Ferill 208. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 208 . mál.


Ed.

241. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989.)



1. gr.

    Eftirtaldar breytingar verði á 2. gr.:
a.    1. málsl. 1. mgr. orðist svo:
    Skattskyldan nær til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra.
b.    1. málsl. 3. mgr. orðist svo:
    Eftirtalin vinna og þjónusta er undanþegin virðisaukaskatti:
c.    3. tölul. 3. mgr. orðist svo:
    Rekstur skóla og menntastofnana, svo og ökukennsla.
d.    4. tölul. 3. mgr. orðist svo:
    Starfsemi safna, svo sem bókasafna, listasafna og náttúrugripasafna, og hliðstæð menningarstarfsemi. Sama gildir um aðgangseyri að tónleikum, leiksýningum og leikhúsum, enda tengist samkomur þessar ekki á neinn hátt öðru samkomuhaldi eða veitingastarfsemi.
e.    5. tölul. 3. mgr. orðist svo:
    Íþróttastarfsemi, svo og aðgangseyrir að sundstöðum, skíðalyftum, íþróttamótum, íþróttasýningum og heilsuræktarstofum.
f.    15. tölul. 3. mgr. falli niður.
g.    6. mgr. orðist svo:
    Fjármálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari skilyrði fyrir undanþágum samkvæmt þessari grein.

2. gr.


    Eftirtaldar breytingar verði á 4. gr.:
a.    2. tölul. orðist svo:
    Listamenn, að því er varðar sölu þeirra á eigin listaverkum, enda falli listaverkin undir tollskrárnúmer 9701.1000–9703.0000, svo og uppboðshaldarar, að því er varðar sölu þessara verka á listmunauppboðum, sbr. lög nr. 36/1987.
b.    Við greinina bætist nýr töluliður er verði 4. tölul., svohljóðandi:
    Skólamötuneyti.

3. gr.


    Við 5. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Nú hefur aðili, sem að mati skattstjóra bar að tilkynna atvinnurekstur sinn eða starfsemi skv. 1. mgr., eigi sinnt umræddri tilkynningarskyldu og skal þá skattstjóri úrskurða hann sem skattskyldan aðila samkvæmt ákvæðum 3. gr. og tilkynna aðilanum þar um.

4. gr.

    Við 8. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ríkisskattstjóri skal gefa út reglur um mat til verðs samkvæmt þessari grein.

5. gr.

    Í stað „81,97%“ í 1. mgr. 10. gr. komi: 80,32%.

6. gr.

    Eftirtaldar breytingar verði á 12. gr.:
a.     9. tölul. 1. mgr. orðist svo:
    Sala tímarita, dagblaða og sambærilegra landsmála- og héraðsfréttablaða, svo og afnotagjöld útvarpsstöðva.
b.    Við 1. mgr. bætist nýr töluliður er verði 10. tölul., svohljóðandi:
    Sala bóka á íslenskri tungu jafnt frumsaminna sem þýddra.
c.    Við 1. mgr. bætist nýr töluliður er verði 11. tölul., svohljóðandi:
    Sala á heitu vatni, rafmagni og olíu til hitunar íbúðarhúsnæðis.
d.    3. málsl. 2. mgr. falli niður.

7. gr.


    Eftirfarandi breytingar verði á 13. gr.:
a.    Í stað „81,97%“ í 3. og 5. mgr. komi: 80,32%.
b.    2. málsl. 3. mgr. falli niður.

8. gr.


    14. gr. orðist svo:
    Virðisaukaskattur skal vera 24,5% og rennur hann í ríkissjóð.

9. gr.

    Í stað „18,03%“ í 1. mgr. 20. gr. komi: 19,68%.

10. gr.

    Síðari málsliður 3. mgr. 26. gr. orðist svo:
    Kröfu um vangoldin opinber gjöld og skatta til ríkissjóðs ásamt verðbótum, álagi og dráttarvöxtum skal skuldajafna á móti endurgreiðslu.

11. gr.

    Í stað „1%“ í 2. mgr. 27. gr. komi: 2%. Í stað „10%“ í sama ákvæði komi: 20%.

12. gr.

    29. gr. orðist svo:
    Þeir sem ekki vilja sætta sig við ákvörðun skattstjóra á virðisaukaskatti geta kært skattinn til hans innan þrjátíu daga frá því er skatturinn var ákveðinn. Innsend fullnægjandi virðisaukaskattsskýrsla skal tekin sem kæra þegar um er að ræða áætlanir skv. 25. gr. Kærum vegna áætlana skv. 27. gr. skal fylgja skriflegur rökstuðningur. Skattstjóri skal kveða upp rökstuddan úrskurð um kæruna og tilkynna hann í ábyrgðarbréfi innan þrjátíu daga frá lokum kærufrests.
    Úrskurði skattstjóra má skjóta til ríkisskattanefndar sem kveður upp fullnaðarúrskurð. Kærufrestur til ríkisskattanefndar skal vera þrjátíu dagar frá póstlagningu úrskurðar skattstjóra.
    Ríkisskattstjóri hefur heimild til að skjóta úrskurðum skattstjóra til ríkisskattanefndar án tillits til kærufrests.
    Ríkisskattanefnd skal hafa lagt efnisúrskurð á allar kærur þremur mánuðum eftir að þær bárust nefndinni. Úrskurðir ríkisskattanefndar skulu vera ítarlega rökstuddir og í forsendum þeirra skal koma skýrt fram á hvaða kæruatriðum og skattheimildum skattstofn og álagning er byggð.
    Ákvæði 100. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, skulu að öðru leyti gilda um kærur til ríkisskattanefndar eftir því sem við getur átt.
    Ágreining um skattskyldu og skatthæð má bera undir dómstóla, enda hafi áður verið um hann úrskurðað af ríkisskattanefnd. Það skal þó gert innan sex mánaða frá því að ríkisskattanefnd úrskurðar í málinu.
    Áfrýjun eða deila um skattskyldu frestar ekki gjalddaga skattsins né leysir undan neinum þeim viðurlögum sem lögð eru við vangreiðslu hans, en verði skattur lækkaður eftir úrskurði eða dómi skal endurgreiða það sem lækkuninni nemur.

13. gr.

    Á eftir 41. gr. komi nýr kafli, XIII. kafli, Um endurgreiðslu virðisaukaskatts, með tveimur nýjum greinum sem verða 42. og 43. gr. og breytist greinatala laganna og kaflanúmer til samræmis, svohljóðandi:


XIII. KAFLI

Um endurgreiðslu virðisaukaskatts.

    a. (42. gr.)
    Endurgreiða skal hluta virðisaukaskatts af neyslumjólk, dilkakjöti, neyslufiski og fersku innlendu grænmeti þannig að skattgreiðslur samtals af þessari matvöru, að teknu tilliti til endurgreiðslunnar, verði sem næst 14% í stað 24,5%. Fjármálaráðherra ákveður með reglugerð nánar hvaða matvara fellur undir þessa málsgrein, svo og um framkvæmd endurgreiðslunnar.
    Heimilt er að endurgreiða byggjendum íbúðarhúsnæðis virðisaukaskatt sem þeir hafa greitt vegna vinnu manna á byggingarstað. Jafnframt er heimilt að endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis virðisaukaskatt sem þeir hafa greitt vegna vinnu manna við endurbætur þess, enda sé heildarkostnaður við endurbæturnar á einu almanaksári a.m.k. 7% af fasteignamati húseignarinnar í ársbyrjun. Fjármálaráðherra getur með reglugerð sett nánari skilyrði fyrir endurgreiðslum þessum og ákveðið framkvæmd þeirra. Á sama hátt getur hann ákveðið að endurgreiða skuli ákveðið hundraðshlutfall virðisaukaskatts af verksmiðjuframleiddum íbúðarhúsum.
    Fjármálaráðherra getur ákveðið með reglugerð að endurgreiða sveitarfélögum virðisaukaskatt sem þau hafa greitt vegna kaupa á skattskyldri vöru eða þjónustu af atvinnufyrirtækjum.

    b. (43. gr.)
    Fjármálaráðherra getur kveðið svo á með reglugerð að endurgreiða megi virðisaukaskatt af vörum sem erlendir ferðamenn kaupa hérlendis og hafa með sér er þeir hverfa úr landi, enda séu uppfyllt þau skilyrði sem hann telur nauðsynleg.
    Fjármálaráðherra getur ákveðið með reglugerð að hvaða marki skuli endurgreiða sendimönnum erlendra ríkja virðisaukaskatt af kaupum á vörum og þjónustu hér á landi.
    Fjármálaráðherra er heimilt að setja með reglugerð reglur um endurgreiðslu virðisaukaskatts sem erlend fyrirtæki hafa greitt hérlendis vegna kaupa, aðvinnslu, geymslu eða flutnings á vörum sem flytja á úr landi.

14. gr.

    Orðin „á vörum sem ætlaðar eru til endursölu“ í 46. gr., er verður 48. gr., falli niður.

15. gr.

    Í stað 1. og 2. mgr. 47. gr. laganna, er verður 49. gr., komi tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Fjármálaráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.
    Fjármálaráðherra er heimilt að ákveða með reglugerð að virðisaukaskattur af aðgangseyri að dansleikjum og öðrum skemmtanaskattsskyldum samkomum skuli innheimtur meðan á samkomunni stendur eða með skemmtanaskatti. Hann getur enn fremur ákveðið með reglugerð að sveitarfélög greiði virðisaukaskatt við framvísun virðisaukaskattsskýrslu einu sinni á ári, enda sé árleg virðisaukaskattsskyld velta þeirra af framleiðslu vöru og veittri þjónustu til eigin nota minni en 400.000 kr.

16. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða I orðist svo:
    Fari afhending skattskyldrar vöru og þjónustu fram 1. janúar 1990 eða síðar skal hún teljast til virðisaukaskattsskyldrar veltu samkvæmt lögum þessum. Þetta gildir án tillits til þess hvort samningur um sölu skattskyldrar vöru og þjónustu hefur verið gerður fyrir 1. janúar 1990 eða greiðsla farið fram að hluta eða fullu.
    Hafi samningur, sbr. 1. mgr. þessa ákvæðis, verið gerður skal kaupandi greiða viðbót við samningsgreiðsluna sem svarar virðisaukaskatti samkvæmt lögum þessum sé um að ræða sölu á vöru og þjónustu sem ekki var skattskyld samkvæmt söluskattslögum, nema sannað sé að virðisaukaskattur hafi verið talinn með í kaupverðinu við ákvörðun þess. Hafi slík vara eða þjónusta verið skattskyld samkvæmt söluskattslögum skal seljandi endurgreiða kaupanda mismun á söluskatti og virðisaukaskatti, nema sannað sé að kaupverð samkvæmt samningnum hafi verið miðað við virðisaukaskatt samkvæmt lögum þessum.
    Um greiðslu virðisaukaskatts af innflutningi skattskyldrar vöru og þjónustu fer eftir þeim reglum sem gilda þegar tollmeðferð fer fram.
    Heimilt er að endurgreiða virðisaukaskattsskyldum aðilum, sem hafa húsbyggingar eða aðra mannvirkjagerð með höndum í atvinnuskyni, söluskatt sem hvílir á birgðum þeirra af óseldu byggingarefni 31. desember 1989. Fjármálaráðherra setur nánari reglur um þessar endurgreiðslur, þar á meðal hvaða gögn þurfi að liggja til grundvallar endurgreiðslubeiðni.
    Ákvæði 1. og 2. tölul. 5. mgr. 13. gr. laga þessara skulu gilda eftir því sem við á um frádrátt frá skattskyldri veltu vegna viðskipta sem skattskyld voru samkvæmt söluskattslögum og ekki var unnt að leiðrétta með síðustu söluskattsskilum ársins 1989.
    Hafi verið gerður fjármögnunarsamningur fyrir 1. janúar 1990 þar sem kveðið er á um eignarrétt leigusala án kaupskyldu leigutaka í lok leigutíma skulu leigugreiðslur samkvæmt slíkum samningum vera undanþegnar virðisaukaskatti.
    Fjármálaráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd þessa ákvæðis.

17. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1990. Ákvæði b-liðar 6. gr. öðlast þó gildi 16. nóvember 1990.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Um næstu áramót koma til framkvæmda lög nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum. Umrædd lög áttu að koma til framkvæmda 1. júlí sl. en skattheimtu samkvæmt lögunum var frestað til næstu áramóta með lögum nr. 110/1988, um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
    Í nefndarálitum fjárhags- og viðskiptanefnda beggja deilda Alþingis varðandi frumvarp til laga um virðisaukaskatt kom fram að nauðsynlegt væri, þar sem löggjöf um virðisaukaskatt væri viðamikil og flókin, að vanda vel til allrar framkvæmdar þegar í upphafi. Augljóst væri að við undirbúning framkvæmdarinnar kæmi fram ýmislegt sem gerði það nauðsynlegt að breyta lögunum í einstökum atriðum og hafi af þeim sökum verið ákveðið að sérstök nefnd fulltrúa stjórnarflokkanna og embættismanna fylgdist með öllum undirbúningi og tæki til umfjöllunar þau áhorfsmál sem upp kynnu að koma. Síðan lögin voru samþykkt hafa starfað tvær nefndir skipaðar fulltrúum þingflokkanna. Fyrri nefndin starfaði undir forustu Kjartans Jóhannssonar og hætti störfum í september 1988. Síðari nefndin hefur starfað undir forustu fjármálaráðherra.
    Hér á eftir verður gerð grein fyrir verðlagsáhrifum þessa frumvarps og hvaða áhrif það muni hafa á tekjur ríkissjóðs. Að lokum fylgja athugasemdir við einstakar greinar.

Tekjur af virðisaukaskatti.
    Í fjárlagafrumvarpinu var áætlað að innheimtar tekjur af virðisaukaskatti yrðu 40,5 milljarðar króna á næsta ári. Þar var gengið út frá því að skatthlutfallið yrði 26%. Nú hefur verið ákveðið að miða við 24,5% skatthlutfall, þ.e. 1,5% lægra en í forsendum fjárlagafrumvarps. Með þeim breytingum, sem í frumvarpi þessu felast, er áætlað að innheimtar tekjur af sölu- og virðisaukaskatti verði 38,6 milljarðar króna á næsta ári, eða 1.900 m.kr. lægri en áður var reiknað með.
    Áhrif þeirra breytinga, sem felast í þessu frumvarpi, á tekjur ríkissjóðs eru þrenns konar:
     Í fyrsta lagi eru teknar upp sérstakar endurgreiðslur á virðisaukaskatti af matvælum. Áætlaður kostnaður nemur tæplega 1.000 m.kr. miðað við heilt ár. Á næsta ári er hins vegar áætlað að um 900 m.kr. geti komið til greiðslu.
     Í öðru lagi er undanþágum frá skatti fjölgað. Þar vega innlendar bækur þyngst. Samanlagt kostar fjölgun undanþága ríkissjóð um hálfan milljarð króna á heilu ári. Áhrifin á næsta ári eru mun minni þar sem gildistaka undanþágna vegna bókanna er það seint á árinu að það hefur ekki teljandi áhrif á skatttekjur ársins 1990.
     Í þriðja lagi er skatthlutfallið hækkað úr 22% samkvæmt gildandi lögum í 24,5%. Þetta er minni hækkun en gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu, en þar var miðað við 26% skatthlutfall. Með þessu lækkar meðalskatthlutfall í virðisaukaskatti samanborið við söluskatt úr 24,3% í 23,8% þegar tillit hefur verið tekið til endurgreiðslna vegna matvæla.

    Að teknu tilliti til þeirra breytinga, sem felast í fyrirliggjandi frumvarpi, er skattstofn virðisaukaskattsins orðinn rúmlega 5 milljörðum króna minni en söluskattsstofninn. Sama skatthlutfall og í söluskatti mundi því skila minni tekjum en söluskatturinn gerir í dag. Til viðbótar kemur síðan fyrrnefnd lækkun á meðalskatthlutfalli úr 24,3% í söluskatti í 23,8% fyrir virðisaukaskatt.
    Að öllu samanlögðu er því niðurstaðan sú að virðisaukaskatturinn muni skila 2 milljörðum króna minni tekjum í ríkissjóð en söluskatturinn gerir í dag, eða um 37,8 milljörðum króna miðað við heilt ár.



Skattstofn söluskatts og virðisaukaskatts skv. frumvarpi



REPRÓ AF TÖFLU




    Það er rétt að hafa nokkurn fyrirvara á öllum áætlunum um áhrif virðisaukaskatts þar sem hér er á ferðinni ein umfangsmesta skattkerfisbreyting sem hér hefur orðið. Það skapar óhjákvæmilega talsverða óvissu á öllum sviðum áætlanagerðar. Þetta á bæði við um heildaráhrifin á tekjur ríkissjóðs og ekki síður innheimtuþróunina innan ársins, en inn í hana blandast mismunandi uppgjörstímabil, áhrif endurgreiðslna o.fl.

Áhrif virðisaukaskatts á verðlag.
    Upptaka virðisaukaskatts hér á landi um næstu áramót hefur margvísleg áhrif á almennt verðlag í landinu. Samkvæmt áætlunum fjármálaráðuneytisins mun gildistaka virðisaukaskattsins ein og sér leiða til 1 / 2 –1% lækkunar á vísitölu framfærslukostnaðar. Þessi lækkun ætti að mestu leyti að skila sér í janúarmánuði á næsta ári, en eitthvað gæti flust yfir á febrúarmánuð. Samkvæmt fyrirliggjandi verðlagsspám mundi framfærsluvísitalan þá hækka um 1–1 1 / 2 % í janúar í stað 2%.
    Verðlækkunin stafar bæði af beinni verðlækkun ýmissa matvæla, svo sem nýmjólkur og dilkakjöts um allt að 8 1 / 2 %, en einnig vegur 20% lækkun bílatrygginga þungt. Þá á lægra skatthlutfall en í söluskatti einnig að skila sér í verðlækkun. Matvælaliðurinn í heild er talinn geta orðið 2% lægri en ella. Nánar tiltekið eru áhrifin eftirfarandi:
     Í fyrsta lagi til lækkunar eru áhrif lægra skatthlutfalls í virðisaukaskatti en söluskatti. Á móti vega áhrif þess að í einstaka tilvikum hækkar skatthlutfallið úr 12% og jafnvel 0 upp í 24,5%.
     Í öðru lagi til lækkunar eru áhrif þess að vörur eða þjónusta, sem í dag bera fullan söluskatt, verða undanþegnar virðisaukaskatti, sbr. tryggingariðgjöld.
     Í þriðja lagi til lækkunar eru áhrif sérstakra endurgreiðslna á virðisaukaskatti af ýmsum nauðsynjavörum samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar, svo sem nýmjólk, dilkakjöti, fersku innlendu grænmeti og fiski.
     Í fjórða lagi til lækkunar eru óbein áhrif þess að uppsöfnun skattsins í framleiðslukostnaði — og þar með í vöruverði — verður úr sögunni.
    Þegar fram í sækir má gera ráð fyrir að óbeinu áhrifin af auknu hagræði vegna upptöku virðisaukaskattsins fari að skila sér í lægra vöruverði. Þessi áhrif eru vandmetin, en lausleg ágiskun liggur á bilinu 1–1 1 / 2 % til lækkunar á vísitölunni í heild.
    Áhrifin á vísitölu byggingarkostnaðar eru óhagstæðari fyrst í stað þar sem breikkun á skattstofni mun að öllum líkindum valda um 1% hækkun. Í þessu sambandi er rétt að benda á að í þessum áætlunum hefur verið reiknað með sérstakri endurgreiðslu á álögðum virðisaukaskatti á vinnu manna við íbúðarbyggingar. Með þessari endurgreiðslu verður áhrifum skattsins á vinnuþáttinn að fullu mætt sem annars hefðu leitt til 9% hækkunar á byggingarvísitölu.
    Líkt og í framfærsluvísitölu má gera ráð fyrir talsverðum óbeinum áhrifum til lækkunar sem rekja má til þess að uppsöfnunaráhrif söluskattsins hverfa. Lauslega áætlað gætu þessi áhrif verið 1–1 1 / 2 %, eða svipað og í framfærsluvísitölu.
    Að öllu samanlögðu má því meta áhrif virðisaukaskattsins á verðlag þannig að hann stuðli að þó nokkurri lækkun á vísitölu framfærslukostnaðar þegar allt er talið en lítils háttar hækkun á byggingarvísitölu. Samkvæmt þessu yrðu áhrifin á lánskjaravísitölu óveruleg í fyrstu, en síðan til lækkunar þegar til lengri tíma er litið.
    Á hinn bóginn er rétt að vekja athygli á því að verðlagsáhrifin koma væntanlega til með að ráðast af rekstrar- og samkeppnisstöðu einstakra atvinnugreina. Í sumum tilvikum gætu þau skilað sér að fullu út í verðlagið hvort sem er til lækkunar eða hækkunar. Í öðrum tilvikum koma þau fram í bættri rekstrarstöðu fyrirtækjanna. Jafnframt er ljóst að við þær verðlagsaðstæður, sem hér ríkja, er ekki hægt að reikna með beinum lækkunum á verðvísitölum heldur munu verðlækkunaráhrifin koma fram í minni hækkun verðlags en ella hefði orðið.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga er talin upp sú starfsemi sem undanþegin er virðisaukaskatti, þ.e. haldið utan skattskyldusviðs. Sá sem hefur með höndum undanþegna starfsemi innheimtir ekki skatt af þjónustu sinni. Á móti fær hann ekki frádreginn þann virðisaukaskatt sem hann greiðir við kaup á aðföngum til starfseminnar.
    Hér er lagt til að þessar undanþágur verði rýmkaðar. Eftirtalin starfsemi, sem er skattskyld samkvæmt gildandi lögum, verður undanþegin nái frumvarpið fram að ganga:
—     Ökukennsla.
—     Aðgangseyrir að tónleikum, leiksýningum og leikhúsum, enda tengist samkomur þessar ekki á neinn hátt öðru samkomuhaldi eða veitingastarfsemi.
—     Íþróttastarfsemi og aðgangseyrir að heilsuræktarstofum. Samkvæmt gildandi lögum er aðgangseyrir að sundstöðum, skíðalyftum, íþróttamótum og íþróttasýningum þegar undanþeginn. Rýmkun undanþágunnar hefur m.a. þá þýðingu að ýmiss konar æfingagjöld, sem íþróttafélög innheimta nú af félagsmönnum, verða ekki skattskyld.
    Í 15. tölul. 3. mgr. gildandi laga er sala tímarita undanþegin virðisaukaskatti. Sala dagblaða og landsmálablaða er hins vegar m.a. undanþegin skattskyldri veltu í 12. gr. laganna. Auk þeirrar mismununar, sem þetta veldur, er tæknilega erfitt að undanþiggja vörusölu virðisaukaskatti á þennan hátt. Því er lagt til að undanþága þessi verði felld úr 2. gr. en tekin upp í 12. gr. Sjá nánar athugasemdir við 6. gr. frumvarpsins.
    Í 6. mgr. 3. gr. laganna segir nú að fjármálaráðherra sé heimilt að setja í reglugerð nánari skilyrði fyrir undanþágum skv. 2. gr. og ákveða nánar hvað undir þær falli. Í g-lið þessarar greinar er lagt til að þessi heimild verði þrengd þannig að ráðherra sé aðeins heimilt að setja almenn skilyrði fyrir undanþágum samkvæmt greininni, en ekki ákveða hvort einstök starfsemi falli undir undanþáguákvæði. Litið er svo á að slík túlkun og skýring skattalaga sé í höndum skattstjóra, ríkisskattanefndar og dómstóla.

Um 2. gr.


    Með þeirri breytingu, sem lögð er til í a-lið, eru tekin af öll tvímæli um það að sala listaverka á listmunauppboðum beri ekki virðisaukaskatt. Þessi sala er nú undanþegin söluskatti samkvæmt lögum nr. 36/1987, um listmunauppboð, en sú undanþága tekur að sjálfsögðu ekki sjálfkrafa til virðisaukaskatts. Eðlilegast þykir að undanþágu af þessu tagi sé að finna í virðisaukaskattslögunum sjálfum.
    Þá er lagt til í b-lið að skólamötuneyti verði undanþegin skattskyldu. Er það í samræmi við ákvæði í gildandi söluskattslögum.

Um 3. gr.


    Samkvæmt 5. gr. laga um virðisaukaskatt ber skattskyldum aðilum að tilkynna um starfsemi sína til skattstjóra. Hér er lagt til að í lögin verði tekið ákvæði um hvernig skuli með fara ef aðili sinnir ekki tilkynningarskyldu sinni. Ákvæðið er sambærilegt 2. mgr. 19. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Um 4. gr.


    Samkvæmt 8. gr. laganna skal reikna virðisaukaskatt miðað við almennt gangverð, t.d. þegar eigandi tekur vöru út úr fyrirtæki sínu til eigin nota eða til nota við undanþegna starfsemi fyrirtækisins. Vera kann að slíkt almennt gangverð liggi ekki fyrir og er því lagt til að ríkisskattstjóri skuli gefa út reglur um viðmiðunarverð í þessu sambandi. Er hér um að ræða sambærilega heimild til handa ríkisskattstjóra og nú er að finna í 116. gr. tekjuskattslaga.

Um 5. gr.


    Hér er um að ræða breytingu sem leiðir af hækkun skatthlutfalls virðisaukaskatts úr 22% í 24,5%.

Um 6. gr.


    Í 1. mgr. 12. gr. virðisaukaskattslaga er að finna undanþágur frá þeirri almennu reglu laganna að öll afhending vöru og verðmæta, vinnu og þjónustu teljist til skattskyldrar veltu aðila. Undanþága samkvæmt þessari grein hefur það í för með sér að útskattur leggst ekki á endurgjald fyrir tiltekna vöru, vinnu eða þjónustu. Hins vegar fæst innskattur (virðisaukaskattur af aðföngum) eftir sem áður dreginn frá eða endurgreiddur eftir almennum reglum laganna.
    Eftirtaldar breytingar eru lagðar til hvað þetta ákvæði varðar:
—     Í a-lið er lagt til að sala tímarita verði undanþegin skattskyldri veltu á sama hátt og sala dagblaða, landsmála- og héraðsfréttablaða og afnotagjöld útvarpsstöðva.
—     Þá er í b-lið lagt til að sala bóka á íslenskri tungu, jafnt frumsaminna sem þýddra, verði undanþegin skattskyldri veltu. Gert er ráð fyrir að þetta ákvæði laganna taki gildi 16. nóv. 1990, þ.e. þegar síðasta uppgjörstímabil þess árs hefst. Í þessu sambandi skal tekið fram að nauðsynlegt er að setja sérstakar reglur um bókhald og uppgjör þeirra aðila sem hafa með höndum sölu á skattskyldri vöru eða þjónustu samhliða bóksölu.
—     Í c-lið er lagt til að sala á heitu vatni, rafmagni og olíu til hitunar íbúðarhúsnæðis verði undanþegin skattskyldri veltu. Til greina kom að endurgreiða húseigendum virðisaukaskatt af þessari orku, en með hliðsjón af því að hér er um tiltölulega afmarkað svið að ræða og fáa seljendur, sem í hlut eiga, þykir undanþáguaðferðin eðlilegri í þessu tilviki.
    Í 2. málsl. 3. mgr. er nú að finna heimildarákvæði um að endurgreiða megi virðisaukaskatt til erlendra ferðamanna. Lagt er til að það ákvæði verði fært í nýjan kafla laganna (sjá athugasemdir við 13. gr.).

Um 7. gr.


    Í a-lið er um að ræða breytingu sem leiðir af hækkun skatthlutfallsins.
    Þegar greiðsla fer fram að fullu eða öllu áður en afhending á sér stað telst innborguð fjárhæð til skattskyldrar veltu. Þó er sú undantekning í gildandi lögum að heimilt er að halda utan skattskyldrar veltu innborgunum þegar umsaminn afhendingartími er innan þriggja mánaða frá fyrstu innborgun eða umsamdar innborganir nema samtals lægri fjárhæð en 100.000 kr. Í b-lið felst sú efnisbreyting að þessi frávik verði felld úr lögunum þannig að allar innborganir teljist til skattskyldrar veltu. Mun það einfalda verulega bókhald fyrirtækja ef ein og sama reglan gildir um allar innborganir að þessu leyti.

Um 8. gr.


    Hér er lagt til að skatthlutfallið verði 24,5% í stað 22% áður. Að öðru leyti vísast til þess sem rakið er í almennum athugasemdum hér að framan.

Um 9. gr.


    Hér er um að ræða breytingu sem leiðir af hækkun skatthlutfalls virðisaukaskatts úr 22% í 24,5%.

Um 10. gr.


    Með þessari breytingu er kveðið skýrt á um það að skuldajafna skuli öllum vangreiddum opinberum gjöldum sem renna í ríkissjóð á móti endurgreiðslu virðisaukaskatts. Skuldajöfnun næði þannig t.d. til vangreiddrar staðgreiðslu og launaskatts, en samkvæmt gildandi lögum nær hún aðeins til vangreidds virðisaukaskatts ásamt álagi og dráttarvöxtum.

Um 11. gr.


    Samkvæmt þessari grein er lagt til að álag vegna vangreiðslu á virðisaukaskatti geti hæst orðið 20% í stað 10% samkvæmt núgildandi lögum. Með þessari breytingu yrði álag vegna vangreiðslu á virðisaukaskatti hið sama og í söluskatti, þó þannig að í söluskatti reiknast álagið 4% á dag í fimm daga, en samkvæmt frumvarpi þessu mundi það reiknast 2% á dag í tíu daga. Þessi breyting er m.a. talin nauðsynleg vegna þess að ákvæði um forgang skulda á virðisaukaskatti við skipti á þrotabúum og skuldafrágöngubúum var fellt niður með lögum nr. 78/1989.

Um 12. gr.


    Með þessari breytingu er lagt til að reglum um kærur til skattstjóra og ríkisskattanefndar verði breytt til samræmis við þær reglur sem gilda um tekjuskatt og eignarskatt. Meðal annars er kærufrestur lengdur úr 15 dögum í 30 daga og kveðið á um það að úrskurðir ríkisskattanefndar skuli vera rökstuddir.
    Um önnur atriði en hér er sérstaklega kveðið á um fer eftir ákvæðum 100. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Á þetta m.a. við um kröfugerð ríkisskattstjóra, gagnaöflun málsaðila og önnur ákvæði um málsmeðferð.

Um 13. gr.


    Hér er lagt til að inn í lögin komi nýr kafli um endurgreiðslur vegna virðisaukaskatts. Er þar safnað saman á einn stað öllum endurgreiðsluákvæðum laganna.
    Lagt er til að endurgreiðsluákvæði, sem nú er að finna í 2. mgr. 12. gr. og 1. og 2. mgr. 47. gr. laganna, verði öll í nýrri 43. gr.
    Þá er lagt til að lögfest verði þrjú ný ákvæði um skyldu eða heimildir til endurgreiðslu virðisaukaskatts:

—     Í fyrsta lagi að endurgreiða skuli hluta þeirrar fjárhæðar sem að óbreyttu hefði innheimst í ríkissjóð sem virðisaukaskattur af tiltekinni innlendri matvöru. Endurgreiðslan kæmi til frádráttar söluverði matvörunnar; á heildsölustigi hvað mjólk og dilkakjöt varðar, en að mestu á smásölustigi þegar fiskur og innlent grænmeti á í hlut. Endurgreiðslan skal vera nægileg til að smásöluverð þessarar matvöru verði sambærilegt því að hún bæri 14% skatt á smásölustigi í stað 24,5%.
—     Í öðru lagi að heimilt verði að endurgreiða þann virðisaukaskatt sem byggjendur og eigendur íbúðarhúsnæðis greiða vegna vinnu manna á byggingarstað við byggingu íbúðarhúsnæðis eða endurbætur á því. Það telst endurbót í þessu sambandi þegar heildarkostnaður við framkvæmdir á einu almanaksári nemur að minnsta kosti 7% af fasteignamati húseignarinnar eins og það er í byrjun þess árs sem um ræðir. Er hér um að ræða sambærilega skilgreiningu á endurbótum og var í tekjuskattslögum áður en þeim var breytt með lögum nr. 49/1987. Gert er ráð fyrir því að endurgreiðslur þessar verði byggðar á reikningi. Endurgreitt verði ársfjórðungslega til þeirra sem byggja íbúðarhúsnæði hvort sem um er að ræða lögaðila eða einstaklinga. Ráðherra getur með reglugerð á grundvelli ákvæðisins ákveðið að endurgreiðslurnar taki til verksmiðjuframleidds íbúðarhúsnæðis, þannig að endurgreiddur verði virðisaukaskattur vegna þeirrar verksmiðjuvinnu er unnin hefði verið á byggingarstað við smíði húss á hefðbundinn hátt.
—     Í þriðja lagi er lagt til að heimilt verði að endurgreiða sveitarfélögum virðisaukaskatt sem þau greiða vegna kaupa á skattskyldri vöru eða þjónustu af atvinnufyrirtækjum. Lög um virðisaukaskatt gera ráð fyrir því að skattlagning samkvæmt þeim raski ekki samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem eiga viðskipti við sveitarfélög og aðra óskráða aðila er geta sjálfir veitt sér þjónustu. Því er annað tveggja nauðsynlegt: að skattleggja eigin not óskráðra aðila eða endurgreiða þeim þann skatt sem þeir greiða við kaup þjónustunnar af öðrum. Gert er ráð fyrir að báðar þessar leiðir verði farnar eftir atvikum. Lagaheimild til skattlagningar í þessum tilvikum er að finna í 2. mgr. 3. gr. gildandi laga, en lagt er til að heimild til endurgreiðslu verði tekin inn í nýja 42. gr.

Um 14. gr.


    Í breytingunni felst að fyrirtæki, sem selur tollfrjálsri verslun, t.d. fríhöfninni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, skal leggja virðisaukaskatt á söluna eftir almennum reglum. Sá skattur kemur sem innskattur hjá tollfrjálsu versluninni. Hún leggur hins vegar ekki útskatt á sölu sína og fær því endurgreiddan skatt vegna innkaupanna. Breyting þessi hefur ekki áhrif á skatttekjur ríkissjóðs. Hún einfaldar hins vegar bókhald þeirra fyrirtækja sem selja tollfrjálsum verslunum og auðveldar skatteftirlit með þeim.

Um 15. gr.


    Greininni er breytt á þann veg að heimildarákvæði um endurgreiðslur virðisaukaskatts til sendimanna erlendra ríkja og erlendra fyrirtækja eru flutt í nýjan kafla, sbr. athugasemdir við 13. gr. Þá er lagt til að felld verði niður heimild fjármálaráðherra til að „


    
undanþiggja tiltekna aðila skattskyldu ... enda teljist slíkt nauðsynlegt til að samræmis gæti varðandi skattskyldu samkvæmt lögum þessum“. Heimildir af þessu tagi eru umdeildar þar sem þær þykja fela í sér nokkuð vafasamt framsal löggjafans á skattlagningarvaldi.
    Tilgangur ákvæðisins í fyrri málslið 2. mgr. er að auðvelda skattheimtu af dansleikjum og öðrum skemmtanaskattsskyldum samkomum sem ekki eru haldnar í tengslum við fastan rekstur samkomuhúss. Sambærilegt ákvæði er í söluskattslögum. Ákvæðinu í síðari málslið málsgreinarinnar er ætlað að auðvelda minni sveitarfélögum uppgjör þess skatts sem þeim verður gert að greiða af framleiddri vöru og veittri þjónustu til eigin nota, sbr. 2. mgr. 3. gr. gildandi laga.

Um 16. gr.


    Þær breytingar, sem hér eru lagðar til á ákvæði til bráðabirgða I, eru af tvennum toga.
    Í fyrsta lagi er kveðið skýrar að orði um ýmis atriði en nú er gert. Á þetta m.a. við um þá breytingu sem lögð er til á 4. mgr. ákvæðisins.
    Í öðru lagi hefur komið í ljós að gera þarf sérstakar bráðabirgðaráðstafanir vegna breytingarinnar frá söluskatti í virðisaukaskatt á fleiri sviðum en gert var ráð fyrir við setningu laganna. Eru ákvæði um þessi atriði tekin upp í 5. og 6. mgr. ákvæðisins, sbr. 7. mgr.
    Breytingin í 5. mgr. felst í því að seljandi vöru eða þjónustu getur við uppgjör á virðisaukaskattsskyldri veltu dregið frá skattverð endursendra vara og töp á útistandandi viðskiptaskuldum vegna sölu með söluskatti fyrir 1. jan. 1990 og krafna sem stofnast hafa fyrir þann tíma. Skilyrði er að sjálfsögðu að um söluskattsskylda sölu hafi verið að ræða. Um skilyrði fyrir frádrætti, þar á meðal hvenær telja skuli kröfu tapaða, gilda almennar reglur laganna. Tekið skal fram að frádráttarhlutfallið yrði 80% í þessum tilvikum, þ.e. það hlutfall af greiðslu sem nemur söluandvirði hins selda án söluskatts ef reiknað er með því að söluskattur sé innifalinn í greiðslunni.
    Ástæða ákvæðisins í 6. mgr. er að komið getur til óeðlilegrar tvísköttunar í sumum tilvikum ef leigugreiðslur af fjármögnunarleigusamningum, sem gerðir hafa verið fyrir 1. janúar 1990, verða virðisaukaskattsskyldar. Frádráttarheimild virðisaukaskatts veldur því hins vegar að þetta vandamál mun ekki verða til staðar vegna samninga sem gerðir verða eftir að virðisaukaskattslögin koma til framkvæmda. Leigugreiðslur vegna samninga þessara eru undanþegnar söluskatti samkvæmt sérstökum reglum. Lagt er til að leigugreiðslur vegna samninga, sem í gildi verða í árslok 1989, verði undanþegnar virðisaukaskatti. Gert er ráð fyrir því að fjármálaráðherra setji nánari reglur um framkvæmd undanþágunnar, m.a. um að eignaleigufyrirtæki leggi fram sérstaka skrá hjá ríkisskattstjóra um þá samninga sem hér um ræðir.