Ferill 142. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 142 . mál.


Sþ.

146. Tillaga til þingsályktunar



um endurskoðun á útreikningi þjóðhagsstærða.

Flm.: Kristín Einarsdóttir, Anna Ólafsdóttir Björnsson,


Danfríður Skarphéðinsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir, Málmfríður Sigurðardóttir,


Sigríður Lillý Baldursdóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta endurskoða grundvöll fyrir útreikningi þjóðhagsstærða með hliðsjón af áhrifum framleiðslustarfsemi og annarra mannlegra athafna á umhverfi og náttúrulegar auðlindir.

Greinargerð.


    Hagfræðimælingar, sem víðast hvar er beitt til að leggja mat á efnahagsþróun, eru úreltar og ófullnægjandi þar eð þær taka aðallega mið af skammtímahagsmunum, en sniðganga nýja sýn til umhverfismála. Í þeim aðferðum, sem mest er byggt á við ákvarðanir í efnahagsmálum hér á landi sem annars staðar, er ekki tekið tillit til þeirra hættumerkja sem hrannast upp vegna spillingar á umhverfi og eyðingar náttúrulegra auðlinda. Þannig er í útreikningum á helstu þjóðhagsstærðum ekki höfð hliðsjón af áhrifum framleiðslustarfsemi á náttúrulegar auðlindir, né heldur náttúrulegum breytingum eða áhrifum af hamförum. Verðmæti auðlindanna er ekki fært til eignar og ekkert kemur fram um það í hagfræðitölum á hverjum tíma hvort gengið sé á þær innstæður. Þjóð, sem ofveiðir fiskstofna, ofnýtir gróðurlendi og mengar umhverfi sitt, verður ekki fátækari samkvæmt hefðbundnum efnahagsútreikningum. Hún getur þvert á móti skarað fram úr tímabundið á mælikvarða Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) og Alþjóðabankans, allt þar til náttúran grípur fram í fyrir tölvuforritum hagfræðinganna.
    Umhverfismálin og hættuboðar, sem þeim tengjast, eru nú loks viðurkennd af stjórnmálamönnum víða um lönd. Þannig hittast nú varla forustumenn þjóða svo að þeir greini ekki frá því að umhverfismál hafi verið eitt helsta umræðuefni þeirra. Þessu ber vissulega að fagna því að orð eru til alls fyrst. Ætli menn hins vegar í raun að glíma við umhverfisvandann og tryggja lífvænlega þróun þarf að taka á öllum viðkomandi þáttum. Þar skiptir efnahagsstarfsemin hvað mestu máli, en til að fella hana að hinum nýju viðhorfum verður að leiðrétta mælistikurnar.
    Nokkrar þjóðir hafa þegar sýnt viðleitni til að meta umhverfisþætti inn í þjóðhagsreikninga. Þar hafa Norðmenn riðið á vaðið og fleiri þjóðir eru að huga að því sama. Norðmenn byrjuðu að velta fyrir sér auðlindamati (ressursregnskap) fyrir um 15 árum og nú gefur norska hagstofan (Statistisk sentralbyra) árlega út yfirlit um ástand náttúrulegra auðlinda og mengun í Noregi. Þær stærðir, sem til þessa hafa verið teknar inn í auðlindareikningana, varða orku, fiskstofna, skóga og loftmengun. Norska umhverfisráðuneytið er nú að meta önnur svið þar sem miklu varðar að tengja saman efnahagslíkön og vistfræðilegar upplýsingar. Hér á landi er helst að finna vísi að slíkum útreikningum við mat á fiskstofnum.
    Þá vinna Norðmenn einnig að nýju þjóðarauðsmati sem á að endurspegla mögulega hagnýtingu í framtíðinni í víðu samhengi. Reynt er að svara því hvers konar vöxtur sé æskilegur og lögð áhersla á að efnahagsstarfsemin hafi ekki í för með sér óhóflegt álag á umhverfið.
    Til að hægt sé að taka umhverfisþætti inn í þjóðhagsstærðir þurfa hagfræðingar m.a. að meta neikvæð áhrif mengunar og afleiðingar ofnýtingar og mengunaróhappa. Þetta getur verið ýmsum erfiðleikum háð, en þeim mun brýnna er að byrja að þróa aðferðir sem skilað geta árangri. Varðandi ýmsa þætti kann að vera erfitt að koma við beinum talnagildum, t.d. þegar meta á hvers virði hreint vatn og ómengað loft er. Mörgum spurningum verður sjálfsagt seint svarað svo að óyggjandi sé. Hvernig á t.d. að meta þætti sem í raun eru óbætanlegir og ekkert getur komið í staðinn fyrir? Hvaða verð á að setja á ósonlagið eða regnskóga Amason-svæðisins? Þetta kann að virðast snúið en þó verður að gefa því ákveðin gildi.
    Í hefðbundnum aðferðum við útreikninga á hagvexti og öðrum þjóðhagsstærðum gætir blindu gagnvart umhverfinu. Ekkert tillit er tekið til þess hvort gengið er á höfuðstól náttúrulegra auðlinda og mengandi starfsemi og sóun takmarkaðra gæða birtist okkur í auknum hagvexti. Fyrir þjóðir, sem byggja mikið á frumframleiðslu og náttúrulegum auðlindum, eru slíkir mælikvarðar sérstaklega illa til þess fallnir að gefa raunsanna mynd af afleiðingum efnahagsstarfseminnar að ekki sé talað um framtíðarhag.
    Tillagan gerir ráð fyrir að stjórnvöld láti endurskoða grundvöll fyrir útreikningi þjóðhagsstærða með hliðsjón af ofangreindum viðhorfum. Í tengslum við það er ástæða til að leggja grunn að nýju þjóðarauðsmati og gagnaöflun um
ástand og nýtingu auðlinda á hverjum tíma. Þar er um að ræða verðugt verkefni fyrir nýtt umhverfisráðuneyti í samvinnu við rannsókna- og hagfræðistofnanir. Miklu skiptir að hagfræðingar og aðrir sérfræðingar leggi sig fram um að laga störf sín og fræði að breyttum viðhorfum og að góð samvinna takist milli þeirra mörgu sem leggja þurfa grunn að því að tryggja lífvænlega þróun.