Ferill 153. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 153 . mál.


Sþ.

160. Tillaga til þingsályktunar



um könnun á fjölþættum möguleikum Bláa lónsins við Svartsengi.

Flm.: Níels Árni Lund.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera könnun á möguleikum á uppbyggingu við Bláa lónið við Svartsengi með það að markmiði að nýta þá möguleika sem staðurinn hefur upp á að bjóða. Einkum skal beint sjónum að hvernig megi nýta lækningamátt lónsins fyrir Íslendinga og útlendinga, svo og að fyrirhuguð starfsemi tengist ferðamannaþjónustu almennt.
    Við þetta starf verði haft náið samstarf við Hitaveitu Suðurnesja, Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, Ferðamálasamtök Suðurnesja, landlæknisembættið, Samtök psoriasis- og exemsjúklinga og aðra þá sem málinu kunna að tengjast.

Greinargerð.


    Bláa lónið svokallaða varð til er gufuaflsstöð Hitaveitu Suðurnesja við Svartsengi hóf starfsemi sína þar. Nafn sitt dregur það af hinum sérkennilega bláa lit sem kísilleirinn í botni þess gefur.
    Vatnið í Bláa lóninu er í raun jarðsjór úr 200–2000 m djúpum borholum. Hann kemur upp á yfirborðið sem 240 gráðu heit gufa sem notuð er til að hita ferskvatn fyrir Hitaveitu Suðurnesja. Þegar því lýkur þéttist gufan og frá orkuverinu kemur hún út sem 80–100 gráðu heitt affallsvatn og er leitt út í hraunið við stöðina.
    Við kólnunina fellur m.a. út kísilleir sem þéttir botn hraunsins og hefur við þetta myndast heitt uppistöðulón úr jarðsjó sem almennt er kallað Bláa lónið.
    Um 1980 bárust fréttir af því að einstaklingur með sjúkdóminn psoriasis teldi sig hafa fengið mikla bót á sjúkdómnum með því að njóta heitra baða í lóninu. Fljótlega fóru fleiri psoriasis-sjúklingar að reyna þetta og virtust böðin gefa góða raun. Þetta varð til þess að árið 1981 fluttu þingmenn Reykjaneskjördæmis svohljóðandi tillögu til þingsályktunar:
    „Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að láta nú þegar fara fram könnun á lækningamætti jarðsjávar við Svartsengi.
    Leiði könnunin til jákvæðrar niðurstöðu verði þegar unnið að því að koma upp aðstöðu fyrir þá sjúklinga sem að læknisráði er talið rétt að noti jarðsjóinn til baða.
    Við könnun þessa verði haft samráð við samtök lækna, samtök psoriasis- og exemsjúklinga, svo og samtök annarra sjúklinga sem not gætu haft af slíkum böðum.“
    Tillagan var samþykkt og það sama ár fól þáverandi heilbrigðisráðherra, Svavar Gestsson, landlækni að annast rannsókn á lækningamætti jarðsjávarins við Svartsengi. Þær rannsóknir hófust ekki fyrr en sumarið 1983 m.a. vegna aðstöðuleysis við lónið. Það ár var sett upp rannsóknaráætlun og var áformað að rannsóknin færi fram um haustið. Hins vegar tókst ekki að fá nægan fjölda þátttakenda í rannsóknina og dróst hún til ársins 1985. Það ár stóð hún yfir frá því í júlí og þar til í nóvember og tók 21 einstaklingur þátt í henni.
    Niðurstöður þessarar rannsóknar liggja fyrir hjá landlæknisembættinu. Í stuttu máli sagt gefa þær vísbendingu um að böð í Bláa lóninu bæti líðan psoriasis-sjúklinga.
    Í framhaldi af þessari rannsókn stóð landlæknisembættið fyrir annarri rannsókn í samvinnu við húðlækningadeild Landspítalans á árunum 1986–1987. Í þeirri rannsókn var annars vegar borinn saman árangur af daglegum böðum í Bláa lóninu í þrjár vikur og hins vegar hefðbundin meðferð á psoriasis á göngudeild húðlækningadeildar Landspítalans.
    Sú niðurstaða, sem liggur fyrir, gefur ein og sér tilefni til enn frekari rannsókna og í framhaldi af því fjölþættri og meiri nýtingu Bláa lónsins en nú.
    Psoriasis er einn algengasti húðsjúkdómurinn og er talið að um 1,5% manna hafi sjúkdóminn. Þannig þjást tugir milljóna manna víðs vegar um heim af psoriasis-sjúkdómi og erfitt reynist að ráða bót á honum. Enginn vafi er á að margir þessara sjúklinga væru tilbúnir til að koma langan veg og greiða fyrir það háar fjárhæðir, ef þeir hefðu von um betri líðan .
    Þótt lítið sem ekkert hafi verið gert til að kynna Bláa lónið hafa frengir af því borist víða um heim og þegar hafa margar fyrirspurnir borist til ýmissa aðila, m.a. til landlæknisembættisins, um Bláa lónið og lækningamátt þess.
    Ljóst er hins vegar að engin aðstaða er til að taka á móti þessum gestum frekar en öðrum í þeim mæli og með þeim hætti sem nauðsynlegt er ef auglýsa á staðinn og markaðssetja hann sem slíkan á erlendum vettvangi.
    Nú þegar koma árlega á staðinn milli 50–60 þúsundir manna. Aðstaða fyrir þessa gesti er lítil og hana verður að bæta til muna annaðhvort í tengslum við þá sem fyrir eru eða byggja aðra nýja. Full ástæða er til að kanna fyrir alvöru hvort ekki sé hagkvæmt að reisa fullkomið heilsuhótel á staðnum í svipaðri mynd og víða þekkist erlendis þar sem gestir njóta hvíldar og endurhæfingar undir eftirliti sérfræðinga.
    Nú kann einhverjum að þykja það óþarft að ríkið standi fyrir slíkri athugun og eðlilegra sé að það verði gert af einstaklingum eða félögum. Því er til að svara að heilsugæsla á Íslandi er opinber og staður sem þessi yrði að vera viðurkenndur af heilbrigðisyfirvöldum. Þess vegna er réttast að þau séu með í ráðum frá upphafi. Þá er einnig sú hætta fyrir hendi að erfitt reyndist fyrir einstaklinga að fá heilbrigðisyfirvöld til að leggja fjármuni til rannsókna ef þau tengdust henni ekki sjálf.
    Auk þess hníga öll rök í þá átt að staðurinn hefði almennt gildi til þess að laða ferðamenn að landinu og yki á fjölbreytni í ferðaþjónustunni.
    Þá skal á það bent sérstaklega að aukin umsvif við Bláa lónið hefðu mikla þýðingu fyrir atvinnulíf á Suðurnesjum. Atvinnutækifærum mundi fjölga til muna og atvinnulífið yrði fjölbreyttara en nú er. Til viðbótar þessu er rétt að geta þess að Keflavíkurflugvöllur er í næsta nágrenni við svæðið. Um hann fara tugir þúsunda erlendra ferðamanna árlega. Flestir þeirra eru að koma til landsins til lengri eða skemmri dvalar en margir hafa þar aðeins skamma viðdvöl á leið sinni yfir hafið.
    Fjöldi erlendra ferðamanna vex ár frá ári og æ fleiri Íslendingar hafa tekjur af þjónustu við þá. Hvað eftir annað hefur það komið fram að hér eru þeir að leita að ósnortinni og sérstæðri náttúru, ómenguðu umhverfi og hreinu og tæru lofti.
    Í augum margra Íslendinga hafa Suðurnesin ekki upp á mikið að bjóða sem útlendingar hafa áhuga á og í flestum tilvikum kynnast þeir svæðinu ekki á annan máta en þann að lenda á Keflavíkurflugvelli og aka eftir Reykjanesbraut til Reykjavíkur og síðan sömu leið til baka að dvöl á Íslandi lokinni.
    Þetta er þó hinn mesti misskilningur og þeir sem hafa reynt að fara með útlendinga umhverfis Reykjanesskaga og m.a. kynnt þeim Krísuvík, Krísuvíkurbjarg, Ögmundarhraun, umhverfi Reykjanesvita, Garðskaga, Keili og þéttbýlisstaðina á svæðinu, en síðast en ekki síst Bláa lónið við Svartsengi, hafa komist að því að allir þessir staðir vekja verðskuldaða athygli erlendra gesta, enda gjörólíkir öðru sem þeir þekkja eða hafa áður séð.
    Vart mun á annað hallað þótt því sé haldið fram að Bláa lónið og umhverfi þess veki hvað mesta athygli, enda afar sérstætt náttúrufyrirbrigði. Úfið hraun, mikil og sérkennileg upplýst mannvirki, gufustrókar sem þeytast hátt í loft með miklum hvin og hið sérkennilega bláa lón með heitum jarðsjó er nokkuð sem útlendingar hafa ekki áður séð. Ekki spillir þegar getið er um lækningamátt lónsins.
    Það er hugmynd flutningsmanns að á svæðinu rísi fjölbreytt þjónusta bæði hvað varðar dvalargesti sem væru þar nokkurn tíma, svo og einnig fyrir hinn almenna ferðamann sem vildi þar eiga eftirminnilega dagstund. Það gæti t.d. átt við útlendinga sem hefðu skamma viðdvöl á landinu en vildu kynnast sérstæðri náttúru þess.
    Út frá staðnum væri hægt að ákvarða skemmtilegar gönguleiðir og lítill vafi væri á að hestaleiga yrði vinsæl ef hún yrði rekin á staðnum og þannig mætti lengi telja.
    Þá er líklegt að flugfélög mundu notfæra sér staðinn og skipulegðu ferðir til og frá honum í tengslum við ferðir sínar til Íslands.
    Nauðsynlegt er að sú athugun, sem hér er lagt til að verði framkvæmd, sé gerð í fullu samráði og í samvinnu við Hitaveitu Suðurnesja, Samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum, Ferðamálasamtök Suðurnesja, landlæknisembættið, Ferðamálaráð, Samtök psoriasis- og exemsjúklinga og aðra þá sem málinu tengjast.