Ferill 105. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 105 . mál.


Nd.

108. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989.)



1. gr.

    Nýr töluliður, er verði 7. tölul. 29. gr., orðist svo:
    29.7. Í þeim tilvikum, þar sem Hollustuvernd ríkisins fer með beint eftirlit samkvæmt lögunum, sbr. 2. tölul. 17. gr., til eða samkvæmt ákvörðun ráðherra, sbr. 4. tölul. 13. gr., getur stofnunin beitt sama valdi og sömu þvingunarúrræðum og heilbrigðisnefndir skv. 27. gr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Lög nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, eru byggð á því grundvallarsjónarmiði að það sem kallað hefur verið frumheilbrigðiseftirlit eða beint eftirlit sé í höndum heilbrigðisnefnda sveitarfélaganna og heilbrigðisfulltrúa sem eru starfsmenn þeirra. Eftirlitið er því rekið á kostnað og ábyrgð sveitarfélaganna nema í þeim tilvikum þar sem lögin kveða beint á um eftirlit á vegum Hollustuverndar ríkisins, eins og gert er í 2. tölul. 17. gr., þar sem fjallað er um innflutning á matvælum og öðrum neysluvörum, eða þar sem samkomulag er um beint eftirlit Hollustuverndar ríkisins, sbr. nánar 4. tölul. 13. gr., en Hollustuvernd ríkisins hefur samkvæmt þeirri grein verið falið beint eftirlit með ýmiss konar mengandi starfsemi, sbr. nánar reglugerð nr. 390/1985, um starfsleyfi fyrir starfsemi sem getur haft í för með sér mengun.
    Í þeim tilvikum, þar sem heilbrigðisnefndir fara með eftirlitið, geta þær beitt ýmsum ráðstöfunum til þess að knýja á um framkvæmdir eða til þess að látið verði af starfsemi, sbr. nánar 27. gr. áðurnefndra laga. Í þeim tilvikum, þar sem Hollustuvernd ríkisins fer með eftirlitið, er engum slíkum lagafyrirmælum til að dreifa þannig að heilbrigðisnefndir hafa þurft að grípa til ráðstafana vegna eftirlits sem Hollustuvernd ríkisins er falið. Þetta er á allan hátt óeðlilegt, ekki síst þar sem hlutaðeigandi sveitarfélög hljóta að bera ábyrgð á aðgerðunum án þess að starfsmenn þeirra, þ.e. heilbrigðisnefndir og heilbrigðisfulltrúi í þessu tilviki, hafi lagt dóm á málið. Þannig fer ekki saman raunveruleg ákvörðunartaka og framkvæmd ráðstöfunar.
    Til þess að kippa ofangreindu á klakk telur ráðuneytið eðlilegt að Hollustuvernd ríkisins búi yfir sömu ráðum til þess að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar og heilbrigðisnefndir fari stofnunin með beint eftirlit. Eins og áður hefur komið fram heyrir slíkt eftirlit til undantekninga, er annaðhvort samkvæmt laganna hljóðan eða samkvæmt sérstöku samkomulagi og er slíkt samkomulag gert í fullu samráði við heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna, sbr. nánar 4. tölul. 13. gr. áðurnefndra laga. Ætti því ekki að vera nein hætta á að Hollustuvernd ríkisins verði falin verkefni umfram það sem samkomulag er um við sveitarfélögin.