Enginn annar vegur hefur sambærilega slysasögu, hvort sem mælt er í fjölda
slysa, mannslífum eða eignatjóni. Bílum hefur fjölgað frá ári til árs og umferðin þyngist á „svarta veginum“ svo að segja dag frá degi.
    Nú er vetur í nánd og hálka myndast á brautinni á örfáum mínútum. Eitthvað verður að gerast strax því það getur hver og einn sagt sér að vegur sem á að bera 10.000 bíla á sólarhring á sér mikla slysasögu.“
    Á fylgiskjali er birt mynd er sýnir slys á Reykjanesbraut á árunum 1970–1987.
    Í meðfylgjandi töflu eru tölur sem sýna umferðarþunga og fjölda umferðarslysa á Reykjanesbraut á ári hverju frá því að brautin var fullgerð eins og hún er nú. ÁDU táknar meðalfjölda bíla á sólarhring yfir árið, SDU táknar meðalfjölda bíla á sólarhring sumarmánuðina fjóra og MDU er mesta sólarhringsumferð ársins. Rétt er að taka fram að vegna breytinga á skráningu umferðarslysa þá eru ekki fyrir hendi sambærilegar tölur fyrir árið 1988 og árin á undan.

Umferð og slys á Reykjanesbraut.


    Ár          MDU     ÁDU     SDU     Slys á ári
    1965               1340
    1966               1530
    1967               1500
    1968               1540
    1969               1630
    ———     ——————————————————————————————
    1975               2820     3220
    1976               3310
    1977               3250     3540
    1978               3240     3710
    1979               3240     3460
    1980               3120     3530
    1981               3130     3550
    1982          4000     3070     3590     90
    1983          3900     3010     3670     110
    1984          4100     3180     3930     107
    1985          5300     3610     4170     100
    1986          5547     3663     4308     124
    1987          7802     4663     5428     172
    1988          8632     4974     5728


    Eftir nokkra stöðnun á árunum 1978–1982 fer því umferð á Reykjanesbraut greinilega ört vaxandi. Að byggja fullkomna hraðbraut með aðskildum akstursstefnum er nú jafnnauðsynlegt og það var fyrir 20 árum að leggja veg með bundnu slitlagi milli Keflavíkur og Reykjavíkur.
    Sérfræðingar Vegagerðarinnar telja að þegar mesta umferð á sólarhring sé komin í 8.000–10.000 bifreiðar þurfi að skilja akstursstefnur að. Í september 1988 mældist mesta umferð á sólarhring 8.632 bifreiðar. Ekki er ólíklegt að talan verði komin upp í 10.000 bifreiðar á þessu eða næsta ári, enda þekkja þeir sem þurfa að fara um Reykjanesbraut endalausar lestir bifreiða alla leið frá Keflavík til Hafnarfjarðar eða öfugt. Sem fyrst þarf því að fullgera aðra vegbraut og gera nauðsynleg umferðarmannvirki þannig úr garði að nýja flugstöðin við Keflavík og höfuðborgarsvæðið tengist með hraðbraut samkvæmt bestu erlendum fyrirmyndum, hraðbraut sem þolir mikla umferð og mikinn aksturshraða við hagstæð skilyrði. Það skref, sem yrði stigið með því að tvöfalda Reykjanesbrautina, er ekki lokaskref. Gera verður ráð fyrir því að stórauknar samgöngur og vöruflutningar um Flugstöð Leifs Eiríkssonar muni eflaust áður en langt um líður kalla á enn fullkomnari samgöngur. Hugsanlega eigum við eftir að sjá hraðlest á einteinungi fara á milli flugstöðvarinnar og höfuðborgarsvæðisins á 10–20 mínútum.
    Samkvæmt upplýsingum Vegagerðar ríkisins er talið að lagning nýrrar akbrautar við hliðina á hinni gömlu með nauðsynlegum lagfæringum og ráðstöfunum vegna flokkunar vegarins sem hraðbrautar kosti um 1 milljarð króna. Sjálf tvöföldun brautarinnar mun kosta um 450–520 milljónir króna, lýsing með allri brautinni um 260 milljónir króna og gerð umferðarmannvirkja á gatnamótum, svo og lagfæring afreina, um 420–560 milljónir króna. Með því að bjóða verkið út til stórra verktaka, jafnt erlendra sem innlendra, má eflaust lækka þennan kostnað verulega.



Fylgiskjal.


(Tölvutækur texti ekki til.)